06.05.1982
Sameinað þing: 89. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 4827 í B-deild Alþingistíðinda. (4621)

Umræður utan dagskrár

Kjartan Jóhannsson:

Herra forseti. Mér kom það dálítið spánskt fyrir sjónir að hæstv. iðnrh. skyldi hefja mál sitt á því að tala um að honum þætti furðulegt að þessar fyrirspurnir væru bornar hér fram af minni hálfu, einkum og sér í lagi þegar ég hlustaði á framhald ræðunnar hjá þessum sama hæstv. ráðh. þegar hann einmitt lét þess getið, að það væri nauðsynlegt að skýra fyrir Alþingi hvernig staða þessara mála væri. Ég hélt að það væri þá einstaklega kærkomið tækifæri fyrir hann að fá einmitt umr. eins og hér hafa farið fram og engin ástæða til að agnúast út í þær. Sannleikurinn er vitaskuld sá, að það er rétt að ráðh. leyfi Alþingi að fylgjast með þessum málum og það alveg óháð því hvað gerist í einhverjum nefndum úti í bæ. Það er sitt hvað.

En hæstv. ráðh. sagði meira. Hann sagði að nú þurfi alþm. að fara að hugsa um hvernig við skuli bregðast. Var þá ekki líka ástæða til þess að hafa einmitt þessa umr.? En öðruvísi mér áður brá. Það hefur ekki verið siður þessa hæstv. ráðh. að láta hv. alþm. fylgjast neitt sérstaklega með því, hvernig þessu máli miðaði.

En þessi ummæli ráðh. vekja vitaskuld aðra spurningu. Er það hugmynd ráðh. að beita sér fyrir því, að Alþingi haldi áfram störfum nú svo að það geti fylgst með framvindu þessara mála og um það fjallað, eða mun hann beita sér fyrir því, að það verði saman kallað fljótlega til þess að taka þessi mál til umfjöllunar? Það er náttúrlega auðveldasti hátturinn til þess að Alþingi geti fylgst með og fjallað um þessi mál að það sitji. Um þær fyrirspurnir og spurningar, sem ég bar fram, er það fyrst að segja, að þó að ég þakki þau svör, sem hafa fengist, voru þau heldur rýr að því er efnisatriði varðar. Hæstv. forsrh. svaraði því t. d. engu, hvaða ríkisstjórnarsamþykktir lægju að baki þeim tilboðum sem menn væru að hugsa um eða hvaða ríkisstjórnarsamþykktir lægju að baki þeim þreifingum sem í gangi væru af hálfu hæstv. iðnrh. Það kom reyndar fram í máli hæstv. samgrh. áðan, að þau samningsdrög, sem hæstv. iðnrh. hefði lagt fram á samningafundi með Alusuisse í dag, hefði hann séð í dag. Þetta verður ekki skilið öðruvísi en þannig að þessi samningadrög hafi ekki verið samþykkt í ríkisstj., hafi ekki verið samþykkt í ráðherranefnd, og reyndar er ekki ótvírætt af þessum orðum hvort ráðh. sá þessi drög fyrir eða eftir að þau voru lögð fram eða hvort hann hafði aths. við þau fram að færa.

Ég er hræddur um að útskýringar hæstv. iðnrh. á þeim drögum að samningum, sem hann hefur gert mjög að umtalsefni undanfarið í fjölmiðlum, við aðila í Japan og víðar í heiminum, hafi ekki skýrt fullkomlega fyrir hv. alþm. hvað hér sé um að ræða eða hvernig fyrirkomulagið sé né heldur með hvaða hætti þetta fyrirkomulag tryggi fullkomið forræði Íslendinga á þessum málum og þá einkum og sér í lagi með tilliti til þess, þegar það virðist liggja í orðum ráðherrans, að engu að síður verði að semja við þessa erlendu aðila um raforkuverð og reyndar um alla afkomu fyrirtækisins. Í þessu sambandi vil ég minna á að það hefur verið eitt af stefnumörkum íslenskra stjórnvalda og ég held allra stjórnmálaflokka, að í samningum um raforkuverð skyldi svo til hagað að það væri ekki bundið á föstu verði yfir langan tíma. Ég vek athygli á þessu þegar hæstv. ráðh. er að tala um langtímasamning af þessu tagi, vegna þess að ekkert hefur komið fram um það, hvernig frá því yrði gengið.

Ég tók eftir því, að málflutningur hæstv. samgrh., formanns Framsfl., Steingríms Hermannssonar, var í allt öðrum tón heldur en hjá hæstv. iðnrh. Hann vildi greinilega samningaleiðina, talaði um ýmis atriði í því sambandi sem ég hef reyndar líka og áður gert að umtalsefni, og ég hlýt að ítreka enn einu sinni þá skoðun, sem ég hef látið í ljós úr þessum ræðustól a. m. k. tvívegis ef ekki þrívegis áður, að það, sem skiptir meginmáli eins og samningum er hagað við Alusuisse varðandi ÍSAL, er auðvitað hækkun á raforkuverði. Og ég hef talið að inn í þá mynd hlyti að koma hugsanleg stækkun á áliðjuverinu í Straumsvík.

Um þær samningaviðræður, sem hæstv. iðnrh. hefur staðið í í dag við forsvarsmenn Alusuisse, gefst væntanlega betra tækifæri síðar að ræða þegar gögn málsins liggja betur fyrir og menn hafa fengið að kynna sér þau. Hinu er ekki að leyna, að það er dálítið einkennileg tilviljun, að fyrst skuli birtast hugmynd iðnrh. um tilboð til Alusuisse um að kaupa fyrirtækið, síðan skuli það ekki vera tekið upp á viðræðufundinum, en samningaumleitanir því næst fara út um þúfur og ráðh. eiginlega gefa í skyn, að nú sé það líklega helst til ráða að kaupa fyrirtækið, og þá nokkuð í dúr við það sem var upphaf þessarar hringekju. Það gefst væntanlega tækifæri til að athuga þau mál betur síðar.

En um leið og ég ítreka enn og aftur þakkir fyrir þau svör, sem hér hafa fengist, og læt í ljós þá skoðun, að það hafi verið mjög gagnlegt að þessi umr. færi fram, þá hlýt ég að láta í ljós vonbrigði mín með að þau svör, sem gefin hafa verið, hafa að ýmsu leyti verið ákaflega óljós. Þess vegna er náttúrlega fyllsta ástæða til þess, að alþm. fái betra tækifæri til að fjalla um þessi mál, eins og hæstv. iðnrh. gaf í skyn.

En um stöðu þessara mála verður það víst að segjast, að hæstv. iðnrh. virðist ekki ætla að bera gæfu til þess að geta náð giftusamlegri niðurstöðu í þessu máli. Það virðist, ef ráða má af orðum hans, vera komið í enn meira óefni en áður, og það eru sannarlega ókostir ef við eigum að skuldsetja okkur mjög til þess að eignast fyrirtæki til þess að hækka raforkuverðið, — skuldsetja okkur með þeim hætti án þess að fjölga atvinnutækifærum um eitt einasta á Íslandi. Er það alveg óháð því, hvaða skoðun menn hafa á því, að æskilegt sé að Íslendingar geti eignast hlut í þessum stóriðjuverum og það í vaxandi mæli í framtíðinni. En ef marka má orð hæstv. iðnrh. er hann greinilega kominn gersamlega í þrot í þessu máli og það eru vitaskuld ömurleg örlög, en ég vil að lokum láta í ljós þá von, að gæfan snúist okkur í hag fljótlega.