06.05.1982
Sameinað þing: 89. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 4829 í B-deild Alþingistíðinda. (4622)

Umræður utan dagskrár

Iðnrh. (Hjörleifur Guttormsson):

Herra forseti. Það hefði verið ástæða fyrir mig að bæta hér nokkru við það sem ég greindi frá áðan, eftir að þessi umr. hófst, og það eru ekki síst fyrirspurnir og innlegg hv. 1. þm. Reykv. sem gefa tilefni til þess, en reyndar hefur fleira borið við í þessum umr. sem þörf væri á að taka hér fyrir.

Ég vek athygli á því, að málflutningur hv. stjórnarandstæðinga við þessa umr. ber keim af því, að það sé verið að ráðast að mér sem fulltrúa íslensku ríkisstj., íslenskra stjórnvalda, fyrir það að Alusuisse hefur ekki orðið við sanngjörnum kröfum Íslendinga um hækkun raforkuverðs. Það er ekki verið að ásaka Alusuisse fyrir að hafa ekki orðið við kröfum sem íslensk stjórnvöld hafa fram borið, heldur er verið að ráðast að þeim aðilum íslenskum, sem eiga að bera þetta mál fram, fyrir að það sé þeirra sök að svo er komið að Alusuisse hefur enn og aftur neitað sanngirniskröfum okkar Íslendinga um hækkun á raforkuverði um eitt einasta cent. Ég held að það sé full ástæða fyrir menn að átta sig á þessu. Ég held að það sé full ástæða til þess, að við Íslendingar áttum okkur á því, að við sækjum ekki rétt okkar gagnvart útlendingum, sem í okkar auðlindir ganga, hvort sem það er til hafs eða lands, nema hér sé sæmileg samheldni ríkjandi innanlands. Ég minni enn og aftur á líkingu þessa máls við landhelgismálið og þá deilu sem þá átti sér stað við útlendinga, og það er heldur ömurlegt til þess að vita, að það er sama liðið, sem hefur uppi andóf á hv. Alþingi Íslendinga, sem vildi ekki horfast í augu við nauðsyn þess að taka á því máli, útfærslu landhelginnar og verndun fiskimiðanna, með festu — festu, sem loks var ákveðin af meiri hluta á Alþingi Íslendinga og færði okkur sigur í þessu lífshagsmunamáli. Það segir kannske nokkuð um hugsanirnar að baki hjá hv. stjórnarandstæðingum innan Sjálfstfl. þegar þeir sjá ástæðu til þess að hefja framkvæmdastjóra íslenska álversins, starfsmann Alusuisse, til öndvegis í einum öflugustu samtökum hér innanlands, í Verslunarráði Íslands. Það er álíka ráðstöfun, svo að aftur sé lítið til landhelgismálsins, eins og við hefðum beðið fulltrúa breskra togaraeigenda á Íslandi að annast hagsmunagæslu okkar í sambandi við landhelgismálið. Ég vil aðeins vekja athygli á þessu máli hér vegna þess að það er athyglisvert.

Hv. l. þm. Reykv. er sennilega eini maðurinn á Alþingi Íslendinga sem hefur ekki viljað fallast á þær niðurstöður sem eitt virtasta endurskoðunarfyrirtæki í heimi, Coopers & Lybrand, hefur fram borið og lýst yfir að það sé reiðubúið að verja fyrir rétti hvar og hvenær sem er í sambandi við endurskoðun á aðföngum til Íslenska álfélagsins, þá hækkun á aðföngum sem hefur verið þess valdandi, að íslenska ríkið hefur misst af skatttekjum og við höfum litið til þessa fyrirtækis með öðrum augum en eðlilegt væri vegna þess að það hefur verið rekið bókhaldslega með rauðum tölum. Það hafa forsvarsmenn þessa fyrirtækis borið fram um árabil sem röksemd gegn því, að við getum sótt til þess hækkun á roforkuverði.

Hv. þm. Geir Hallgrímsson var að ala hér á tortryggni um niðurstöðu athugana á þessum málum. Hann taldi að það væri forsenda fyrir því, að við fengjum fram hækkað raforkuverð, og undir það tók einnig hv. þm. Matthías Á. Mathiesen hér í umr., að allri tortryggni væri eytt í sambandi við þetta mál. Hverjir eru það, sem eru að ala á tortryggni í þessum efnum, aðrir en hv. stjórnarandstæðingar, sem haga máli sínu með þessum hætti? Mér er spurn.

Hvað segja hv. stjórnarandstæðingar um þá niðurstöðu hins virta alþjóðlega endurskoðunarfyrirtækis sem vann í nánu samstarfi og með viðurkenningu Alusuisse að endurskoðun mála varðandi aðföng til álversins 1975–1979 og svo einnig að heildarathugun fyrir árið 1980? Neita þessir hv. þm. að taka þessar niðurstöður gildar? Hvaða hagsmuni eru þessir hv. þm. að verja? Ég vil minna á það, að samkv. niðurstöðum Coopers & Lybrand varðandi aðföng á súráli á árunum 1975–1979 munaði, miðað við mjög sanngjarnt mat fyrirtækisins á verðlagningu á þessum aðföngum, 14.5 millj. kr. á þessu tímabili og til viðbótar 2.6 millj. kr. í sambandi við súrálsverðlagningu á árinu 1980. Á sama tímabili, 1975–1979, varð verðmunurinn hvað snertir rafskaut, sem eru 30% af aðföngum álversins, enn þá hærri upphæð en nemur umframverðinu á súráli. Það er rétt að það komi fram hér. Þau gögn hafa verið lögð fyrir löngu á borð Alusuisse, að þessi verðmunur er að mati Coopers & Lybrand og fleiri sérfræðinga, sem til hafa verið kvaddir, 17.8 millj. kr. á þessu fjögurra ára tímabili. Það er að vísu ekki mikið um óháð viðskipti í sambandi við rafskaut, en fram hefur farið mjög víðtækt mat á verðlagningu á þessum aðföngum, og niðurstaðan úr þeirri víðtæku endurskoðun bendir til þessa og var staðfest með mjög verulegu yfirverði á þessum þætti að mati Coopers & Lybrand í sambandi við aðföng fyrir árið 1980, í heildarendurskoðun sem sýndi 8 millj. kr. hækkun á nettóhagnaði ÍSALs og mjög verulega hækkun, á milli 2–3 millj. dollara hækkun að mati Coopers & Lybrand, á framleiðslugjaldi fyrirtækisins umfram það sem því hafði verið gert að greiða. Svo koma þessir hv. þm. hingað og spyrja hvort það sé verið að hafa uppi ásakanir um sviksamlegt athæfi gagnvart þessu fyrirtæki eða hvað það sé sem þessi málflutningur sé byggður á.

Málflutningur íslensku ríkisstj. í þessu máli er reistur á ákveðnum greinum aðalsamnings og fylgisamninga sem íslenska ríkið hefur gert við álverið. Íslenska ríkisstj. hefur ekki verið að vísa til atriða þar sem talað er um sviksamlegt athæfi í lagalegum skilningi sem gefur tilefni til riftunar, heldur höfum við haldið þar fram vanefndum á samningum samkv. gr. 41.02 í aðalsamningi. Á þessum atriðum, sem til var vitnað, og gr. 27.03 í aðalsamningi í sambandi við verðlagningu á aðföngum, og ákvæðum í tæknisamningi, sem hæstv. sjútvrh. vitnaði til hér áðan, er málarekstur ríkisstj. varðandi þetta mál reistur. Það kom fram þegar í ályktun ríkisstj. 9. des. 1980, og það hefur verið tekið fram æ og aftur við Alusuisse, á hvaða grundvelli málatilbúnaður gagnvart fortíðinni er byggður af íslenskum stjórnvöldum. Það er því algerlega ástæðulaust fyrir hv. 1. þm. Reykv. að halda að hann sé með einhvern lykil í höndum til þess að Alusuisse fallist á hækkun á raforkuverði. Sá lykill hefur verið prófaður, ekki bara á síðasta samningafundi, heldur síðast í dag, hvort væri hægt að fá hækkun um cent á raforkuverði til álversins í Straumsvík, þó að ekki væri verið að reisa málatilbúnað á öðru en ríkisstj. hefur fram borið í þessum efnum.

Það er sannarlega furðulegt að forustulið stjórnarandstöðunnar skuli koma hingað til þess að draga í efa og rýra möguleika okkar Íslendinga til þess að ná fram sanngjarnri leiðréttingu í þessum málum með því að vera að taka beint og óbeint undir með þessu erlenda auðfélagi sem stundað hefur hér rekstur á þrettánda ár. Ég trúi því vel, að hv. þm. Geir Hallgrímsson hafi ekki reynt að berja Alusuisse til ásta á sínum tíma á viðreisnarárunum. Ég er hræddur um að hann hafi ekki farið með þeim hætti að þegar samningurinn um álverið var gerður á sínum tíma. En það á ekki að vera verkefni okkar hér og nú að vera að deila um þann samning og þá samningagerð, heldur á það að vera að skapa einhug á hv. Alþingi Íslendinga, einhug um þær sanngirniskröfur sem íslensk stjórnvöld hafa fram borið, sanngirniskröfur sem byggjast á sömu sjónarmiðum, sömu réttindum, sömu alþjóðasamþykktum og við höfðum sótt rétt okkar til fiskimiðanna og auðlindalögsögu í kringum landið. Það eru nákvæmlega sams konar málsmeðferð siðferðilega séð og sams konar réttur sem við eigum að beita, og það er skylda okkar að tryggja að landsmenn fái eðlilegan afrakstur af auðlindum sínum, og beita til þess öllum þeim ráðum sem fullvalda ríki hefur í hendi sinni. Að sjálfsögðu eigum við að láta reyna á það að fá samninga endurskoðaða og láta reyna á það til hins ítrasta, að tekið sé undir okkar sanngirnissjónarmið. En það hefur ekki verið gert. Það kom fram síðast í dag, að ekki var á það fallist, og þess vegna slitnaði upp úr þessum viðræðum og þess vegna stendur ríkisstj. og hv. alþm. frammi fyrir því, með hvaða hætti ætlum við að sækja okkar rétt í þessu efni. Það á að vera umhugsunarefni okkar. Það á að vera verkefni okkar á næstunni að tryggja það, að við notum samheldni okkar og réttindi sem fullvalda ríkis til þess að fá fram eðlilegar leiðréttingar á þessu lífshagsmunamáli okkar.

Ég vil rifja það hér upp, til þess að menn átti sig á því hvað hér er á ferðinni, hvernig þróun mála hefur verið í þessum efnum.

Það hefur ekki sjaldan verið talað um það hér á hv. Alþingi Íslendinga, að það þyrfti að jafna húshitunarkostnað í landinu. Við vorum að ræða um það síðast í hv. Ed. í gær, þar sem ég kynnti áætlun ríkisstj. þar að lútandi, nauðsyn þess að jafna upphitunarkostnað í landinu, og þar virðist hv. Alþingi á einu máli. En við gerum okkur grein fyrir að þetta kostar fjármuni. Það kostar um 125 millj. ísl. kr. að ná því markmiði að landsmenn, sem búa við sambærilegt húsnæði og sambærilegar aðstæður, búi ekki við hærra orkuverð við upphitun en sem nemur því sem er hjá dýrum en nýjum og hagkvæmum hitaveitum, sem þýðir um þrefalt það verð sem Hitaveita Reykjavíkur er að óska eftir. Á sama tíma og þetta liggur fyrir blasir það við, að frá því að álverið hóf rekstur sinn til þessa dags hefur munurinn á verðlagi til almenningsveitna í landinu og hins vegar til álversins í Straumsvík fimmfaldast. Verðmunurinn á raforku til almenningsveitna annars vegar og til ÍSALs hins vegar 1969 var 81%. Þessi munur er nú 393%. Þurfa menn vitna við um þessar aðstæður? Vantar okkur rökin til þess að sækja rétt okkar? Nei, hv. alþm., við höfum nóg rök til þess að færa fram. Þau hafa verið færð fram og við færum þau fram til sigurs ef við berum gæfu til að snúa bökum saman í þessu lífshagsmunamáli í stað þess að vera að efna hér til umræðna á hv. Alþingi til þess að sundra í þessu hagsmunamáli.

Það hefur oft verið kvartað yfir því að það sé ekki nægjanlegt samráð við stjórnarandstöðuna í þessu máli og hinu og menn fái ekki nægar upplýsingar. Síðan í ágústmánuði í fyrra, eftir að viðræður hófust við Alusuisse, hafa allir stjórnmálaflokkar, allir þingflokkar átt fulltrúa í viðræðunefnd sem hefur komið að þessu máli og fengið öll gögn, sem varða málið, með það fyrir augum að tryggja tengsl við þingflokkana þannig að menn hafi upplýsingar. Og svo talar hv. 1. þm. Reykv. um þessa nefnd sem skálkaskjól.

Ástæðan fyrir því, að ég kom inn í þessar viðræður 25. og 26. mars s. l. var sú, að Alusuisse aflýsti umsömdum samningsfundi viðræðunefnda 3. mars s. l. fyrirvaralaust og bar við ástæðum sem voru þess eðlis, að ekki nokkur einasti maður gat tekið mark á þeim. Þá sendi ég formanni framkvæmdastjórnar fyrirtækisins, dr. Paul Müller, áskorun um að koma til fundar um þessi mál, koma til viðræðna við mig um þessi mál, hvað hann gerði. Hann féllst á það. Þeir fundir hafa verið haldnir, en þeir hafa því miður ekki borið árangur og við skildum í dag með þeim hætti, að báðum aðilum er ljóst, að þeir þurfa að fara yfir málin hver á sínum vettvangi.

Hér heima á Íslandi þarf að fara fram umr. um þessi mál innan ríkisstj., hjá stjórnmálaflokkum í landinu, og menn þurfa að átta sig á því, hvaða ráðum þeir þurfi að beita og til hvaða ráða eigi að grípa til þess að sækja rétt okkar á þessu sviði.

Ég ætla svo ekki að eyða frekari orðum að þessu máli, þessu stóra máli, þó að full ástæða væri til þess að víkja að mörgum fleiri þáttum sem hér hafa komið fram. En ég tel og vænti að aðalatriðin og meginsjónarmið liggi nokkuð skýrt fyrir. Ég heiti á hv. alþm. að fylgja eftir sanngirniskröfum okkar. Það hljótum við að gera í máli sem þessu, hver sem er við stjórnvölinn. En þá þarf líka að verða breyting á málflutningi.