06.05.1982
Sameinað þing: 89. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 4837 í B-deild Alþingistíðinda. (4628)

Umræður utan dagskrár

Iðnrh. (Hjörleifur Guttormsson):

Herra forseti. Ég skal veita svar við þessari fyrirspurn hv. þm. Það, sem felst í þessu bréfi til Hafnarfjarðarbæjar, er að það er verið að undirbúa samræmingu á löggjöf varðandi tekjur af stórum fyrirtækjum eins og hér eiga í hlut. Ætlunin er sú, að um það verði mörkuð stefna og fest í lög og inn í það samhengi verði tekin skipting á framleiðslugjaldi ÍSALs og þær óskir sem fram hafa komið frá Hafnarfjarðarbæ varðandi athugun þeirra mála og lögfestingu á þeim. Þó að menn heiti því að verða þaulsætnir hér á þinginu, þá geri ég ekki ráð fyrir að frv. um þetta efni verði lagt fyrir yfirstandandi þing.

Að öðru leyti sé ég ekki ástæðu til að lengja þessa umr. Það hefur ekkert nýtt komið fram sem gefur ástæðu til þess sérstaklega, svo að ég læt þessu lokið af minni hálfu.