06.05.1982
Sameinað þing: 89. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 4839 í B-deild Alþingistíðinda. (4631)

Umræður utan dagskrár

Friðrik Sophusson:

Herra forseti. Ég skal ekki misbjóða tíma alþm., enda er orðið framorðið, hafði reyndar ekki í hyggju að taka til máls. En ræða hv. 11. þm. Reykv. varð til þess, að mér fannst ástæða til að koma hér upp og vekja athygli á því sem reyndar hefur verið gert í stuttri ræðu hér áður, að hv. þm., formaður þingflokks Alþb., sér sig knúinn til þess að koma hér í ræðustól til þess að reyna að hjálpa ráðh. við að krafsa sig út úr þeim erfiðleikum sem hann hefur lent í hér í þessum umr.

Það má vel vera að þær persónulegu árásir, sem komu fram í málflutningi hv. 11. þm. Reykv., hafi átt að leiða það af sér, að við stæðum enn betur saman eftir en áður, og þetta sé hluti af þeirri taktík að ná höndum saman og ná öllum saman að baki iðnrh. í þessu máli. Ef hann ætlar að berja menn til ásta með þessum hætti, líkt og hæstv. ráðh. ætlar sér að berja Alusuisse til ásta eins og mátti skilja af hans málflutningi áðan, þá held ég að það sé mesti misskilningur. Þessi aðferð er ekki boðleg til þess.

Auðvitað hlaut það að koma fram í málflutningi manna sem vilja taka á þessu máli með einhverri skynsemi, að við gerðum okkur grein fyrir því, hver sé málstaður andstæðinga okkar í þessu máli. Það er þess vegna sem borið hefur á góma þau rök sem Alusuisse hefur haft uppi, og það er þess vegna sem við höfum reynt að átta okkur á því, hver sé staða okkar í þessu máli. Það þýðir ekki fyrir okkur að berja höfðinu við steininn, eins og gert er í þessu máli, hrópa eða reka upp stríðsöskur. Við verðum að hafa í huga að hér verði barist með rökum.

Hér hefur verið sagt, ekki af einum ráðh., heldur af tveimur, að það sé ekki um að ræða sviksamlegt athæfi, heldur sé hér um að ræða túlkun á samningi, lagalega túlkun, og á þeim forsendum viljum við berjast og ætlum okkur að berjast. Til þess að það sé hægt verðum við að átta okkar á því, yfir hvaða vopnum andstæðingurinn býr. Það var tilboð af hálfu formanns Sjálfstfl. áðan að kosin yrði 7 manna nefnd til þess að fara með þessa samninga, einfaldlega vegna þess að það er kominn tími til þess að draga hæstv. iðnrh. að landi í þeirri strandsiglingu sem hann hefur siglt í þessum málum. Fyrir það ætti hæstv. iðnrh. að vera þakklátur.

Hæstv. iðnrh. sagði í ræðu sinni áðan að það væri krafist þjóðarsamstöðu í þessu máli. Þetta er sami maður sem hljóp út úr sölum Alþingis, þegar stóðu yfir umræður sem hann átti að taka þátt í, til þess að halda blaðamannafund um þær mikilvægu upplýsingar að við höfum verið sviknir um 47 millj. dollara. Af hverju reyndi hann ekki að fylkja mönnum að baki sér áður en það gerðist? Hann gerði enga tilraun til þess. Þetta er sá sami hæstv. iðnrh. sem í sölum Alþingis hefur lýst því yfir, að lokun álversins í Straumsvík sé besti virkjunarkosturinn. Það er álit hæstv. iðnrh. í virkjunarmálum þjóðarinnar. Þessi orð eru geymd í Alþingistíðindum. Það er þessi hæstv. ráðh. sem hefur talað um, án þess að hafa orðað það við viðræðunefndina né stjórnarandstöðuna og kannske ekki sjálfa ríkisstj., að kaupa álverið í Straumsvík, rétt eins og hann eigi peninga íslenskra skattborgara. Talað er um 55%, vitandi að það er stórkostlegur ágreiningur meðal íslensku þjóðarinnar og á Alþingi Íslendinga um það, hvort Íslendingar eigi í öllum tilvikum að vera meirihlutaaðilar í stóriðjurekstri. Þetta veit hæstv. ráðh. En hann gerir samt kröfu um þjóðareiningu og talar hvorki við kóng né prest í þessu máli.

Hæstv. iðnrh. gerir sér kannske grein fyrir því, að með því að leggja stórkostlega fjármuni fram sem áhættufé í stóriðju hægir hann á stóriðjuáformum Íslendinga, hægir hann á virkjunaráformum Íslendinga. Þetta á hæstv. ráðh. auðvitað að vita, maður sem stefnir að því að virkja á Austurlandi eina stærstu virkjun sem um getur hér á landi. En það kann að vera að það séu önnur atriði sem reki hæstv. ráðh. til þess að haga sínu máli eins og hann hefur gert. Það geta verið á því skýringar sem komu ekki fram hjá hæstv. ráðh. Það kann að vera sú skýring, að í hans flokki sé mikill ágreiningur í þessu máli og hann þurfi þess vegna að leika það hér á hv. Alþingi, að hann sé í ímyndaðri baráttu við stórkapítalista hér á landi og annars staðar. Það getur vel verið að gagnrýni á hann í eigin flokki reki hann til þess að haga málflutningi sínum eins og hann hefur gert hér.

Það kann líka að vera, eins og reyndar hefur komið fram fyrr í kvöld, að ástæðan fyrir því, að hæstv. ráðh., sem venjulega er hófsamur og prúðmannlegur í allri framgöngu, æsti sig um of, sé sú, að komið hefur fram tilboð hér um að við kjósum sjö manna nefnd til þess að ræða við Alusuisse um þetta mál, vitandi að ráðin voru tekin af hæstv. ráðh. bæði í virkjunarmálunum og eins í kísilmálmmálinu. Það kann að vera að ótti hæstv. ráðh. sé ekki ástæðulaus. Það getur verið erfitt í þriðja sinn, ef ekki fjórða, fyrir hæstv. ráðh. að skýra það út fyrir þjóðinni og þó einkum sínum flokki, hvernig standi á að jafnvel stjórnarmeirihl. á Alþingi treysti honum ekki til forustu á vissum sviðum.

Ég hef tekið þátt í því hér á þinginu að draga hæstv. ráðh. að landi í vissum alvarlegum málum. Ég hef reynt að gera mitt besta í því svo og aðrir stjórnarandstæðingar. Þar var verið að reyna að ná samstöðu, menn settust niður og reyndu að finna þá samstöðu. En allir vita að afrek hæstv. ráðh., svo að ekki séu nefnd nema bara virkjunarmálin, voru ekki framlag til mikillar samstöðu í því máli. Það þekkir alþjóð.

Fram undan eru sveitarstjórnarkosningar, mjög viðkvæmar fyrir Alþb. Alþb. er spáð miklum ósigri í þessum kosningum, ef marka má spár dagblaðanna, og er almennt álitið að Alþb. stórtapi í þessum kosningum. (ÓRG: Hverju spáðu dagblöðin um fylgi Sjálfstfl. 1979?) Við skulum halda okkur við nýrri tíma. Ég tala hér um spádóma. Því var spáð þá og því er spáð núna. En eitt er víst, að meira að segja framámenn Alþb. og þ. á m. formaður þingflokksins, sem hér gjammaði fram í, sagði í blaðaviðtali við Dagblaðið og Vísi að þetta væri mikið áhyggjuefni fyrir Alþb. Hann sjálfur trúir þessum spádómum og ég vitna bara til eigin ummæla hans. Það er einmitt af þessari ástæðu sem vera kann að hæstv. ráðh. og hjálparhella hans í þessu máli, sem komu hér upp áðan til þess að reyna að krafsa hann út úr þessu viðkvæma máli sínu, þeir óttist meira en nokkuð annað að þessi bomba, sem átti að springa til þess að hjálpa Alþb. fyrir þessar kosningar, springi í þeirra eigin höndum. Ég mundi, ef ég væri í þeirra sporum, þakka fyrir það tilboð sem hér hefur komið fram, — tilboð um að upp verði teknir samningar þar sem allir sitji við sama borð, innlendir aðilar, og þá er kannske fyrst hægt að tala um þjóðarsamstöðu.