06.05.1982
Sameinað þing: 89. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 4841 í B-deild Alþingistíðinda. (4632)

Umræður utan dagskrár

Iðnrh. (Hjörleifur Guttormsson):

Herra forseti. Ekki vænkaðist mjög þótt hv. varaformaður Sjálfstfl. kæmi hér til liðsauka við formann sinn. Ég skal ekki mæla hér langt mál, aðeins gera örstuttar aths.

Í fyrsta lagi bar hér á góma 47 millj. Bandaríkjadala sem hv. formaður Sjálfstfl. klifaði einnig nokkuð á. Þær upplýsingar, sem fram voru dregnar á sínum tíma um hækkun í hafi miðað við útflutningsverð frá Ástralíu og innflutningsverð til Íslands, hafa staðist. Þeim upplýsingum hefur ekki verið hnekkt. Eina breytingin, sem þar varð á við endurskoðun með aðila, var upp á 0.1, sem var samlagningarskekkja í töflu sem sýndi þessa breytingu á milli útflutnings- og innflutningsskjala. Þetta er rétt að komi hér fram.

Hér var enn klifað á einni lummu sem er nokkrum sinnum búið að velta upp hér á hv. Alþingi. Það varðar ummæli mín um lokun álversins, viðhöfð í nóv., að ég hygg, 1980, þar sem ég var að draga fram, hversu óhagstæður raforkusamningurinn við ÍSAL væri, og setti það fram í líkingamáli, að það mætti færa að því líkur, að það gæti talist hagkvæmasti virkjunarkostur Íslendinga að hætta rekstri þessa fyrirtækis, svo slæm væru þessi viðskipti út frá sjónarmiði raforkuiðnaðarins í landinu.

Varðandi kaupin á álverinu held ég að hv. forustumenn Sjálfstfl. í stjórnarandstöðu ættu að leita upplýsinga hjá fulltrúa sínum í álviðræðunefnd, sem hefur gögn um þessi efni undir höndum, áður en þeir fara að tala um sérstaklega íþyngjandi álögur á okkur Íslendinga varðandi erlendar skuldir og annað ef samningar tækjust á grundvelli þess sem rætt hefur verið við vissa erlenda aðila um aðstoð þeirra við að fjármagna hlutdeild íslenska ríkisins í ÍSAL yfir ákveðið tímabil og gera um það langtímasamninga. Þetta eru mál, sem eru að sjálfsögðu á athugunarstigi einvörðungu enn sem komið er. En hér hefur verið undir það tekið af flestum, sem hafa athugað þetta mál, að það væri mjög athyglisvert.

Í sambandi við það, að Alþingi sé að taka af mér ráðin í hverju stórmálinu á eftir öðru, þá kvarta ég ekki undan því, að nú skuli vera komið í höfn því stóra máli sem búið er að kosta meiri vinnu en flest annað á vegum míns rn. undanfarin ár, virkjanamálinu sem fór hér í gegnum Alþingi á grundvelli tillagna ríkisstj. varðandi röðun virkjana samhljóða á hv. Alþingi í dag. Ég fagna þessu að sjálfsögðu mjög. Ekki hef ég kvartað yfir því, þó að Alþingi hafi breytt stjórnarformi á væntanlegri kísilmálmverksmiðju á Reyðarfirði, þó að ég léti það koma fram og stæði að flutningi frv. sem gerði ráð fyrir að iðnrh. skipaði í þá stjórn, með sama hætti og ákveðið var í stjórn hæstv. þáv. forsrh., Geirs Hallgrímssonar, 1976, að gert yrði í sambandi við skipun stjórnar í þá verksmiðju. Þetta er eitt af álitamálunum. Ég er ekkert að kvarta yfir þessu. Ég hef lýst fylgi við þær brtt. sem samþykktar hafa verið. En ég vil benda á það, að hv. stjórnarandstæðingar hafa fullan aðgang að þessu máli og það er þeirra að ákveða hvort þeir setja þm. í álviðræðunefnd eða hafa annan sérfróðan aðila til að skipa þar sæti. Það er í þeirra höndum.