07.05.1982
Efri deild: 91. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 4843 í B-deild Alþingistíðinda. (4637)

279. mál, kísilmálmverksmiðja á Reyðarfirði

Frsm. meiri hl. (Egill Jónsson):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir nál. í máli nr. 279, um frv. til laga um kísilmálmverksmiðju á Reyðarfirði. Nál. hljóðar þannig, með leyfi hæstv. forseta.:

„Nefndin hefur fjallað um frv. og kallað til viðræða eftirtalda aðila: Ólaf Davíðsson, og Gamalíel Sveinsson frá þjóðhagsstofnun, Jóhannes Nordal og Garðar Ingvarsson frá Seðlabanka, Finnboga Jónsson frá iðnrn., Ólaf Pétursson frá Heilbrigðiseftirliti, Hörð Jónsson frá Iðntæknistofnun, Svavar Jónatansson, Almennu verkfræðistofunni, Jón Gauta Jónsson frá Náttúruverndarráði og Jón Sigurðsson frá Járnblendifélaginu.

Meiri hl. n. leggur til að frv. verði samþykkt en einstakir nm. áskilja sér rétt til þess að flytja eða fylgja brtt. Stefán Jónsson ritar undir nál. með fyrirvara.“

Minni hl., Kjartan Jóhannsson, skilar séráliti.

Undir nál. hafa ritað nöfn sín, Davíð Aðalsteinsson, Þorv. Garðar Kristjánsson, Stefán Jónsson, með fyrirvara, Egill Jónsson, Stefán Guðmundsson og Gunnar Thoroddsen. (Gripið fram í: Gunnar Thoroddsen?) Já, svo einkennilegt sem það kann að virðast er nafn hans hér undir. En eins og mönnum er væntanlega í minni er hann einn af iðnaðarnm., einn af þremur fulltrúum Sjálfstfl. í iðnn.

Þegar þetta mál er nú komið til umr. í þessari hv. deild hefur átt sér stað mikil umræða um það hér í þingi, bæði í hv. Nd. og í þingflokkum og í nefndum, og þess vegna m. a. ætla ég nú ekki að flytja hér langt mál. Skýringar liggja væntanlega nokkuð ljóst fyrir.

Þetta mál á sér aðdraganda eins og öll mál, út af fyrir sig kannske ekki afar langan þegar lítið er til þess, hversu stórmál þurfa oft að þróast um nokkurn tíma. Það getur vel verið að þær heimildir, sem ég hef haft undir höndum til að meta upphaf og aðdraganda að þessu máli, séu ekki þær einu, en þó hygg ég að atburðarásina megi rekja til tillögu sem hv. þm. Sverrir Hermannsson flutti á Alþingi árið 1973 og fjallaði um beislun orku og orkusölu á Austurlandi. Sú till. náði ekki fram að ganga, og Sverrir Hermannsson endurflutti þessa till. árið 1975, að meginefni þá sömu og áður hafði verið. Þessi till. fól það í sér, að ríkisstj. var falið að hefja virkjunarrannsóknir á Fljótsdalsheiði og þá í tengslum við stóriðju við Reyðarfjörð. (StJ: Er eðlilegt að halda ræðu um ræður Sverris Hermannssonar eða hvað?) Nei, ég er ekki að flytja ræðu um ræður Sverris Hermannssonar, en ég var að segja frá því, hvert væri að rekja upphaf að þessu máli og það er nokkuð annað en að tilgreina ræður manna. Í þeim efnum vitnaði ég að sjálfsögðu í þingskjöl.

Árið 1975, þá um miðjan þennan mánuð, var svo samþykkt till. Sverris Hermannssonar um virkjunarrannsóknir í Fljótsdal og Orkustofnun falið að ljúka þeim rannsóknum hið fyrsta. Aftur á móti náðist ekki samkomulag þá um hinn þátt till. Sverris Hermannssonar, þ. e. um að rannsóknir hæfust á hagkvæmni þess að byggja stóriðju við Reyðarfjörð. En Austfirðingar sjálfir tóku upp þráðinn þar sem frá var horfið, og í júnímánuði árið 1979 samþykktu atvinnumálanefndir Eskifjarðar og Reyðarfjarðar áskorun til þm. Austurlandskjördæmis þar sem lögð var áhersla á að hraðað yrði undirbúningi að virkjunarframkvæmdum í Fljótsdal og að í tengslum við þær orkunýtingarhugmyndir yrðu einnig metnar aðstæður við byggingu stóriðjuvers við Reyðarfjörð. Ári síðar, 15. júlí árið 1980, fjalla sveitarstjórnir þessara sömu byggðarlaga um málið og komast að sömu niðurstöðu þar sem þær leggja áherslu á byggingu orkuvers í Fljótsdal og í tengslum við það verði komið á fót stóriðju við Reyðarfjörð.

Fimmti áfanginn í þessu máli er svo samþykkt Sambands sveitarfélaga í Austurlandskjördæmi sem árið 1980 hélt aðalfund sinn norður í Vopnafirði og samþykkti þá með samhljóða atkvæðum ályktun þar sem lögð var áhersla á virkjun í Fljótsdal og í tengslum við hana yrði byggt stóriðjuver við Reyðarfjörð.

Það er ekki að efa að þessi samstaða, sem náðist á milli sveitarstjórnarmanna á þessum árum, og það, hvernig hún þróaðist frá því að vera fyrst til umfjöllunar í atvinnumálanefndum þar til hún var síðan samþykkt sem sameiginlegt álit allra sveitarstjórna á Austurlandi, hefur lagt grundvöll að umræðunni um þessar framkvæmdir nú hin síðari ár. Og ég er alveg sannfærður um það, að ef einhverjar hjáróma raddir hefðu heyrst í austfirskum byggðum sem hefðu gengið á móti þessum áformum, þá stæðu þau ekki jafnvel og núna. Það eru þessar samþykktir, þetta álit, sem hefur skapað það umhverfi sem gerði mönnum ekki annað fært en að standa með þessu máli á öllum sviðum þess.

Það hefur verið nokkuð um það rætt, að tíminn hér á hv. Alþingi sé naumur í þinglok og að ýmis góð og stór mál, þ. á. m. þetta mál, fái nauma umfjöllun. Út af fyrir sig er hægt að meta það með þessum hætti ef um er að ræða að afgreiða frv. í sinni upphaflegu mynd. Þar hafði fyrst og fremst átt sér stað umfjöllun hjá stjórnarflokkunum og þá einkum þeim stjórnarflokknum, sem fór með þessi mál væntanlega, og í því rn., sem þetta mál heyrir eðlilega til. Aftur á móti hafði ekki farið fram nein umfjöllun um þetta mál í stjórnarandstöðuflokkunum. Um það er auðvelt að finna og tilfæra nokkurn veginn ársgömul ummæli, m. a. frá Guðmundi G. Þórarinssyni, hv. þm., þar sem hann lét þá skoðun í ljós, að það væri eðlilegt að strax í þingbyrjun tækist um það eðlilegt samstarf að fjalla um þetta stóra mál þannig að hægt yrði að meta það nokkuð sameiginlega þegar á þessu þingi. En stjórnarandstöðuflokkarnir sáu þetta mál ekki fyrr en það var lagt fram á Alþingi, og bæði miðað við þennan undirbúning og eins hitt, hversu mörg atriði í upphaflega frv. orka tvímælis, þá er það mitt mat og ég held að mér sé óhætt að segja að það sé mat þeirra manna, sem skrifa undir álit iðnn., að hér hafi fundist sú leið við afgreiðslu sem tekur mið af þörfum þessa stóra máls annars vegar, en byggist þó á nægilegri varfærni varðandi lokaákvarðanatöku og eðlilegum og nauðsynlegum aðstæðum til umfjöllunar fyrir öll stjórnmálaöfl í landinu sem fulltrúa eiga á Alþingi Íslendinga.

Það frv., sem við mælum hér með að samþykkt verði, er nánast nýtt frv. eins og það kom frá hv. Nd. Alþingis. Það felur í sér þrjár mikilvægar ákvarðanir.

Í fyrsta lagi, eins og ég hef áður sagt, fá nú allir stjórnmálaflokkar aðstöðu til þess að fjalla um málið. Það er kveðið svo á að það eigi að kjósa sérstaka þingkjörna stjórn fyrir kísilmálmverksmiðju við Reyðarfjörð, og þar fá stjórnmálaflokkarnir allir aðgang að eftir styrk sínum hér á Alþingi. Þetta tel ég, eins og ég hef raunar sagt, ákaflega þýðingarmikið því að hér er um stórt og vandasamt mál að ræða. Eins og menn vita koma stjórnir og fara, og við höfum m. a. séð á þessu Alþingi, að það getur alltaf gerst, að það séu ekki þeir sömu, sem undirbúa málin, og þeir, sem fjalla um þau svo aftur síðar og þurfa að bera á þeim ábyrgð, sbr. t. d. málmblendiverksmiðjuna í Hvalfirði.

Þá tel ég það líka vera kost í þessu sambandi, að fjármagnið, sem nú er heimilt að verja til þessara framkvæmda, er ekki nema lítill hluti af því sem ráðgert var í upphaflega frv. Hér er mjög hóflega stofnað til útgjalda á þessu stigi málsins, og það tel ég í rauninni eðlilegt miðað við þann nauma undirbúning og miðað við þá mörgu og stóru óvissuþætti sem enn þá eru varðandi þetta mál.

Í þriðja lagi er kveðið svo á í frv., að málið eigi að koma aftur fyrir Alþingi til umfjöllunar og til lokaákvörðunar væntanlega. Þar með er algerlega tryggt að þetta mál verður búið að fá nauðsynlegan undirbúning og þinglega og lýðræðislega meðferð, og þá ætti að vera auðvelt að færa það í það form sem menn teldu þá að best hentaði.

Þetta allt gerir það að verkum, að eftir sem áður er hægt að halda áfram nauðsynlegum undirbúningi, nauðsynlegum framkvæmdahraða, ef ég mætti komast þannig að orði, þannig að vissar framkvæmdir þarf að vinna á Reyðarfirði þegar í sumar og er gert ráð fyrir að þetta fjármagn nægi til þess. Auk þess legg ég sérstaka áherslu á í þessu sambandi að í alvöru verði hafin mikil umfjöllun og nákvæm könnun á markaðsþætti þessa máls.

Það hefur ekki dulist neinum, ef litið er til járnblendisins í Hvalfirði, að þar gengu allar framkvæmdir eðlilega fyrir sig. Þær voru innan kostnaðaráætlunar, þær voru innan tímasetningar og allir tæknilegir þættir voru í besta lagi. Það eina, sem hefur brugðist, er markaðurinn, og það er vissulega holl lexía í sambandi við kísilmálmverksmiðju við Reyðarfjörð að sá þáttur og það, hvernig þar hefur tekist til, sé okkur góð aðvörun að svo miklu leyti sem hægt er að meta þann stóra og þýðingarmikla þátt þessa máls.

Engum dylst að það, að tekin sé ákvörðun um byggingu stóriðjuvers austur á landi, í dreifbýli eins og það er vanalega kallað, markar á vissan hátt þáttaskil í okkar byggðasjónarmiðum. Hér er lagt til að tiltölulega fámenn byggðarlög næri þetta væntanlega stóriðjuver vinnuafli og skapi nægilega þjónustu til þess að taka á móti innfluttu vinnuafli í auknum mæli. Hér er þannig um að ræða mikil þáttaskil í sambandi við stóriðjumál á Íslandi. Það veltur sannarlega mikið á með frekari uppbyggingu í þessa veru, hvernig til tekst í þessum efnum núna á Austurlandi. Hér þarf þannig að huga vel að hverju spori, hverju fótmáli, því að það yrði áreiðanlega kærkomin ástæða fyrir hin neikvæðu öfl varðandi þessi mál ef hægt væri að rekja einhver mistök í framkvæmdinni til þess, að kísilmálmverksmiðjunni væri valinn staður austur á landi, fjarri þessu mannmarga svæði hér við Faxaflóa, og þess vegna má að sjálfsögðu í þeim efnum ekkert í böndunum bresta.

Þá þarf líka mjög að hafa augun á því, að þessi verksmiðja ein út af fyrir sig sé ekki nema einn þáttur þessa máls. Hér verður að leitast við að teygja hin jákvæðu áhrif hennar sem víðast út um nálægar byggðir, m. a. til þess að byggð raskist þar ekki. Það hefur komið greinilega fram í umræðu við þá aðila, sem ég tilgreindi í upphafi máls míns, að þýðingarmikið væri og mikla áherslu bæri að leggja á það, að þar væri hægt að tengja framhald vinnslu úr afurðum frá kísilmálmverksmiðjunni við ný viðfangsefni í iðnaði þannig að af þessu fyrirtæki hlytist meiri atvinna og meiri verðmætauppbygging en af þessu myndarlega iðjuveri einu út af fyrir sig. Og eins og hæstv. iðnrh. gat um við fyrri umr. í þessari hv. deild vona menn að sjálfsögðu og raunar leggja þann skilning í þetta mál, að það sé mjög tengt áformum um Austurlandsvirkjun, stærstu áformaða virkjun á Íslandi, og mundi þannig auka á þrýsting fyrir því að hafist verði handa um framkvæmdir við virkjun í Fljótsdal. Þó að kísilmálmverksmiðja við Reyðarfjörð taki reyndar ekki nema lítinn hluta af áformuðu afli þeirrar virkjunar, þá má ekki gleyma því, að það er allt eins hægt að flytja raforku frá Austurlandi eins og til Austurlands, og þegar þeir möguleikar yrðu fullnýttir færi að muna verulega um ef t. d. aflþörf ykist á Austurlandi, t. d. tvöfalt við það sem þessi kísilmálmverksmiðja við Reyðarfjörð þarf til sinna nota. Á þetta legg ég áherslu og veit að í þeim efnum mundu Austfirðingar mæla ef þeir hefðu aðstöðu til.

Ég vil svo að lokum, herra forseti, færa þakkir þeim mörgu sem hafa stutt að framgangi þessa máls. Þar vil ég sérstaklega tilgreina verkefnisstjórnina, sem hafði þetta mál með höndum, starfsmenn iðnrn. undir forustu hæstv. iðnrh., Hjörleifs Guttormssonar, sem að sjálfsögðu hefur unnið að þessu máli meira en nokkur annar maður, og vil ég með þessum orðum undirstrika þakklæti mitt til hans fyrir það. Ég vil líka og ekki síður þakka Austfirðingum, sveitarstjórnarmönnum á Austurlandi, sem ég vitnaði til í upphafi, fyrir þeirra samþykktir. Þeir eignuðust þá stóru gæfu í þessu máli að ræða það sín á milli og komast að samkomulagi þannig að að því leyti þurfti þetta mál ekki eins og mörg önnur góð mál að gjalda þess, að um það kæmu fram greindar meiningar í héraði. Þetta sýnist mér vera góður heimanmundur með þessu stóra máli, og menn ættu að reyna að nota það sem vegvísi til eftirbreytni við framgang þess og frekari umfjöllun.