07.05.1982
Efri deild: 92. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 4863 í B-deild Alþingistíðinda. (4646)

279. mál, kísilmálmverksmiðja á Reyðarfirði

Frsm. meiri hl. (Egill Jónsson):

Herra forseti. Mér þykir eðlilegt að það komi hér fram af hendi okkar, þeirra sem skipa meiri hl. n., að hér er um misskilning að ræða hjá hv. 2. þm. Reykn. Í 3. gr. segir að niðurstöður skýrslunnar eigi að leggja fyrir Alþingi, og síðan ræðst sú framsetning að sjálfsögðu af þingsköpum Alþingis sem gera ráð fyrir að atkv. gangi um annað tveggja þáltill. eða frv. Þetta er alveg skýrt. Til viðbótar við þetta er kannske vert að geta þess, að hér er um svo að segja sama orðalag að ræða og var viðhaft fyrir einu ári í sambandi við lagasetningu um raforkuver sem ríkisstj. flutti, en í 2. gr. þeirra laga segir svo, með leyfi hæstv. forseta: „Ákvarðanir um framkvæmdir í virkjunarmálum, þ. á m. um framkvæmdaröð, skulu staðfestar af Alþingi.“ Nú hefur þetta verið gert með sérstakri þál. þótt ekki hafi sérstaklega verið tilgreint í lögunum í hvaða búningi sú ákvörðun skyldi lögð fyrir Alþingi. Það er sem sagt stutt að leita algerrar hliðstæðu við þetta. Þá komu, eftir því sem ég man best, ekki fram, hvorki við umfjöllun í nefnd né við umr. hér í þessari hv. deild, neinar ábendingar um að hér væri rangt að farið.

Þetta þykir mér eðlilegt að komi fram, og m. a. á grundvelli þessara raka greiði ég atkv. gegn þessari tillögu.