07.05.1982
Neðri deild: 88. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 4879 í B-deild Alþingistíðinda. (4656)

215. mál, skattskylda innlánsstofnana

Halldór Blöndal:

Herra forseti. Það liggur nú fyrir þessari deild að samþykkja enn eitt skattafrv. núv. hæstv. ríkisstj. Það er þó ekki vegna þess að hún hafi á undanförnum árum verið hógvær í sinni skattlagningu og lagt af skatta. Þvert á móti er það svo að skattbyrði hefur aukist ár frá ári, bæði óbeinir skattar og beinir, og liggur þó fyrir að verkalýðshreyfingin hefur oftar en einu sinni gert um það samkomulag við ríkisstj. að þola nokkra skerðingu launa vegna fyrirheits um að ríkisstj. mundi í staðinn stilla skattlagningu sinni í hóf. Þetta var bæði gert í tengslum við þær efnahagsráðstafanir, sem fylgdu því að tvö núll voru skorin aftan af krónunni, og hið sama var raunar látíð í veðri vaka í sambandi við síðustu kjarasamninga sem gerðir voru á ofanverðu s. i. ári. Af þessum sökum er nauðsynlegt til þess að skilja eðli þessarar skattlagningar að ræða nokkuð hvernig ástandið er almennt í þjóðfélaginu.

Það liggur fyrir og er raunar viðurkennt, m. a. af hæstv, sjútvrh., að svo hafi verið komið í lok s. l. árs að sá árangur hafi náðst að lækka verðbólguna um nokkur stig. Verðbólgan lækkaði ekki að því marki að það yrði gerbreyting í okkar efnahagsmálum. Þetta var aðeins örlítil áfangalækkun á verðbólgunni sem hefði þó verið athyglisverð ef þessi lækkun verðbóta hefði verið reist á föstum grunni, en ekki sandi, eins og Steingrímur Hermannsson, hæstv. sjútvrh., lagði áherslu á í áramótagrein sinni. Ég tel nauðsynlegt til þess að skýra forsendur þess, sem ég ætla að segja hér, að rifja upp þau ummæli sem formaður Framsfl. birti í Tímanum 31. des. s. l., en þá sagði hann, með leyfi hæstv. forseta:

„Meginverkefni þeirrar ríkisstj. sem nú situr, er hjöðnun verðbólgu án þess að stofna til atvinnuleysis. Á þetta höfum við framsóknarmenn lagt höfuðáherslu. Um það náðist full samstaða við myndun ríkisstj. Því verður ekki með nokkurri sanngirni neitað, að umtalsverður árangur hefur náðst á þessu ári. Fyrir síðustu áramót stefndi verðbólgan í 70–80% á ársgrundvelli.“

Ég vil skjóta því hér inn í, að þessi fullyrðing formanns Framsfl. stangast gersamlega á við þá yfirlýsingu sem hæstv. forsrh. gaf í endaðan nóv. þegar hann efndi til blaðamannafundar og bauð ýmsum fréttamönnum upp á kaffi og jólaköku uppi í stjórnarráði til þess að segja þeim að sú ánægjulega þróun hefði orðið í verðbólgumálum að framfærslukostnaðurinn væri mjög á niðurleið og að efnahagsstefna ríkisstj. hefði borið ríkan árangur einmitt í verðbólgumálum. Þessi ummæli formanns Framsfl. stangast gersamlega á við yfirlýsingu hæstv. forsrh. á þeim tíma. Síðan segir, með leyfi hæstv. forseta:

Ríkisstj. setti sér það markmið að koma verðbólgunni niður í 40% á árinu 1981. Að mati Þjóðhagsstofnunar hefur verðbólgan orðið 42%. Því má segja að það markmið hafi náðst sem að var stefnt. Ekki er síður mikilvægt að á sama tíma hefur framleiðsla verið mikil, full atvinna og kaupmáttur lægri launa hefur með þeim aðgerðum, sem til var gripið, skerst minna en orðið hefði án aðgerða. Þetta eru staðreyndir. Þessi árangur hefur náðst með því sem við framsóknarmenn nefnum niðurtalningu verðbólgu. Í því felst að draga úr áhrifum hvers þess þáttar í efnahagslífinu sem eykur verðbólguna. Þetta hefur yfirleitt tekist vel. Þó valda nokkur atriði áhyggjum.“

Hér hefur hæstv. sjútvrh. sem sagt lýst þeirri hliðinni, sem honum finnst ljós og falleg, þeirri hlið, sem hann hefur dekrað við síðan, m. a. í útvarpsumr. um daginn, en ég sé ekki að þau ummæli vegi svo þungt að ástæða sé til þess að rifja þau upp nú. Vera má að ástæða gefist til þess síðar í umr. En síðan fer hæstv. sjútvrh. að lýsa hinum dökku hliðum, með leyfi hæstv. forseta:

„Vafalaust er að útflutnings- og samkeppnisatvinnuvegirnir hafa ekki fengið nægilega bætta þá kostnaðarhækkun sem orðið hefur innanlands. Venjulega verður slíkt ekki gert að fullu nema með aðlögun gengis að auknum framleiðslukostnaði. Fátt örvar hins vegar verðbólguna meira en gengisfellingar. Því hefur ríkisstj. talið sér skylt að leita ýmissa leiða til að draga úr þörf fyrir lækkun gengis. Þetta hefur ekki tekist nægilega vel. Staða útflutningsatvinnuveganna er því orðin of erfið. Hana er óhjákvæmilegt að lagfæra. Í þessu sambandi veldur gífurleg aukning fjármagnskostnaðar áhyggjum. Mikið fjármagn hefur runnið frá atvinnuvegunum í banka, sjóði, í ríkissjóð, til sveitarfélaga og annarra skuldheimtuaðila. Góð staða slíkra stofnana er að sjálfsögðu æskileg. Það getur hins vegar ekki orðið á kostnað atvinnuveganna þegar afkoma þeirra er skert eins og gert hefur verið í viðureigninni við verðbólguna.“

Þessi ummæli hæstv. sjútvrh. eru athyglisverð með hliðsjón af því frv. sem hér liggur fyrir. Nú hefur sá ráðh. í ríkisstj., sem hreinskilnastur hefur verið og fúsastur til þess að segja sína skoðun á efnahagsmálum, hæstv. viðskrh., einmitt svarað spurningu nm. í fjh.- og viðskn. svo, að sá skattur, sem hér á að leggjast á innlánsstofnanir, hljóti óhjákvæmilega að lenda á viðskiptavinum bankanna, annaðhvort á lántakendum eða innleggjendum. Hann skírskotar til þess, sem er gagnstætt því raunar sem hæstv. sjútvrh. segir, að afkoma bankanna á s. l. ári hafi ekki verið með þeim hætti að þeir séu aflögufærir, og telur réttilega að það sé forsenda heilbrigðs efnahags- og atvinnulífs að eiginfjárstaða bankanna treystist verulega frá því sem nú er. Það verður einkum ljóst ef litið er til afkomu Búnaðarbankans á s. l. ári sem hefur nokkra sérstöðu og að ýmsu leyti betri skilyrði til ávöxtunar síns sparifjár heldur en aðrir bankar. Þar verður um verulega hnignun að ræða að þessu leyti ef frv. nær fram að ganga. Hitt er þó eftirtektarverðara, að hæstv. sjútvrh. tekur af skarið um að það sé kannske fyrst og fremst fjármagnskostnaður atvinnuveganna sem valdi áhyggjunum, þann fjármagnskostnað verði að lækka ef við því eigi að búast að við getum áfram haldið fullri atvinnu, ef hjól framleiðslunnar eigi áfram að snúast. Þegar hæstv. sjútvrh. hefur þannig skýrt ástandið fer hann að fjalla um þær aðgerðir í efnahagsmálum sem hann telur nauðsynlegastar, og þá segir hann, með leyfi hæstv. forseta:

„Að mati Þjóðhagsstofnunar yrði verðbólga á næsta ári 55%, ef ekki er gripið til aðgerða. Aukinn hraði verðbólgunnar stafar fyrst og fremst af þremur ástæðum:

1. Staða útflutningsatvinnuveganna er erfið og verður að lagfæra.

2. Spáð er versnandi viðskiptakjörum.

3. Aukning þjóðartekna á næsta ári virðist ekki munu standa að baki almennra grunnkaupshækkana sem orðið hafa, þótt þeim hafi vissulega verið stillt í hóf.“

Og síðan segir hæstv. sjútvrh., og ég vil undirstrika þessi orð: „Að sjálfsögðu getur engin ríkisstj. horft aðgerðalaus á slíka þróun.“

Þetta eru náttúrlega stór orð, en þau réttlætast af því, að engum einum ráðh. er kunnara um atvinnuástandið heldur en einmitt sjútvrh. Hann gerir sér náttúrlega glögga grein fyrir því, að þetta þjóðfélag verður ekki svo rekið áfram að undirstöðuatvinnuvegir eins og frystingin geti ekki bætt framleiðslu sína og staðið okkar nágrannaþjóðum á sporði, bæði hvað varðar vörugæði og framleiðslukostnað. Nú er það að vísu rétt, að gengisfellingin í janúar s. l. ásamt með hröðu gengissigi síðan hefur valdið því að sami halli er ekki á útflutningsatvinnuvegunum og áður, og nú undanskil ég að sjálfsögðu saltfiskinn. En það er kannske skynsamlegt að láta skreiðina liggja á milli hluta, a. m. k. á meðan Nígeríumarkaður er lokaður. Þessi úrlausn, sem útflutningsatvinnuvegirnir hafa fengið með gengisfellingunum, er þó ekki meiri en svo, að þeir hafa ekki náð núllpunkti enn, t. d. frystingin, eða — svo að maður taki annað dæmi sem líka skiptir miklu máli — ullar- og skinnaiðnaðurinn. Ekkert er afgangs til þess að mæta þeim hallærislánum sem tekin voru á s. l. ári. Með því að þessi skattur verði á lagður eiga þessar byrðar af hallærislánunum enn eftir að þyngjast vegna þess að skatturinn hlýtur að valda því, að vextir hækki, fjármagnskostnaður hækki, og þetta er kannske enn kvíðvænlegra fyrir þá sök, að mörg fyrirtæki bíða þess nú hvort þau fái einhverja úrlausn í næstu viku, þegar þingi hefur verið slitið, ný hallærislán. Ætla ég að það séu ekki færri en 40 fyrirtæki sem nú eru á biðlista hjá hallærisnefndinni sem stjórn Byggðasjóðs hefur smátt og smátt verið að breytast í. Auk þess hljótum við öll að hafa af því áhyggjur, að aflabrögð hafa verið mjög rýr upp á síðkastið um allt land. Það hefur verið alger ördeyða bæði fyrir austan og norðan og raunar um allt land. Mikið aflaskip, togskip, einn af gömlu loðnubátunum, var að koma inn núna með 6 tonn eftir 12 daga veiðiferð. Svipaða sögu má segja af öðrum skipum, þannig að þetta verður auðvitað enn til þess að þyngja róðurinn hjá atvinnurekstrinum, enda eru nú farnar að berast fregnir af því, að búið sé að segja fólki í frystihúsum upp atvinnu og raunar mjög svart fram undan víða.

Ef við á hinn bóginn veltum fyrir okkur á hverjum öðrum þetta bitnar, þá vitum við að sú breyting, sem orðið hefur á lánskjörum með því að verðtryggingin var tekin upp, hefur valdið því, að þjóðfélagsþegnarnir skiptast nú í tvo hópa. Annars vegar eru þeir sem voru búnir að koma sér vel fyrir áður en verðtryggingin kom til sögunnar, voru búnir að reisa hús sín eða kaupa sér íbúðir, og má með rökum segja að þjóðfélagið hafi að miklum hluta staðið undir þessum byggingarkostnaði með því að þessu fólki var ekki gert að skila andvirði þess fjár sem það tók að láni. Það unga fólk, sem nú er hins vegar að ráðast í íbúðarkaup eða er svo hugrakkt að það ætlar sér að byggja sér hús, er hins vegar mjög þrautpínt bæði af skattaálögum, sem eru meiri en nokkru sinni fyrr, og af þessum háu vöxtum. Vil ég í því sambandi einnig minna á að sú breyting, að vextir eru ekki lengur frádráttarbærir við álagningu tekjuskatts eins og áður var, verkar enn til íþyngingar. Ég get því ekki séð að það sé sanngirnismál nú á síðustu dögum þessa þings að halda því svo mjög til streitu að koma einmitt því frv. í gegnum þingið sem enn eykur á það mikla misræmi sem verið hefur að þróast í þjóðfélaginu upp á síðkastið.

Ég sé, að hæstv. fjmrh. er kominn í salinn, og vil af því tilefni grípa tækifærið og beina til hans fsp. um mál tengt þessu þegar hann hefur tóm til þess að hlýða á mál mitt.

Hinn 18. febr. s. l. skrifaði Landvari, landssamband vörubifreiðaeigenda á flutningaleiðum, fjmrh. bréf út af þungaskatti sem ég ætla nú að koma inn á í tengslum við frv., sem hér liggur fyrir, og óska svara ráðh. af þeim sökum. Þannig standa sakir að með lögum um fjáröflun til vegagerðar, þ. e. lögum til breytinga á lögum um fjáröflun til vegagerðar sem samþykkt voru á Alþingi 19. des. 1975, var ákveðið að ráðh. væri heimilt að hækka bensíngjald og árgjald þungaskatts allt að því að þessi gjöld hækkuðu í réttu hlutfalli við þá hækkun sem kynni að verða á vísitölu byggingarkostnaðar, sbr. lög nr. 25 frá 24. apríl 1957, og skyldu grunntaxtar bensíngjalds og árgjalds þungaskatts miðaðar við vísitölu eins og hún var 1. júlí 1975, þ. e. 1881 stig. Síðan gerðist það á hinu 99. löggjafarþingi, að flutt var frv. um breytingar á þessum lögum og þar var gerð nokkur breyting á framkvæmd þungaskattsins. Segir í aths. um breytingu að verið sé að færa gildandi ákvæði um álagningu þungaskatts í heldur einfaldari búning án þess að breyta efni þeirrar greinar að neinu ráði. Ég get því ekki annað séð en sú skírskotun til byggingarvísitölunnar, sem ég vitnaði til áðan, eigi að fullu og öllu við þungaskattinn eins og hann er nú álagður. Í bréfi Landvara til hæstv. fjmrh. segir svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Allt frá því að innheimtufyrirkomulagi þungaskatts var breytt á árinu 1970 og þess var krafist, að dísilbifreiðar yfir 5 tonn greiddu þungaskatt samkv. ökumælum, hefur af hálfu Landvara verið mótmælt þeirri gífurlegu hækkun sem var og orðið hefur á þungaskattsgreiðslum. Síðan hefur þessum hækkunum verið mótmælt með bréfum til yðar, dags. 17. des. 1980 og 11. jan. s. l., sem hjálögð fylgja í ljósriti. Það er staðreynd, að þungaskattur á bifreiðum Landvaramanna hefur hækkað langt umfram almennar verðhækkanir í þjóðfélaginu, og hafa meðlimir í Landvara því dregið í efa að slíkar gífurlegar skattaálögur fái staðist lagalega.

Allt fram til ársins 1977 voru hækkanir á þungaskatti ákvarðaðar með lögum á Alþingi, en með lögum nr. 78/1977 var ráðh. heimilað samkv. 4. mgr. 2. gr. að hækka þungaskatt allt að því að hann hækkaði í réttu hlutfalli við þá hækkun sem kynni að verða á vísitölu byggingarkostnaðar, sbr. lög nr. 93 31. des. 1975. Grunntaxti þungaskatts skyldi miðaður við vísitölu 1. okt. 1977, þ. e. 159 stig. Þungaskattur pr. ekinn km af bifreið 23–23.9 tonn var þá kr. 8.33 pr. km. Sá þungaskattur hafði verið ákvarðaður með reglugerð nr. 429/1976, en við setningu þeirrar reglugerðar var byggingarvísitalan 126 stig. Stjórn Landvara telur að í þrengsta lagaskilningi hafi ráðh. ekki verið heimilt að hækka þungaskatt meira en nemur hækkun á byggingarvísitölu úr 159 stigum í okt. 1977 til viðkomandi hækkunarákvarðana samkv. reglugerðum sem síðar hafa verið settar, en í víðasta lagaskilningi hafi heimildin náð til þess að hækka þungaskattinn til samræmis við grunnvísitöluna 126 stig. Áðurnefnd byggingarvísitala er í dag 909 stig og hækkun úr 126 stigum er því 721.43%. Hækkun byggingarvísitölu úr 159 stigum í áðurnefnd 909 stig er 571.7%. Þungaskattur fyrir bifreið í áðurnefndum þyngdarflokki hefur á sama tíma hækkað úr gkr. 8.33 pr. ekinn km í nýkr. 1.82 pr. ekinn km eða um 2184.8 7%. Stjórn Landvara telur að þessi gífurlega hækkun þungaskattsins sé langt umfram lagaheimildir og að ríkissjóði beri að endurgreiða meðlimum Landvara þann þungaskatt sem ofgreiddur hefur verið.“

Síðan er hér tekið dæmi af einum vöruflutningabifreiðarstjóra sem rekur tvær bifreiðar. Samkv. hjálögðum ljósritum fyrir innborganir þungaskatts frá 25. 7. 1978 til 31. 11. 1981 hefur hann greitt álagðan þungaskatt samkv. kröfu yfirvalda. Inn á ljósrit þessi hafa verið færðar greiðslutölur í samræmi við hámarksheimild samkv. hækkun byggingarvísitölu úr 126 stigum í þá byggingarvísitölu sem í gildi var er síðari reglugerðir um þungaskatt hafa verið settar, en hjálagt fylgir sérblað yfir viðkomandi reglugerðir og þá vísitölu sem í gildi var á hverjum tíma. Samkv. þessum ljósritum og endurreikningi kemur í ljós að þessi bifreiðarstjóri hefur samtals ofgreitt sem nemur 89 314 kr. á þessu tímabili.

Nú hefur stjórn Landvara fyrir hönd þessa bifreiðarstjóra krafist endurgreiðslu á ofannefndri fjárhæð ásamt vöxtum frá viðkomandi gjalddögum og jafnframt sett fram þá kröfu, að öðrum meðlimum Landvara verði endurgreiddur ofgreiddur þungaskattur með sömu skilmálum. Á hinn bóginn er tekið fram að ef ofangreindri endurgreiðslukröfu verði ekki sinnt fyrir 25. febr. muni verða höfðað endurgreiðslumál gegn ríkissjóði án frekari fyrirvara. Ég hygg, að ríkissjóði hafi þegar verið stefnt vegna máls þessa, eða veit ekki betur. Það er þá a. m. k. í undirbúningi ef svo hefur ekki orðið, þar sem hæstv. fjmrh. eða rn. hans hafnaði þeim kröfum sem fram komu.

Ég vil taka það fram, að svo hefur jafnan verið síðan 1. jan. 1978 að þeim Landvaramönnum hefur verið ákvörðuð meiri hækkun en heimilt var samkv. þeim lagaskilningi sem þarna er lýst og ég sé ekki betur en standist fullkomlega. Þó varð sú breyting á á árinu 1979, að þungaskatturinn var hækkaður tvívegis á ári í stað einu sinni áður, sem náttúrlega er enn tilfinnanlegra. En segja má í sambandi við hækkun þungaskattsins á árinu 1978 að hann komi að því leyti léttar niður, að í lok ársins var hækkun vísitölunnar komin verulega yfir það sem þá var heimilt að ákveða þungaskattinn samkv. lögum. Hins vegar hefur alveg keyrt um þverbak á síðustu árum og má kannske segja í þessu sambandi að það sé grátbroslegt, að hinn 11. jan. s. l. barst hæstv. fjmrh. bréf frá þeim Landvaramönum þar sem þeir þökkuðu hæstv. fjmrh. fyrir þann skilning að reyna að koma þungaskattinum niður á ný. En þessi dýrð stóð ekki lengi því að vikan var varla liðin þegar hæstv. fjmrh. hækkaði þungaskattinn úr 0.99 kr. í 1.82 pr. ekinn km eða tvöfaldaði skattinn. Þá þótti þeim Landvaramönnum sem kornið fyllti mælinn og þeir töldu að nauðsynlegt væri fyrir sig að verja hendur sínar, enda er það nú svo að mjög hefur verið þrengt að þessum atvinnurekstri með ýmsum hætti upp á síðkastið, og eins og lánsfyrirgreiðslu er háttað til þeirra manna, sem hér eiga í hlut, er orðið næsta erfitt og í mörgum tilvikum ógerningur fyrir menn að endurnýja sín framleiðslutæki.

Ég hef hér í höndum svar fjmrn. við kröfu Landvaramanna, dags. 8. mars 1982, þar sem settar eru fram nokkrar varnir fyrir afstöðu rn. Ég fæ þó ekki séð að þær varnir haldi og skal því ekki rekja þær hér, einkum með hliðsjón af því sem ég vitnaði áður til í grg. með frv. sem lagt var fram 1975 þar sem kemur berlega fram að þótt tilhögun þungaskattsins hafi í framkvæmdaratriðum verið nokkuð breytt var ekki hugmyndin að slíta sundur þau tengsl sem yrðu milli hækkunar þungaskatts og vísitölu byggingarkostnaðar.

Ég vil af þessu tilefni beina þeirri fsp. til hæstv. fjmrh., hvort rn. hans hafi tekið þetta mál upp aftur til frekari skoðunar og hvort þess sé að vænta að hann muni í fyrsta lagi fallast á endurgreiðslukröfu þeirra Landvaramanna og í öðru lagi hvort þess sé að vænta, þó svo að hann geri það ekki, að hann muni stilla sig um frekari hækkun þungaskattsins og láta hann vera óbreyttan og lækka hann þannig í þrepum þangað til samræmi verður orðið milli hækkunar byggingarvísitölu og hækkunar þungaskatts. Ég þykist vita að hv. alþm. sjái að hér er um sanngirnismál að ræða, og þetta mál er að því leyti sérstakt, að það snertir náttúrlega fyrst og fremst strjálbýlið.

Það voru hér um daginn miklar umr. um það, með hvaða hætti væri hægt að leiðrétta það ranglæti sem fólgið væri í því að menn úti á landsbyggðinni yrðu að greiða söluskatt af flutningskostnaði á þeim vörum sem seldar yrðu í smásölu úti á landi. Ég tók þá mjög undir það með hæstv. fjmrh., að það mál væri engan veginn einfalt úrlausnar og engin patentlausn til á því. Undanþágur frá söluskatti eru orðnar mjög margar og verður auðvitað að gæta þess, þegar verið er að reyna að koma til móts við landsbyggðina, að fara ekki svo flóknar leiðir að kostnaðurinn við leiðréttinguna verði kannske enn þá meiri en það sem vinnst, ávinningurinn ber ekki uppi það sem tapast. Ég gat því vel fallist á þau rök hæstv. fjmrh., að nauðsynlegt væri að athuga það mál betur, hvernig hægt væri að bæta strjálbýlinu upp þann söluskatt sem því er gert að greiða vegna flutningskostnaðarins, en fellur hins vegar ekki t. d. á íbúa hér á Reykjavíkursvæðinu. Það er nú svo að þær vörur, sem framleiddar eru úti á landi, eru oftast nær með jafnaðargjaldi, við getum tekið kjöt og mjólk, og þess vegna ekki um neitt slíkt að ræða, enda eru þær neysluvörur auðvitað undanþegnar söluskatti og flutningskostnaður á þeim af þeim sökum einnig.

Ég vil einnig minna á það, að Alþingi hefur oftar en einu sinni samþykkt ályktanir þess efnis, að nauðsynlegt sé að ríkisstjórn og ríkisstjórnir raunar vinni að tillögum um það, hvernig hægt sé að lækka hinn beina flutningskostnað á daglegum neysluvörum almennings og raunar á rekstrarvörum fyrirtækja úti á landsbyggðinni. Um þetta mál hafa verið skrifaðar margar greinargerðir og fluttar margar ræður, og hefur m. a. farið fram sérstök könnun á því á vegum Hagstofunnar, hver sé framfærslukostnaður annars vegar hér í Reykjavík og hins vegar á tilteknum stöðum úti á landi. Hefur komið í ljós að þar munar verulegum fjárhæðum. Hið sama kom raunar í ljós í yfirgripsmikilli vörukönnun sem gerð var fyrir skömmu og birt var í fjölmiðlum. Þeir staðir, sem fjærstir eru aðalhöfnum, verða verst úti, og það er sameiginlegt flestum þessum stöðum, að um aðdrætti alla eru þeir háðir flutningabifreiðum vegna þess að það er ódýrasta aðferðin til að koma vörum á áfangastað á hina fámennari staði.

Við höfum raunar séð líka í blöðum upp á síðkastið að þungatakmarkanir á vegum hafa verið mjög miklar og verður raunar ýmislegt til þess að torvelda þessum flutningabifreiðarstjórum að standa með eðlilegum hætti undir rekstri bifreiða sinna án þess að flutningsgjöldin fari upp úr öllu valdi. Með þetta í huga hlýtur maður auðvitað að festa augun á þungaskattinum og íhuga hvort það geti ekki verið skynsamleg leið til lækkunar flutningskostnaðarins úti á landsbyggðinni að lækka þungaskattinn. Finnst mér þá raunar líka koma til álita hvort ekki sé rétt að draga úr innflutningsgjöldum á slíkum bifreiðum.

Eins og ég sagði áðan er þetta mál sem fyrst og fremst varðar landsbyggðina, og að sjálfsögðu bitnar þetta mál ekki á sama hátt á fólki hér á Reykjavíkursvæðinu. Þetta er mikið sanngirnismál og ég fæ raunar ekki séð hvernig ríkisvaldið getur varið það fyrir sjálfu sér eða fólki víðs vegar um landið að verja árlega háum fjárhæðum ekki aðeins til þess að standa undir hallarekstri Skipaútgerðar ríkisins, heldur einnig til þess að festa kaup á nýjum flutningaskipum og með öðrum hætti greiða niður þá flutninga, en beita aftur landflutningana æ meiri þvingunum og þyngja skattana á þeirri atvinnugrein raunar með hverju árinu sem líður.

Herra forseti. Það vakti mikla athygli nú á degi verkalýðsins, hinn 1. maí s. l., hversu fáir fengust til þátttöku og hversu dauft var yfir hátíðarhöldunum víðs vegar um landið. Skýringin er að sjálfsögðu sú, að menn hafa áttað sig á því, að þess sé ekki að vænta að neinar kjarabætur geti orðið á þessu ári, og bera í brjósti mikinn beyg við það sem framtíðin kunni að bera í skauti sínu. Það vakti þá líka mikla athygli, að 1. maí ávarpi fulltrúaráðs verkalýðsfélaganna í Reykjavík, Bandalags starfsmanna ríkis og bæja og Iðnnemasambands Íslands skyldi valinn sá staður í 1. maíblaði Þjóðviljans sem minnsta athygli vekur. Þetta ávarp var birt á næstöftustu síðu, 31. síðunni, og bar yfirskriftina 1. maíávarp. (Forseti: Ég verð að biðja hv. þm. að gera hlé á ræðu sinni. Það var ákveðið að gefa matarhlé kl. 12, og fundi er frestað til kl. 13.30.) — [Fundarhlé.]