07.05.1982
Neðri deild: 88. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 4893 í B-deild Alþingistíðinda. (4662)

215. mál, skattskylda innlánsstofnana

Karvel Pálmason:

Herra forseti. Það er með þetta mál eins og því miður mörg önnur sem komið hafa frá hæstv. ríkisstj., að það er afskaplega illa undirbúið og óljóst í raun og veru hvaða afleiðingar það kann að hafa. Það liggur t. d. ekki fyrir, verði um slíka skattlagningu að ræða, hvort hún kemur til með að bitna á viðskiptavinum aftur í gegnum hækkaða vexti eða annað slíkt. Slíkum spurningum hefur ekki verið svarað. Það er að sjálfsögðu rétt og æskilegt að bankastofnanir greiði skatta og skyldur, en þegar slíkt er gert þarf líka að huga að því, að það sé gert á sem hagkvæmastan og eðlilegastan hátt.

Í ljósi þessa tel ég rétt og stend að því, að hæstv. ríkisstj. gefist kostur á því að betrumbæta þetta mál og leggja það fyrir þing að hausti, og í ljósi þess segi ég já.