07.05.1982
Neðri deild: 88. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 4894 í B-deild Alþingistíðinda. (4665)

Umræður utan dagskrár

Fjmrh. (Ragnar Arnalds):

Herra forseti. Hv. þm. Halldór Blöndal hefur borið hér fram fsp. um hækkunarheimildir fjmrh. til breytinga á þungaskatti og svokölluðu kílómetragjaldi. Heimild fjmrh. til ákvörðunar kílómetragjalds byggist á 7. gr. laga nr. 79 frá 1974, um fjáröflun til vegagerðar, sbr. 3. gr. laga nr. 78/1977 um breyting á henni. Þar segir svo m. a., með leyfi forseta:

„Ráðh. er heimilt að ákveða með reglugerð að ökumælar skuli settir á kostnað eigenda í bifreiðar sem nota annan orkugjafa en bensín, svo og festi- og tengivagna, og að greiða skuli fyrir slíkar bifreiðar og festi- og tengivagna sérstakt gjald fyrir hvern ekinn km samkv. ökumæli. Kemur gjald þetta í stað árlegs þungaskatts samkv. 5. gr. þegar bifreiðar eiga í hlut.“

Ákvæði sambærilegt þessu hefur verið í lögum allt frá 1970, sbr. 2. mgr. 87. gr. vegalaga, nr. 23/1970, og síðar 7. gr. laga nr. 79/1974, áður en henni var breytt með lögum nr. 78/1977. Í þessu sambandi er rétt að vekja sérstaka athygli á því — og bið ég nú hv. fyrirspyrjanda að taka vel eftir — að menn mega ekki rugla þessari heimild saman við hækkunarheimildir bensíngjalds og árlegs þungaskatts. Samkv. 4. mgr. 5. gr. laga nr. 78/1974, sbr. 4. mgr. 2. gr. laga nr. 78/1977, er heimilt að hækka grunntaxta bensíngjalds og árgjalds þungaskatts, eins og þeir eru ákvarðaðir í lögum í samræmi við hækkun byggingarvísitölu. Í þessum ákvæðum er hins vegar hvergi að finna takmörkun á eða leiðbeiningar um hvernig hækka skuli kílómetragjaldið, enda vandséð hvernig slíku verði við komið þegar grunntaxti þess hefur aldrei verið ákveðinn í lögum, andstætt því sem gildir um bensíngjald og árlegan þungaskatt.

Samkv. framansögðu er ljóst að heimild til hækkunar kílómetragjalds takmarkast ekki við þróun byggingarvísitölu. Að þessu athuguðu verður ekki séð að þessi seinasta ákvörðun kílómetragjalds sé ólögmæt þótt hún sé ekki alfarið miðuð við hækkun byggingarvísitölu. Ákvörðun sú sem hér um ræðir birtist í reglugerð nr. 4/1982. Samkv. reglugerðinni hækkaði kílómetragjaldið af bifreiðum, sem eru allt að 11 tonn að heildarþyngd, aðeins í samræmi við hækkun byggingarvísitölu. Af bifreiðum, sem eru þyngri en 11 tonn að heildarþyngd, var hækkunin hins vegar umfram hækkun byggingarvísitölu, mismunandi eftir þyngd. T. d. nemur umframhækkunin um 5% á 12 tonna bifreið, en er komin upp í 40% á allra þyngstu bifreiðar, þ. e. bifreiðar, sem eru 25 tonn.

Sjónarmið það, sem að baki þessari hækkun býr, er komið frá sérfræðingum okkar í vegagerð, en leitt hefur verið í ljós að tekjur Vegasjóðs af akstri þyngri bifreiða en 12 tonna nema einungis litlum hluta af þeim útgjöldum sem hann verður fyrir vegna aksturs þeirra, eða um 40% af þeim útgjöldum sem stafa af akstri slíkra bifreiða. Þær fara sem sagt miklu, miklu verr með vegina, þessar stóru og þungu bifreiðar, heldur en léttari bifreiðar. Þennan mismun er þó með þessari umframhækkun einungis verið að leiðrétta að nokkru leyti, því að ljóst er að þrátt fyrir þessa hækkun verður kostnaður Vegasjóðs og Vegagerðarinnar enn talsvert miklu meiri af akstri þessara þungu bifreiða, sem umframhækkunin nær til, en tekjur Vegasjóðs eru af akstri þessara bifreiða.

Að lokum er rétt að benda hv. fyrirspyrjanda og öðrum alþm. á það, að sú hækkun, sem hér hefur verið gerð að umtalsefni, sú sérstaka aukahækkun á þyngstu bifreiðarnar, er ekkert einsdæmi. Í því sambandi má benda á að í ársbyrjun 1978, í tíð ríkisstj. Geirs Hallgrímssonar, hækkaði kílómetragjald af öllum þyngdarflokkum gjaldskyldra bifreiða um tæp 83% þó svo að hækkun byggingarvísitölu á milli áranna 1977 og 1978 næmi aðeins tæpum 40%.

Hv. fyrirspyrjandi spurði að því, hvort þessi ákvörðun yrði endurskoðuð. Ég verð að svara þeirri spurningu neitandi. Það er ljóst að ekkert í lögum hindrar að þessi ákvörðun sé tekin á þann veg sem hún var tekin.

Loks er rétt að benda hv. þm. á það, sem allir gera sér kannske ekki grein fyrir og greinilega ekki hv. fyrirspyrjandi, enda kannske ekki von því að um það var svo sem ekki mikið rætt þegar fjárlögin voru afgreidd í des. 1982 og ekki eðlilegt kannske að menn átti sig á hverri einustu tölu sem þar birtist, en staðreynd er að þessi hækkun kemur fram í fjárlagatölunum. Það var gert ráð fyrir þessari hækkun við afgreiðslu fjárlaga ársins 1982.