07.05.1982
Neðri deild: 88. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 4901 í B-deild Alþingistíðinda. (4673)

90. mál, Hæstiréttur Íslands

Friðrik Sophusson:

Herra forseti. Á þskj. 817 er nál. frá meiri hl. allshn. Nd. og á því þskj. kemur fram að ég hef skrifað undir meirihlutaálit með fyrirvara, en í því áliti er lagt til að frv. verði samþykkt. Þetta frv. var fyrst afgreitt í Ed. og þar voru gerðar breytingar á frv. Vil ég þá sérstaklega geta um þá breytingu sem gerð var á 3. gr. frv. og mér finnst vera harla einkennileg, en þar segir, að dómarar skulu taka sæti í dómum eftir röð sem ákveðin er með almennri reglu. Mér finnst þetta ákvæði nokkuð skringilegt og þurfa að skýrast. Skýringar hafa ekki fengist og óvíst er hvernig slík regla yrði í framkvæmd.

Í öðru lagi er að finna í frv. bráðabirgðaákvæði þar sem segir að árin 1982 og 1983 geti dómsmrh. samkv. till. Hæstaréttar sett 2–3 dómara úr hópi þeirra manna, sem greindir eru í sjálfum lögunum, til viðbótar hinum reglulegu dómurum allt að 6 mánuðum hvert ár. Þetta ákvæði hefur verið gagnrýnt af ýmsum sem telja að það sé vafasamt að þetta ákvæði standist ákvæði stjórnarskrár. Á það skal ég ekki leggja dóm, en hygg að þannig sé að þessu frv. staðið að það mál hafi verið skoðað gaumgæfilega. En fyrirvari minn byggist þó fyrst og fremst á því, að á því hefur nokkuð borið í umr. um þetta mál að bent er á að samþykkt þessa frv. geti leitt til þess, að hugmyndinni um svokallaða lögréttu verði útskúfað. Ég vil taka skýrt fram að þótt ég greiði þessu frv. atkv. mitt tel ég að sú hugmynd sé í fullu gildi og það hljóti að gerast, að hæstv. dómsmrh. leggi fram frv. til laga um lögréttu þegar á næsta þingi, enda er þar um nauðsynjamál að tefla. Reyndar má geta þess, að á þskj. 386, sem er nál. allshn. Ed., kemur fram að sá skilningur hafi einnig ráðið ríkjum í þeirri hv. nefnd. Til þess að hægt sé að nýta heimildir í þessu frv., þ. e. að ráða að réttinum hæstaréttardómara og annað löglært starfsfólk sem Hæstiréttur hefur heimild til að ráða samkv. fjárlögum, þá tel ég fulla ástæðu til að greiða fyrir þessu frv. og mun þess vegna greiða atkv. með því þegar það kemur hér til atkvæða á eftir.