07.05.1982
Neðri deild: 88. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 4902 í B-deild Alþingistíðinda. (4674)

90. mál, Hæstiréttur Íslands

Frsm. minni hl. (Vilmundur Gylfason):

Herra forseti. Um þetta mál hafa nú þegar orðið verulegar umr. hér í deildinni. En efnislega langar mig þó til að vekja enn athygli á nokkrum aðalatriðum þessa máls. Það, að málahali sé í réttarkerfinu, ýmist á lægri stigum dómskerfisins eða því efsta, það er ekkert nýtt og það er ekki að gerast nú á árinu 1982 í fyrsta skipti. T. d. uppgötvuðu menn þetta líka á árinu 1979 og þá brugðu menn á leik og fundu þá lausn að fjölga hæstaréttardómurum um einn, úr 6 í 7. Nú skulu menn líta í kringum sig. Reyndist þetta vera lausn? Það getur varla verið af þeirri einföldu ástæðu að málahalinn hefur ekki styst síðan þá, heldur hefur hann þrefaldast. Þessi einföldu sannindi ættu að nægja til að undirstrika það, að menn eru á rangri leið þegar þeir eru nú enn að leggja til fjórfalda þá lausn sem þeir lögðu til og framkvæmdu raunar fyrir tveimur árum. Þetta frv., eins og það kemur frá ráðh., þó að það sé raunar hér og þar í frv., það er, þegar saman er dregið, fjölgun um 4 hæstaréttardómara. Rétturinn getur framkvæmt þetta þannig að verið sé að fjölga þeim um 4, úr 7 í 11.

Nú skyldi ég fyrstur manna taka undir þessa leið ef við hefðum reynslu fyrir því, að þetta væri lausn á þeim vanda sem vissulega er til staðar og allir viðurkenna. En sannleikurinn er sá, að við höfum reynslu um hið gagnstæða. Þessi leið hefur ekki reynst vera til þess fallin að létta á réttinum. Og hér var því lýst áðan, m. a. af frsm. meiri hl. n., hv. 5. þm. Norðurl. v., að í framtíðinni teldi hann að það ættu að vera 7 dómarar í Hæstarétti. Ég vil raunar ganga lengra. Ég tel að hin rétta framtíðarskipan sé sú, að þeir séu ekki nema 5. Þá gef ég mér það, að lögréttan verði orðin að veruleika, því að við megum ekki gleyma því, hvaða hlutverki Hæstiréttur hefur að gegna í okkar stjórnkerfi. Hann er auðvitað dómur, en í raun eðli málsins samkv. fer hann með hluta af löggjafarvaldinu í þeim skilningi, að hann segir lögin, hann sker úr hvað séu lög sé að einhverju leyti óskýrt hvað fyrir löggjafanum hefur vakað eða rísi um það ágreiningur á milli þegnanna í landinu. Þess vegna er afar mikilvægt að menn átti sig á því, að það er ekki tilviljun að milljónaþjóðir eru með fámennan hæstarétt. Það er til þess að þeir úrskurðir sem hér er um að ræða og skipta auðvitað miklu máli, séu kveðnir upp með einni rödd og það sé einn úrskurður, réttareining eins og það heitir á máli löglærðra manna.

En hér er verið að leggja til allt annað. Það er verið að leggja til dóm sem fræðilega talað getur starfað í þremur dómum, það geti samtímis verið starfandi þrír mismunandi æðstu réttir í landinu. Þeir geta setið hver í sínu herbergi og komist að gagnstæðri niðurstöðu í sama máli eða máli svipaðs eðlis. Það er þessi hugsun sem mér finnst að menn hafi ekki nógsamlega gert sér grein fyrir.

Hæstv. dómsmrh. mótmælti áðan þeim orðum mínum, að verið væri að gera róttæka eðlisbreytingu á réttinum. Ég verð því miður að ítreka þá skoðun mína, að hans skilningur í þessum efnum er að ég held ekki réttur. Auðvitað er það rótæk eðlisbreyting þegar um er að ræða æðsta dómstólinn í landinu, að hann geti starfað sem þrír dómstólar, samstæðir dómstólar á sama tímanum og verið að komast að sitt hvorri niðurstöðunni í sama málinu eða máli svipaðs eðlis. Þetta er ástæðan fyrir því, hvernig með þessa hluti er farið í öðrum löndum. Má t. d. vísa til hliðstæðrar stofnunar í Bandaríkjunum og mætti raunar hafa um það langt mál.

Málið er það, að það er ekkert nýtt að þessi málahali í Hæstarétti valdi áhyggjum. M. a. var það svo, að á árunum 1975 og 1976 urðu, eins og einhverjir muna kannske, mjög veruleg blaðaskrif um dómskerfið hér, án þess að ég fari að rifja upp þá þætti sem mesta athygli vöktu á sínum tíma, enda kemur það þessu máli ekkert við. Þá var hins vegar mjög þung undiralda. Það var uppi gagnrýni, ekki síst á uppbygginguna og á þann seinagang sem kemur auðvitað ekki við bara málunum sjálfum, heldur öllum eftirleiknum, refsilöggjöfinni o. s. frv.

Ég held að þáv. dómsmálayfirstjórn hafi svarað þessu mjög skynsamlega. Það hófst mjög verulegt umbótaskeið á árunum 1976 og 1977. Eitt dæmi um það er rannsóknarlögregla ríkisins, sem þá var sett. Og á þessum tíma réð þáv, hæstv. dómsmrh. til sín aðstoðarmann mjög röskan, Eirík Tómasson, og ég hygg að hann hafi unnið mjög gott starf til þess að reyna að leysa úr vandamálum. Eitt af því, sem út úr þessu starfi kom, var frv. til l. um lögréttu sem hér var lagt fram í fyrsta skipti 1976. Það eru 6 ár síðan. Þar er um að ræða lausn sem raunverulega snertir grundvallarvandann sem við er að etja. En það kemur í ljós, þegar skoðaðar eru umr. um þetta, að þá hafa menn oft staldrað við og horft í kostnaðinn og gerðu það í sambandi við lögréttuna. Menn hafa talað um að þegar farið væri af stað væru á bilinu 10–15 dómarar þar til að byrja með. En hér eru menn að sporðrenna 4 hæstaréttardómurum án þess að spurt sé um kostnað. Kostnaðurinn, sem af því mundi leiða, ætli hann sé ekki helmingur eða kannske þriðjungur af því sem mundi kosta að koma lögréttunni af stað?

Ég held að það sé öllum ljóst, að verði af þessari fjölgun, verði Hæstarétti gerbreytt eins og hér er verið að leggja til, þá kemur vitaskuld engin lögrétta, ekki á næsta ári og ekki þar næsta, því að menn munu segja: Nú er nóg að gert í bili. Átökin um þetta mál eru auðvitað öðrum þræði og fyrst og fremst átök um það, hvort menn vilja framkvæma lögréttuhugmyndina og setja peninga í lögréttu í staðinn fyrir þetta eða vilja menn kasta henni fyrir róða. Það er af þeirri ástæðu sem menn hér líta þetta mál svo alvarlega og setja sig svo hart á móti því, af þeirri einföldu ástæðu að verði þetta frv. samþykkt verður engin lögrétta í næstu framtíð.

Hæstv. dómsmrh. Friðjón Þórðarson situr þriðja þingið sem ráðherra. Lögréttan er ekki komin enn. Hann svarar því hér aðspurður, að hún muni koma líka. En hafi menn haft á móti henni af kostnaðarástæðum, eins og var t. d. þegar hæstv. þáv. ráðh. Ólafur Jóhannesson mælti fyrir henni, hvað þá nú þegar búið er að auka kostnað við Hæstarétt um helming. Það er nú einu sinni svo, að það er takmarkað fjármagn sem menn hafa hér úr að spila, og ég spái því og þykist geta gert það með töluverðri vissu og nokkrum rétti, að verði þetta frv. samþykkt er lögréttan úr sögunni um langa framtíð. Það er kjarni þessa máls.

Hér hefur verið vísað í langar greinargerðir og umsagnir. Það eru einkum yngri lögfræðingar sem hafa sett sig mjög á móti þessu frv. um fjölgun dómara í Hæstarétti. Eitt af því, sem þeir nefndu, var að ákvæði til bráðabirgða jaðraði við það að vera stjórnarskrárbrot. Ég vil ekki gera þau orð að mínum, enda er þar auðvitað stórt sagt. En ég gat þess í minni framsöguræðu fyrir nál., hvað við er átt í þeim efnum, og vil árétta það enn. Þá eru menn að segja að ef það eru þrír dómarar í Hæstarétti sem ráðnir eru aðeins til tveggja ára, þá kemur að því á þeim ferli, að þeir eiga ekki eftir nema 4 mánuði af ráðningartíma sínum, og stjórnarskráin gerir ráð fyrir að dómarar séu engum og engu háðir nema sjálfum sér. En við þessar aðstæður verða þessir lausadómarar í Hæstarétti háðir framkvæmdavaldinu með áframhald um starf sitt, hvort af því verður eða ekki, og mjög eðlilegt er að menn veki á því athygli, að — við skulum segja að þetta jaðri við að vera stjórnarskrárbrot.

Það er auðvitað mikið í húfi að friður sé um stofnun eins og Hæstarétt Íslands, og þar sem svo er verða menn auðvitað að hugsa mjög vel sinn gang áður en þeir samþykkja lög sem menn hafa sagt — kannske með réttu, en ég hef fyrirvara á því — að feli í sér stjórnarskrárbrot. Þetta eru samandregin meginrök sem menn hafa flutt gegn þessu frv.

Það var svo að í hv. Ed. voru fluttar margar brtt., allt frá því að lagt var til m. a. af hv. þm. Eiði Guðnasyni að 1. gr. frv. yrði felld, hún er um hina föstu fjölgun, og menn höfðu einnig aths. við ákvæði til bráðabirgða um lausadómara sem og um fleiri þætti frv. Fari svo engu að síður að þessu frv. verði ekki vísað til ríkisstj., þá er auðvitað eðlilegt að við 3. umr. þessa máls reyni menn að endurflytja þær brtt. við frv. sem menn fluttu í hv. Ed.

Ég vil svo aðeins að lokum, herra forseti, undirstrika það mjög rækilega, sem hæstv. dómsmrh. mótmælti raunar áðan, en að minni hyggju mjög ranglega, að verði þetta frv. að lögum erum við búnir að búa til nýjan hæstarétt sem er allt öðruvísi en sá sem fyrir var. Þá er þetta orðinn ekki einn dómur, ekki ein rödd, ekki ein eining, heldur er þetta orðið margir dómar sem í vaxandi mæli fara að komast að niðurstöðu með þeim hætti. Það er auðvitað eðlilegt að ráðh. út af fyrir sig mótmæli þessu því að ég trúi ekki að hann eða nokkur maður annar ætlist til þess. En þá verða menn að skoða framhaldið, hvernig þetta kemur til með að gerast og hvernig Hæstiréttur kemur til með að starfa í raun. Segir það sig ekki sjálft, að þegar dómararnir eru orðnir 11, þá búum við til marga litla dóma? Ég undirstrika það enn, að það er ekkert sem kemur í veg fyrir að í hliðstæðum málum séu starfandi hér tveir dómar og komist að sitt hvorri niðurstöðunni í sams konar málum. Hvað er það annað en umsnúningur á allri hugmyndinni um æðsta dómstigið í landinu. Það er þetta sem er kjarni málsins.

Ég vil biðja hv. alþm. að íhuga þetta mál mjög vandlega áður en til atkvgr. kemur til þess að mönnum sé nákvæmlega ljóst hvað þessi breyting hefur í för með sér ef að lögum verður.