10.11.1981
Sameinað þing: 17. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 610 í B-deild Alþingistíðinda. (469)

Umræður utan dagskrár

Guðrún Helgadóttir:

Herra forseti. Ég vil í fyrstu vekja athygli hv. alþm. á þeim vinnubrögðum sem nú hafa verið allsráðandi hér um skeið, sem eru umr. utan dagskrár næstum hvern einasta dag. Svo er komið að þm. ættu fremur að huga að því að morgni hvaða mál séu utan dagskrár, en hver dagskráin sé, ef þeir vilja undirbúa málflutning sinn. Þm. bíða vikum saman eftir að flytja framlögð mál, en hvers kyns mál utan dagskrár hafa forgang. Hljóta hv. þm. að velta því fyrir sér, hvort framlögð mál ráðh. séu svo lítils verð að forsetar telji að þau megi verða eftir í þinglok.

Hér hefur hv. 1. þm. Reykv. hafið umr. um utanríkismál daginn eftir að hún tók sæti hér á þinginu. Er svo sem ekki neina gott um það að segja ef ekki væri til þess að ráðast á friðarhreyfingar í heiminum. Aðdáun mína á hún þó óskipta fyrir að lesa Sovétfréttir. Líklega er hún eini hv. þm. sem gerir það.

En smám saman lærist þm. að spyrja hvað sé utan dagskrár, og nú skal hv. 1. þm. Reykv. sannarlega fá sína ræðu. (Gripið fram í: Er þetta um þingsköp?) Nei, raunar ekki. Utanríkismál Íslendinga verða reyndar aldrei of oft rædd hér á hinu háa Alþingi og afvopnunarmálin eru raunar þeirra merkust.

Íslendingar hafa um áratuga skeið látið sig hafa það að vera — má ég biðja um hljóð í salnum á meðan ég les þingheimi ræðu mína — að vera einn mikilsverðasti hlekkurinn í vígbúnaðarkerfi Bandaríkjanna á Norður-Atlantshafi, þó að sérhver Íslendingur lifi í þeirri trú að við séum friðelskandi þjóð og andvíg öllum vopnabúnaði. Þátttaka Íslendinga í NATO og vera bandarísks setuliðs á íslensku landi er sorgarsaga sem óþarft er að rekja hér, enda orðin til fyrir tilverknað hins háa Alþingis sjálfs þrátt fyrir harða baráttu fjölda Íslendinga gegn þeim ákvörðunum. Þó að illa hafi gengið að gera íslenskum almenningi skiljanlegt mikilvægi herstöðvarinnar fyrir erlend stórveldi, og þá einkum vegna áratugalangra fréttafalsana útbreiddasta dagblaðs landsins, Morgunblaðsins, um að herstöðin væri hér til verndar Íslendingum, er nú svo komið að flestum er sú rangtúlkun þó ljós.

Mönnum hefur loks skilist að NATO-ríkin muni ekki skirrast við að nota Ísland sem hreiður fyrir kjarnorkuvopn hvenær sem þeim sýnist svo, til árásar á önnur stórveldi komi til átaka, með þeim afleiðingum sem hver maður getur gert sér í hugarlund. Bandaríkjamönnum hefur ekki orðið skotaskuld úr því fyrr að útrýma stórum hluta íbúa smáríkja sé hagsmunum þeirra ógnað. Nægir þar að nefna styrjöldina í Víetnam.

Hæstv. utanrrh. talaði áðan um að herstöðin í Keflavík og væntanlega á Stokksnesi væru eftirlitsstöðvar. Ég hlýt að spyrja hæstv. utanrrh. hvers vegna í ósköpunum hin Norðurlöndin hafi ekki komið sér upp slíkum eftirlitsstöðvum.

Í Noregi hefur mönnum smám saman orðið ljósara hvers konar brjálæði vígbúnaðarkapphlaup stórveldanna er. Áform Bandaríkjastjórnar um að tengja Noreg að enn frekara leyti við kjarnorkuvopnakerfi sitt á Norður-Atlantshafi með birgðastöðvum fyrir bandarískar íhlutunarsveitir og flugvöllum fyrir kjarnorkusprengjuvélar hafa skotið mönnum þar í landi skelk í bringu og orðið eitt mesta hitamál innan norska Verkamannaflokksins. Hópur manna undir stjórn hins kunna norska stjórnmálafræðings Jens Evensens hóf umræður um þessi mál upp yfir hversdagslega flokkspólitík og vakti athygli á nauðsyn þess, að Norðurlöndin yrðu lýst kjarnorkuvopnalaust svæði. Verkalýðsleiðtogar í Noregi fylktu sér undir þennan fána, og hefur hinn svokallaði Evensens-hópur gefið út merka bók sem kalla má á íslensku „Kjarnavopn og öryggisleysisstefna“. Er þar vakin athygli á að baráttan gegn kjarnorkuvopnum og fyrir afvopnun sé mikilvægasta mál stjórnmálamanna í heiminum og geti þar verið um líf mannkynsins að tefla.

Hugmyndin um kjarnorkuvopnalaus Norðurlönd er þó eldri en þetta. Henni var fyrst haldið á loft af Kekkonen Finnlandsforseta. En það var ekki fyrr en NATO fór að ræða nauðsyn þess að setja niður Pershing II eldflaugar víða um Evrópu að menn tóku að ugga að sér. Það háði hugmyndum Kekkonens að menn tortryggðu samband Finna við Sovétríkin, og jafnframt bættist við óttinn við SS-20 eldflaugar Sovétmanna, sem þeir beindu í auknum mæli til Evrópu. Ljóst var einnig að menn hlytu að gera kröfu til að herstöðvar á Kólaskaganum yrði að leggja niður.

Í bókina „Kjarnorkuvopn og öryggisleysisstefna“ ritar auk Evensens fólk á boð við Ölvu Myrdal, Einar Gerhardsen og fjölda virtra sósíaldemókrata á Norðurlöndum. Öll umræða um þessi mál hefur tekið stakkaskiptum með þessari bók.

Á friðarráðstefnu á Álandseyjum s. l. sumar fluttu fyrirlestra Johan Gattung prófessor við háskóla Sameinuðu þjóðanna í Genf, Jytte Hilden þm. sósíaldemókrata í Danmörku, Eva Nordlund dósent við Oslóar-háskóla og einn af leiðtogum friðargöngunnar s. l. sumar, Harald Ofstad prófessor í heimspeki við Oslóarháskóla, Maj-Britt Theorin þm. jafnaðarmanna í Svíþjóð, Göran von Bondsdorf prófessor í stjórnmálafræðum frá Finnlandi og Itka Pyhetela aðalritari félags Sameinuðu þjóðanna í Finnlandi. Ráðstefna þessi var í raun haldin að frumkvæði lítils hóps áhugamanna um friðarmál, en svo fór að þangað flykktust margir virtustu stjórnmálamenn og vísindamenn Norðurlanda. Öllu þessu fólki er ljós alvara þessa mikla máls.

Íslendingar tóku þátt í lokasamþykkt 10. aukafundar Allsherjarþings Sameinuðu þjóðanna, um afvopnunarmál, 23. maí — 30. júní 1978. Lokasamþykktin var gerð samhljóða og íslenska ríkið skyldi þar með kynna sérstaklega niðurstöðu fundarins. Ætti margir Íslendingar viti að í 33. gr. samþykktarinnar standa þessi orð, með leyfi forseta: „Ákvarðanir um stofnun kjarnorkuvopnalausra svæða með samningum eða reglum, sem af frjálsum vilja takast með ríkjum á viðkomandi svæði, og eftirlit með þessum samningum til þess að tryggja að svæðin séu í raun án kjarnorkuvopna.“ — Virðing fyrir þessum svæðum er mikilvægt framtak í afvopnunarmálum. Í 58. 64. gr. er fjallað um kjarnorkuvopnalaus svæði. Í 61. gr. er því slegið föstu, að hvetja beri til þess, að unnið sé að því að stofna slík svæði með það lokamarkmið fyrir augum að heimurinn verði án kjarnorkuvopna.

Ekkert er mikilvægara okkur Íslendingum nú en að sameinast um kröfu Norðurlandabúa um kjarnorkuvopnalaus Norðurlönd og afnám kjarnorkuvopna. Stórveldin munu hvert um sig reyna að hafa áhrif í þá veru að jafnvægi óttans verði að viðhalda. Enn einu sinni hefur sannast hversu mikið mark er á yfirlýsingum stórveldanna takandi. Sovétmenn hafa kallað Eystrasaltið haf friðarins. Á þessu friðarins hafi villist hrörlegur kafbátur upp í sænska skerjagarðinn með kjarnorkuvopn innanborðs. Vitanlega eru Svíar felmtri slegnir og raunar næstu nágrannar þeirra líka. Þessi atburður ætti, ef Íslendingar ætla ekki að halda áfram að vera börn í utanríkismálum sínum, að vekja þá spurningu á allra vörum, hvort yfirlýsingar Bandaríkjanna um, að enginn kjarnorkuvopn séu á, yfir eða kringum íslenskt land, séu viðlíka marktækar? Ég hlýt fyrir mitt leyti að draga það mjög í efa.

Menn hafa talað hér um njósnir og hvernig bregðast skuli við njósnum. Hvað halda menn að sendiráð Bandaríkjanna og útsendarar NATO séu að gera hér í tugatali? Hvað halda menn að sovéska sendiráðið sé að reyna að gera þegar það er að bjóða heim hinum og þessum íslenskum stjórnmálamönnum og flaðra upp um þá? Hvers vegna fá ekki íslenskir menn að fara til Bandaríkjanna óáreittir og fá vegabréf þó að þeir séu ekki hlynntir NATO?

Menn tala hér um fjárstuðning við friðarhreyfingar. Mér vitanlega er engin friðarhreyfing hér í landi orðin til á borð við ýmsar þær sem nú hafa verið stofnaðar erlendis. Ekki hef ég hugmynd um hvort Menningar- og friðarsamtök íslenskra kvenna hafa einhvern tíma fengið peninga frá útlöndum. Aldrei hef ég þó orðið vör við það og hef verið félagi í þessum samtökum mjög lengi. En ég man ekki betur en að fyrir nokkrum árum viðurkenndu íslenskir jafnaðarmenn að þeir hefði þegið peninga frá „kollegum“ sínum í Svíþjóð. Ég hef ekki heyrt hingað til að draga eigi þá fyrir lög og dóm fyrir það.

Síðan hafa menn farið að tala hér um , opinberar heimsóknir og ætlað að fara að nudda mönnum upp úr því að hafa farið á vegum opinberra aðila í Sovétríkjunum í heimsókn. Það liggur við að mig langi til að biðja þá menn að rétta upp höndina sem það hafa gert. Ég hygg að þeir séu æðimargir. Því miður hefur ræðumanni aldrei verið boðið það. Annars geri ég fastlega ráð fyrir að ég hefði þegið það góða boð. Við höfum enn þá ekki slitið stjórnmálasambandi við Sovétríkin og ég hygg að það standi í ýmsum hér þar sem Sovétmenn eru, svo vitað sé, einu mennirnir sem enn þá fást til að borða þann skelfilega mat sem heitir grálúða. Ég hygg að menn vilji gjarnan selja þeim hana áfram.

Nei, hræsnin hér ríður ekki við einteyming. Ég veit ekki betur en hv. þm. og fyrrv. borgarstjóri í Reykjavík hafi farið, að ég held tvisvar í opinbera heimsókn til Sovétríkjanna. Borgarfulltrúinn Davíð Oddsson og borgarfulltrúinn Björgvin Guðmundsson fóru þangað s. l. sumar og létu vel af.

Þessi umr. á ekki að fara fram á þessu stigi. Alþingi Íslendinga ætti sem allra fyrst að lýsa því afdráttarlaust yfir, að það sé gegn vilja ríkisstjórnarinnar að Ísland verði nokkru sinni notað í þágu nokkurs stórveldis til eyðileggingar og mannvíga. Nútíma hernaðartækni gerir allar yfirlýsingar um vernd landsmanna hlægilegar. Hv. 1. þm. Reykv. er sennilega einasti þm. í veröldinni sem enn þá talar á þessum nótum um svo alvarlegt mál.

Íslandi stendur ógn af veru herstöðvarinnar í Keflavík og á Stokksnesi,— ógn sem menn beinlínis veigra sér við að hugsa um. En við hér á hinu háa Alþingi erum til þess kjörin að hugsa um framtíð lands og þjóðar og getum ekki skotið okkur undan því. Sá dagur verður að rísa, að Íslendingar gangi úr NATO og vísi bandarískum herstöðvum burt af landinu og lýsi yfir hlutleysi þjóðarinnar um alla framtíð. Fáfræðihjal um þessi mál á Alþingi Íslendinga er vanvirða við þjóðina.