07.05.1982
Neðri deild: 89. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 4916 í B-deild Alþingistíðinda. (4706)

90. mál, Hæstiréttur Íslands

Frsm. minni hl. (Vilmundur Gylfason):

Herra forseti. Við lok 2. umr. um þetta frv. hafði ég kvatt mér hljóðs, en forseti þessarar virðulegu deildar, sem er í hvívetna sanngjarn maður og gegnir, hygg ég, hlutverki sínu yfirleitt með reisn og sóma, þóttist ekki taka eftir því og sleit umr. Þetta held ég að hafi verið mjög óvenjuleg afgreiðsla af hans hálfu. Ég er sannfærður um að þetta hefði forsetinn ekki leyft sér hefði hann verið stjórnarsinni. Þetta er enn eitt vandamálið sem upp kemur af þeim sökum, því að um þetta mál var ýmislegt ósagt.

Eins og fram hefur komið er Hæstiréttur Íslands ekki nein venjuleg stofnun í stjórnkerfinu. Við erum hér að fjalla um æðsta dómsvaldíð, æðsta stig dómsvaldsins, og ég vil leggja á það áherslu, að þegar þetta frv. var samþ. eftir 2. umr. var það gert af minni hl. deildarinnar, atkv. voru 19:17, og það skiptir máli. Við þessar aðstæður, satt að segja, og eins og umr. um þetta hafa þróast er mér ekki alveg ljóst hvers vegna ríkisstj. og ráðh. þessara mála leggja slíka ofuráherslu á að fá þetta frv. samþykkt, vegna þess að það er deginum ljósara að hér er um að ræða miklu meiri og djúptækari grundvallarbreytingu á þessu kerfi heldur en menn hafa viljað vera láta.

Í ljósi þess vil ég minna á að það voru fluttar ýmsar brtt. við þetta frv. í hv. Ed., m. a. af hv. þm. Eiði Guðnasyni. Hann lagði til að 1. gr. frv. um fjölgunina úr 7 í 8 yrði felld, og það hefði strax verið til mikilla bóta. Hv. þm. Karl Steinar Guðnason og Eiður Guðnason gerðu till. um nýja grein, svohljóðandi, með leyfi hæstv. forseta:

Dómsmrh. ákveður að fengnum tillögum Hæstaréttar hvaða tíma dags halda skuli dómþing svo og hvenær þingleyfi skuli vera. Þingleyfi skulu þó aldrei vera lengri en 6 vikur.“

Þessi breyting hefði einnig orðið til mikilla bóta þó hún snerti kannske ekki aðalatriði þessa máls.

En veigamest kannske og það sem kemur til að valda mikilli grundvallarbreytingu á réttinum og fjölmargir, einkum yngri menn úr dómarastétt, hafa tekið mjög stórt upp í sig um er ákvæðið til bráðabirgða sem gert er ráð fyrir í frv. Í þessu ákvæði til bráðabirgða segir að árin 1982 og 1983 — ég les með leyfi hæstv. forseta: „getur dómsmrh. samkv. till. Hæstaréttar sett tvo til þrjá dómara úr hópi þeirra manna, sem greindir eru í 1. mgr. 5. gr. laga nr. 75/1973, til viðbótar hinum reglulegu dómurum allt að 6 mánuðum hvort ár.“

Hér skulum við staldra við. Ég hef núna, eins og hlýtur að vera ljóst af því máli, sem flutt hefur verið við fyrri umr. þessa máls, flutt og freistað þess nú við 3. umr. málsins að koma í veg fyrir að þetta voðaverk verði unnið á Hæstarétti landsins. Brtt., sem var samin í flýti fyrir hálftíma, er einföld. Hún er um það, að þetta ákvæði til bráðabirgða falli niður.

En af hverju hafa menn lýst áhyggjum um þetta ákvæði? Jú, það er vegna þess að það er grundvallarregla í réttarfarinu, hún á að vera tryggð í stjórnarskrá, að dómarar séu engum háðir nema sjálfum sér, að það sé ekki hægt að beita dómara ytri þrýstingi. Þetta á auðvitað hverjum manni að vera ljóst. Menn segja um þetta ákvæði að nái það fram að ganga verði stór hluti af réttinum, 3 menn, skipaður mönnum sem eru skipaðir takmarkaðan tíma og eiga undir framkvæmdavaldið að sækja um áframhaldandi störf. Menn hljóta að skilja og menn verða að skilja af hverju stór hópur manna úr dómara- og lögfræðingastétt hefur látið í ljós miklar áhyggjur um þetta atriði. Við verðum í réttinum komnir með lausa dómara, þ. e. menn sem eru ekki í föstu starfi. Þeir eiga að vera sjálfstæðir og þeir eiga að vera óháðir, en í næsta húsi við þá situr einstaklingur sem hefur framkvæmdavaldið í þessum málaflokki, og hann hefur í höndum sér hvort þeir starfi áfram eða verði settir út á klakann. Þrátt fyrir sérstöðu Hæstaréttar og alla þá virðingu, sem honum vissulega ber, eru hæstaréttardómarar þó ekki nema mennskir menn sem m. a. þurfa að hafa áhyggjur af daglegu lífi, af brauðöflun og húseignum sínum, eins og við hin, af starfi sínu, af launakjörum sínum. Eins og hugsunin um Hæstarétt er, þá er reynt að ganga svo frá slíku, t. d. með góðum launakjörum sem er sjálfsagt, til þess að viðkomandi sé engum háður nema sjálfum sér. Í þessu ákvæði til bráðabirgða er verið að kollvarpa þessari grundvallarhugsun.

Ég hef við fyrri umr. og áður í þessu máli ekki viljað nota stór orð og ekki viljað taka undir þær gagnrýnisraddir fjölmargar, að hér sé beinlínis um stjórnarskrárbrot að ræða. En ég minni aðeins á að löglærðir menn, sem eru þekktir að öðru en hafa óvandað orðfæri, hafa notað þetta orð, og ég held nú að a. m. k. þegar á þessa umr. hefur liðið og menn hafa verið að velta þessu betur fyrir sér, þá hljóti menn að vera mér sammála um að þessi gagnrýni er a. m. k. í hæsta máta eðlileg.

Það verður að segja það einu sinni enn, að Hæstiréttur Íslands er ekki eins og hver önnur stofnun í stjórnkerfinu. Það er ekki svo að við séum að tala hér um hvert annað ríkisfyrirtæki. En því miður, gallinn við þetta frv. í heild sinni, hugsunin á bak við það og þó sérstaklega það ákvæði, sem ég hér hef gert að umræðuefni, er sá, að hér er verið að afgreiða Hæstarétt eins og hverja aðra ríkisstofnun. Ég veit ekki hvort menn vita það hér, en það kom fram á nefndarfundum, því að það vantaði ekki að menn lágu yfir þessu máli og skoðuðu það afar vandlega, að Hæstiréttur landsins hefur aðeins einn löglærðan aðstoðarmann. Mér skilst að það sé eitt og hálft starf fyrir vélritun. Menn hafa stundum sagt og einn af þeim, sem til nefndarinnar komu, orðaði það svo, þegar hann var að fara yfir þetta svið dómsmála, að við byggjum við miðaldafyrirkomulag. Það eru auðvitað stór orð. Það er svo um sýslumenn og það kerfi að sami einstaklingurinn fer með framkvæmdavald og dómsvald. Þetta er auðvitað allt saman arfur frá gamalli tíð og röksemdir sem við þekkjum aftur á bak og áfram. En því má bæta við, að þegar nm. grennsluðust eftir starfsaðstöðu í Hæstarétti áttu menn nánast ekki orð.

Úr því að menn eru að bæta við fjármagni og nota skattpeninga, ríkisfjármagn, til að bæta aðstöðu Hæstaréttar og bæta við 4 dómurum, gera hæstaréttardómara 11, gera grundvallarbreytingar og stefna réttarkerfinu í landinu í stórhættu, væri þá ekki nær að nota þessa peninga til þess að bæta starfsaðstöðu réttarins, til þess að útvega honum löglærða aðstoðarmenn? Ráðherrar eru komnir með sína aðstoðarmenn eins og eðlilegt er og er ekkert við að athuga. Þeir hafa undir sér stór rn. til þess að vinna verk, semja frv. og annast framkvæmd þeirra lagabókstafa sem héðan út ganga. En í Hæstarétti er rekin gamaldags skrifstofa vegna þess að þessum málum hefur ekki verið sinnt.

Ég vil koma þeirri skoðun að við þessa umr., að í fyrsta lagi væri nóg að hafa 5 hæstaréttardómara. En aðstaða þeirra þarf að vera öll önnur heldur en hún er. Þeir þyrftu að taka tæknina í sína þjónustu í sambandi við tölvur í auknum mæli, og vitaskuld ættu þeir að hafa aðstoðarmenn við undirbúning mála. Ég hygg að það væri hægt að nota sama fjármagn og hér er verið að leggja til að eyða miklu betur og miklu skynsamlegar með þeim einföldu breytingum að auka við aðstoðarmönnum og bæta aðstöðuna að öðru leyti. Þó svo það væri spor í rétta átt mundi það ekki leysa þann grundvallarvanda sem við erum að tala um og fást við.

Sá grundvallarvandi er vissulega til og er búinn að vera lengi. Hann byggist á því, að mikill málafjöldi hefur hlaðist upp. Fyrir ekki mörgum árum var þetta raunar frekar vandamál á lægri dómsstigum heldur en þarna, og eins og við erum margbúnir að benda á, við sem höfum verið að andæfa gegn þessu frv. hér, er lausnin á þeim vanda allt annars staðar. Hún er fólgin í því að koma hér á annars konar dómstigi, lögréttudómstigi.

Það er enn eitt sem ég vil mjög leggja áherslu á, og það er að nákvæmlega sama vandamál kom upp með nákvæmlega sama hætti hér fyrir þrem árum, 1979. Þá var sagt að það væri of mikið álag á Hæstarétti og of mikill málafjöldi þar. Og ekki skal úr því dregið, að það hafi verið rétt. Það var komið til þingsins rétt fyrir þinglok og hraðafgreitt hér frv. um fjölgun hæstaréttardómara úr 6 í 7. Við vorum ýmsir sem höfðum miklar efasemdir þá um þetta, en tókum engu að síður þátt í að afgreiða það. Ég vek athygli á því, að nú spyrja menn: Leysti það einhvern vanda? Hefur halinn styst? Hefur málabunkinn uppi í Hæstarétti minnkað við þetta? Svarið er nei, hann hefur aukist. 1979 fóru menn úr 6 í 7. Nú eru menn að fara úr 7 í 11 raunverulega. Auðvitað er fullkomlega eðlilega sagt, eins og hv. 5. þm. Vestf. gerði hérna, að menn skyldu reikna hvernig verði um aldamót að því er þetta varðar.

Vandinn er sá, að með þessu frv. er verið að blekkja fólkið í landinu. Allir vita að málahalinn í Hæstarétti, fyrst í undirrétti og síðan í Hæstarétti og síðan framkvæmdin á refsidómum sem eftir fylgir, þetta hefur auðvitað verið þjóðfélaginu til vansa árum saman. Það hefur mikill skaði verið unninn og harmleikir orðið til þegar menn eftir allan þennan langa gang hafa mörgum árum seinna verið að taka út sína dóma við breyttar aðstæður. Um þetta hefur oft verið rætt hér á hinu háa Alþingi undir ýmsum formerkjum, bæði í sambandi við fangelsismál, í sambandi við breytingar á refsilögum og víðar. En málið er bara það, að það er verið að blekkja fólkið í landinu ef það er verið að segja, eins og hæstv. dómsmrh. gerði í dag við 2. umr. málsins, þegar hann eiginlega hafði í hótunum við þm. og setti þá upp við vegg, að ef þetta gerðist ekki yrðu engar umbætur á Hæstarétti. Sannleikurinn er sá, að þetta eru ekki hinar minnstu umbætur. Skoði menn hvað gerðist í kjölfarið 1979 þegar við fjölguðum síðast. Styttist halinn? Nei, hann lengdist.

Vandinn er til, ekki skal úr því dregið. Hann er feikilega mikill. En þetta er bara ekki lausnin. Hins vegar kann þetta að hafa í för með sér að mönnum þyki minni ástæða en ella til að gera þær grundvallarbreytingar á þessu kerfi sem þarf, og þá þarf ekki síst að huga að lögréttumálinu. Satt að segja þykja mér þessar röksemdir svo einfaldar og staðreyndir í þessu máli liggja svo í augum uppi eftir þessa umr., að niðurstaðan í atkvgr. í dag — ég játa það — kom mér á óvart.

Við skulum líka skoða aðra þætti þessa máls. Þessi stofnun, sem við erum hér að fjalla um, er rúmlega 60 ára gömul. Um hana hefur verið þokkalegur friður. Hún hefur notið trausts, að vísu með því að halda sér fyrir utan opinberar umr. og opinberan ágreining að mestu leyti. Segja má að það út af fyrir sig sé umdeilt, og menn hafa oft vísað til þess, að í slíkum efnum er t. d. enska og ameríska réttarkerfið allt öðruvísi uppbyggt. En ég fullyrði það, að nái þetta frv. fram að ganga, þá kann svo að fara að þessi friður um Hæstarétt sé úti, og því finnst mér að menn þurfi að velta mjög rækilega fyrir sér. Og af hverju kann svo að fara að friðurinn sé úti? Það er auðvitað minni háttar ástæða, þó svo að það ætti að skipta máli þegar um Hæstarétt er að ræða, að þetta frv. var í dag samþykkt af minni hl. deildarinnar. Mér finnst að hæstv. dómsmrh. ætti að gera aðrar kröfur til sjálfs sín, þingsins og umhverfisins þegar um þessa stofnun er að ræða. En látum það allt saman vera.

Ástæðan fyrir því, að þessi friður kann að vera úti, er ekki síður og kannske miklu frekar sú, að nái þetta frv. fram að ganga mun Hæstiréttur starfa sem þrír dómar, þá eru þar 11 dómarar. Eftir einfaldri tölfræði geta þeir starfað í þremur þriggja manna dómum. Eins og ég sagði í dag kann svo að fara að þessir mismunandi dómar sitji sinn í hverju herberginu, séu að fjalla um svipuð mál og komist að sinn hverri niðurstöðunni. Vitaskuld er það eðlilegasti hlutur í veröldinni, að sá fjöldi löglærðra manna, sem hingað hefur verið að senda álitsgerðir og um þetta hefur verið að fjalla, hefur af þessu þungar áhyggjur. Auðvitað verða heimildirnar nýttar í hvívetna. Dómarar verða 11. Þá vantar ekki nema einn á að þeir starfi í fjórum þriggja manna dómum, og vitaskuld verður komið að ári og beðið um það. Hvað gera menn þá? Það, sem gæti verið rökrétt og eðlilegt framhald, væri að hæstiréttur, sem svona væri búið að leika, þróaðist yfir í það að verða millidómstig og við bættum svo við þriðja dómstiginu, ekki inn á milli eins og við erum að gera með lögréttuhugmyndinni, heldur bættum við þriðja dómstiginu ofan á, og þá er þetta komið, en bara enginn vandi leystur.

Það er af þessum ástæðum, herra forseti, sem ég hef flutt þessa brtt. um að ákvæði til bráðabirgða verði fellt. Ég geri það auðvitað líka að till. minni, að menn greiði atkv. gegn 1. gr. frv. Það er enn tækifæri til þess að menn íhugi sinn gang í þessum efnum.

Ef allt þetta mál er skoðað, þá er það svo kostulegt að þeir, sem lýst hafa andstöðu sinni við þetta mál, hafa gefið sig fram. Það hafa verið skrifaðar fjölmargar blaðagreinar og greinargerðir fluttar þar sem menn hafa verið að lýsa andstöðu sinni. En þeir hins vegar sem eru talsmenn þessa og verjendur, ég veit eiginlega ekki hvaða huldumenn það eru! Ég veit ekki hverjir eru ráðgjafar hæstv. ráðh., hverjir það eru sem hafa ráðlagt honum að standa svona að þessu, því að hverjir sem það eru gefa þeir sig ekki fram. Þeir skrifa ekki í blöð. Og ég undirstrika þann skilning minn og skilning þeirra, sem þessu hafa andmælt, að hér er um að ræða einhvers konar dómarapólitík. Það hafa verið þar skiptar skoðanir um lögréttumálið, og mér sýnist að það sé ekki síst aldursskipting þar, það séu einkum yngri mennirnir sem hafi verið talsmenn þeirra umbóta sem við mörg höfum tekið upp hér á þinginu. En því miður, nái þetta frv. fram að ganga er verið að snúa miklu af þeirri viðleitni við, og þá er loku fyrir það skotið, að þessu kerfi verði breytt svo að þar náist fram það markmið sem við þó erum sammála um, þ. e. um hraðari afgreiðslu mála.

Ég vil, herra forseti, minna á að í Þjóðviljanum í ágústmánuði 1981 ritaði Steingrímur Gautur Kristjánsson grein sem heitir „Lögrétta eða gestaréttur.“ Í yfirskrift að greininni, sem blaðið hefur tekið út, er þessi tilvitnun, með leyfi forseta: „Þegar erlendir lagamenn eru hér á ferð er það haft til skemmtunar að segja þeim að sami embættismaður byrji á að handtaka skálkinn, annist síðan lögreglurannsókn og fari loks með mál og dæmi.“ Þetta er, eins og menn þekkja, eitt af því sem menn hafa kallað að sé með miðaldabragði í íslenska réttarfarinu. En hann segir m. a. — með leyfi forseta — í þessari blaðagrein undir undirfyrirsögninni „Fljótvirk meðferð smærri mála“ — hann segir:

„Með breytingu þeirri á einkamálalögum, sem lögleidd var á síðasta vori og tekur gildi 1. jan. 1982, er opnuð leið fyrir nokkuð einfaldar og fljótvirkari málsmeðferðir í héraði en verið hefur. Þessar breytingar, svo sem stytting dóma, eiga einkum við í hinum smærri málum, og ef þær gefast vel er ekki ólíklegt, að fljótlega verði lengra gengið, og raunar nokkuð víst ef lögréttufrv. verður lögfest. Meðferð mála í lögréttu á öðru dómstigi verður umsvifaminni en í Hæstarétti. T. d. er ekki gert ráð fyrir þeirri tímafreku undirbúningsvinnu sem felst í svokallaðri ágripsgerð, sem tefur málin í Hæstarétti oft mánuðum saman “— og taki menn eftir þessu — „og dómendur yrðu 3 en ekki 5. Þegar lögréttan tæki til starfa biðu engir málastaflar. Öll rök hníga þannig að því, að lögréttuskipanin sé raunhæfasta og róttækasta finnanlega leiðin til þess að stytta málatíma jafnt í hinum smærri málum sem í hinum stærri.“

Undir þetta vil ég mjög taka. Þetta er kjarnaatriði, þetta er sjálfur kjarni málsins. Nái það frv. fram að ganga, sem hér er til umr., þýddi það einfaldlega að öll þessi hugsun, öll þessi lögréttuhugsun, öll sú hugmynd um að hraða gangi þessara smærri mála, sem allir eru sammála um að er það sem töfunum veldur, er dauð,hún er úr sögunni um allnokkra framtíð. Ég vil leyfa mér að halda því fram, að mönnum hafi ekki verið þetta nógsamlega ljóst þegar þetta mál þróaðist.

Herra forseti. Ég er að mæla fyrir þeirri brtt. sem ég hef flutt, að ákvæði til bráðabirgða falli niður. Ég sagði í dag, þegar ég gerði grein fyrir atkv. mínu um ákvæði til bráðabirgða, og minnti á það, sem einnig kom fram í nefndarstörfum eða í einhverri af þeim greinargerðum eða málsskjölum, sem ég hef lesið um þetta frv., að um lausadómara eins og verið er að leggja til í því ákvæði væru aðeins tvö fordæmi úr réttarsögu Norðurlanda. Hið fyrra mun vera frá Finnlandi og ég kann ekki frekari skil á því. En það seinna var þegar Norðmenn voru að hraðafgreiða Quisling og hans legáta á árunum 1945 og 1946. Þá settu þeir dómara af þessu tagi. Það er þetta ákvæði sem menn hafa ekki síst staldrað við, og það munaði ekki miklu áðan hvernig um þetta ákvæði fór. Ég vil mjög leggja að þm. að hugleiða þetta og að samþykkja þessa tillögu mína.

Herra forseti. Menn hafa sett á langt mál um þetta frv. Ég held að það geti verið góður skilningur á milli okkar um það, að mörgum er þetta gríðarlega mikið alvörumál. Mönnum er það alvörumál að Hæstarétti

Íslands sé ekki spillt, það sé ekki farið með hann eins og hverja aðra stofnun. Ég stóróttast að það sé að gerast með þessu frv., og ég stóróttast einnig að það, sem muni fylgja í kjölfarið, sé annars vegar enn frekari útvíkkun á Hæstarétti og hins vegar það, að þeim umbótatillögum, sem hugmyndir hafa verið uppi um, verði kastað fyrir róða. Og ég verð að segja það, að það er sorglegur endir á þessum 6 ára gömlu hugmyndum og þær fara þá fyrir lítið.

Það hefði verið ástæða til þess, herra forseti, að flytja fleiri brtt. við þetta mál. Till. um að 1. gr. falli niður þarf ekki að vera sérstök till., það er nóg að leggja til við menn, að þeir greiði atkv. þannig. Fari svo að 1. gr. falli og ákvæðin til bráðabirgða falli út, þá er mesta skaðanum afstýrt. Mér er auðvitað ljóst, herra forseti, að það er komið að þinglausnum og menn bíða, og það er ekki með neinu glöðu geði sem menn verða að setja á langt mál um þetta frv. En hér er verið að vinna mikinn skaða á þessu kerfi, — skaða þar sem afleiðingarnar kunna sumpart að vera ófyrirsjáanlegar. Af þeim ástæðum hafa menn sett á langt mál. Ég harma, hvernig atkv. féllu í Nd. við 2. umr., og vænti þess, að einhverjir endurskoði sinn hlut.