07.05.1982
Sameinað þing: 90. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 4926 í B-deild Alþingistíðinda. (4730)

243. mál, steinullarverksmiðja í Þorlákshöfn

Iðnrh. (Hjörleifur Guttormsson):

Herra forseti. Fram komin till. meiri hl. atvmn., sem liggur fyrir í tengslum við þetta mál, er nokkuð sérkennilegt framlag til máls sem áður hefur verið til meðferðar Alþingis og samþykkt hafa verið lög um. Með þeirri till. er reynt að takmarka heimildir sem Alþingi hefur þegar veitt ríkisstj. samkv. lögum. Ég fæ ekki séð að slíkt geti staðist lögformlega eða bundið hendur stjórnvalda ef þau vilja nýta heimildir til þátttöku í stofnun steinullarverksmiðju. Sú till. leysir því engan vanda fyrir áhugaaðilana sem unnið hafa að steinullarmálinu hvor á sínum vettvangi, heldur eykur hann og magnar þá togstreitu sem þeir hafa óskað eftir að bundinn yrði endir á. Ég vísa til till. minnar í ríkisstj. varðandi staðsetningu steinullarverksmiðju á Sauðárkróki og ræðu minnar hér á þingi í umr. um þetta mál í mars s. l. Með tilvísun til þessa segi ég já við þessari till. minni hl. nefndarinnar.