15.10.1981
Sameinað þing: 4. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 62 í B-deild Alþingistíðinda. (48)

8. mál, fjarskiptalög

Flm. (Eiður Guðnason):

Herra forseti. Ég hef leyft mér á þskj. 8 að flytja till. til þál. um endurskoðun fjarskiptalaga. Tillagan er svohljóðandi, með leyfi forseta:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstj. að skipa n. til að endurskoða lög um fjarskipti, nr. 30 frá 27. júní 1941, og leggja frv. til nýrra fjarskiptalaga fyrir næsta reglulegt Alþingi.“

Ég hefði nú fremur kosið að hæstv. samgrh., sem hefur með þennan málaflokk að gera, væri viðstaddur þessa umr., en hann er ekki hér í þingsalnum.

Ástæðan fyrir því, að þessi þáltill. er flutt, er fyrst og fremst sú, að núgildandi lög um fjarskipti eru 40 ára gömul. Þau eru stríðstímalög, samin á stríðstímum og bera þess vissulega nokkur merki. Það er afar ríkt í þessari löggjöf að vernda öryggi ríkisins í hvívetna og þá einkum á ófriðartímum. Auðvitað ber ekki að draga úr því, að öryggi ríkisins skuli verndað í hvívetna. Hins vegar hneigist maður til að halda við lestur þessara laga nú 40 árum eftir að þau voru samin að þau gangi í sumum tilvikum nokkuð langt.

Þessi lög veita íslenska ríkinu einkarétt til allra hluta er varða fjarskipti og fjarskiptatæki. Í 2. gr. laganna segir svo, með leyfi forseta:

„Ríkið hefur einkarétt á:

1. Að stofna og reka á Íslandi og í íslenskri landhelgi og lofthelgi hvers konar fjarskipti með rafstraum eða raföldum, þar á meðal ljósöldum, er ná til sendingar, flutnings og móttöku skeyta, tals, tóna, mynda eða annarra slíkra merkja, hvort heldur er eftir vírum, gegnum loft, sjó eða land eða á annan hátt.

2. Að flytja til landsins, selja, leigja eða dreifa út á annan hátt, smiða, gera við, breyta eða setja upp hvers konar fjarskiptavirki (tæki, taugar, búnað og því um líkt) eða hluta þeirra, sem notaðir eru til þess, er í 1. tölul. segir, á Íslandi eða í íslenskum skipum, flugvélum eða öðrum farartækjum, hvort heldur er til viðtöku, sendingar eða flutnings.

3. Að gefa út nafnaskrá um fjarskiptastöðvar og notendur fjarskiptavirkja.“

Svo sem hér kemur glögglega fram er einkaréttur ríkisins á þessu sviði mjög viðtækur, nánast altækur, ef svo mætti til orða taka. En í 3. gr. fjarskiptalaganna eru mjög víðtækar heimildir til ráðherra um að veita að því er virðist nær ótakmarkaðar undanþágur að vild frá þessu einkaréttarákvæði, sem ríkinu er hér falið. Í 3. gr. fjarskiptalaga segir, með leyfi forseta:

„Ráðherra sá, sem fer með fjarskiptamál ríkisins, getur heimilað einstökum mönnum, félögum eða stofnunum að stofna og reka fjarskiptavirki eða að flytja til landsins, selja, leigja eða dreifa út á annan hátt, smíða, gera við, breyta og setja upp fjarskiptavirki eða hluta þeirra, sem í 2. gr. getur. Leyfið skal veitt um ákveðinn tíma með þeim skilyrðum og kvöðum, sem ástæða þykir til í hvert skipti. Enn fremur getur ráðh. með reglugerð veitt almennt leyfi til tiltekinna minni háttar framkvæmda, sem ekki er hætta á að valdi truflunum á rekstri fjarskiptavirkja ríkisins.“

Þarna eru sem sagt ráðh. veittar býsna rúmar undanþágur frá 2. gr. laganna. Þess má geta í þessu sambandi, að til skamms tíma hafa öll ákvæði í þessum efnum verið afar ströng. Það var ekki fyrr en á þessu ári að núv. hæstv. samgrh. — og það má segja honum til hróss, — verst að hann skuli ekki vera hér staddur til að heyra þegar stjórnarandstaðan hælir honum, — hann gaf út reglugerð sem rýmkaði verulega um innflutning á símtækjum og að nokkru um þá furðulegu einokunaraðstöðu á sumum sviðum sem Póstur og sími hefur haft. Fram til þess, er sú reglugerð var út gefin, mun það t. d. hafa verið svo að menn gátu ekki sett upp það sem nú mun vera kallað dyravitar, rautt, grænt og gult ljós, eins og bankastjórar og fleiri hafa fyrir utan dyr hjá sér, — menn máttu ekki setja upp slíkan búnað nema hafa til þess leyfi póst- og símamálastjórnarinnar. Þetta er auðvitað fáránlegt. Hið sama gilti raunar til skamms tíma um venjulega dyrasíma sem hafa verið í fjölbýlishúsum. Þarna hefur verið allt of langt gengið. Þess er auðvitað að geta líka, að þessi fjarskiptalöggjöf, sem við búum við, tekur fyrst og fremst mið af þeirri tækni og þeim tækjum sem mönnum voru tiltæk fyrir 40 árum.

Það er eitt atriði sem ástæða er til að vekja sérstaka athygli hv. alþm. á. Það segir í 2. gr. laganna: „er ná til sendingar, flutnings og móttöku skeyta, tals, tóna, mynda eða annarra merkja, hvort heldur er eftir vírum, gegnum loft, sjó“ o. s. frv. Móttaka myndaeftirvírum. Á henni hefur ríkið einkaleyfi samkv. þessum lögum. Nú ætla ég ekki að gera þá svokölluðu myndbanda- eða myndvarpabyltingu, sem hér hefur átt sér stað, að sérstöku umræðuefni. Ég hef lagt fram fsp. um það efni sem væntanlega kemur til umr. þegar hæstv. menntmrh. verður viðstaddur, en ég held að það sé alveg augljóst af þessum lögum, sem ég hef nú vitnað til, að sú starfsemi, sem fer fram á vegum ýmissa fyrirtækja, samrýmist ekki þessum fjarskiptalögum. Og ef svo er komið að löggjöf er almennt ekki hlýtt, þá er auðvitað tvennt til: annars vegar að gera ráðstafanir til þess að lögunum sé hlýtt eða hins vegar að breyta lögunum. Og ég held að því er þetta sérstaka mál varðar sé ekkert um það að tala að fara að gera einhverjar ráðstafanir í þeim efnum til að banna þá starfsemi sem þegar er komin af stað og brýtur í bága við þessi fjarskiptalög. Ég held að það sé tómt mál um að tala, og ég hef raunar engan áhuga á slíku banni og tel að það sé ekki framkvæmanlegt, sé rangt og óæskilegt og ætti ekki einu sinni að vera til umræðu.

Þá er hinn valkosturinn einn eftir og hann er að breyta lögunum. Það held ég að sé afar brýnt að því er þetta sérstaka mál varðar. En væntanlega gefst tækifæri til að ræða það hér frekar og þær mörgu hliðar þess, bæði að því er varðar höfundarrétt og ýmislegt annað, vernd barna og ungmenna, sem ástæða er til að Alþingi láti til sín taka og furðulegt er að núverandi stjórnvöld skuli á engan hátt hafa látið til sín taka. Svo sem áður hefur fram komið í máli mínu er þessi löggjöf 40 ára gömul, og úrelt löggjöf má ekki standa í vegi þess, að almenningur fái notið þeirra framfara sem ný og bætt fjarskiptatækni hefur í för með sér og margvíslegar framfarir henni tengdar á þessum sviðum. Ég er þeirrar skoðunar, að núgildandi fjarskiptalög geri það með ýmsum hætti. T. d. er gersamlega ókleift fyrir aðila hér á landi að koma upp nokkurs konar iðnaði er hefði það verkefni t. d. að búa til ýmiss konar hjálparsímtæki eða hluti til nota við fjarskiptaþjónustu. Framfarir í rafeindaiðnaði hafa verið geysilega miklar og segja mér kunnugir menn ekki mikið mál eða erfitt að koma á fót smáiðnaði í þessari grein. Það er ekki hægt vegna þess að Póstur og sími hefur einkaleyfi til allra þessara hluta.

Nú er það svo að það er ekki aðeins hér sem þetta er með þessum hætti. Það er víðar sem svona háttar. Og Póstur og sími er hér ekki aðeins framleiðsluaðili á þessu sviði, heldur er hann líka sá aðili sem dæmir um það, hvort vörur frá öðrum framleiðendum séu nægilega góðar til þess að þær megi setja hér á markað. Þetta held ég að sé óeðlilegt. Í Bandaríkjunum, þar sem ríkir töluvert frelsi á þessu sviði, en samt auðvitað ákveðnar reglur stjórnvalda, gerðist það, að stærsta símafyrirtækið í því landi, APT er það kallað, er jafnframt framleiðandi og rekur mikinn hluta símakerfisins. Það er jafnframt framleiðandi ýmiss konar símtækja. Það setti svo strangar gæðakröfur um tæki frá keppinautum sínum til þess að útiloka þá að eigin tæki þess stóðust ekki einu sinni það gæðapróf, og varð þá að stokka upp á nýtt. Bretar, sem eru þekktir fyrir ýmislegt annað en vera mjög nýjungagjarnir í sínu stjórnkerfi og eru fastheldnir á forna siði og því um líkt, hafa nýlega klofið upp það sem áður hét GPO-póstur og sími skipt því í tvennt, annars vegar fjarskiptastofnun og hins vegar póststofnun. Samfara því hefur verið aflétt þeim einokunarhömlum sem áður voru í gildi um ýmislegt á þessu sviði, einfaldlega vegna þess að nútímatækni gerði það að verkum að ekki var stætt á þessum einokunarkröfum lengur. Bretar hafa líka farið þá leið að láta sjálfstæða stofnun utan fjarskiptastofnunar ríkisins og Póststofnunarinnar meta þau tæki sem þar eru á boðstólum.

Þessi tillaga fjallar um það eitt, að skipuð verði nefnd til þess að endurskoða fjarskiptalögin og frv. þar um lagt fyrir næsta reglulegt Alþingi. Ég tel að sú nefnd eigi að meginmarkmiði að hafa það að leiðarljósi, að þessi lög verði endurskoðuð mjög í frjálsræðisátt vegna þess að kröfur tímans eru um aukið frjálsræði í þessum efnum og við verðum að gera fólki kleift að nota og nýta þá tækni sem er á boðstólum. Við höfum dregist mörg ár aftur úr á símasviðinu um ýmsa hluti þar, en það stendur vonandi til bóta eftir að reglugerð um breytingu í þeim efnum var gefin út á þessu ári.

Herra forseti. Ég ætla ekki að hafa um þetta fleiri orð, en legg til að þegar þessari umr. lýkur verði henni frestað og að þessu máli verði vísað til allshn.