11.11.1981
Efri deild: 11. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 633 í B-deild Alþingistíðinda. (480)

83. mál, kosningar til Alþingis

Flm. (Salome Þorkelsdóttir):

Herra forseti. Á þsk j. 86 flyt ég frv. til l. um breyt. á lögum nr. 52 14. ágúst 1959, um kosningar til Alþingis. Ég lagði þetta frv. fram á síðasta þingi, en það hlaut þá ekki afgreiðslu og er því endurflutt. Við endurflutning nú eru flm. auk mín hv. þm. Stefán Jónsson, Stefán Guðmundsson og Eiður Guðnason, en öll eigum við sæti í allshn. Ed. sem fjallaði um fyrra frv.

Frv. þetta tekur mið af reynslu og breyttum þjóðháttum sem varða almennar kosningar í landinu. Það varðar námsfólk búsett á Norðurlöndum, kjörskrárkærur, kjördag og kosningu utan kjörstaða. Við endurflutning frv. nú hefur verið tekið tillit til aths., sem fram komu í meðferð allshn. Ed., og gerðar viðeigandi breytingar, en þær eru varðandi 1. og 2. gr.

Í 1. gr. er, þegar frv. var flutt á síðasta þingi, einnig gert ráð fyrir að aðrir Íslendingar, sem um stundarsakir dveljast erlendis vegna starfa sinna, skuli færðir á kjörskrá með sama hætti og námsmenn, en þessu atriði er nú sleppt þar sem það mun vera flóknara mál að leysa og því réttara að það verði þáttur í allsherjarendurskoðun kosningaréttarákvæðanna.

Varðandi 2. gr. var í fyrra frv. gert ráð fyrir að stytta kærufrest til sveitarstjórna úr þremur vikum í 10 daga, en nú er gert ráð fyrir styttingu í tvær vikur. Að mati þeirra, sem best þekkja til þessara mála, var talið vafasamt að ganga lengra í styttingu kærufrestsins en tvær vikur. Því er það lagt til nú, og fáist þessi breyting væri það til bóta.

Um 3. gr. held ég að sé ekki ástæða til að fjölyrða sérstaklega. Hún skýrir sig nokkuð sjálf.

Um 4. gr., varðandi breytingu á kjördegi frá sunnudegi til laugardags, þá er þess nú freistað að breyta um kjördag. Frv. um þetta atriði mun áður hafa verið flutt á Alþingi, fyrir nokkrum árum, en náði þá ekki fram að ganga. Laugardagurinn er orðinn almennur frídagur hjá flestum og áhugi manna á að fylgjast með talningu atkv. í fjölmiðlum veldur því, að vaxandi hluti landsmanna vakir nóttina sem atkv. eru talin, og þess vegna er æskilegt að dagurinn eftir talningu sé frídagur.

5. gr. er ætlað að fækka ógildum og vafaatkv. þannig að útbúnir verði sérstakir stimplar. Það yrði þá útbúinn stimpill fyrir hvern listabókstaf með upphleyptum bókstaf og einnig með blindraletri. Ég held að mér sé óhætt að segja að flm. telji þetta atriði eitt það veigamesta í frv. Þetta er réttlætismál sem væri sómi fyrir Alþingi að afgreiða nú á ári fattaðra. Það gæti orðið til þess að gera mönnum kleift að kjósa hjálparlaust sem annars yrðu að leita aðstoðar og trúa öðrum fyrir atkv. sínu.

Herra forseti. Ég held að það sé ekki ástæða til að fjölyrða frekar um þetta frv. á þessu stigi málsins. Að lokinni þessari umr. legg ég til að frv. verði vísað til allshn.