11.11.1981
Neðri deild: 11. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 634 í B-deild Alþingistíðinda. (482)

73. mál, Framkvæmdasjóður aldraðra

Félmrh. (Svavar Gestsson):

Herra forseti. Það frv., sem hér liggur fyrir, felur í meginatriðum í sér framlengingu á lögum um Framkvæmdasjóð aldraðra, nr. 49/1981, þar sem gert var ráð fyrir að lagður yrði á sérstakur skattur til þessa framkvæmdasjóðs. Var hann lagður á til eins árs í senn samkv. lögunum.

Í frv. er einnig gert ráð fyrir breytingu á lögunum til þess að kveða afdráttarlausar á um það, að stofnanir vegna byggingar hjúkrunarheimila og sjúkradeilda sem sveitarfélög, félagasamtök eða einstaklingar standa fyrir — geti einnig átt rétt á stuðningi úr framkvæmdasjóðnum.

Í frv. er gert ráð fyrir að gjaldið til Framkvæmdasjóðs aldraðra á næsta ári verði 200 kr. Á þessu ári er gjaldið 100 kr. Samkv. fjárlagafrv. fyrir árið 1982 er gert ráð fyrir að gjald þetta gefi í Framkvæmdasjóðs aldraðra 13.5 millj. kr. Með þeirri hækkun, sem hér er gerð tillaga um frá forsendum fjárlagafrv., mundi talan hækka um 4.5 millj. kr. og verða um 18 millj. kr. Er gert ráð fyrir því í fjárlagafrv., að ríkið leggi fram beint í sjóð þennan 11 millj. kr. og alls verði þar til ráðstöfunar 24.5 millj. kr. En ef þetta frv. verður að lögum yrðu til ráðstöfunar þar í kringum 29 millj. kr. á árinu 1982. Í fjárlögum þessa árs er gert ráð fyrir að veita milli 8 og 9 millj. kr. í framkvæmdir sem samkv. þessum lögum mundu verða kostaðar framvegis af Framkvæmdasjóði aldraðra. Menn sjá því að hér er um að ræða geysilega aukningu á framlögum í þessu skyni, og stafar það sérstaklega af því að þörfin er mjög brýn og knýjandi. Ég vil nú gera nokkra grein fyrir því, hver þessi þörf er.

Við höfum haft starfandi undanfarna mánuði sérstaka öldrunarþjónustunefnd við landlæknisembættið. Í henni eiga sæti Guðjón Magnússon aðstoðarlandlæknir, Þór Halldórsson yfirlæknir, Skúli Johnsen borgarlæknir, Ársæll Jónsson settur yfirlæknir, Sigurveig Sigurðardóttir félagsráðgjafi og Þórhannes Axelsson félagsfræðingur.

Nefndin hefur nýlega skilað mér bráðabirgðaskýrslu um þörfina fyrir pláss fyrir aldraða hér á Reykjavíkursvæðinu. Eins og kunnugt er var mjög rætt hér á Alþingi á s. l. vetri um neyðarástand í málefnum aldraðra í Reykjavík. Taldi ég því óhjákvæmilegt að gerð yrði sérstök könnun á þörfinni fyrir öldrunarrými í höfuðborginni. Á s. l. vetri var því haldið fram af borgarlækninum í Reykjavík, að 350 rými fyrir aldraða vantaði til viðbótar því sem fyrir væri. Niðurstaða könnunarinnar er hins vegar eins og hér segir: Samkvæmt sjúklingatalningu, sem framkvæmd var á öllum spítölum í Reykjavík á s. l. vetri, eru á öldrunar- og hjúkrunardeildum spítalanna í Reykjavík og elliheimilanna 449 manns 70 ára og eldri. Á almennum sjúkradeildum, þ. e. ekki á sérstökum öldrunar- og hjúkrunardeildum, heldur á almennum sjúkradeildum, eru 103 svokallaðir langlegusjúklingar 70 ára og eldri. Samtals er því um að ræða rými fyrir 552 langlegusjúklinga í Reykjavík. Á vegum heimahjúkrunar hér í Reykjavík var veitt á þessu ári, þegar talningin fór fram; þjónusta við 78 aldraða sem þurftu á hjúkrunarvistun að halda. Á vegum Heimilishjálpar Reykjavíkurborgar er síðan um að ræða 49 einstaklinga. Samkvæmt biðlistum og þeim skýrslum, sem teknar hafa verið af heimilislæknum í borginni, er um að ræða 30 einstaklinga í viðbót, þannig að rýmisþörf í Reykjavík, samkv. þeirri ítarlegu könnun sem gerð hefur verið, er fyrir 709 einstaklinga. Þegar þessar tölur eru skoðaðar kemur í rauninni í ljós að rými vantar í Reykjavík núna — umfram það fólk sem dvelst á almennum sjúkradeildum, öldrunarþjónustudeildum og hjúkrunardeildum — fyrir 157 manns. Ef við teljum þá með sem eru á sjúkradeildunum, fólk sem ætti þá að fara af þeim og inn á öldrunardeildir, yrði talan hins vegar 260. Hér er ég eingöngu að tala um þá sem eru 70 ára og eldri. En auðvitað háttar þannig til, að þó nokkur hópur fólks þarf á langtímavistun að halda þó ekki hafi náð svo háum aldri. Ef við lítum á þá tölu er hún hér í Reykjavík 182 — á móti 157 ef við erum aðeins að tala um 70 ára og eldri:

Þá er því við að bæta, að um land allt er einnig mjög veruleg þörf fyrir hjúkrunarvistun aldraðra. Ég hygg þó að ástandið sé eins og sakir standa einna alvarlegast hér í Reykjavík. Það, sem á döfinni er hins vegar í Reykjavík til að bæta úr í þessum efnum, er þetta:

Í fyrsta lagi er í byggingu svokölluð B-álma Borgarspítalans þar sem verða 170 rými fyrir langlegusjúklinga þegar hún er fullbyggð.

Í öðru lagi er um að ræða 44 rými á hjúkrunarheimilinu við Snorrabraut í Reykjavík.

Og í þriðja lagi verða á þessu ári tekin í notkun 19 rými fyrir aldraða á Hvítabandinu.

Ef þessi hjúkrunarrými koma öll inn á næstu árum er niðurstaðan þessi að mati öldrunarþjónustunefndar landlæknisembættisins, eins og segir orðrétt í skýrslu nefndarinnar:

„Þessi hjúkrunarrými ættu að fullnægja þjónustuþörf fyrir aldraða fram undir lok ársins 1984 og er þá miðað við að sama hlutfall af hjúkrunarsjúklingum vistist á almennum sjúkradeildum og í dag. Ef aftur er gert ráð fyrir því að aldraðir verði í minna mæli á almennum sjúkradeildum en nú er, þá verður þetta pláss auðvitað miklu fyrr fullnýtt, eða þá í lok ársins eða á miðju ári 1983.

Samkvæmt þeim áætlunum, sem nú eru uppi, er gert ráð fyrir því, að á næsta ári komi hér inn í Reykjavík 44 pláss í hjúkrunarheimilinu við Snorrabraut og ein eða tvær hæðir í B-álmu Borgarspítalans, en á hverri hæð eru 29 rými. Ef sá framkvæmdahraði helst sem gert hefur verið ráð fyrir við B-álmu Borgarspítalans, þá á að vera unnt að halda þannig á málum að þær byggingar, sem þarna eru í undirbúningi, leysi úr þessum brýnasta vanda á árinu 1984, að því er varðar stofnanir fyrir aldraða.“

Nú vil ég leggja á það áherslu sem mitt sjónarmið í þessum efnum, að það er ekki rétt stefna að leggja einvörðungu áherslu á stofnanir fyrir aldraða, heldur ber að leggja á það áherslu að þeir geti sem lengst og við sem eðlilegastar kringumstæður verið annars staðar, hjá sínum nánustu eða á sínum heimilum. Á grundvelli þessarar stefnu er núna unnið í heilbr.- og trmrn. að frv. um félags- og heilbrigðisþjónustu við aldraða í framhaldi af umræðum sem um það mál fóru fram á síðasta þingi. Sú sama nefnd og vinnur að því frv. vinnur nú einnig að því að gert verði sérstaki átak á Íslandi árið 1982 í málefnum aldraðra.

Eins og ég gat um í upphafi er mjög mikil þörf fyrir rými fyrir aldrað fólk hér á landi á næstu árum og áratugum. Það er mjög nauðsynlegt að við höldum á þeim efnum af miklum myndarskap og kostum þar til verulegum fjármunum. Þeim árgöngum, sem hér um ræðir, fer fjölgandi á næstu árum og áratugum. Ég vil t. d. geta þess, að árið 1980 voru taldir um 15 560 einstaklingar 70 ára og eldri á Íslandi, en þeir verða á árinu 1990 orðnir 18 370. Af þessu sést að um geysilega aukningu er að ræða í þessum aldurshópum. Það er niðurstaða þjónustunefndar landlæknisembættisins, sem ég greindi frá áðan, að 27.8% þeirra, sem eru 85 ára og eldri, þurfi á hjúkrunarvistun að halda. Hér er því um að ræða geysilega stórt verkefni sem þjóðinni er skylt að takast á við.

Ég vil aðeins leyfa mér, herra forseti, að fara yfir það í stuttu máli hvað á döfinni er í málefnum aldraðra sérstaklega í okkar landi um þessar mundir. Þá byggi ég eingöngu á þeim gögnum sem nú eru komin inn til stjórnar Framkvæmdasjóðs aldraðra.

Ef við tökum fyrst Reykjavík, sem ég hef þegar gert grein fyrir, er um að ræða framkvæmdir við B-álmuna og Snorrabrautarheimilið, og í undirbúningi eru einnig 36 íbúðir fyrir aldraða í hjúkrunarheimilinu við Snorrabraut. Enn fremur er á hönnunarstigi heimili fyrir aldraða í Seljahverfi í Breiðholti þar sem mun verða um að ræða hjúkrunarrými fyrir um 30 manns og 40 manns í íbúðum, ef ég man rétt.

Á Vesturlandi eru á döfinni íbúðir fyrir aldraða á Akranesi, í Ólafsvík, Grundarfirði og Búðardal. Það er verið að byggja við dvalarheimili fyrir aldraða í Borgarnesi og hjúkrunarheimill fyrir aldraða í Ólafsvík er á umræðustigi.

Á Vestfjörðum er verið að vinna að framkvæmdum við íbúðir fyrir aldraða, t. d. bæði á Ísafirði og í Bolungarvík.

Á Norðurlandi vestra eru í undirbúningi á ýmsum stigum íbúðir fyrir aldraða á Hofsósi, í Varmahlíð og á Sauðárkróki. Það eru einnig hugmyndir um dvalarheimilispláss á Sauðárkróki og hjúkrunarpláss fyrir aldraða þar sömuleiðis.

Á Norðurlandi eystra eru í byggingu íbúðir fyrir aldraða á Ólafsfirði og Húsavík. Á Akureyri er í undirbúningi hjúkrunarrými fyrir 20 aldraða í Systraseli og framkvæmdir eru á undirbúningsstigi í Hlíð á Akureyri.

Á Austurlandi er einnig mjög mikil hreyfing á þessum málum. Á Vopnafirði eru íbúðir fyrir aldraða í undirbúningi, enn fremur á Egilsstöðum, í Neskaupstað, á Reyðarfirði og Fáskrúðsfirði. Á Höfn í Hornafirði og á Vopnafirði er rætt um hjúkrunarrými fyrir aldraða og á Eskifirði hafa þau mál einnig verið í athugun.

Á Suðurlandi eru íbúðir fyrir aldraða á ýmsum stigum undirbúnings eða byggingar á eftirtöldum stöðum:

Kirkjubæjarklaustri, Vík í Mýrdal, Hvolsvelli, Hrunamannahreppi, Biskupstungum og Selfossi. Auk þess eru hugmyndir uppi um hjúkrunarrými fyrir aldraða bæði á Hellu og á Selfossi.

Þá kem ég að Reykjaneskjördæmi. Þar eru í undirbúningi íbúðir fyrir aldraða á Seltjarnarnesi, rætt er um stækkun dvalarheimilis aldraðra í Garðvangi í Garði og í gangi eru hinar miklu framkvæmdir DAS í Hafnarfirði og við hjúkrunarheimilið í Kópavogi, þar sem verður um að ræða 38 hjúkrunarrými fyrir aldraða, en á Hrafnistu um það bit 79 pláss.

Samkvæmt talningu, sem gerð var 1. janúar 1981, er tala rúma á hjúkrunar- og endurhæfingardeildum og dvalarheimilum aldraðra á Íslandi samtals um 1579.

Eins og þið hafið máske áttað ykkur á af því yfirliti, sem ég las upp hér áðan um það sem á döfinni er um land allt, er gert ráð fyrir stórfelldum framkvæmdum á þessum sviðum á næstu árum og áratugum. Þær framkvæmdir eru brýnar og óhjákvæmilegar. Þess vegna er það frv. flutt sem ég mæli hér fyrir, um að hækka framlag til Framkvæmdasjóðs aldraðra þannig að í þeim efnum verði gert myndarlegt átak á næsta ári.

Herra forseti. Ég legg til að frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. heilbr.- og trn.

Ég vil aðeins koma því á framfæri við hv. nefnd, áður en ég fer hér úr stólnum, að ég tel að nauðsynlegt sé að setja inn í frv. ákvæði þess efnis, að heimilt verði að fella þetta gjald niður af því fólki sem dvelst á stofnunum fyrir aldraða. Slíki ákvæði er ekki í lögunum eins og er, en það hefur komið fram að eftir því hefur verið óskað í nokkrum tilvikum. Fyrir því hefur ekki verið lagaheimild, en ég held að nauðsynlegt sé að setja það ákvæði nú inn í frv. þegar það verður til meðferðar hér á hv. Alþingi.