11.11.1981
Neðri deild: 11. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 640 í B-deild Alþingistíðinda. (487)

73. mál, Framkvæmdasjóður aldraðra

Alexander Stefánsson:

Herra forseti. Hér er um að ræða mál sem alla varðar. Ég vil aðeins rifja það upp, að við umr. um m álið á s. l. vori stóðu hér upp margir þm. og lýstu yfir að hér væri um mál að ræða sem ekki þyldi bið. Þrátt fyrir þá staðreynd, að það frv., sem fyrst var lagt fram í sambandi við heilbrigðisþjónustu fyrir aldraða, var ekki í því formi sem þm. gátu fellt sig við, var því nauðsynlegt að grípa hér inn í á skjótvirkan hátt til að reyna að leysa úr þessu máli sem fyrst. Það var gert með því að stofna Framkvæmdasjóð aldraðra á þann hátt sem hér liggur fyrir til umræðu.

Ég held að það dyljist engum eftir að hafa hlustað á framsöguræðu hæstv. félmrh., þörfin á þessu átaki er brýn. Ég vil þakka fyrir þær upplýsingar sem þar komu fram. Þær undirstrika enn frekar mikilvægi þessa máls og mikilvægi þess, að alþm. taki höndum saman um að reyna að finna á þessu þann flöt að hægt verði að leysa fljótt og vel úr þessu mikla vandamáli.

Ég get tekið undir þá gagnrýni sem hér hefur komið fram, að auðvitað er þetta ekki sú tekjuöflun sem æskilegast væri að viðhafa til að fjármagna þennan sjóð. En einnig kemur hér fram að það er augljóst mál, að ný heildarlöggjöf, sem allir eru sammála um að þurfi að vanda vel, slík löggjöf verður alla vega ekki komin það snemma fram að hún komi að gagni fyrir meiri framkvæmdir á árinu 1982, sem brýn nauðsyn er á eins og fram kom í máli hæstv. ráðh. Þess vegna er ekki um annað að ræða að mínu mati en að framlengja þessa skattlagningu á þann hátt sem liggur fyrir í þessu frv. En ég tek undir það, að ég tel um leið og frv. að heildarlöggjöf verður lagt fram í framhaldi þessa, eins og talað hefur verið um og ákveðið er með þeirri nefnd sem nú er að störfum, þá þarf að athuga vel hvort ekki er hægt að finna tekjuöflun fyrir þennan sjóð, Framkvæmdasjóð aldraðra, sem hægt er að fella sig við. Og ég vil í leiðinni spyrja hæstv. félmrh. hvort ekki megi vænta þess, að nefndin, sem vinnur að þessum málum, geri ákveðnar tillögur um tekjuöflun sjóðsins í því frv. sem hún mun leggja fyrir þingið.

Ég vil einnig nefna það í sambandi við 2. gr. frv., að því er varðar tölul. 3, þar sem stendur: að greiða hlutdeild ríkissjóðs, sbr. 34. gr. laga um heilbrigðisþjónustu, í byggingu sveitarfélaga á stofnunum fyrir aldraða, að ég hef litið þannig á þennan lið í lögum um heilbrigðisþjónustu, að hér væri fyrst og fremst átt við hjúkrunarheimili sem byggð eru við heilsugæslustöðvar. Eins og sjálfsagt flestum þm. er kunnugt þá er ekki víða búið að byggja slík hjúkrunarheimili við heilsugæslustöðvarnar, vegna þess að í þeirri hönnun, sem liggur fyrir við flestar H-2 stöðvar, eru þessi hjúkrunarheimili jafnvel enn þá fyrirferðarmeiri eða dýrari í framkvæmd en heilsugæslustöðvarnar sjálfar.

Hins vegar hafa mörg sveitarfélög hafið undirbúning að slíkum byggingum. Þá er gert ráð fyrir að ríkið fjármagni það að 85%, en sveitarfélögin 15%. Spurningin er hvort hér er átt við að þarna verði aðgangur að Framkvæmdasjóði aldraðra til að flýta þessum byggingum eða jafnvel að fá þarna framlag fyrir sveitarfélögin til þess að fjármagna að hluta til slíka framkvæmd. Það er eðlilegt að um þetta séu skýr tilmæli svo að mönnum blandist ekki hugur um hvað við er átt.

En ég vil koma hér upp til að lýsa stuðningi við frv. eins og það liggur fyrir hér, í trausti þess að myndarlega verði að því staðið að semja heildarlöggjöf, eins og hér kemur fram í athugasemdum við frv., og heildarlög um þessi málefni verði til meðferðar á næsta ári þannig að það verði hægt að láta ný lög um þessi málefni í heild taka gildi í ársbyrjun 1983 eins og um hefur verið talað bæði í umr. í vor og núna.