12.11.1981
Sameinað þing: 18. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 654 í B-deild Alþingistíðinda. (497)

Umræður utan dagskrár

Birgir Ísl. Gunnarsson:

Herra forseti. Á fundi í Sþ. s. l. þriðjudag hóf 1. þm. Reykv., Ragnhildur Helgadóttir, umr. utan dagskrár umþá alvarlegu atburði sem gerst hafa í Danmörku og Svíþjóð undanfarið og fréttir hafa borist af og mikið verið umræddir, þ. e. að kafbátur búinn kjarnorkuvopnum strandaði uppi í landsteinum í Svíþjóð og upplýst hefur verið í Danmörku að svonefndar friðarhreyfingar þar hafa fengið fjármagn frá Sovétríkjunum til starfsemi sinnar. Þeirri umr. varð ekki lokið, en þessir allra síðustu atburðir eru vissulega tilefni til umr. hér á Alþingi. Reyndar er ég þeirrar skoðunar, að utanríkismál skipi ekki nægilegan sess í umr. á hv. Alþingi. Þau einu skipti, sem nokkurn veginn er örugglega hægt að ganga að því vísu að umr. verði hér um utanríkismál, eru þegar hæstv. utanrrh. leggur fram sína skýrslu. En æðioft fer umr. fram um hana hér að næturlagi að fáum þm. viðstöddum.

Þessir allra síðustu atburðir hafa vissulega dregið athyglina að starfsemi svonefndra friðarhreyfinga og vekja upp ýmsar spurningar um starfsemi þeirra, en þær hafa mjög verið til umræðu bæði hér á landi og víða í Evrópu að undanförnu. Það er alveg ljóst að þessar hreyfingar eru af mismunandi toga. Þær hafa oft myndast af mjög ósamstæðum hópum. Eitt er þó víst, að samtök kommúnista í Evrópu hafa víðast hvar verið mjög áberandi í þessum samtökum. En enginn vafi er þó á því, að margt fólk, sem af einlægni berst fyrir friði í heiminum, hefur tekið þátt í þessu starfi. Og hver vill ekki frið? Ég held að þeirri spurningu getum við svarað á þann veg, að allir hér á landi og sennilega allur almenningur alls staðar í Evrópu þrái ekkert heitar en að geta fengið að starfa í friði og án þess að styrjaldarhættan vofi stöðugt yfir. Það hefur verið mjög áberandi í kröfugerð friðarhreyfinganna, að lögð hefur verið áhersla á kröfu um einhliða afvopnun í Vestur-Evrópu. Mestur þungi hefur verið lagður á kröfuna um að Atlantshafsbandalagsríkin létu af áformum sínum um staðsetningu svokallaðra Pershing II eldflauga í Evrópu. Hins vegar hefur miklu minna farið fyrir kröfunni um að Rússar legðu niður SS-20 eldflaugar sínar sem settar hafa verið upp í Austur-Evrópu undanfarin ár. Þetta eru svokallaðar meðaldrægar eldflaugar sem rætt er um, og það er rétt að hugleiða í þessu sambandi lítillega hver er grundvöllur deilunnar um þessar meðaldrægu eldflaugar.

Undanfarin ár hefur þess orðið mjög vart, að Sovétríkin hafa aukið mjög kjarnorkuvopnabúnað sinn í Evrópu. Hér er fyrst og fremst um að ræða svokallaðar SS-20 eldflaugar sem geta farið 2 300 mílur. Með því að bæta við einu eldflaugarþrepi enn geta þær þó dregið 3 400 mílur. Það er því alveg ljóst, að þessum eldflaugum er ekki beint gegn Bandaríkjunum, sem Sovétríkin oft telja sinn höfuðóvin, heldur er þeim beint gegn Vestur-Evrópu. Hver þessara eldflauga ber þrjá kjarnaodda og getur hver eldflaug um sig því hæft þrjú mismunandi skotmörk. Kraftur hvers þessa kjarnaodds er miklum mun meiri en kraftur sprengjunnar sem sprengd var á Hiroshima í Japan í lok styrjaldarinnar. Sovétríkin munu nú þegar, að því er fróðustu menn telja, hafa sett upp 250 slíkar eldflaugar sem bera 750 kjarnaodda, og talið er að áður en langt um líður verði þessar eldflaugar orðnar 300 með 900 kjarnaodda. Tveimur þriðju þessara eldflauga er beint gegn Vestur-Evrópu, hinum er beint gegn skotmörkum í Kína, Japan og Kóreu. Eldflaugum Sovétríkjanna er því í dag beint að öllum meiri háttar bæjum og borgum í Vestur-Evrópu. Þetta er hrikaleg staðreynd sem reyndar hefur verið ljós nú í nokkur ár. Og það er merkilegt til þess að hugsa, að þegar það varð heyrinkunnugt fyrir a. m. k. tveimur árum síðan hvað væri að gerast, þá heyrðust engin mótmæli frá svokölluðum friðarhreyfingum, gegn þeim hrikalega vopnabúnaði sem þarna er að eiga sér stað. Og það er athyglisvert, að þessi mikli vopnabúnaður Sovétríkjanna og þessi hervæðing fer einmitt fram á þeim árum meðan Sovétmenn friðmælast hvað ákafast við Vesturveldin og hafa uppi sitt blíðasta bros.

Með þessum óhugnanlegu framkvæmdum hafa Sovétríkin náð algerum yfirburðum á þessu sviði. Það kom nýlega út skýrsla á vegum ríkisstjórnarinnar í Bonn þar sem var upplýst að nú væru Sovétríkin átta sinnum öflugri í meðaldrægum eldflaugum í Evrópu heldur en Atlantshafsbandalagið. Er þá nokkur furða þó að ráðamenn í Atlantshafsbandalaginu í Evrópu hafi talið sig þurfa að bregðast við á einhvern hátt, ekki til að verja Bandaríkin, heldur til að verja sjálfa sig í Evrópu?

Því var það, að í desember 1979 var tekin ákvörðun á vegum Atlantshafsbandalagsins sem var tvíþætt: Í fyrsta lagi að setja upp 108 svokallaðar Pershing II eldflaugar og 464 stýriflaugar. Þetta eru svokallaðar meðaldrægar eldflaugar eins og SS-20 eldflaugarnar og framkvæmdir við þær eiga að hefjast 1983. Í öðru lagi var jafnframt samþykkt að taka upp viðræður við Sovétríkin til þess að draga úr kjarnorkuvopnabúnaði í Evrópu eins og það er kallað, en það er fyrst og fremst um að ræða hinar meðaldrægu eldflaugar í Evrópu.

Ég sagði áðan að samkvæmt mati þeirrar skýrslu, sem ég vitnaði til, væri nú talið að Sovétríkin væru átta sinnum öflugri að meðaldrægum eldflaugum. Eftir að búið er að framkvæma samþykki Atlantshafsbandalagsins frá 1979 er talið að hlutföllin í styrkleika verði 2.5 á móti 1 Sovétríkjunum í vil, en ef ekkert verði að gert muni Sovétríkin fljótlega verða tíu sinnum öflugri að þessu leyti.

Athyglisvert er að það er fyrst eftir að þessi ákvörðun er tekin hjá Atlantshafsbandalaginu að friðarhreyfingar fara verulega að láta á sér kræla. Gegndarlaus kjarnorkuvopnabúnaður Sovétríkjanna, sem beinist gegn Evrópu, þótti lítið tilefni mótmælaaðgerða meðal þessara hópa fyrir þennan tíma, desember 1979. Margir talsmenn friðarhreyfinga mótmæla því, að þeir krefjist einhliða afvopnunar, og ég skal játa að það er rétt í sumum tilfellum. Í öðrum tilfellum er krafan um afvopnun Sovétríkjanna með smáa letrinu í kröfugerð friðarhreyfinganna. Hitt er vist, að hvað sem líður orðum í þessu sambandi kemur friðarbarátta friðarhreyfinganna í Evrópu þannig út í reynd, að afleiðingarnar gætu orðið einhliða afvopnun Vesturveldanna. Þrýstingurinn er fyrst og fremst settur á stjórnvöld í Vestur-Evrópu um afvopnun. Allir vita að mótmælaaðgerðir hér í Vestur-Evrópu setja engan þrýsting á löndin austantjalds. Það er því með fullum rétti og fullum rökum sem menn túlka starfsemi friðarhreyfinganna sem kröfu um einhliða afvopnun.

Ég held það séu einar þrjár helgar síðan mótmælagöngur í Evrópu náðu hámarki. Það voru farnar göngur víða og frá þessum göngum var rækilega sagt í Ríkisútvarpinu þessa helgi. En það voru tvær stuttar fréttir í þessu sambandi sem vöktu sérstaka athygli. Í fyrsta lagi að Mitterand og flokkur hans í Frakklandi tók ekki þátt í þessum friðargöngum, heldur andmælti þeim. Þessi sérstaki uppáhaldsstjórnmálamaður Alþb. túlkaði þessar aðgerðir sem kröfu um einhliða afvopnun. Ég heyri að hv. formaður þingfl. Alþfl. hváir við, en því verður ekki móti mælt, að hæstv. félmrh., formaður Alþb., sendi sérstakt skeyti til Mitterands og fagnaði sérstaklega sigri hans í Frakklandi, þó að þeir eigi greinilega ekki samleið í þessu máli. (Gripið fram í: Það var áður en þetta kom í ljós.) Í öðru lagi var þess getið í stuttri frétt, að á einum stað austan járntjalds hefði verið farin mótmælaganga. Það var í Potsdam í Austur-Þýskalandi og þar var krafan ein og aðeins ein, að Vesturveldin ættu að afvopnast einhliða, en ekki var minnst á kröfu um að Sovétríkin eða Austur-Evrópuríkin létu af SS-20 eldflaugum sínum. Þetta segir auðvitað sína sögu.

Hvað sem líður fullyrðingum forsvarsmanna friðarhreyfinganna er baráttan rekin á þann hátt, að í raun er hún krafa um einhliða afvopun Vesturveldanna. Þetta hafa margir sýnt fram á mismunandi glöggan hátt. Ég er ekki vanur að kveðja Þjóðviljann mér til vitnis, en ég ætla þó að gera það að þessu sinni og vitna í grein sem birtist þar í sumar, í helgarblaðinu 1.–2. ágúst. Þar var athyglisverð grein eftir Sólrunu B. Jensdóttur sagnfræðing, þar sem hún svaraði spurningu sem beint var til hennar og var svohljóðandi: „Telur þú að almenn samtök séu líkleg til að forða heiminum frá kjarnorkustríði?“ Þetta er nokkuð löng grein og ég get ekki vitnað í hana að öllu leyti hér eða lesið hana upp. Ég vil þó með leyfi hæstv. forseta- lesa niðurlag greinarinnar þar sem rætt er um kjarnorkuvopn. Sólrún segir:

„Að lokum skal rætt um kjarnorkurisaveldin sjálf og svæðin þar sem þau hafa komið fyrir gereyðingarvopnum utan landamæra sinna. Það vekur undrun hve lítið hefur verið um almennar umræður um afvopnunarmál í Bandaríkjunum. En yrðu almenn samtök þar nægilega sterk gætu þau trúlega haft þau áhrif á ráðamenn, að þeir legðu sig fram um það af alefli að koma á afvopnunarviðræðum við Sovétríkin.

En almenningur í Sovétríkjunum, getur hann lagt sitt af mörkum til að knýja fram afvopnunarviðræður? Þessu verður að svara neitandi og er nú komið að mjög mikilvægu atriði sem oft vill gleymast þegar rætt er um hvort almenn samtök geti komið í veg fyrir kjarnorkustríð. Augljóst er að slík samtök á Vesturlöndum nægja ekki, sams konar samtök í Sovétríkjunum og Austur-Evrópu verða að koma til. Við núverandi stjórnarfar í þessum ríkjum, þar sem þegnarnir hafa hvorki skoðana- né tjáningarfrelsi, eru þau óhugsandi: Stjórnendur geta látið eigin geðþótta ráða án nokkurs tillits til almennings. Stjórnarfarsbreytingar í lýðræðisátt í Sovétríkjunum og Austur-Evrópu eru því forsenda þess, að almenn samtök fái einhverju áorkað til afvopnunar. Vekur það vonleysi, því ekkert bendir til þess, að slíkra breytinga sé að vænta á næstunni.

Almenningur á Vesturlöndum verður því að hafa það hugfast, er hann berst gegn vígbúnaði og kjarnorkuvopnum, að þar er aðeins barist fyrir eigin afvopnun meðan almenningur í Sovétríkjunum og Austur-Evrópu, sem ugglaust er jafnfriðelskandi, getur ekkert gert til þess að hafa áhrif á valdhafana. Má benda á að baráttan gegn kjarnorkuvopnum, sem almenningur í Vestur-Evrópu hefur efnt til að undanförnu, beinist ekki fyrst og fremst gegn hinum nýju SS-20 eldflaugum, sem Sovétmenn hafa komið fyrir í Austur-Evrópu, heldur gegn áformum Atlantshafsbandalagsins um að endurnýja kjarnorkubúnað sinn í Vestur-Evrópu til jafnvægis. Trúlegt er að forustumenn Sovétríkjanna fagni því að geta horft rólegir á meðan bandamenn Bandaríkjanna reyna að veikja hernaðarmátt þeirra.“

Þessi skoðun hins íslenska sagnfræðings, sem birtist í Þjóðviljanum í sumar, dregur upp mjög glögga mynd af því, hvað raunverulega er að gerast með starfsemi friðarhreyfinganna. Ég hef í rauninni engu við þessa lýsingu að bæta.

Það er þess vegna engin tilviljun, að sterkasti bandamaður friðarhreyfinganna eru Sovétríkin. Það er alveg ljóst af fréttum og blaðaskrifum austantjalds, að Sovétríkin telja baráttu friðarhreyfinganna mjög til framdráttar sinni utanríkisstefnu. Margvísleg tengsl friðarhreyfinganna við Sovétríkin eru og smám saman að koma í ljós. Ég skal nefna nokkur atriði í því sambandi.

Í fyrsta lagi má nefna handtöku hins danska rithöfundar, sem hér var gerð að umtalsefni, og sterkar líkur á því, að hann hafi verið milligöngumaður um það að flytja fjármagn frá Sovétríkjunum til dönsku friðarhreyfingarinnar. Hvað sem líður aðgerðum þessa ólánssama manns er ljóst að danska ríkisstjórnin taldi sig áður hafa fengið sannanir fyrir því, að Sovétríkin fjármögnuðu dönsku friðarhreyfinguna. Sú sönnun fékkst þegar danska ríkisstj. vísaði sovéskum sendiráðsstarfsmanni úr landi fyrir nokkrum vikum. Annar sendiráðsritari sovéska sendiráðsins, Vladimir Merkulov, varð uppvís að því að vera KGB-maður, þ. e. starfsmaður sovésku leyniþjónustunnar, og fyrir að hafa borið fé á ýmis samtök vinstri manna sem tengjast dönsku friðarhreyfingunni, og honum var þar með vísað úr landi.

Í öðru lagi má benda á að miklar umræður fara fram í Noregi þessa dagana um hugsanlega fjármögnun Rússa á norsku friðarhreyfingunni.

Í þriðja lagi má benda á að fyrir nokkrum vikum flúði fyrrv. majór í leyniþjónustunni KGB, maður að nafni Stanislav Levstjenko, og fékk hæli sem pólitískur flóttamaður í Bandaríkjunum. Hann hefur skýrt frá því opinberlega, að KGB láti mikla fjármuni renna til friðarhreyfinga víðs vegar í Evrópu og vinni að öðru leyti skipulega að áróðri í Vestur-Evrópu til að örva almenning til mótmæla gegn hinum væntanlegu meðaldrægu eldflaugum sem Atlantshafsbandalagið hyggst setja upp.

Þetta eru nokkur dæmi um þau tengsl sem smám saman eru að koma í ljós milli leyniþjónustunnar KGB og friðarhreyfinganna, og vafalaust á sitthvað fleira eftir að koma í ljós í þessum dúr.

Ekki efa ég það eitt augnablik, að fjölmargt af því fólki, sem hefur tekið þátt í starfi friðarhreyfinganna, er einlægt í sinni baráttu fyrir friði og telur sig á engan hátt vera að ganga erinda Sovétríkjanna. Chamberlain trúði því ekki heldur í München, að hann væri í raun að ganga erinda Hitlers-Þýskalands þegar hann taldi sig vera að vinna að friði og var vel fagnað af friðarhreyfingum sem voru sterkar í Bretlandi á þeim tíma. Áhugi Sovétríkjanna á friðarhreyfingunum, hvatning þeirra og afskipti þeirra tala hins vegar sínu máli. Aldrei hafa Sovétríkin hert vígbúnaðarkapphlaupið jafnmikið og einmitt nú, og því miður verður það að segjast eins og er, að eins og friðarhreyfingarnar eru nú reknar má frekar kalla þær feigðarhreyfingar en friðar.

En hvaða lærdóm er unnt að draga af strandi sovéska kafbátsins í Svíþjóð? Sovétmenn hafa sjálfir kallað Eystrasaltið haf friðarins. Þeir hafa hins vegar nú rofið þann frið og raunverulega verið undanfarin ár að rjúfa það friðarjafnvægi, sem ríkt hefur á Norðurlöndum, bæði í Eystrasalti og á Norðurlöndum sjálfum, og þá ekki síst með hinum geysimikla vígbúnaði á Kólaskaganum sem landfræðilega tilheyrir Norðurlöndum, eins og glöggt má sjá ef litið er á landakort. Með siglingu sovéska kafbátsins hafa Sovétríkin brotið alþjóðalög og alþjóðasamninga. Réttarreglur um landhelgi byggjast reyndar á gamalli hefð, en nú er þær að finna í einum þeirra fjögurra alþjóðasamninga um hafið sem gerðir voru á fyrstu hafréttarráðstefnu Sameinuðu þjóðanna í Genf 1958. Í þeim samningi eru skýr ákvæði um ferðir erlendra skipa í landhelgi annarra. Þar segir m. a. að kafbátum sé aðeins heimiluð för um landhelgi strandríkis ofan sjávar, enda gefi þeir til kynna hverrar þjóðar þeir eru. Brot Sovétríkjanna er enn alvarlegra þegar haft er í huga að Svíþjóð er hlutlaust ríki, svæðið, sem kafbáturinn var á, var sérstakt bannsvæði og kafbáturinn var búinn kjarnorkuvopnum samkv. upplýsingum sænsku ríkisstjórnarinnar. Þetta atvik sýnir hversu fráleitar hugmundir manna eru um einhliða yfirlýsingu Norðurlanda um kjarnorkuvopnalaust svæði. Slíki þyrfti að vera liður í heildarsamningum um Evrópu, ekki aðeins á Norðurlöndum, heldur í Evrópu allri. Hinu geta menn svo velt fyrir sér, hvort slíkur samningur við Sovétríkin yrði meira virði í þeirra augum eða betur virtur en alþjóðasamningurinn sem gerður var í Genf 1958.

Í umr. hér s. l. þriðjudag, var hv. 8. landsk. þm., Guðrún Helgadóttir, talsmaður Alþb. Hún lýsti því stefnumarki Alþb., að Ísland gengi úr NATO, vísaði bandarískum herstöðvum af landi brott og lýsti yfir hlutleysi þjóðarinnar um alla framtíð. Svíar eru ekki í NATO, þeir hafa ekki erlendar herstöðvar á sínu landi en hins vegar öflugar varnir sjálfir, og Svíar hafa lýst yfir hlutleysi. Samt var sovéskur kafbátur búinn kjarnorkuvopnum kominn þar á land. Skyldi ekki eitthvað svipað geta gerst hér ef þessi stefna Alþb. um hlutleysi og varnarleysi næði fram að ganga? Hvað mundum við t. d. gera ef sovéskur kafbátur búinn kjarnorkuvopnum sigldi hér inn í Faxaflóa? Hvað gætum við gert, varnarlausir og hlutlausir? Jú, við gætum kallað til Sigurjón lögreglustjóra og Gunnar í Landhelgisgæslunni til aðstugga þessum óvinum burt. Og halda menn að það mundi bera einhvern árangur? Því verður hver að svara sér sjálfur.

Nei, sannleikurinn er sá sem allir vita, að friður í Evrópu komst fyrst á eftir stofnun Atlantshafsbandalagsins. Þá bundust þjóðir Vestur-Evrópu og Norður-Ameríku samtökum til varnar gegn ásælni Sovétríkjanna. Þessi samtök hafa verið okkar besta vörn gegn ófriði og varðveitt frið í þessum heimshluta í 32 ár. Hitt viðurkenna allir, að hinn gegndarlausi vígbúnaður er mikið áhyggjuefni. Allar þjóðir hljóta þess vegna að stuðla að afvopnun. Það verður hins vegar að gerast með gagnkvæmum samningum. Slökunar- og afvopnunarstefna er mjög vandmeðfarin. Slík afvopnun verður að vera til þess að tryggja frið en ekki auka líkur á ófriði, sem getur auðveldlega gerst ef jafnvægisleysi beinlínis freistar annars aðilans til að trúa því, að hægt sé að ná pólitískum markmiðum með hervaldi.