12.11.1981
Sameinað þing: 18. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 663 í B-deild Alþingistíðinda. (499)

Umræður utan dagskrár

Stefán Jónsson:

Herra forseti. Ég hlýt eins og fyrri hv. ræðumenn að þakka a. m. k. hv. 1. þm. Reykv. fyrir eitt, hvað sem öðru líður, og það er að hefja máls hér í hv. Sþ. á þessum síðustu válegu tíðindum sem hingað berast til okkar austan að. Ég mun síðar í ræðu minni e. t. v. þakka hv. þm. fyrir fleira í þessu máli, álasa henni þá fyrir annað. En eitt vil ég að fram komi strax í málinu. Ég efast ekki um, að hún hafi í einlægni áhyggjur af öryggismálum þjóðar okkar þótt hana beri öðruvísi að því málefni en mig, og vík að því síðar.

Það má vera óskemmtileg tilhugsun fyrir sérstaka aðdáendur Sovétríkjanna hvað erfiðlega hefur gengið hjá þeim í „njósnabransanum“ á norðurslóð síðustu áratugina. Bandarískur snillingur, svo sem hv. þm. mörgum hverjum má vera vel kunnugt, gerði marga kvikmyndaþætti fyrir sjónvarp vestan hafs um störf amerísku leyniþjónustunnar. Nú þykir mér ýmislegt benda til þess, að sjónvarpsþættirnir um Smart spæjara hafi kannske ekki fengist fluttir í sjónvarpinu í Moskvu, því að það er greinilegt að valdhafarnir þar hafa ekki áttað sig á hættunni sem felst í því að leyniþjónustan og áróðursdeildin geri hvor aðra hlægilega. Aðferðir sovésku leyniþjónustunnar eru aftur á móti ekki hlægilegar. Myndin af sovéska kafbátnum með stefnið við gaflinn á hænsnakofanum hans Gösta gamla Stenblom í Östra-Gåsviken er ekki brosleg, hún er ógnvekjandi, ekki fyrst og fremst vegna þess, hvar þessi atburður skeði, heldur vegna þess, að við höfum ástæðu til að ætla að afdrifaríkar ákvarðanir kunni að vera teknar eins og þær hafa verið teknar á grundvelli upplýsinga frá álíka snillingum og þeim sem stjórnuðu þessari njósnaferð.

Okkur mun flestum í fersku minni, þótt hæstv. utanrrh. hlífðist við því, vafalaust vegna diplómatískrar stöðu sinnar, að rifja upp söguna af því, þegar rússneskir njósnarar í vinnu í sovéska sendiráðinu í Reykjavík, snillingarnir Bondarev og Kukajenko, gerðust til þess að aka með Ragnar Gunnarssyni í skjóli náttmyrkurs upp að Hafravatni í Morris Minor-bíl til að semja við hann um að annast njósnir í herstöðinni í Keflavík og leyndust tveir íslenskir lögregluþjónar í aftursæti bifreiðarinnar. Sjálfur er ég nú miklu fremur en hæstv. utanrrh. þeirrar skoðunar, að Sovétríkin stundi njósnir við Ísland, og ég hef takmarkaða trú á að varnarliðið megni að stugga sovéskum kafbátum frá íslenskum fjörðum, minnugur þess þegar varnarliðinu tókst ekki betur til en sagan hermir réttilega að stugga frá bresku ofansjávarherskipi sem flutti fanga, sem teknir höfðu verið af áhöfnum íslenskra varðskipa, inn á Keflavíkurhöfn og setti þá þar í land undir nefjum þeirra varnarliðsmanna. Ég sé það hreint ekki fyrir mér, með hvaða hætti varnarliðið gæti komið í veg fyrirþá ógnvekjandi sögu, sem hv. þm. Birgir Ísi. Gunnarsson bjó hér til í þessum ræðustól áðan, að sovéskur kafbátur kæmist hérna inn í Hvalfjörð og strandaði þar. En það er ekki um vopnabúnað að né ferðir íslensku varðskipanna sem Rússarnir njósna eða hafa njósnað. Það hafa aðrir annast. Það var gert með Nimrod-þotum Atlantshafsbandalagsins. Mega alþm. minnast þess, að þegar okkur reið mest á — herrann trúr! — kom ekki varnarliði á Keflavíkurflugvelli í veg fyrir þær athafnir.

Af hálfu Bandaríkjamanna sjálfra hygg ég að ekki séu reknar umfangsmiklar njósnir hér á landi, nema þá ef vera skyldi um einstaka íslenska þegna, skoðanir þeirra og athafnir. Hver veit, ég kann ekki sönnur á því, nema í húsakynnum ameríska sendiráðsins finnist upplýsingar um hvað oft einstakir íslenskir þegnar hafi hitt aðra íslenska þegna að máli síðustu 18 mánuðina?

Að sannleikanum eða sannfróðleikanum um Smart spæjara slepptum er okkur kunnugt um að amerísku leyniþjónustunni hefur e. t. v. ekki tekist öllu betur til en þeirri sovésku í starfi sínu síðustu árin. Við kunnum að segja sögur af afrekum amerísku leyniþjónustunnar í sambandi við innrás Bandaríkjamanna í Svínaflóa á Kúbu. Við kunnum sögur af afrekum amerísku leyniþjónustunnar í Grikklandi, Tyrklandi og í Íran, — afrekum sem leiddu til þess, að Bandaríkjastjórn tók pólitískar ákvarðanir og herfræðilegar ákvarðanir sem urðu til tjóns fyrir marga. Lærdómurinn, sem brýnast er að minni vitund að draga af kafbátssögunni frá Eystrasalti, er sá, að upplýsingar frá snillingum af þessu tagi, snillingum leyniþjónustu Sovétríkjanna, KGB, og leyniþjónustu Bandaríkjanna, CIA, kynnu að stýra fingrinum sem þrýsti á atómflaugatakkann beggja vegna Atlantshafsins ef illa fer.

Hv. þm. Ragnhildur Helgadóttir, 1. þm. Reykv., drap á för Svavars Gestssonar félmrh. til Sovétríkjanna því til sönnunar að Alþb. stæði í grunsamlegu sambandi við Kommúnistaflokkinn í Moskvu. Þegar athygli hennar var vakin á hinum fyrri ferðum 1. þm. Reykv. til Sovétríkjanna, hæstv. fyrrv. forsrh. Geirs Hallgrímssonar, svaraði hún því til héðan úr þessum ræðustól, að þær hefðu ekki verið farnar í boði Kommúnistaflokks Sovétríkjanna. Heldur hv. 1. þm. Reykv., Ragnhildur Helgadóttir, að það sé grundvallarmunur á ríkisstjórn Sovétríkjanna og stjórn Kommúnistaflokksins? Gerir hv. þm. sér ekki grein fyrir því, að áhrif Kommúnistaflokksins eru vægast sagt allsterk í stjórn Sovétríkjanna? Vill hv, þm. virkilega gera greinarmun á þessu tvennu? Ef hún vill gera það væri vingjarnlegt af henni að hún skilgreindi þennan mun fyrir okkur öðrum hv. þm. sem ekki höfnum til að bera nægilega þekkingu á uppbyggingu stjórnarkerfis Sovétríkjanna til þess að greina þarna á milli. Hv. 1. þm. Reykv. Geir Hallgrímsson fór til Sovétríkjanna til þess að undirstrika þýðingu vinsamlegra samskipta við fólkið þarna eystra að fornu og nýju, efalítið ekki síst til að undirstrika þýðingu verslunarviðskiptanna, en einnig kann það að hafa ráðið nokkru um, að í sumu þurftum við ekki að bera þunga þykkju til þjóðanna þarna eystra. Við gátum m. a. virt það við þær, að þær beittu ekki herskipum sínum gegn okkur er við færðum landhelgina okkar út. Ekki gátum við álasað þjóðum Sovétríkjanna fyrir það, þjóðum sem Geir Hallgrímsson heimsótti af eðlilegum kurteisisástæðum. Þó ætla ég að hann hafi fremur hugað að verslunarviðskiptunum, eins og hlýðir góðum kaupmanni og manni af góðum kaupmannsættum, hugsandi til þess, að mönnum ber að virða viðskiptavini sína nokkurs og hlýða á mál þeirra, jafnvel þó að manni líki ekki alls kostar „smælið“ á þeim.

Það var í þessari för Geirs Hallgrímssonar, ef mig misminnir ekki, sem hann sagði Kosygin frá því, að ekki væru kjarnorkuvopn á Íslandi, sem Kosygin þakkaði honum fyrir og síðan leiddi til þess, að Geir Hallgrímsson bar hann aftur fyrir því hér í sölum Alþingis að ekki væru kjarnorkuvopn á Íslandi. Nú má sem hægast halda áfram að vitna í-að vísu ekki Kosygin, heldur Brésnev upp á það, hvar séu kjarnorkuvopn og hvar séu ekki kjarnorkuvopn. Brésnev segir nú Svíum að geislavirknin, sem þeir mældu í sovéska kafbátnum á Eystri-Gæsavík, hafi stafað frá armbandsúrum kafbátsmanna. Það var svo sem ágætt. Kannske verður hægt að vitna í Brésnev um það, að geislavirkni, ef einhver mældist umhverfis bandarísku sprengjuflugvélarnar á Keflavíkurflugvelli, stafaði ekki af kjarnorkuvopnum, heldur af armbandsúrum flugliða? Vildu menn trúa því? Nei, það eru náttúrlega fjárans vandræði að hæstv. félmrh. Svavar Gestsson skyldi ekki hafa með sér ritstjórnarfulltrúa frá Morgunblaðinu til Moskvu í ferð sinni til að við gætum notið fræðslu hans um viðræður Svavars Gestssonar við Brésnev þarna fyrir austan.

Vitaskuld væri freistandi fyrir forsvarsmenn Alþb. að segja í eitursárum hálfkæringi, svo sem þeir hafa stundum leyft sér áður, að það væri ljótan að hv. 1. þm. Reykv., Ragnhildur Helgadóttir, skyldi ekki verða kjörinn varaformaður Sjálfstfl. þannig að hin einkennilega samsetning skapgerðar í pólitískri hugsun mætti koma ljóslega fram í samvinnu við hinn hv. 1. þm. Reykv., Geir Hallgrímsson, formann flokksins. En sá tími er löngu liðinn að málsvarar Alþb. hafi neina heimild til að varpa þess háttar hnútum að neinum þegar rætt er um öryggismál Íslands eða utanríkismál. Við hljótum að láta í ljós þakklæti fyrir að stærsti stjórnmálaflokkur landsins skyldi ekki velja þennan annars mjög svo geðþekka þm. til varaforustu í flokki sínum, beinlínis vegna þess að það er einmitt á þess háttar haugi vanþekkingar, sem hv. þm. virðist hafa safnað saman í hugskoti sínu, sem gorkúlur eitraðra fordóma vaxa. Þó fór það nú svo, að við sáum einmitt á miðjum þessum haugi gróa jurt, sem manni fannst eiginlega allt í einu spretta fyrirvaralaust af þekkilegum vörum þm., eins og þegar baldursbráin hrein og hvít á það til að gróa innan um skrýtnar plöntur, er þm. lýsti yfir þeirri trú sinni að allir íslenskir stjórnmálamenn vildu landi sínu vel. Ég held að hv. þm. Ragnhildur Helgadóttir trúi þessu þrátt fyrir allt. Það er lofsvert því að ég held að hún hafi nú átt bágt með að segja það, en gerði það samt. Þessu trúi ég upp á hv. þm. Ragnhildi Helgadóttur, að hún vilji landi sínu vel. Það er ekki bágt fyrir mig að trúa því. Ég hef haft grun um það lengi eða eins og segir í kvæðinu, að „hjartað, það var gott“.

Ég er þeirrar skoðunar, að í þeirri válegu tíð, sem nú er upp runnin og rennur upp með ógnvaxandi hraða, sé tími til kominn að þm. allra flokka, sem vilja landi sínu vel, eins og hv. þm. Ragnhildur Helgadóttir og eins og sá sem hér stendur í ræðustól, taki sig til og ræði saman í einlægni, þótt á öndverðum meiði séu, og geri ærlega tilraun til þess að komast að niðurstöðu um það með hvaða hætti við getum séð lifi þessarar vesalings þjóðar farborða eins og hættan steðjar nú að því. Aðdragandi þeirrar umræðu má ekki verða langur og ekki verður hann sársaukalaus heldur fyrir ýmsa þá sem oftast hafa kannske og fastast kveðið að orði um þessi mál á öndverðum meiði, því að margar eru þær orðnar og fornar silkihúfurnar sem ég er hræddur um að ýmsir munu neyðast til að taka ofan ef á að setjast að viðræðuborði á þann hátt, — og ef mér leyfist að skjóta því inn í: Ég er ekki alveg ugglaus um að stöku húfa af þessu tagi kynni að sitja á höfðum Alþb. manna. Við verðum að taka okkur til án tillits til þess, hvað hver og einn hefur áður sagt, og ræða okkar í milli í einlægni um með hvaða hætti við getum borgið þjóð okkar frá hörmungum, ef ekki gereyðingu, af völdum kjarnorkustyrjaldar. Við verðum að ræða þau á annan hátt en við höfum gert fram til þessa því voðinn knýr á dyr hjá okkur þessi misserin. Kannske getum við ályktað sem svo til að byrja með, að umræður getum við hafið í ljómanum frá baldursbránni hennar Ragnhildar Helgadóttur, trúnni á að við viljum eitt og hið sama, þ. e. öryggi og farsæld og frelsi þjóðar okkar, þó að okkur hafi greint á um aðferðir og reynt að sameinast um leið til þess arna sem við teljum nokkurn veginn færa.

Ég hef ekki eytt löngum tíma í að ræða það, sem hv. þm. er flestum ljóst, hverrar miskunnar eða hinu þó heldur smáþjóðirnar mega vænta af hálfu risaveldanna, ef til styrjaldar dregur, og þá náttúrlega helst við Íslendingar. Ályktunina dreg ég af því, hverju að okkur er stefnt í undirbúningi yfirvofandi kjarnorkustyrjaldar. Ég sleppi hér öllum himinhrópandi bollaleggingum stórveldanna um það, með hverjum hætti koma megi því t. d. til leiðar að þjóðir Sovétríkjanna lendi ekki í því öðru sinni að missa 20 millj. manna í styrjöld eða með hverjum hætti Bandaríkjamenn hyggjast koma því til leiðar með diplómatískum samningum og sérstökum vopnabúnaði að kjarnorkustyrjöld verði háð í Evrópu fyrst a. m. k., áður en til þess kæmi að styrjöldin bærist til Bandaríkjanna, ef til kjarnorkustyrjaldar kæmi á milli risaveldanna tveggja.

Eins og ég sagði áður er ég hv. þm. Ragnhildi Helgadóttur þakklátur fyrir að hún skyldi hefja umr, um þetta mál hér í Sþ. Við hana og hennar líka vil ég ræða þessi mál. Ég dreg alls ekki í efa að hún vilji þjóð sinni vel. En það eru aðrir úr hópi Íslendinga sem ég frómt frá sagt kæri mig ekkert um að ræða þessi mál við. Ég vil skilgreina þetta í líkingu við það sem Jóhannes heitinn úr Kötlum gerði á einum fundi sem herstöðvaandstæðingar boðuðu til í Keflavík forðum daga.

Við fórum þangað, við Gils Guðmundsson, með Jóhannesi úr Kötlum til að flytja þar ræður um hættuna sem okkur stafaði af herstöðinni. Herstöðvaandstæðingar áttu þá formælendur fáa í Keflavík. Helstu forustumenn lýðræðissinna, eins og þeir kölluðu sig þá, eða frjálsra og friðelskandi lýðræðisþjóða á Suðurnesjum voru Þórður Halldórsson, sem þá var póstafgreiðslumaður þarna syðra, og Jósafat Arngrímsson, umsvifamikill kaupsýslumaður síðar, sem þá hafði tekið að sér meindýraeyðingu á Keflavíkurflugvelli. Þeir smöluðu á þennan fund tugum sjálfstæðismanna. Ég er alveg viss um að ef hefði verið borin fram tillaga á þessum fundi um að auka hersetu á Íslandi hefði hún verið samþykkt með yfirgnæfandi meiri hluta atkv. vegna þess hve herstöðvaandstæðingar voru fáir. — Og nú er að segja frá fundinum. Hann gekk skaplega til að byrja með. Við fengum sæmilegt hljóð, við Gils Guðmundsson, en það var þegar Jóhannes úr Kötlum byrjaði að tala sem hljóðið í fundinum breyttist nokkuð og stjórnuðu aðallega framíköllum Þórður Halldórsson og Jósafat Arngrímsson og tóku að „sítera“ í ljóð Jóhannesar, m. a. um bóndann í Kreml og Sovét-Ísland, þangað til Jóhannes heitinn varð að gera hlé á máli sínu og gerði nú svofellda grein fyrir stöðunni, eins og ég vildi gera núna þegar ég segi að það eru til menn, það eru til íslenskir þegnar, sem skipta sér af öryggismálum og hersetumálum, sem ég vil ekki ræða við. Jóhannes sagði:

„Það eru til sjónarmið tvenn í öryggismálum þjóðarinnar og ég virði bæði til umræðu. Það er sjónarmið mitt, sem ég er að gera grein fyrir í þessari ræðu, sem þið hafið ekki leyft mér að flytja,“ sagði hann, „og svo er það sjónarmið þeirra, sem telja að okkur sé búin vörn með veru ameríska hersins hérna. Ég er á móti þessu sjónarmiði, en það er virðingarvert, fólkið trúir þessu. Við þetta fólk á að tala. En svo er þriðja sjónarmiðið,“ sagði hann „og það er sjónarmið þeirra manna, sem óttast það, ef ameríski herinn færi frá Íslandi, að þeir misstu ekki spón, heldur rottu úr askinum sínum.“

Eftir það fór svo, að þegar meindýraeyðirinn á Keflavíkurflugvelli reyndi að halda áfram framíköllum sussuðu sjálfstæðismennirnir þarna á hann til að geta hlustað á Jóhannes, og fundurinn var leiddur til lykta.

Ég ræði ekki þessi mál við þá, sem nota dvöl varnarliðsins hérna til þess að hagnast á því, og enn þá siður við þá menn, sem hugsanlega kynnu að þiggja úr lófa erlendra aðila peninga til að flytja hér málstað sem sennilega er sprottinn af öðrum toga en umhyggju fyrir velferð Íslands.

Það er einmitt þetta atriði í ræðu hv. þm. Ragnhildar Helgadóttur sem ég tel að við þurfum að hugleiða mjög vel og ég er ekki viss um að við séum í stakk búnir til að svara til hlítar á þessu stigi málsins, þar sem er peninganotkun KGB í Danmörku og mál þess vesalings rithöfundar sem ekki er upplýst enn þá.

Hitt er mér alveg ljóst, að risaveldin tvö sýna purkunarleysi í notkun peninga til að fremja málstað sinn og ná áhrifum, — ekki síður í notkun peninga en smíði vopna og notkun þeirra. Eins og vikið hefur verið að hér hefur ekki staðið á því að notaðir verði peningar frá erlendu stórveldi á Íslandi til að hafa áhrif á stjórnmál hér. Ég hlýt að viðurkenna við þessar umr. þann ugg minn, að það mundi ekkert standa á hinu stórveldinu að leggja eitthvað í framréttan lófa, þar sem hann fyndist fyrir, til að fremja sinn málstað hérna. En allt þetta, sem við höfum rætt um núna, gerir okkur erfiðara fyrir þegar við ræðum um þann möguleika, íslenskir stjórnmálamenn, að setjast niður og reyna að komast að réttri niðurstöðu um hvað raunverulega sé best fyrir land okkar og þjóð til að tryggja öryggi hér, frelsi landsins og sjálfstæði. Við verðum að gjalda varhug við því. Einnig að því þurfum við að huga. — Og aðeins í lokin: Ég tel að hv. þm. Ragnhildur Helgadóttir hafi átt erindi hingað inn á þing að þessu sinni.