12.11.1981
Sameinað þing: 18. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 668 í B-deild Alþingistíðinda. (500)

Umræður utan dagskrár

Ólafur Ragnar Grímsson:

Herra forseti. Ég vil taka undir þau orð, sem hér hafa verið flutt, og þakka hv. þm. Ragnhildi Helgadóttur fyrir að kveðja sér hljóðs strax og hún var komin hingað inn á þing. Þegar hv. þm. Ragnhildur Helgadóttir átti hér sæti í Ed. fyrir síðustu kosningar voru fáar ræður sem við þm. Alþb. fögnuðum eins og hennar ræðum. Hv. þm. Ragnhildur Helgadóttir hefur hreinskilni til þess að sýna hversdagslega hið rétta andlit sem stór hluti íhaldsins á Íslandi ber. Það er nú svo með þorrann af þingflokki Sjálfstfl., bæði þann hlutann, sem er í stjórn, og hinn, sem er í stjórnarandstöðu, að þeir bera velflestir áferðarfallegt spariandlit hér í þingsölum og almennt á umræðuvettvangi. En hv. þm. Ragnhildur Helgadóttir sýnir okkur sem betur fer oftast nær, þegar hún kemur hér í þingsalina, kalt og nakið ofstækið, kalda og nakta íhaldssemina, kalda og nakta dýrkunina á hagsmunum stórveldisins. Vegna þessa vildum við Alþb.-menn og aðstandendur Þjóðviljans gjarnan hafa svona íhald í landinu, svo að við studdum framboð hv. þm. Ragnhildar Helgadóttur til varaformanns í Sjálfstfl. Það var sameiginlegt skipbrot Þjóðviljans og hennar að hún skyldi ekki ná kosningu. Það er að vísu nokkur ágreiningur um þetta innan Alþb. eins og kom fram í ræðu síðasta hv. ræðumanns. En þeir þm. hjá okkur, sem studdu hv. þm. Friðrik Sophusson, eru fáir. Allur þorri flokksins taldi á hinn bóginn að hagsmunum okkar hefði verið miklu betur þjónað með því að hv. þm. Ragnhildur Helgadóttir hefði verið kosin varaformaður Sjálfstfl. (LJ: Eigið þið ekki nóg með að kjósa ykkar eigin formann?) Nei, það gengur svo vel hjá okkur að við eigum mikla orku afgangs í þeim efnum. Hluti þeirrar orku dugði t. d. til að stuðla að kjöri Geirs Hallgrímssonar sem formanns flokksins. Hann var frambjóðandi okkar í formannssæti í Sjálfstfl. og hann náði kjöri. En okkur tókst því miður ekki að fá kosinn frambjóðanda okkar í varaformannskjöri.

Það er hins vegar ekki ástæða til að fara mörgum orðum um þetta hér. En vegna orða síðasta ræðumanns, þar sem hann lýsti yfir stuðningi við Friðrik Sophusson, taldi ég alveg nauðsynlegt að láta það koma hér fram og ítreka það, sem reyndar kom fram í leiðara Þjóðviljans sama daginn og landsfundur Sjálfstfl. var haldinn, að málgagn Alþb. og þorri Alþb.-manna óskaði þess, að hv. þm. Ragnhildur Helgadóttir næði kjöri. Það er þess vegna misskilningur hjá hv. þm., sem kom fram í lokaorðum ræðu hennar hér, að Alþb. réði of miklu í þessu landi. Því miður ræður Alþb. ekki nógu miklu. Alþb. fékk því t. d. ekki ráðið að hv. þm. yrði kosinn varaformaður Sjálfstfl. (ÓÞÞ: Er þetta ekki of persónulegt, Ólafur Ragnar Grímsson?) Nei, þetta er ekki persónulegt, hv. þm. Ólafur Þórðarson. Sú reynsla, sem ég hlaut hér á mínu fyrsta þingi sýndi mér að það er nauðsynlegt fyrir stjórnmálaumræðuna í landinu að — (Gripið fram í.) Ég ætla síðar í ræðu minni að koma að veru minni í Framsfl. ef hv. þm. bara bíða rólegir eftir þeim kafla, hv. þm. Hann kemur hér síðar. (Gripið fram í.) Ég get huggað hv. þm., formann þingflokks Alþfl., með því, að meðan hann á jafnerfitt með að ná samheldni og ró í sínum eigin þingflokki þarf hann ekki að óttast að ég komi þangað. Ég nefndi þetta hins vegar í upphafi vegna þess að það er nauðsynlegt að sá hluti Sjálfstfl., um það bil þriðjungur af landsfundi Sjálfstfl., sem styður þá kaldastríðsíhaldsmennsku, sem Ragnhildur Helgadóttir gerðist talsmaður fyrir hér fyrir nokkrum dögum, eigi fulltrúa hér í þingsölum. Hann á ekki fulltrúa að mínum dómi í hópi þeirra þm. Sjálfstfl. sem hér sitja að öllu jöfnu. Þess vegna fagna ég því, að þessi umr. skuli eiga sér stað og þau sjónarmið skuli vera rifjuð hér upp sem hv. þm. setti fram. Það vill nefnilega þannig til, þótt sumum kunni kannske að þykja það undarlegt, að það voru atriði í ræðu hv. þm. og reyndar í stjórnmálaályktun Sjálfstfl. sem ég er sammála. Það sýnir kannske best hvílíkur snillingur hæstv. forsrh. var að ná málamiðlun í þessari stjórnmálaályktun, að í henni skuli vera textar sem jafnvel ég get samþykkt. Í þessari stjórnmálaályktun Sjálfstfl., sem hv. þm. Ragnhildur Helgadóttir vék að áðan, var áskorun til þjóðarinnar og stjórnvalda um og ég vitna hér orðrétt, með leyfi hæstv. forseta: „að gera nauðsynlegar ráðstafanir til að erlend ríki og útsendarar þeirra, útlendir eða innlendir, grafi ekki undan öryggi ríkisins og sjálfstæði þjóðarinnar innan frá.“

Þetta eru orð sem ég er sammála. Þetta eru orð sem eru í tíma töluð. Það er staðreynd að hér í landi fer fram víðtæk starfsemi stórveldanna beggja til þess að hafa áhrif á skoðanir þm., á skoðanir blaðamanna, á skoðanir almennings, á skoðanir kjörinna fulltrúa á fjölmörgum vettvangi. Stórveldin, Bandaríkin og Sovétríkin, beita í þessu skyni hér á landi, eins og þau gera í ýmsum öðrum löndum, mjög útfærðum og þróuðum aðferðum. Það er ljóst að stórveldin bæði hafa áætlanir sem fulltrúar þeirra hér vinna eftir. Það eru gefin hér út blöð af hálfu sendiráðs Sovétríkjanna. Það er dreift bæklingum. Það eru sendar fréttatilkynningar. Það er reynt með margvíslegum öðrum hætti, samtölum við menn, sjálfsagt heimboðum og öðru slíku að hafa áhrif á einstaklingana. Allt þetta er liður í þeirri viðleitni Sovétríkjanna að reyna að hafa áhrif á skoðanamyndun, reyna að hafa áhrif á afstöðu þess fólks sem kjörið hefur verið til áhrifa hér heima fyrir.

En það eru ekki bara Sovétríkin, hv. þm. Ragnhildur Helgadóttir, sem beita þessum aðferðum, því miður. Málið væri að mínum dómi tiltölulega létt viðureignar ef það væru bara Sovétríkin, vegna þess að Sovétríkin eru yfirleitt, eins og hér hefur verið rakið, svo klaufsk í sínum áróðri að oftast er tiltölulega auðvelt að átta sig á hvað þau eru að gera.

Bandaríkin hafa hins vegar þróað sér miklu fínna kerfi, kerfi sem ýmsir hv. þm. hafa flækst inn í. Ég held að það sé mjög nauðsynlegt fyrir hv. alþm. — sérstaklega þm. hér á Íslandi, af því að Íslendingar hafa haft ríka tilhneigingu til þess að vera saklausir í veröldinni — að átta sig á þeim flókna og útfærða vef sem stórveldin, Bandaríkin og Sovétríkin, vinna eftir í þessum efnum til þess að hafa áhrif hér innanlands. Við Íslendingar erum þjóð sem hefur ekki átt mikil samskipti við erlend stórveldi. Við áttum samskipti við Dani. Það var tiltölulega væg nýlendustjórn þó að við höfum miklað hana fyrir okkur. En á allra síðustu árum hafa hellst yfir okkur háþróaðar aðferðir risaveldanna til þess að hafa hér áhrif. Vörnin, sem felst í því að hamla gegn slíkum tilraunum, er fyrst og fremst sú vörn að mínum dómi, sem hæstv. utanrrh. gerði hér að umræðuefni þegar umr. hófst, það er siðferðisstyrkur þjóðarinnar sjálfrar. Ef hann brestur, þá bresta allar varnir, hvort sem þær eru tryggðar með herveldi eða einhverju öðru. Það er siðferðisstyrkur okkar allra gagnvart ásókn stórveldanna sem er hin eina vörn sem við getum byggt á til lengdar. Það þarf sterk bein til að hafa stórveldi að vini. Stórveldi, sem er óvinur, veit maður nokkurn veginn hvar maður hefur. En það þarf sterk bein til að hafa stórveldi að vini.

Það vill svo til, herra forseti, að mér hefur borist í hendur skjal, reyndar tvö. Annað skjalið ber heitið Country Plan for Iceland eða Áætlun um Ísland. Þetta skjal er vinnuskjal bandaríska sendiráðsins á Íslandi, greinargerð bandaríska sendiráðsins á Íslandi til innanhúsnotkunar, til að senda til stjórnardeildanna í Washington, til að lýsa þeim aðferðum, sem þeir beita hér á Íslandi, og til að réttlæta að þeir fái aukna fjármuni frá Washington til að halda áfram að stunda þá starfsemi. (Utanrrh.: Hvernig hefur hv. þm. komist yfir þetta?) Hæstv. utanrrh. spyr að vonum hvernig ég hafi komist yfir þetta skjal. Það er von að spurt sé, vegna þess að þetta er trúnaðarvinnuskjal embættismanna í sendiráði Bandaríkjanna á Íslandi og í bandarísku utanríkisþjónustunni. (StJ: Það varðar Ísland nokkru?) Já, já, það er skjal algerlega um Ísland. Hitt skjalið er leiðbeiningarrit fyrir starfsmenn bandaríska sendiráðsins á Íslandi.

Þessi tvö skjöl, Áætlun um Ísland eða Country Plan for Iceland og hitt skjalið, Leiðbeiningarrit fyrir starfsmenn bandaríska sendiráðsins á Íslandi, bárust mér í hendur frá einstaklingi sem ég ætla ekki að nafngreina. Það væri og hættulegt fyrir hann ef ég nafngreindi hann. Það gæti haft of alvarlegar afleiðingar fyrir starfsferil hans sem einstaklings. Ég get hins vegar fullyrt það hér, að þessi einstaklingur er þegn eins af aðildarríkjum Atlantshafsbandalagsins. Hann hefur gegnt trúnaðarstöðum fyrir aðildarríki Atlantshafsbandalagsins. Ég get því miður ekki svarað að fullu og öllu spurningu hæstv. utanrrh. Ég veit að fyrr eða síðar yrði þessum einstaklingi refsað fyrir að hafa látið þessi skjöl af hendi. Ég hef ákveðið hins vegar að lokinni þessari ræðu að afhenda fulltrúum fjölmiðlanna hér og þeim þm., sem óska ljósrit af þessu skjali svo að hver og einn geti lesið og kynnt sér það sem í því stendur. Ég ætla hins vegar ekki, a. m. k. ekki að þessu sinni, að afhenda ljósrit af Leiðbeiningarriti fyrir starfsmenn bandaríska sendiráðsins. Ég ætla að geyma það. En ég ætla að lesa hér, með leyfi hæstv. forseta. (RH: Á hv. þm. kannske svona skjöl frá hinu stórveldinu líka?) Nei, því miður. Því miður á ég ekki svona skjöl frá hinu stórveldinu. En ég tek undir með hv. þm. Ragnhildi Helgadóttur að það væri mjög æskilegt. En ég þykist þess fullviss, að svona skjöl eru líka til þar. Þótt það skjal, sem ég ætla hér að lesa upp, sé samið af embættismönnum Bandaríkjanna fyrir starfsmenn Bandaríkjanna í Washington og lýsi þeim aðferðum sem Bandaríkjamenn beita á Íslandi, þá reikna ég fyllilega með því, að sovéska sendiráðinu hér og í embættismannakerfinu í Moskvu séu hliðstæð skjöl um hliðstæðar áætlanir. Ég er hins vegar að segja frá þessu skjali hér, hv. þm. Ragnhildur Helgadóttir, til að styðja ályktun landsfundar Sjálfstæðisflokksins, til þess að sýna í reynd veruleikann sem býr að baki þessum orðum, þó að fulltrúar landsfundar Sjálfstfl. hafi e. t. v. ekki haft hann í huga þegar þeir samþykktu þessa ályktun.

Ég ætla, með leyfi hæstv. forseta, að lesa hér lauslega þýðingu á ýmsu af því sem í þessu skjali stendur. Hv. þm. geta síðan sjálfir fengið allan textann, skoðað hann og velt honum fyrir sér. Ég vona að allir þm. geri það. Þetta skjal sýnir okkur hin daglegu, hin mánaðarlegu, hin árlegu vinnubrögð stórveldanna til þess að flækja litla þjóð, flækja þingmenn lítillar þjóðar, flækja embættismenn lítillar þjóðar inn í sinn áhrifavef. Ég veit að hér í þessum sal eru ýmsir sem munu kannast við eigin persónu í þessari frásögn, sem munu kannast við það að hafa orðið þátttakendur í því plani sem kallað er Country Plan for Iceland og er gefið út fyrir árin 1978 og 1979 og öll önnur ár. Ég bið þessa ágætu menn og aðra, sem hér eru utan og innan þingsala, að lita síðan í eigin barm og hugleiða hvar í þessari áætlun þeir komu við sögu.

Ég ætla þá að hefja hér lestur á þýðingu ýmissa greina úr þessu skjali. Eins og hv. þm. sjá er það sett upp á sérstök eyðublöð bandaríska sendiráðsins og utanríkisþjónustunnar þar sem á hverri síðu er gerð grein fyrir sérstökum parti, þar sem áætluninni er skipt í ákveðna kafla, ákveðna þætti. Fjallað er í hverjum hluta um hvert sé markmiðið, hvert sé innihaldið og hverjir séu þeir íslensku einstaklingar og þær íslensku stofnanir sem á að rækta sérstaklega í þessu sambandi. Það er mjög háþróað skrifstofuveldi sem vinnur á þennan hátt sem lýsir svona nákvæmlega hvernig það fléttar litla þjóð inn í sinn áhrifavef. Hér er ekki verið að draga úr skrifræðinu. Hér er ekki verið að fela neitt. Hér er verið að kortleggja nákvæmlega hvernig á að vinna. (EKJ: Láttu nú koma eitthvað krassandi, maður er forvitinn.) Það kemur.

„Markmið stofnunarinnar er að auka skilning Íslendinga á Bandaríkjunum fram yfir hernaðartengslin sem eru milli landanna og styrkja það viðhorf meðal Íslendinga, að nauðsynlegt sé fyrir bandaríska herliðið að hafa án nokkurrar hindrunar eða erfiðleika aðgang að aðstöðunni í herstöðinni. Markmiðið er einnig að auka stuðning Íslendinga við bandaríska varnarliðið á Íslandi og áframhaldandi aðild Íslands að NATO jafnhliða því að auka menningarleg og efnahagsleg tengsl milli Íslands og Bandaríkjanna og efla þátttöku Íslands í Hafréttarráðstefnunni í umræðum um fleiri mál en fiskveiðilögsöguna.“ (LJ: Þetta er bara eins og upp úr samþykktum MÍR.) Já, hv. þm. Lárus Jónsson, þetta er eins og upp úr samþykktum MÍR. En það hafa því miður ýmsir, sem hér eru innan og utan þingsala og nálægt standa hv. þm., tekið þátt í þessum MÍR-félagsskap. Held ég nú áfram lestrinum:

„Þótt það sé markmið okkar að auka skilning á bandarískum málefnum öðrum en þeim sem snerta bandarísku herstöðina í Keflavík er einnig nauðsynlegt að efla framlag okkar til umræðu um öryggismál með samböndum við stjórnmálamenn, blaðamenn og háskólakennara, með því að styrkja NATO-ferðalög og koma því í kring, að mikilvægir Íslendingar taki þátt í öryggismálaráðstefnum erlendis, og við fáum erlenda fyrirlesara til að tala í stofnun okkar og við Háskólann.

Skilyrði okkar til þess að koma áætlunum okkar í framkvæmd eru almennt séð hagstæð. Menningarstofnun Bandaríkjanna er virt af háskólakennurum og leiðtogum í menningarlífi, og í auknum mæli gætir einnig jákvæðra viðhorfa meðal stjórnmálamanna og blaðamanna og manna í atvinnulífinu.

Á undanförnum árum hafa ýmsir Íslendingar, þ. á m. ýmsir stuðningsmenn herstöðvarinnar, óskað eftir fjárframlögum frá Bandaríkjunum til greiðslu á ýmsum framkvæmdum á Íslandi sem umbun fyrir það að leyfa dvöl bandaríska hersins í Keflavík.“ (EKJ: Er þetta sneið til forsrh.? Hann er eini þm. sem hefur stutt aronskuna.) Það á margt fleira eftir að koma um Sjálfstfl. í þessu plaggi, þannig að ég bið hv. þm. að taka þessu bara rólega. Held ég áfram lestrinum.

„Við munum leggja áherslu á að auka sérstaklega framlag okkar til þeirrar umræðu sem fram fer um öryggis- og varnarmál. Stjórnmálamenn og embættismenn ráðuneytanna og þeir, sem leiðandi eru í skoðanamyndun í landinu, hafa verið fúsir til þess að taka þátt í ýmsum athöfnum og aðgerðum sem styðja markmið okkar á Íslandi.

Aðalmarkmið okkar er að efla stuðning Íslendinga við dvöl bandaríska varnarliðsins og áframhaldandi þátttöku Íslands í NATO. Við þurfum einnig að stuðla að því, að stuðningur Íslands við stefnu Bandaríkjanna í kjarnorkuvopnamálum og afvopnunarmálum sé fyrir hendi.

Til þess að ná þessum markmiðum leggjum við sérstaka áherslu á að rækta samband við íslenska stjórnmálamenn sem láta utanríkis- og öryggismál til sín taka, þ. á m. embættismenn í utanrrn. og forsrn., ritstjóra blaðanna og þá blaðamenn sem fjalla sérstaklega um erlend málefni. Til viðbótar þessum hópi leggjum við sérstaka rækt við forustumenn í æskulýðssamtökum, sérstaklega æskulýðssamtökum sem styðja vestræna samvinnu, og enn fremur kennara við lagadeild Háskóla Íslands, félagsvísindadeild Háskóla Íslands og við viðskiptadeild Háskóla Íslands.

Ferðalög, sem við höfum fjármagnað til Bandaríkjanna og á vegum NATO, hafa reynst árangursríkasta aðferðin til þess að fá Íslendinga til að átta sig á öryggis- og varnarmálum. Í þessum ferðalögum er sérstaklega mikilvægt að þátttakendur séu einnig frá öðrum NATO-löndum. Vegna fjarlægðar Íslands hefur of oft orðið að styðjast eingöngu við upplýsingar frá Bandaríkjamönnum. Hins vegar eru þátttaka og erindi frá Norðmönnum og Dönum vænlegri til þess að sannfæra Íslendinga um mikilvægi þess að hafa herstöðina í Keflavík og að Ísland sé í NATO heldur e,n fyrirlestrar fluttir af Bandaríkjamönnum.

Við ráðgerum að fjármagna sérstaka NATO-ferð, sem sjö íslenskir stjórnmálamenn eða blaðamenn tækju þátt í, í okt. 1978 og eina eða tvær slíkar ferðir til viðbótar á árinu 1979. Í þessum ferðum verður lögð sérstök áhersla á erindi sem starfsmenn Bandaríkjanna hjá NATO munu flytja, og farið verður í heimsókn um borð í flugvélamóðurskip og einnig um austur- og vesturhluta Berlínarborgar. Reynslan hefur kennt okkur að það hefur mjög hagstæð áhrif á Íslendinga að láta þá sofa eina nótt um borð í flugvélamóðurskipi. Slík næturgisting jafnast á við margar tylftir af greinum um hernaðarmálefni Atlantshafsbandalagsins og hernaðartækni. Það hefur reynst ein af mikilvægustu aðferðunum“— þ. e. að láta Íslendinga sofa um borð í flugvélamóðurskipunum, — „til að vega upp á móti óhagstæðum greinum fyrir Atlantshafsbandalagið og greinum sem halda því fram að Varsjárbandalagið hafi yfirburði hernaðarlega í Evrópu. Með heimsókn til Berlínar er hægt að sýna Íslendingum hvernig náðst hefur hagstæður árangur í samskiptum herliðs við íbúa viðkomandi dvalarlands. Við munum einnig fjármagna ferðir tveggja Íslendinga til að sækja ráðstefnu í Tromsö í Noregi þar sem rætt verður sérstaklega um hermálefni á Norðurlöndunum.

Við gerum ráð fyrir að auka sérstaklega á kerfisbundinn hátt persónuleg samskipti og auka þá þjónustu sem við veitum í bókasafni okkar. Með slíkum persónulegum samskiptum getum við komist að því, hvaða einstaklingar eru heppilegastir til þess að þiggja boð í NATO-ferðir og til að taka þátt í ráðstefnum um öryggismál. Enn fremur gegna slík persónuleg sambönd mikilvægu hlutverki í því að koma á framfæri við blöðin og fá birt efni sem okkur er hagstætt.

Til þess að koma öllu þessu í framkvæmd þurfum við nána samvinnu við viðskipta- og hagdeild sendiráðsins í Reykjavík. Viðskipta- og hagdeild sendiráðsins er sérstaklega mikilvæg í því skyni að velja einstaklinga sem boðnir verða í einkaheimsóknir til Bandaríkjanna og velja þann hóp manna sem við bjóðum sérstaklega til að hlusta á þá sem flytja erindi á okkar vegum. Við höfum ákveðið að standa að heimsóknum manna til að flytja erindi um ýmis efni, m. a. um nýjustu aðferðir í stjórnsýslu í Bandaríkjunum, sérstaklega núllgrunns fjárlagaáætlunina og hina svonefndu sólarlagslöggjöf. Það prógramm verður í sérstakri samvinnu við Stjórnunarfélag Íslands.“ (FrS: Ég kannast við það.) Já, hv. þm. Friðrik Sophusson kannast við það. Og hv. þm. muna það líka, að nokkrir þm. Sjálfstfl. — ég man nú ekki hve margir — fluttu síðan í kjölfarið á þessu tillögu hér á Alþingi um þessa sérstöku núllgrunnsáætlun og hún var tekin upp í leiftursóknarstefnu Sjálfstfl. (FrS: Það er nú reyndar misskilningur.) Held ég þá áfram lestrinum:

„Við munum bjóða íslenskum einstaklingi að heimsækja Bandaríkin til að ræða við bandaríska sérfræðinga um efnahagsmál. Við munum einnig athuga að fjármagna ferð Íslendinga til að sækja hagfræðiráðstefnur líkt og áður hefur verið gert. Við munum einnig kappkosta á vikulegum fimmtudagsfundum okkar með fulltrúum frá blöðunum að fjalla sérstaklega um efnahagsmálefni, eftir því sem slíkar upplýsingar verða veittar okkur frá Washington.

Við munum leggja sérstaka áherslu á, eftir því sem kostur er, að efla sambönd við íslenska hagfræðinga og menn úr atvinnulífinu og leggja einnig rækt við hópa eins og JC-hreyfinguna. Einnig munum við styðja tilraunir Íslendinga til að ná tökum á efnahagsmálum með því að efla samskipti Íslendinga við bandaríska hagfræðinga, bandaríska fjármálamenn og aðra efnahagsráðgjafa, sérstaklega á sviði núllgrunnsáætlunarinnar. Þær stofnanir og einstaklingar, sem við munum sérstaklega rækta í þessu sambandi, eru Junior Chamber-hreyfingin, Þjóðhagsstofnun, fjmrn., utanrrn., fjölmiðlarnir, viðskiptadeild Háskóla Íslands, Stjórnunarfélagið, Félag viðskiptafræðinga og hagfræðinga, Flugleiðir og Alþýðusamband Íslands.“ (JE: Í þessari röð?) Þetta er röðin í skýrslunni, hv. þm. Jóhann Einvarðsson. Þetta er bara bein þýðing á þeim texta sem hér stendur.

„Á sviði menningarmála eru markmið starfsemi okkar að efla sérstaklega menningarleg tengsl og háskólatengsl milli Bandaríkjanna og Íslands, sérstaklega á sviði kennslu í ensku og námsgreinum sem snerta Bandaríkin og Ísland.

Við munum leitast við að aðstoða Háskólann og aðrar stofnanir við að efla gæði enskukennslu með sérstöku tilliti til þess, að umfjöllun um bandarísk málefni sé liður í þeirri kennslu. Við munum einnig á komandi ári reyna að koma í kring upphafsviðræðum við Háskóla Íslands í því skyni að á vegum Háskólans verði stofnað til sérstakrar kennslu í bandarískum málefnum og jafnvel verði reynt að koma upp sérstakri háskólanámsbraut á því sviði.

Þeir einstaklingar og stofnanir, sem við munum sérstaklega rækta í þessu sambandi, eru embættismenn í menntmrn., í sagnfræði og enskunámsgreinum við Háskóla Íslands og Félag ísl. enskukennara, jafnhliða því að ná samböndum við þá sem skrifa í blöðin. Við viljum einnig kynna okkur möguleika á því að við fjármögnum aðgerðir sem beinast að stjórnendum safna, meðlimum í rithöfundasamtökum, kennurum í tónlistarskólum og öðrum félögum.“

Síðar í þessari skýrslu, herra forseti, er rakið á hvern hátt bandaríska sendiráðið hér og starfsmenn þess muni kynna sér, hvaða bækur eru kenndar við Háskóla Íslands, og tryggja að þær erlendu bækur séu til í bókasafni Menningarstofnunarinnar, hvernig þeir áforma sérstaka kvikmyndahátíð — sem síðan var framkvæmd hér og ég veit að sumir hv. þm. muna eftir, með bandarískum verðlaunakvikmyndum — og hvaða aðferðum þeir hyggjast beita við að fá einhvern íslenskan aðila til að taka þátt í slíkri kynningu með þeim þótt kostnaðurinn verði greiddur af bandarískum aðilum.

Til viðbótar þessari almennu grg. — ég hef hér aðeins lesið stutta kafla úr þessu plaggi, hv. þm. geta lesið það í heild sinni — fylgir sérstök kostnaðaráætlun um það fjármagn sem sendiráðið sækir um til viðbótar til fjármálayfirvalda í Washington svo að hægt sé að greiða ýmsa kostnaðarliði við þessa sérstöku ræktun á Íslendingum. Skulu nefnd nokkur dæmi úr þessari fjárhagsáætlun..

„5 300 dollarar til að bjóða 1979 og 1980 íslenskum embættismanni eða hagfræðingi að heimsækja Bandaríkin og ræða iðnþróun og hagræðingu. 5 300 dollarar einnig á sömu árum til að bjóða íslenskum verkalýðsleiðtoga að heimsækja Bandaríkin og kynnast viðhorfum verkalýðsleiðtoga í Bandaríkjunum og ræða við forsvarsmenn verkalýðsfélaga þar um efni sem snertir á hvern hátt verkalýðsfélögin geta á ábyrgan hátt tekið þátt í þróun efnahagslífsins. 5300 dollarar á sömu árum til að bjóða annaðhvort þjóðleikhússtjóra eða stjórnanda Leikfélags Reykjavíkur í heimsókn til Bandaríkjanna til að kynnast bandarísku leikhúslífi. (Gripið fram í: Ekki veitir nú af.) 5300 dollarar á sömu árum til að bjóða blaðamanni á sviði stjórnmála að heimsækja Sovétríkin — nei, Bandaríkin.“ Það er von að þetta ruglist. (FrS: Það er tungunni tamast sem hjartanu er kærast. Gripið fram í.) Hvað sagði hv. þm. Ragnhildur Helgadóttir? (RH: Er það ekki áreiðanlega rétta skjalið sem hv. þm. er með?) Það er von að hv. þm. Ragnhildur Helgadóttir lifi lengi í voninni um að þetta sé ekki rétta skjalið. En því miður er það rétta skjalið, hv. þm. Ragnhildur Helgadóttir. Því miður er þetta nákvæm lýsing á þeirri hættu sem ég hélt að landsfundur Sjálfstfl. hefði verið að vara við. Kannske finnst landsfundi Sjálfstfl. allt í lagi ef það er bara bandaríska stórveldið sem beitir svona aðferðum. En það er ekki sagt í ályktuninni. Í ályktuninni, sem ég tók hér undir, var varað við öllum slíkum aðgerðum allra slíkra erlendra stórvelda í íslensku samfélagi. Og það er það sem ég hélt að allir þm. hér inni gætu sameinast um, að svona iðja erlends stórveldis — hvort sem það eru Bandaríkin, Sovétríkin eða eitthvert annað stórveldi á Íslandi verði stöðvuð. Það var það sem ég héli að landsfundur Sjálfstfl. hefði verið að álykta um. En áfram úr þessu skjali.

„Einnig 5 300 dollarar á sömu árum til þess að bjóða íslenskum alþingismanni, sem yrði valinn eftir sumarkosningarnar 1978, að ferðast um Bandaríkin, en eðli og dagskrá heimsóknarinnar yrði að ákveða eftir þeim þingmanni sem valinn yrði til ferðarinnar. 5 300 dollarar á sömu árum til að bjóða ungum og efnilegum stjórnmálamanni að heimsækja Bandaríkin og kynnast sérstaklega kosningum og stjórnmálum í Bandaríkjunum. 41 600 dollarar á sömu árum til að fjármagna heimsókn fjögurra bandaríkra fyrirlesara til Háskóla Íslands, þar sem þeir mundu fjalla sérstaklega um bandarískar bókmenntir, siðfræði og rannsóknir á sviði upplýsingaöflunar.“

Síðan er í áætluninni lýsing á því, hvernig veita á fjármagn til að kosta ferðir fyrirlesara sem mundu fjalla um hernaðar- og öryggismál á Atlantshafi með sérstöku tilliti til mikilvægis Íslands fyrir Atlantshafsbandalagið og Bandaríkin, á grundvelli þess, að í áhorfendahópi þeirra hér á Íslandi yrðu ekki íslenskir sérfræðingar eða aðrir þeir Íslendingar sem hefði einhverja sérstaka þekkingu á viðkomandi málum. Þessar heimsóknir fyrirlesaranna yrðu í samvinnu við Samtök um vestræna samvinnu.

Enn fremur yrði veittur sérstakur styrkur til þess að fjármagna ráðstefnu sem bandarískir aðilar og Stjórnunarfélag Íslands önnuðust aðra um haustið og hina um vorið. Á þessar ráðstefnur þyrfti sendiráðið að fá tvo fyrirlesara, annan, sem hefði kunnáttu í nýjustu þróun á sviði stjórnsýslu, og hinn, sem gæti fjallað sérstaklega um stjórnun smærri fyrirtækja og svarað spurningum um frjálsa samkeppni og löggjöf gegn einokun.

Herra forseti. Þetta eru aðeins nokkrir kaflar úr þessari ítarlegu áætlun, Country Plan for Iceland 1978 og 1979. Þetta skjal veitir okkur litla innsýn í það, hvernig stórveldin vinna, veitir okkur litla innsýn í það hvernig í hverri viku, hverjum mánuði og á hverju ári hópur erlendra sendiráðsstarfsmanna — bæði bandarískra og sovéskra örugglega, því sjálfsagt vinna þeir á nákvæmlega sama hátt, en á miklu kerfisbundnari, útfærðari, nákvæmari og markvissari hátt en ég held að nokkurn hér inni hefði grunað — reynir að flétta net sitt inn í íslenskt þjóðfélag. Hér í þessum sal eru þm., ekki bara einn, ekki tveir, fleiri en þrír, fleiri en fjórir, sem hafa orðið fórnarlömb áætlana af þessu tagi, sem hafa orðið nöfnin sem sett voru síðar í dálkana um framkvæmdina á þeim atriðum sem hér er verið að lýsa. Og það getur hver þessara ágætu manna bara litið í eigin barm og hugleitt það útfærða, nákvæma, markvissa kerfi sem þeir hafa aðeins verið litið peð í.

Við lifum í grimmum heimi þar sem stórveldin bæði og önnur erlend ríki beita markvissum aðferðum í okkar eigin þ jóðfélagi til að hafa áhrif. Það er nauðsynlegt fyrir okkur að gera okkur grein fyrir því, á hvern hátt þetta er unnið, svo að við getum væntanlega öll sameinast um að vera á varðbergi. Ég er sammála hæstv. utanrrh. um að við stofnum ekki neinar lögreglusveitir til að verjast þessari ásókn. Við eflum skilning þjóðarinnar á því hvaða aðferðum bæði stórveldin beita. Við eflum siðferðisþrek okkar sjálfra og við sýnum hér í þessum sal og utan hans það fordæmi sem við ætlumst til að aðrir fari eftir.

En það er annað skjal sem ég ætla ekki að lesa úr hér nú nema einn litinn kafla. Það er leiðbeiningarrit fyrir starfsmenn bandaríska sendiráðsins. Í þessu leiðbeiningarriti er farið sérstaklega yfir það, hvaða einstaklingar það eru sem þeir kalla á sínu skrifstofuhernaðarmáli „target group“. Ég veit að þeir, sem kunna ensku, heyra hljóminn á hernaðarmáli, „target group“. Það er erfitt að þýða það á íslensku. Íslenskan á ekki góð orð yfir slík hernaðarleg hugtök í áróðri. Ég kalla þetta miðunarhópa. (Gripið fram í: Það heitir markhópar.) Það má kalla það markhópa, en það er hugsun sem ég held að skiljist ekki. (Gripið fram í: Það er í félagsfræði.) Markhópar í félagsfræði eru annað, hv. þm. (Gripið fram í: Nákvæmlega þetta.) Við þekkjum ekki þetta sambland af áróðursmáli og hernaðarmáli sem hugtakið „target group“ gefur til kynna. Í þessu leiðbeiningarriti fyrir starfsmenn bandaríska sendiráðsins er upptalning á þeim einstaklingum í stjórnmálum, í embættiskerfinu, í atvinnulífinu, í verkalýðshreyfingunni og annars staðar sem eru sérstaklega innan miðunarhópsins sem bandaríska sendiráðið ætlar að beina ræktun sinni að.

Ég ætla ekki að lesa úr því skjali hér, en ég lofaði hv. þm. Eyjólfi Konráð Jónssyni áðan að hann fengi að heyra einn litinn kafla sem snertir Sjálfstfl. sérstaklega. (Gripið fram í.) Nei, ég ætla ekki að gera það, vegna þess að ég held að það sé ekki æskilegt að við förum að þróa þá umræðu með því að velta okkur nákvæmlega upp úr því, hvaða einstaklingur hafi verið innan miðunarhópsins, hvaða einstaklingur hafi farið þessa ferð eða hina, hvaða nafngreindur maður hafi gert þetta eða hitt, hverjir eru á þessum lista bandaríska sendiráðsins og hverjir ekki. Ég held að umræðan eigi ekki að vera á þann veg. Umræðan á þvert á móti að vera á þann veg að við áttum okkur á því neti, á þeim aðferðum, á þeim kerfisbundnu vinnubrögðum sem er beitt við okkur öll hér í þessum sal og hundruð manna utan hans, svo að íslensk þjóð, sem er tiltölulega saklaus í þessum málefnum, geti verið á varðbergi.

Aðeins litið sýnishorn úr þessu leiðbeiningariti. Það er til að kynna fyrir nýjum starfsmönnum sendiráðsins þann árangur sem sendiráðið hefur náð áður við miðunarhópa sína. Þar segir orðrétt á þessa leið, með leyfi hæstv. forseta: „Það eru varla nokkur tengsl milli bandaríska sendiráðsins og verkalýðshreyfingarinnar. Þar sem verkalýðshreyfingin er yfirleitt undir stjórn Alþb. þarf varla að undrast slíkt. Samt sem áður höfum við á undanförnum árum náð nokkrum árangri, sem sést best á því, að leiðtoga Sjálfstfl. innan BSRB var boðið í sérstaka ferð um Bandaríkin og sendiráðið fjármagnaði sérstaklega hóp manna úr verkalýðsmálaráði Sjálfstfl. sem fór í stutt ferðalag um Bandaríkin.“

Ég held að það sé ekki æskilegt að við í þessum sal förum að setja saman langan lista yfir þá sem falla inn í framkvæmd þessara áætlana, að við förum að velta því fyrir okkur hvort það hafi verið Pétur eða Páll, Jón eða einhver annar sem pössuðu í þennan dálkinn og hinn í framkvæmd áætlunarinnar Country Plan for Iceland. Ég held þvert á móti, eins og ég sagði áður, að við þurfum að átta okkur á því, að við erum hér að fást við útfært, flókið, fjármagnað og traust kerfi stórveldis, sem allt miðar að því að styrkja eingöngu hagsmuni Bandaríkjanna hér á Íslandi, þá hagsmuni að hafa hér herstöð, eins og kemur tæpitungulaust fram í þeim inngangi sem ég las áðan í þessu innanhússkjali bandaríska sendiráðsins og bandarísku utanríkisþjónustunnar. Þar eru þeir að tala hver við annan. Þar eru þeir ekkert að fela hver er tilgangurinn með þessu öllu saman, hvert er markmiðið sem þeir eru að þjóna. (Gripið fram í: Hvar fær maður þessa bæklinga?) Eins og ég sagði, hv. þm., mun ég athenda fulltrúum fjölmiðla og öltum þeim þm., sem áhuga hafa á, ljósrit af þessu skjali, Country Plan for Iceland. (EKJ: Hver nennir að stela svona þvælu?) Hv. þm. Eyjólfur Konráð Jónsson spyr hver nenni að stela svona þvælu. Þetta er ekki þvæla, hv. þm. Eyjólfur Konráð Jónsson. Þetta er raunverulegt vinnuskjal bandaríska sendiráðsins á Íslandi og utanríkisþjónustu Bandaríkjanna um það, hvernig þeir eigi að haga vinnubrögðum sínum á Íslandi seinni hluta ársins 1978 og árið 1979. Menn geta svo hver fyrir sig dregið ályktanir af þessu skjali. Það getur hver fyrir sig túlkað einstakar greinar, einstakar blaðsíður í þessu skjali. Skjalið sjálft er engin þvæla. Skjalið sjálft er veruleikinn, kaldur, nákvæmur, skipulagsbundinn.

Ég held þess vegna, herra forseti, að það sé nauðsynlegt að við gerum okkur grein fyrir því, að smáþjóðirnar í heiminum í dag lifa í grimmum heimi þar sem stórveldin — sérstaklega risaveldin tvö, Bandaríkin og Sovétríkin — kappkosta að gæta hagsmuna sinna. Þau beita til þess fjölmörgum aðferðum, sem hér hefur að nokkru leyti verið lýst og fjölmörgum öðrum aðferðum sem sjálfsagt væri tilefni til að fjalla ítarlega um hér á Alþingi. Mannkynssagan er því miður full af dæmum um örlög smáþjóða sem hafa annaðhvort skert sjálfstæði sitt eða misst það algerlega vegna þess að leiðtogar þjóðarinnar, þeir sem skrifa í blöðin, þingmenn, embættismenn og þeir aðrir sem eru í þessum miðunarhópum, sem ég gat um áðan, hafa ekki haldið vöku sinni, hafa ekki haft þann siðferðilega styrk sem þarf til að eiga stórveldi að vini.

Það, sem hefur verið að gerast í Evrópu á undanförnum mánuðum, ein af meginrótum þeirrar hreyfingar sem hér hefur verið rædd, friðarhreyfingarinnar, er að æ fleiri þúsundir manna átta sig á þessum vanda smáþjóðanna, átta sig á vanda þeirra sem búa í ríkjum sem ekki eru flækt sjálf inn í kjarnorkuvopnakapphlaup stórveldanna, — vandanum sem snýst um þetta: Hvernig verjast smáþjóðir í þessum grimma heimi, hvernig tryggja þær öryggi sitt í veröld sem er orðin full af kjarnorkuvopnum?

Ég veit ekki hvort hv. þm. hugleiða daglega þau miklu umskipti sem orðið hafa í veröldinni á síðustu 20–30 árum. Í dag hafa tveir menn, forseti Sovétríkjanna og forseti Bandaríkjanna, vald til þess að gereyða öllu mannkyni sjö sinnum. Þeir eru að vísu báðir um sjötugt og við höfum góða reynslu af slíkum leiðtogum hér á landi. Við getum kannske þess vegna verið öruggari um það, að menn með slíka reynslu og svo langan lífsferil að baki muni ekki ýta á hnappinn. En við skulum hugleiða að í Evrópu einni eru 16 þús. kjarnorkusprengjur — í Evrópu einni, og hver þessara kjarnorkusprengja hefur margfaldan gereyðingarmátt á við Hiroshima sprengjuna. Það er staðreynd sem er ómótmælt, að 9 þús. af þessum sprengjum eru í eigu Bandaríkjanna, Breta og Frakka og 7 þús. eru í eigu Sovétríkjanna. Einn kafbátur, kjarnorkukafbátur sem siglir um höfin hér í kringum Ísland, — og þeir eru margir sem sigla um höfin hér í kringum Ísland, sovéskir kjarnorkukafbátar, bandarískir kjarnorkukafbátar og breskir kjarnorkukafbátar, — einn slíkur kjarnorkukafbátur hefur í dag getu til þess að gereyða á örfáum klukkustundum 250 borgum sem hver um sig hefði yfir milljón íbúa, — aðeins einn kafbátur. Eins og ég sagði áðan eru margir hér í höfunum í kringum okkur.

Pershing II eldflaugarnar, sem hér hafa verið gerðar að umræðuefni, eru sérstakar fyrir þá sök, að þær þurfa aðeins 4 mínútur frá því að þær leggja af stað og þangað til hver og ein þeirra er búin að drepa nokkra tugi milljóna íbúa.

Ástæðan fyrir því, að verið er að mótmæla Perching II eldflaugunum sérstaklega, er þessi staðreynd ein út af fyrir sig. Þær minnka svo þann tíma sem líður frá því að einhver tekur ákvörðun um að setja af stað hina óhugnanlegu gereyðingu og þangað til afleiðingin er orðin.

Það er ósköp skiljanlegt að við hér á Íslandi höfum ekki mikla þekkingu á þessum efnum. Við höfum ekki haft her. Við erum ekki hernaðarmenntuð þjóð. Öll þessi orð, SS-20, SS-4, SS-5, Poseidon, Polaris, Trident o. s. frv. eru nöfn sem við vitum ósköp litið hvað að baki liggur, nema það sem við lesum í dagblöðum. Staðreyndin er samt sem áður sú, að á rúmlega 20 árum hafa risaveldin tvö, Bandaríkin og Sovétríkin, komið sér upp svo flóknu kerfi gereyðingarvopna, að það þarf langan tíma til að setja sig inn í eðli þess og ógn. Það er kjarnorkuvopnakerfi sem sérstaklega er tengt flugflota og þeim sprengjum sem flugvélum er ætlað að bera, það er kjarnorkuvopnakerfi sem byggt er á eldflaugum sem skotið er af jörðu niðri og í þriðja lagi kjarnorkuvopnakerfi sem tengt er kjarnorkukafbátum sem eru m. a. hér í hafinu í kringum Ísland. Síðan er í tengslum við þetta kerfi háþróuð miðunartækni og fjarskiptatækni sem er orðin eins mikill grundvallarþáttur í þessu kerfi og sprengjan sjálf. — grundvallarþáttur sem felur í sér að sprengjuna væri varla hægt að nota án þess að þessi miðunar- og stuðningstæki væru fyrir hendi.

Okkur finnst kannske, Íslendingum, þessi umræða vera okkur fjarlæg. En hún stendur okkur nálægt. Hún stendur í raun og veru eins mikið við okkar eigin dyr og sovéski kafbáturinn í Svíþjóð sýndi Svíum að hún stendur við þeirra dyr vegna þess að í hafinu við Íslandsstrendur eru bandarískir kjarnorkukafbátar, breskir kjarnorkukafbátar og sovéskir kjarnorkukafbátar, breskir kjarnorkukafbátar og sú herstöð sem hér er gegnir lykilhlutverki í að stýra þessu kjarnorkukafbátakerfi á Norður-Atlantshafinu. Um það verður ekki deilt með nokkru móti. Það er herfræðileg staðreynd sem enginn einasti sérfræðingur mótmælir. Menn deila hins vegar um það, hvort sjálf sprengjan sé hér staðsett eða ekki. En um hin nánu tengsl og lykilhlutverk herstöðvarinnar í að reka þetta kjarnorkuvopnakafbátakerfi á Norður-Atlantshafi deilir ekki nokkur maður.

Þegar við erum að fjalla hér á Alþingi Íslendinga um þá umræðu sem hefur átt sér stað í flestöllum lýðræðisríkjum Vestur-Evrópu á undanförnum mánuðum, þá er nauðsynlegt að við gerum okkur grein fyrir því, að við erum þegar hluti af þessu kjarnorkuvopnakerfi. Það er nauðsynlegt að menn átti sig allir á þeim herfræðilegu staðreyndum sem að baki þess liggja. Síðan geta menn deilt um hvernig eigi að túlka þær staðreyndir, hvort það sé æskilegt eða óæskilegt að vera svona tengdir bandaríska kerfinu eða ekki, hvort í því fellst minna öryggi eða meira. Um það allt saman getum við deilt. En staðreyndirnar í málinu skulum við ekki deila um. Við skulum þvert á móti sameinast um að gera okkur þær ljósar.

Það er fyrst á síðustu 1–2 árum, eftir almikla vinnu sem ég varð á mig að leggja við lestur erlendra fræðitímarita um þessi efni, sem ég gerði mér ljóst hve náin staða okkar var orðin kjarnorkuvopnakerfinu á norðurslóðum. Mér er til efs að íslenskir þingmenn hafi almennt lagt á sig þá vinnu sem er óhjákvæmileg til þess að átta sig á því hvað er verið að tala um, um hvað er verið að deila. Íslenskir þingmenn t. d., sem taka þátt í samtökum Atlantshafsbandalagsins, sækja ekki fundi hermálanefndarinnar að öllu jöfnu. Þeir hafa látið hina herfræðilegu umræðu afskiptalausa, en það er sú umræða sem er kjarni málsins. Það er sú umræða sem gerir okkur kleift að meta það, hvers vegna við erum á móti SS-20, hvers vegna við erum á móti Pershing II, og hvers vegna við erum á móti stýrieldflaugunum. Hver eru tengsl stöðvarinnar hér við æ nákvæmari miðunartæki sem í kjarnorkukafbátunum eru? Hvernig stendur á því að í kringum Ísland er jafnmikill fjöldi af kjarnorkukafbátum og raun ber vitni? Hvað mundi gerast, — ég tala ekki um stríðstíma vegna þess að það er óhugnaður, — hvað mundi gerast á friðartímum ef bara einn af þessum kafbátum lenti í slysi eða óheppni sem gæti gert það að verkum að geislavirknin streymdi hér út í fiskimiðin í kringum okkur? Það gæti verið sovéskur kafbátur, það gæti verið bandarískur kafbátur, það gæti verið breskur kafbátur. Allar tegundirnar eru hér í kring. Við sjáum á því sem gerðist í Svíþjóð að það eru ekki eintómir snillingar sem stjórna þessum drápstækjum. Hvað mundi gerast ef bara einn af þessum kafbátum, sem eru hér daglega og vikulega í höfunum í kring, yrði fyrir óhappi, eins og hafa skeð í Japan, á Spáni, í Grænlandi? Við höfum dæmi um svona slys, svona óheppni. Geislavirknin mundi streyma út í hafið hér í kring. Halda menn að íslenskur fiskur yrði keyptur víða eftir það? Halda menn að okkur tækist í langan tíma að sannfæra þjóðir um að við værum með holla og heilbrigða fæðu hér í þessu landi?

Ég vil þess vegna fagna því, herra forseti, að hv. þm. Ragnhildur Helgadóttir skyldi vekja máls á þessari umræðu hér. Hér eru á ferðinni að mínum dómi stærstu mál okkar samtíðar. Það er í fyrsta lagi að átta sig á eðli, tæknilegu eðli, hernaðarlegu eðli og stjórnmálalegu eðli þess kerfis sem á rúmum 20 árum hefur veitt tveimur ríkjum í veröldinni mátt til þess að gereyða öllu mannkyni sjö sinnum.

Við ræðum oft hér um öryggismál á Íslandi út frá umræðugrundvelli sem fyrst og fremst er mótaður af seinni heimsstyrjöldinni. Sá tími er því miður liðinn. Veröldin í dag er miklu flóknari. Það er miklu meira verk, það er miklu meiri vinna að setja sig inn í þau deilumál sem núverandi hernaðarumræða snýst um. Íslendingar mega ekki setja sig í þá stöðu að taka bara sem góða og gilda vöru þær áróðursplötur sem fulltrúar stórveldanna spila fyrir okkur um þessi efni, hvort sem það eru fulltrúar Bandaríkjanna eða Sovétríkjanna, hvort sem það eru fulltrúar manna, sem vinna eftir gulu plani, eða fulltrúar manna, sem vinna eftir einhvern veginn öðruvísi hvítu plani í sendiráði hins stórveldisins eða í höfuðstöðvum þess í Moskvu. Öll áróðursstarfsemi stórveldanna af þessu tagi miðar að því að blekkja, miðar að því að fela, miðar að því að koma í veg fyrir að lýðkjörnir fulltrúar smáu ríkjanna geti myndað sér sjálfstæða skoðun um það. Skemmtilegasta dæmið af þessu öllu saman en jafnframt það óhugnanlegasta er umræðan um SS-20 eldflaugarnar, Pershing II eldflaugarnar og stýrieldflaugarnar. Bandaríkin og bandamenn þeirra segja: Við erum að setja upp Pershing II eldflaugarnar og stýrieldflaugarnar vegna þess að Sovétríkin eru að setja upp SS-20 eldflaugarnar. Sovétríkin segja: Við erum að setja upp SS-20 eldflaugarnar vegna þess að hinir eru með áætlanir um Pershing II eldflaugarnar og stýrieldflaugarnar. Hvort tveggja er rangt. Þetta eru hvort tveggja sjálfstæðar ákvarðanir sem voru teknar á sjálfstæðan hátt, óháð því hvað hinn var að gera. Síðan er hitt bara áróðursleikur, að tengja það saman til þess að blekkja okkur öll hin.

Það er mjög mikilvægt að menn átti sig þess vegna á eðli þessara þátta hvers fyrir sig, hver er munurinn á SS-20 og Pershing II eldflaugunum og stýrieldflaugunum. Þetta er hvort tveggja liður í sjálfstæðri viðleitni stórveldanna til að styrkja kjarnorkuherafla sinn. Tengingin, áróðurstengingin, að segja að annað sé háð hinu, kemur eftir á. Það eru mörg fleiri dæmi um þetta. Ef lesið er í gegnum ræður og skrif forsvarsmanna þessara ríkja á undanförnum 10–20 árum, þá sjáum við að hvert nýtt skref hjá hvorum aðilanum um sig hefur verið rökstutt með þessum hætti, að hinn væri að gera annað og þannig koll af kolli: Það er einmitt þessi margbreytileiki, það er einmitt þessi blekkingariðja sem hefur gert það að verkum, að hundruð þúsunda, milljónir almennra borgara í Evrópu hafa í dag áttað sig á því, að það er tími til kominn að segja nei.

Friðarhreyfingin, sem hér hefur verið talað um og margir hafa fordæmt, á ekkert skylt við þau félög sem mynduð hafa verið af hollvinum Sovétríkjanna og Sovétríkjunum sjálfum fyrir mörgum áratugum og starfað hafa allan tímann. Hún á ekkert skylt við það. Það er mikill misskilningur. Það er hættulegur misskilningur. Ég vona að menn séu ekki að gera sér leik að því að rugla þessu saman. Ef menn eru að gera sér leik að því að rugla þessu saman, þá er það ábyrgðarlaust, hættulega ábyrgðarlaust. Ef menn vita hins vegar ekki muninn, þá sýnir það best að menn hafa ekki hugmynd um hvað hefur verið að gerast hér í helstu nágrannalöndum okkar í Evrópu á allra síðustu mánuðum. Ég man t. d. eftir því, að þegar ég byrjaði að tala um þessa friðarhreyfingu s. l. sumar héldu margir að hún væri ekki til. En menn eru kannske farnir að trúa því núna þegar hátt í eina milljón almennra borgara kemur saman um eina helgi á fundum víðs vegar í Evrópu ekki bara vinstri menn, heldur frjálslyndir, hægri menn, kristilegir menn, kaþólskir menn. Það er engin fjöldahreyfing í sögu Evrópu sem á eins breiðan grundvöll og sú friðarhreyfing sem nefnd hefur verið því samheiti í umræðum hér á landi. Ég endurtek að hún á ekkert skylt við þann umræðu- og áróðursvettvang sem tengst hefur utanríkisstefnu Sovétríkjanna, — ekki neitt. (EG: Það hefur komið í ljós í Danmörku.) Nei, það hefur ekki komið í ljós í Danmörku, hv. þm. Eiður Guðnason. Ég vona, hv. þm., þín vegna, þjóðarinnar vegna, að menn fylgi í þessari umræðu lögmálinu um að hafa frekar það sem sannara reynist. Við erum hér að ræða um þau mál sem snerta afstöðu okkar til þess gereyðingarkerfis gagnvart öllu mannkyni sem komið hefur verið upp. Ef menn ætla að nálgast þá umræðu á einhverjum einföldum áróðursbrögðum, þá segi ég bara: Guð hjálpi þeim mönnum. Hvers konar ábyrgðarleysi er það eiginlega að leyfa sér einföldustu áróðursbrögð og blekkingar í umræðu sem er alvarlegri en nokkuð annað sem mannkynið hefur fengist við? Ég veit að þetta eru stór orð, en þau eru því miður sannleikur. Við búum í dag við kerfi sem getur á nokkrum mínútum drepið fleira fólk en allar styrjaldir mannkynssögunnar til samans, sem getur á nokkrum klukkustundum gereytt öllu mannkyni. Þetta eru að vísu orð, bara setningar. Það er erfitt að ímynda sér slíkan veruleika, en hann er engu að síður til. Það er nauðsynlegt fyrir okkur sem sjálfstætt ríki að gera okkur grein fyrir hvað hér er verið að tala um, að átta okkur á hinu sanna og rétta í þessu efni, vegna þess m. a. að við erum aðildarríki NATO og þar greiða fulltrúar Íslands atkvæði, við erum í Sameinuðu þjóðunum? og þar greiða fulltrúar Íslands atkvæði, við erum kallaðir til að taka afstöðu. Það er lágmarkskrafa að við tökum þá afstöðu á grundvelli þekkingar.

Friðarhreyfingin í Evrópu, sú sem talað hefur verið mest um, sú sem hefur verið á forsíðu Time, forsíðu Newsweek, forsíðu allra stórblaða á Vesturlöndum vikum og mánuðum saman, hún er ekki til sem nein ein hreyfing. Það er frumskilyrði að vita það til að átta sig á þessari umræðu. Friðarhreyfingin er samheiti sem bæði félagar í hreyfingunni sjálfri og blaðamenn og aðrir hafa búið til yfir mikinn fjölda hreyfinga og samtaka um alla Evrópu. Þegar menn segja: Rithöfundurinn var forustumaður í friðarhreyfingunni í Danmörku, þá eru menn einfaldlega að upplýsa að þeir hafi ekki áttað sig á þessari einföldu staðreynd. Ég skal taka eitt dæmi til að skýra það.

Hér hefur verið minnst á fundinn í Bonn. Hann sóttu 250 þús. manns. Það er fjölmennasti fundur í sögu Vestur-Þýskalands. Það var sagt í öllum fjölmiðlum að það væri friðarhreyfingin sem stæði að þessum fundi. Það var skammstöfun sem menn bjuggu til til þess að þurfa ekki að telja upp allan þann fjölda samtaka sem stóðu að þessum fundi. Hvað halda menn að það hafi verið mörg samtök? Hvað halda menn að það hafi verið mörg formleg samtök sem stóðu að þessum fundi? Þau voru ekki fimm, þau voru ekki tíu, þau voru ekki tuttugu, þau voru ekki hundrað. Það voru 830 samtök sem stóðu að þessum fundi, 830 samtök sem sameinuðust um þær kröfur og þau stefnumið sem þarna voru sett fram.

Þarna var fjórðungurinn af þingflokki jafnaðarmanna í Vestur-Þýskalandi, flokksbræður Alþfl.-manna hér, flokkur sem Alþfl. hefur átt við bræðraflokkatengsl árum saman, flokkur sem fulltrúar úr Alþfl. hafa sótt áróðursnámskeið hjá, gengið í stjórnmálaskóla hjá, náttúrlega kostað af Þjóðverjum. Þessi flokkur, fjórðungurinn af þingflokki hans, stóð að þessum fundi. Að þessum fundi stóð öll meginhreyfing lúthersku kirkjunnar í Þýskalandi, systurkirkju íslensku þjóðkirkjunnar. Að þessum fundi stóð fyrrv. borgarstjóri jafnaðarmanna í Berlín og varla verður hann sakaður um að vera þjónn Rússa. Að þessum fundi stóðu fyrrv. herforingjar og liðsforingjar Atlantshafsbandalagsins. Að þessum fundi stóðu margir sem hafa verið og eru enn eindregnir stuðningsmenn Atlantshafsbandalagsins, en eru hins vegar á móti þeirri kjarnorkuvopnastefnu sem þar er nú í gildi.

Í Noregi var það verklýðshreyfingin, alþýðusambandið í Noregi, sem var meginhvatinn að þeirri umræðu sem þar átti sér stað. Það eru samtök sem öll verkalýðshreyfingin á Íslandi á samskipti við. Það eru samtök sem Alþfl. á Íslandi er í flokkslegum tengslum við. Það var verkalýðshreyfingin í Noregi sem fyrst og fremst bar þessa stefnu fram. Og samtökin í Noregi: Nei til Atomvåpen, eru samvinnusamtök þeirra, sem eru á móti Atlantshafsbandalaginu og kjarnorkustefnu þess, og annarra sem eru, þótt þeir séu stuðningsmenn Atlantshafsbandalagsins, á móti kjarnorkuvopnastefnu þess.

Þannig getum við gengið land úr landi. Staðreyndin er sú, að að baki því, sem við köllum í daglegu tali friðarhreyfinguna, standa þúsundir af samtökum: samtök mótmælenda, formlegar kirkjudeildir, formleg kirkjuþing, biskupar, prestar og prelátar, samtök kaþólskra, samtök kvekara, öflug samtök trúardeilda og kirkjustofnana í Evrópu sem þar hafa verið afgerandi afl í þjóðmálum í áratugi. Í þessari hreyfingu er verkalýðshreyfingin, breska verkalýðshreyfingin, norska verkalýðshreyfingin og fjölmörg önnur verkalýðssamtök sem ekki nokkur maður vænir um óeðlileg sjónarmið eða óþjóðlega hollustu í sínu landi. Innan þessarar hreyfingar eru líka sérstök samtök eins og Nei til Atomvåpen í Noregi, sem hafa verið mynduð á síðustu mánuðum til þess að sameina stuðningsmenn Atlantshafsbandalagsins og andstæðinga Atlantshafsbandalagsins í baráttunni fyrir því að breyta kjarnorkuvígbúnaðarstefnu Atlantshafsbandalagsins.

Það mætti eyða hér löngum tíma, herra forseti. Ég ætla ekki að gera það. Ég hef þegar notað of mikinn tíma fundarins hér í dag. En vanþekkingin, sem kemur fram í umræðum hér um friðarhreyfinguna, og tilhneiging manna til að einfalda nálið með saklausum áróðursbrögðum gerir það að verkum að nauðsynlegt er að menn átti sig á því, að hér erum við að ræða um einhverja fjölþættustu fjöldahreyfingu sem komið hefur fram í Evrópu frá stríðslokum. Svo standa menn upp og halda því fram að Rússar stjórni-þessu öllu saman, Rússar sem geta ekki einu sinni stjórnað Póllandi, Rússar sem eru að missa Pólland út úr höndunum á sér vegna þess að fólkið sjálft neitar að hlýða þeim, Rússar sem eru í vanda staddir hér og þar úti um allan heim, geta ekki einu sinni stjórnað Afganistan þó þeir séu þar með herskara af skriðdrekum til að kúga hina afgönsku þjóð. Hvers konar oftrú er þetta á Rússum, að halda að menn, sem eru í slíkum vandræðum með sín heimalönd, geti búið til einhverja umfangsmestu fjöldahreyfingu sem hefur komið fram í sögu Evrópu, þeir geti fengið harða stuðningsmenn Atlantshafsbandalagsins til að ganga undir þessum merkjum, geti þeir sannfært stóran hluta af jafnaðarmannaflokkunum í Evrópu og fengið fulltrúa þeirra til að tala á fundum friðarhreyfinganna, þeir geti fengið lúthersku kirkjurnar í Hollandi og Þýskalandi til að ganga þar í fararbroddi, þeir geti komið kaþólskum samtökum og kvekarasamtökum til þess að kalla út á göturnar hundruð þúsunda manna í öllum stórborgum Evrópu á einni helgi? Það er það sem hefur gerst. Við erum lýðræðissinnuð. Við mótmælum því kerfi, sem ríkis í Sovétríkjunum, og þeim skorti á lýðræði sem þar er. En við skulum vera það miklir lýðræðissinnar að við skulum átta okkur á því, að ef fólkið sjálft tekur höndum saman, þá er það lýðræðið í sinum blóma, þá er það lýðræðið sem ég hélt að við allir værum að berjast fyrir, að fólkið sjálft fengi að láta til sín taka, taka afstöðu, fara út á göturnar og mótmæla.

Mér hefur verið sagt að hér hafi verið fundur, spjallfundur með bandarískum aðstoðarráðherra fyrir nokkru, ráðherra sem kom hér fram í sjónvarpi. Þar stóðu upp Íslendingar og sögðu: Þessi friðarhreyfing er hættuleg. Það verður að stöðva þessar friðarhreyfingar. Þetta er voðalegur hlutur, þessar friðarhreyfingar. —

Hvað sagði bandaríski ráðherrann? Hann sagði það sama og hann sagði hér í sjónvarpinu við íslenska þjóð: Ég mun ávallt verja lýðræðislegan rétt fólks til að ganga út á göturnar í landi sínu til að láta í ljós stuðning við ákveðna stefnu og mótmæla því sem það vill mótmæla. — Þetta var sannur lýðræðissinni. Þarna var maður sem skildi um hvað lýðræðið snýst. En sumir, sem hér hafa verið að tala um friðarhreyfinguna og kalla sig lýðræðissinna á helgidögum og hversdags, tala eins og þeir hafi ekki hugmynd um hver er kjarninn í lýðræðinu. Það er fólkið sjálft. Það er fólkið úti á götunum hundruðum saman, milljónum saman til þess að láta í ljósi vilja sinn.

Það er ósköp eðlilegt að mönnum gangi illa að átta sig á því, hvað þessi mikla alda fólksins hefur í för með sér. En vanþekkingin á friðarhreyfingunni snertir líka stefnumálið. Það hefur verið fullyrt hvað eftir annað, bæði hér í þessum sal og annars staðar, að friðarhreyfingin berðist fyrir einhliða afvopnun. Það er rangt. Það verður ekki nógsamlega endurtekið að það er rangt. Í þessum mikla aragrúa af samtökum eru vissulega til samtök sem hafa það á stefnuskrá sinni. Þau eru til. Það er alveg rétt. En þær fjórar kröfur, sem hafa sameinað þennan fjölda, eru annars eðlis. Það virðist af umr. hér að dæma sem menn hafi ekki áttað sig á því hver þessi stefna er, hvað það er sem sameinar allan þennan fjölda. Það eru fjórar lágmarkskröfur sem kaþólskir og mótmælendur, frjálslyndir og vinstri menn, NATO-sinnar og NATO-andstæðingar hafa sameinast um. Þessar fjórar kröfur eru sú stefna sem hin svokallaða friðarhreyfing hefur sett fram.

Það segir sig sjálft, að þegar 830 samtök standa að einum fundi í Bonn eru þau ekki sammála um allt milli himins og jarðar. Það vita allir. Menn hafa orðið sammála um ákveðinn lágmarksgrundvöll. Ég ætla að rekja þennan lágmarksgrundvöll í örfáum orðum til þess að það sé þó alla vega ljóst hér í umr., hvað er verið að tala um, og til þess að menn endurtaki ekki þær rangfærslur og firrur eða gefi sér það sem kom m. a. fram í ræðum hér fyrr í dag.

Fyrsta krafan er sú, að það verði ekki fleiri kjarnorkuvopn framleidd, hvort sem það eru SS-20, Pershing II eldflaugarnar, stýrieldflaugarnar eða hvað sem er. Það verði einfaldlega ekki fleiri kjarnorkuvopn framleidd af hvaða tagi sem er. Það sé nú þegar til gereyðingargeta til að eyða öllu mannkyni sjö sinnum. Hún sé til í kafbátum. Hún sé til í eldflaugum. Hún sé til í flugvélum. Hún sé til í þeim 16 000 kjarnorkusprengjum sem séu í Evrópu. Það þurfi ekki fleira af þessum vopnum. Fyrsta krafan er þess vegna: Engin ný kjarnorkuvopn.

Síðan gera menn sér náttúrlega skýra grein fyrir því, hvers vegna menn eru sérstaklega á móti SS-20. Ástæðan er sú, að hún eykur gereyðingargetu Sovétríkjanna í Evrópu. SS-20 þrefaldar kjarnorkusprengjumátt Sovétríkjanna gagnvart Evrópu. Menn eru á móti Pershing II eldflaugunum vegna þess að þær stytta gífurlega tímann sem liður frá skotaugnablikinu og þangað til hundruð milljóna manna hafa dáið, — aðeins örfár mínútur, 4–5 mínútur. Menn eru á móti stýrieldflaugunum vegna þess að þær auka freistinguna til að nota kjarnorkuvopnin. Þær eru þannig tæknilega búnar að þær geta dulist fyrir radarkerfum hins landsins. Menn hafa sérstakar ástæður á móti hverju vopni fyrir sig, en menn eru engu að síður á móti þeim öllum. Það er fyrsta krafan. Það er ekki einhliða afvopnun. Það er einfaldlega bann við framleiðslu fleiri kjarnorkuvopna hvar sem er. Hins vegar er það rétt, að einstaka aðilar t. d. breski verkamannaflokkurinn og frjálslyndi flokkurinn í Bretlandi hafa sett á stefnuskrá sína einhliða kjarnorkuafvopnun Breta einna. Þeir hafa sagt: Þátttaka okkar í þessu vígbúnaðarkerfi er marklaus. Hún er svo lítil, hún er svo dýr fyrir okkur í öllu því atvinnuleysi og öllum þeim vandræðum sem við eigum í heima fyrir. Við viljum ekki að Bretar taki þátt í þessu. — Menn mega ekki rugla því saman við kröfu um einhliða kjarnorkuafvopnun allra.

Í öðru lagi er krafan um tafarlausar afvopnunarviðræður risaveldanna. Þessi krafa hefur þegar skilað árangri. Sú staðreynd, að Helmut Schmidt og aðrir forustumenn NATO-ríkjanna í Evrópu knúðu Bandaríkin til þess að setjast að samningaborði við Sovétríkin um kjarnorkuvopn í Evrópu — fundir sem hefjast í lok þessa mánaðar — er fyrsti árangurinn af þessari kröfu nr. 2 sem hin svokallaða friðarhreyfing hefur sett fram. Það eru viðræður um tafarlausa afvopnun risaveldanna. Hins vegar eru margir í forustusveit þessara friðarhreyfinga sem segja sem svo: Risaveldin mega ekki vera ein um þessar viðræður. Það væri álíka eins og að láta tvo eiturlyfjasala semja sín á milli um bann við notkun eiturlyfja. Það þurfa fleiri að vera við þetta borð. Það þurfa að vera við þetta borð ríki sem hafa ekki hagsmuni af kjarnorkuvopnakerfinu. Þótt menn hafi þannig mismunandi skoðanir á þessu atriði er meginkrafan hins vegar tafarlausar afvopnunarviðræður risaveldanna.

Þriðja krafan er að hrint verði í framkvæmd ályktun Allsherjarþings Sameinuðu þjóðanna um kjarnorkuvopnalaus svæði. Bent er á að í Suður-Ameríku hefur verið gerður sérstakur samningur um Suður-Ameríku sem kjarnorkuvopnalaust svæði. Það sýnir best kunnáttu manna hér á Íslandi um þessi efni að ég hef rekið mig á það í viðræðum mínum við fjölda fólks, jafnvel hér innan Alþingis, að mjög fáir vita að Suður-Ameríka, sú heimsálfa, er formlega með alþjóðlegum samningi kjarnorkuvopnalaust svæði. Það er samningur sem 22 ríki hafa undirritað og staðfest. Það er samningur sem lýsir á ótvíræðan hátt hvað felst í hinu kjarnorkuvopnalausa svæði. Það er samningur sem gerir ráð fyrir reglubundnu, alþjóðlegu eftirliti með að honum sé framfylgt. Það er samningur sem hefur ekki verið brotinn. Krafan er einfaldlega að fleiri heimsálfur en Suður-Ameríka verði með slíkum lögformlegum samningum gerð að kjarnorkuvopnalausu svæði.

Hins vegar eru svo innan hreyfinganna nokkuð mismunandi skoðanir um það, með hvaða hætti eigi að koma þeim á eða hvað eigi að felast sérstaklega í kjarnorkuvopnalausum svæðum af þessu tagi. Sumir segja, t. d. Alva Myrdal, að einstök ríki, t. d. Svíþjóð og Finnland, geti gert samning ein út af fyrir sig. Aðrir, t. d. jafnaðarmannaflokkarnir á Norðurlöndum, hafa sagt að slíkur samningur eigi að vera liður í víðtækara samkomulagi þar sem hlutar Evrópu og hlutar Sovétríkjanna kæmu inn. Menn hafa ýmsar mismunandi hugmyndir um það, í hvaða áföngum og með hvaða hætti slíkt svæði eigi að myndast. Menn hafa líka nokkuð mismunandi hugmyndir um hvað eigi að felast í þessu svæði. Felst í kjarnorkuvopnalausu svæði eingöngu það að þar séu engar sprengjur? Það virðist augljóst við fyrstu sýn. En síðan spyrja menn: Felst einnig í því, að á því svæði séu engin stuðningstæki, engin hernaðartæki sem þjóna kjarnorkuvopnakerfinu eða gerðu kleift að nota kjarnorkuvopn með skömmum fyrirvara? Það er þessi þáttur sem er sérstaklega mikilvægur fyrir okkur hér á Íslandi, vegna þess að það er staðreynd sem við verðum að horfast í augu við, að í þeim umræðum, sem fram hafa farið á Norðurlöndum um að gera Norðurlönd að kjarnorkuvopnalausu svæði, hefur komið fram að mjög margir áhrifamenn í þeim umr. vilja ekki hafa Ísland með vegna þess að það mundi flækja málið, vegna þess að við höfum sérstakan samning við annað af meginkjarnorkuveldunum í veröldinni. Það væri nánast óhugsandi að Bandaríkin mundu fórna hagsmunum sínum af kjarnorkuvopnakerfinu hér á Íslandi. Þess vegna vilja þeir skilja Ísland út undan. (Gripið fram í.) Jú, við látum þetta bíða, það er alveg rétt.

Fjórða og síðasta atriðið á stefnuskránni er að smáu ríkin í Evrópu eigi að taka höndum saman, smáu ríkin innan Atlantshafsbandalagsins, smáu ríkin innan Varsjárbandalagsins og smáu ríkin sem eru hlutlaus í álfunni. Ef þessi ríki geti náð samkomulagi um ákveðna stefnu í öryggis- og afvopnunarmálum sé kominn pólitískur styrkur til að knýja stórveldin til að láta af sinni fyrri braut og fara inn á beinni braut friðar og afvopnunar en þau hafa reynst vera á.

Þetta eru þær fjórar meginkröfur sem mynda stefnu þess mikla og margbreytilega fjölda sem gengur undir daglega heitinu friðarhreyfingin í Evrópu. Það er í fyrsta lagi: Engin fleiri kjarnorkuvopn. Í öðru lagi: Tafarlausar raunverulegar afvopnunarviðræður. Í þriðja lagi: Stofnun kjarnorkuvopnalausra svæða. Í fjórða lagi: Samstaða smáu ríkjanna í Evrópu, bæði þeirra, sem eru í NATO, og þeirra, sem eru í Varsjárbandalaginu, og hlutlausu ríkjanna, um sameiginlega öryggisstefnu fyrir Evrópu.

Það er þessi stefna sem öflugustu verkalýðssamtökin í Vestur-Evrópu standa núna að. Það er þessi stefna sem Alkirkjuráðið hefur lýst yfir stuðningi við. Það birtist í Morgunblaðinu grein laugardaginn 17. október, á síðunni ;,Á kristniboðsári“: Hvað segir kirkjan um afvopnunarmálið? Ég hvet alla hv. þm. til að lesa þessa stefnuyfirlýsingu Alkirkjuráðsins. Hún flytur í stuttu máli meginröksemdir og kjarna friðarhreyfingarinnar. Ég segi við þá þm. Sjálfstfl. sem hér hafa talað gegn friðarhreyfingunni og tala sjálfsagt gegn henni áfram: Þið eruð að tala gegn þeirri meginstefnu sem evrópskar kirkjudeildir, Alkirkjuráðið og systurkirkjur íslensku þjóðkirkjunnar hafa nú uppi. Það er vissulega saga til næsta bæjar þegar forustumenn Sjálfstfl. eru komnir í harða andstöðu við meginstefnu lúthersku kirkjusambandanna í Evrópu og stefnu Alkirkjuráðsins. Það hefði einhvern tíma ekki þótt gott fordæmi fyrir þann flokk, sem hefur talið sig sérstakan boðbera kristilegs siðgæðis, kristilegs hugarfars og kristilegs uppeldis á Íslandi, að verða nú ber að því að vera kominn í beina andstöðu við þær hreyfingar sem kirkjan hefur á síðustu vikum, mánuðum og árum lagt mesta vinnu í að byggja upp. (Gripið fram í.) Hv. þm. Lárus Jónsson veit að við Alþb.-menn og aðrir, sem eru sama sinnis og við, erum reiðubúnir að vinna með hverjum sem er sem er á sömu skoðun í þeim málum sem verið er að fjalla um hverju sinni, hvort sem það er Alkirkjuráðið, hvort sem það eru lútherskar kirkjudeildir, hvort sem það er hluti Sjálfstfl. eða hver sem er.

Við skulum ekki — eins og hv. þm. Stefán Jónsson varaði réttilega við hér áðan — fara að nálgast þessa umræðu í gamla kaldastríðsstíl gömlu flokkanna, pexi, orðavalinu og ræðustílnum sem við þekkjum allir mjög vel. Þessi umræða er ný. Hún er ný fyrst og fremst vegna þess að eðli hernaðartækninnar gerir hana óhjákvæmilega nýja. Eðli hernaðartækninnar er orðið slíkt að við verðum að hugsa þessa hluti upp á nýtt. Kirkjan hefur hugsað upp á nýtt. Verkalýðshreyfingin hefur hugsað upp á nýtt. Forustumenn jafnaðarmannaflokkanna í Evrópu hafa hugsað upp á nýtt. Frjálslyndi flokkurinn í Bretlandi hefur hugsað upp á nýtt. Það eru hundruð og þúsundir stjórnmálamanna í Evrópu sem hafa hugsað upp á nýtt. Af hverju skyldum við ekki gera það hér líka? Það er ein sérstök ástæða fyrir því, herra forseti, — og ég vil gera það að mínu lokaefni — að menn í Evrópu hafa hugsað þessa hluti upp á nýtt. (Gripið fram í.) Alveg rétt, hv. þm. Eyjólfur Konráð Jónsson. En það er þó fyrst og fremst vegna þess að komið hefur í ljós að á síðustu misserum, á síðustu 3–4 árum hefur smátt og smátt verið að gerast ákveðin eðlisbreyting í þessu kerfi, eðlisbreyting sem er fólgin í því, að þau kjarnorkuvopn, sem nú er verið að smíða, þau kjarnorkuvopn, sem menn eru nú með áætlanir um, eru fyrst og fremst miðuð við að verða notuð. Eiginleikar þessara vopna fram yfir fyrri vopnin miðast fyrst og fremst við að hægt sé að nota þau. Fyrri vopnin voru á þá leið, að ef þau voru notuð skapaðist fyrst og fremst hætta á því, að stórveldin gereyddu hvort öðru. Menn voru þess vegna tiltölulega öruggir um að þess vegna kæmi ef til vill ekki til þessara átaka. En eðli nifteindasprengjunnar, eðli þeirra nýju eldflauga, sem verið er að koma fyrir í Evrópu, er hins vegar á þann veg, að það er reiknað með að nota þau.

Það er hugtakið sem við þekkjum nú öll frá deilunni í Bandaríkjunum og daglegum fréttum, hugtakið takmarkað kjarnorkustríð — sem forseti Bandaríkjanna ræðir um og missir út úr sér lýsingar á — sem utanríkisráðherra og varnarmálaráðherra deila um, sem er daglegt umræðuefni í hverju einasta stórblaði í Evrópu þessar vikur og þessa dagana og allir stjórnmálaflokkar í Evrópu, sem vilja taka sig alvarlega, verða að setja á sína dagskrá. Hernaðartæknilegt eðli hinna nýju kjarnorkuvopna miðast við að geta notað þau í takmörkuðu kjarnorkustríði, — kjarnorkustríði sem fyrst og fremst væri — a. m. k. í upphafi — bundið við Evrópu.

Með forsetaúrskurði nr. 59 veitti Carter Bandaríkjaforseti heimild til þess að miða hernaðaráætlanir sínar við þetta kerfi. Það er rétt að rifja það enn upp hér í þessum þingsölum, að þáv. utanrrh. Bandaríkjanna, Muskie, tók það skýrt fram, að sú ákvörðun hefði ekki verið tekin með hans samþykki eða hans vitund. Hann vildi hafa það algjörlega á hreinu, að Carter bæri einn ábyrgð á þeirri ákvörðun. Menn eru kannske búnir að gleyma þessari yfirlýsingu þáv. utanrrh. Bandaríkjanna. Ákvörðun um að framleiða nifteindasprengjuna, ákvarðanir um nýju kjarnorkueldflaugarnar í Evrópu miðast allar við þennan sama grundvöll. Það er þessi staðreynd sem hefur gert það að verkum, að meðal þeirra manna, sem gert hafa friðarhreyfinguna í Evrópu í dag að öflugri fjöldahreyfingu, eru fyrrv. herforingjar og hershöfðingjar innan Atlantshafsbandalagsins. Menn eins og þýskir hershöfðingjar, sem hafa sagt sig úr þýska hernum, hafa sagt sig úr hernaðarkerfi Atlantshafsbandalagsins vegna þess að þeir vilja ekki bera ábyrgð á því að þurfa að nota eða taka þátt í þróun slíkra vopna.

Þess vegna, herra forseti, eru það ekki Rússar sem hafa búið til þessa fjöldahreyfingu. Þess vegna, herra forseti, er það ekki eitthvert samsæri sem knýr milljónir íbúa Evrópu út á göturnar til að lýsa yfir stuðningi við þá stefnu sem ég hef verið að kynna í þessari ræðu. Það er einfaldlega yfirlýst stefna forráðamanna kjarnorkuveldanna sem hefur knúið fjöldann til þess að segja nei. Hins vegar, eins og ég rakti fyrr í ræðu minni, beita stórveldin alls konar aðferðum til að reyna að veikja þessa vöku fjöldans.

Í Danmörku er rithöfundi haldið uppi með boðum og hann látinn fá fé til að greiða auglýsingar. Hér á landi er beitt öðrum aðferðum við aðra hópa og aðra einstaklinga. Ég rakti fyrr í minni ræðu nákvæmlega innihald áætlunar um Ísland sem unnið er eftir af sendiráði Bandaríkjanna hér til þess að slæva þessa vöku, til þess að koma í veg fyrir að menn átti sig á sjálfstæðan hátt á eðli þessara vopna, til þess að búa til eitthvert net vináttu og kunningsskapar sem kemur í veg fyrir að menn skoði af gagnrýni og með sjálfstæðum huga þær ákvarðanir sem þeir eru knúnir til að taka.

Við þurfum þess vegna, eins og réttilega var sagt í ályktun Sjálfstfl., að standa á varðbergi gagnvart slíku neti allra stórvelda og allra erlendra ríkja. Þess vegna bið ég hv. þm. að lesa rækilega Country Plan for Iceland. Þess vegna bið ég menn að hugleiða þau boð, þær ferðir, þann áróður sem að þeim hefur verið beint, frá hvaða stórveldi sem það er. Þess vegna bið ég menn um það, að við sameinumst öll um þá stefnu sem utanrrh. lýsti hér réttilega í upphafi þessarar umr., að það verði siðferðisstyrkur íslensku þjóðarinnar sjálfrar sem einn getur komið í veg fyrir að við látum af vöku okkar, að við fléttumst inn í þann mjúka vef sem ofinn er af stórveldum sem öll hafa Country Plan for Iceland.