12.11.1981
Sameinað þing: 18. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 692 í B-deild Alþingistíðinda. (503)

Umræður utan dagskrár

Dómsmrh. (Friðjón Þórðarson):

Herra forseti. Ég leyfi mér að þakka hæstv. forseta fyrir að hann skuli leyfa mér að segja hér örfá orð áður en hann gefur fundarhlé þar sem ég þarf að mæta á áríðandi fundi.

Það er rétt hjá hv. 6. þm. Reykv., að það væri ástæða til að ræða utanríkismál og öryggismál þjóðarinnar almennt oftar og lengur hér á hv. þingi en gert er. Undir þetta má vel taka. Íslendingar voru lengi eins og hálffeimnir við að ræða þessi mikilvægu mál, þangað til allt í einu að þeir fengu meðferð þeirra í eigin hendur og urðu að grípa til sinna ráða. Það má því segja að hv. 1. þm. Reykv. hafi hér velt nokkuð stórum steini úr stað með því að hrinda þessum umr. á veg. Og hún hefur, hv. 1. þm Reykv., unnið meira afrek. Þeim var tíðrætt um það hér, hv. 4. þm. Norðurl. e. og hv. 11. þm. Reykv., að hún hefði fallið við kjör á landsfundinum, en ég hygg að í þessum umr. hafi þeir báðir fallið að fótum hennar því svo löngu máli eyddu þeir í sínum ræðum í að skírskota til hennar á einn og annan veg og gera mál hennar að löngu umræðuefni að nánast fór útum víðan völl.

Tilefni þess, að hv. 1. þm. Reykv. kveður sér hljóðs utan dagskrár, er að sjálfsögðu ærið. Þarf ekki að fara mörgum orðum um hinn 30 ára kafbát, sem lenti upp í skerjagarðinn í Svíþjóð, og njósnir þær, sem hinn danski rithöfundur er grunaður um. Það er eftirtektarvert að ferðir þessa kafbáts skuli eiga sér stað einmitt á „hafi friðarins“, eins og margir ræðumenn hafa bent á í þessum umr.

Við vitum að það tala margir um frið og það eru friðarhreyfingar hér og þar ofarlega á baugi. Ég efast ekki um að margir af þessum friðarpostulum meina það sem þeir segja. Þeir vilja sannarlega berjast fyrir friði á jörðu. En það eru aftur aðrir sem meina ekki jafnmikið þó að þeir hafi friðarhjal á vörum, sbr. hinn forna talshátt okkar Íslendinga: Fagurt skal mæla, en flátt hyggja. Enn aðrir friðarpostular eru vafalaust þannig gerðir að þeir hafa friðinn á vörum, en eru hið innra glefsandi vargar, eins og einhvers staðar skrifað stendur. Þannig má segja að friðarhreyfingar þær, sem hrærast í heiminum, séu af mörgum og ólíkum toga spunnar.

Það eru ýmsir hér á landi sem tala um frið. Það er því eðlilegt að menn velti nokkuð fyrir sér hvernig þessi mál horfa hérlendis miðað við það sem gerist hingað og þangað úti í heimi. Mig minnir að hv. málshefjandi beindi spurningu til hæstv. utanrrh. eitthvað á þá leið: Hvað er verið að sýsla hér á landi í þessum efnum? Hæstv. utanrrh. svaraði í góðu og greinilegu máli, eins og við munum frá liðnum þriðjudegi, og gerði grein fyrir samvinnu okkar við aðrar þjóðir. Eins og við vitum leggjum við mikla áherslu, m. a. í stjórnarsáttmálanum, á samvinnu við Sameinuðu þjóðirnar, samstarf í NATO og varnarsamstarf við Bandaríkin. Allt þetta gerði hæstv. utanrrh. greinilega að umtalsefni og gaf svör við þeim spurningum sem til hans var beint.

Við Íslendingar erum auðvitað lítt vanir njósnum og gagnnjósnum þó að vel megi vera að við eigum ýmis góð efni í mjög færa njósnara. Ég er ekki frá því, því að það er ekki heiglum hent að seilast í frumrit innst innan úr vopnabúri andstæðingsins og geta veifað þeim framan í þingheim. Það er svei mér ekki heiglum hent. En við þurfum sjálfsagt eins og aðrir, þó við séum litlir, fáir, fátækir og smáir, að hyggja nokkuð að öryggi okkar inn á við. Það verðum við að gera. Við höfum nokkuð gott samstarf við Norðurlandaþjóðirnar í ýmsum efnum. Sannleikurinn er sá, að við höfum haft náið samstarf við frændþjóðir okkar og vinaþjóðir á Norðurlöndum allt frá stríðslokum og við höfum yfirleitt átt nokkuð góða samleið í utanríkis- og öryggismálum, allar Norðurlandaþjóðirnar, þó að sumar þeirra hafi ekki valið sömu leið og við.

Við vitum að ágengni n jósnara eru engin takmörk sett. Þó að þeir séu sléttir og felldir og fagrir á ytra borði læðast þeir inn og eru áleitnir sem vindurinn og brimið. Við höfum lesið margar sögur um njósnara og margar þeirra sannar, þurfum ekki að draga þær í efa. Það er nóg að minnast á eina, þegar Willy Brandt, sjálfur kanslari Vestur-Þýskalands, var allt í einu kominn með harðsoðinn njósnara upp að hlið sér sem æðsta ráðgjafa. Honum hafði tekist að smjúga upp að hlið kanslarans og verða til þess að hann varð að afsala sér völdum.

Við verðum að játa að það er fátt um varnir gegn njósnum hérlendis. Ég held að við verðum bara að segja það eins og er. Við búum við veikt ríkisvald. Við eigum enga leyniþjónustu né öryggislögreglu. Ef við hyggjum að því, hvernig við eigum að gæta öryggis og sjá fótum okkar forráð, þá verðum við kannske allt að því á saklausan hátt að skírskota til hinnar almennu löggæslu, til útlendingaeftirlitsins, til landhelgisgæslunnar og þeirra ráða annarra sem við höfum sem fámenn og fátæk þjóð til að reyna að sjá fótum okkar forráð í viðsjálum heimi að þessu leyti. Við megum auðvitað ekki gleyma því, að á öllum Íslendingum hvílir landvarnarskylda samkv. 75. gr. stjórnarskrárinnar, þó að um það efni sé oftast nær talað lágt. Ég verð þess vegna að segja að það lætur mig ekki ósnortinn þegar hv. þm. tala um að efla þurfi almannavarnir, eins og hv. 1. þm. Reykv. gerði, að efla þurfi og vinna að bættri landhelgisgæslu, styrkja þurfi löggæsluna almennt o. s. frv. En ég leyfi mér að benda þessum ágætu hv. alþm. á þá staðreynd að það þarf svolítið meira að fylgja þessu en orðin tóm. Það þarf að ýta á þessi málefni. Það þarf að styðja fjárveitingar til þessara mála til að gera okkur öll virkari í því eða ögn færari að verja sjálfstæði okkar og öryggi þótt í litlu sé. Við megum ekki gleyma því heldur, að þegar ég ræði um að þörf sé á að styrkja löggæsluna almennt er lögreglan ekki síður hjálparhella en refsivöndur. Þannig á góð löggæsla að vera hvar sem er.

S. l. þriðjudag kom hér til orða tilskipun nr. 44 frá 1939. Það má vel vera að við getum svolítið búið í haginn fyrir okkur að þessu leyti með því að endurskoða þessa tilskipun sem mælir fyrir um aðgang herskipa og herloftfara erlendra ríkja, er ekki eiga í ófriði, að íslensku forráðasvæði. Á síðasta Alþingi bar hv. 4. þm. Reykv., ef ég man rétt, Benedikt Gröndal, fram till. til þál. um að takmarka aðgang erlendra herskipa og herflugvéla að 12 .mílna landhelgi Íslands og var þessi till. hans samþykkt. Hún er á þá leið, að Alþingi ályktar að fela ríkisstj. að undirbúa setningu nýrrar reglugerðar um aðgang erlendra herskipa og herflugvéla að 12 mílna landhelgi Íslands til að takmarka svo sem framast verður unnt þann aðgang. Reglugerðin verði í samræmi við væntanlegan hafréttarsáttmála og gefin út sem fyrst eftir að hann verður undirritaður. Það má vel vera að við nálgumst svolítið það takmark að styrkja stöðu okkar í þessum efnum með því að vinna úr þessari þál. og í samræmi við anda hennar, enda þótt hún sé bundin við hafréttarsáttmálann sem enginn veit enn þá hvenær verður endanlega gengið frá. Bæði með því að fylgja fram þessari þál. og í ýmsum öðrum efnum getum við vafalaust bætt stöðu okkar, einnig með því að ráðast í þær ráðstafanir sem frekari rannsóknir, t. d. á njósnunum í Danmörku, gefa tilefni til. Ég verð þó að fallast á þá skoðun, að umfram allt er það, sem við verðum að byggja á, við sem höfum fámenna lögreglu og engan her, er hin almenna löghlýðni borgaranna og árvekni.

Ég held að það sé í raun og veru miklu meiri áhugi orðinn á utanríkis- og öryggismálum meðal landsmanna en við höfum talið. Við mælumst ekki — sem betur fereinir við, alþm. hér í þingsölum, þegar við ræðum þessi mál. Fréttir af orðræðum okkar hér og deilum berast á öldum ljósvakans og í fréttum fjölmiðla út um landsbyggðina og þar er margt hugsað og lagt út af orðum okkar og jafnvel gripið til þeirra ráða sem nauðsynleg þykja á hverjum tíma ef við stöndum ekki vaktina nógu vel.

Það er ánægjulegt að vera vitni að því hvað eftir annað, að hæstv. utanrrh. er hælt af gervallri stjórnarandstöðunni fyrir góða og örugga meðferð á utanríkismálum. Fagna ég því sannarlega. Það hefur m. a. gert síðasti hv. ræðumaður, 3. þm. Reykn., sem talaði hér áðan. Ég þarf ekki að eyða löngum tíma í að svara hans fsp. Hann getur fengið þau svör, sem hann þarf á að halda, mjög glögg með því aðlesa stjórnarsáttmálann einu sinni enn yfir, sérstaklega þann kafla sem fjallar um utanríkismál o. fl.

Hv. 8.. landsk. þm. sagði m. a.: Við erum öll til þess kjörin að hugsa um framtíð lands og þjóðar. — Þetta er býsna laglega sagt og ég efast ekki um að þarna fylgi hugur máli. En ég vil aðeins endurtaka að það er ýmislegt sem getur hjálpað okkur Íslendingum í sjálfstæðis- og öryggismálabaráttu okkar, m. a. siðferðisstyrkur þjóðarinnar, sem hér hefur verið gerður að umtalsefni, og einnig hitt, sem ég nefndi áðan, að við ræðumst ekki við einir alþm. um þessi efni. Þjóðin hlustar og heldur vöku sinni og gerir okkur aðvart, ekki síst þegar um grundvallarsjálfstæðis- og öryggismál hennar er að ræða. — [Fundarhlé.]