12.11.1981
Sameinað þing: 18. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 704 í B-deild Alþingistíðinda. (506)

76. mál, afnám tekjuskatts af almennum launatekjum

Flm. (Jón Þorgilsson):

Herra forseti. Ég hef leyft mér að flytja á þskj. 79 svofellda tillögu:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstj. að leggja fyrir næsta Alþingi frv. um breyt. á lögum um tekju- og eignarskatt, þar sem tekjuskattur verði afnuminn af almennum launatekjum.“

Á undanförnum árum hefur farið fram mikil umræða um tekjuskattinn, kosti hans og ókosti. Fjöldamargir fundir félaga og flokka hafa samþykkt mikinn fjölda ályktana og tillagna þar sem þess er óskað eða krafist, að tekjuskattur sé ýmist lækkaður stórlega eða afnuminn með öllu. Þessi umr. er ekki óeðlileg, þar sem tekjuskatturinn, eins og hann er nú, snertir hagsmuni svo til hvers einasta vinnandi manns í landinu og veldur að margra dómi miklu misrétti meðal fólks.

Höfuðtilgangur allrar skattheimtu er að afla fjár í sameiginlega sjóði landsmanna og færa fjármuni milli þegnanna til jöfnunar. Það síðarnefnda á alveg sérstaklega við um stighækkandi skatta eins og tekjuskatt. Tekjuskatturinn eins og aðrir skattar er vissulega leið til tekjujöfnunar. En hann er ekki það tæki til jöfnunar sem sumir kunna að halda, heldur þvert á móti. Hann er beinlínis valdur að miklu meira misrétti en hægt er að sætta sig við. Hafi tekjuskatturinn einhvern tíma verið leið til tekjujöfnunar virðast þær forsendur ekki vera lengur fyrir hendi nema þá að litlu leyti.

Nú vill svo til í okkar þjóðfélagi að fyrir hendi eru ýmsar leiðir til jöfnunar á aðstöðu fólks, fyrst og fremst almannatryggingakerfið, ódýr eða ókeypis opinber þjónusta, t. d. í heilbrigðismálum og skólamálum, niðurgreiðsla á almennum neysluvörum, trygging lágmarkstekna, barnabætur og persónuafsláttur til greiðslu á útsvari. Það, sem hér hefur verið nefnt, eru allt miklu árangursríkari leiðir til tekjujöfnunar en sá stighækkandi tekjuskattur sem við nú búum við.

Ekki virðist óeðlilegt að spurt sé: Við hvað er átt með orðunum almennar launatekjur? Í þeirri till., sem hér er til umr., er átt við að almennar launatekjur séu sama fjárhæð og rauntekjur meiri hluta launafólks og sambærilegar tekjur hjá öðrum en launþegum. Tekjuskatturinn í núverandi mynd virðist koma þyngst niður á fólki með meðaltekjur eða ríflega það. Þetta fólk virðist eiga hvað erfiðast með að inna þessar álögur af hendi, að ekki sé nú minnst á þá sem eru að byggja yfir sig eða greiða skuldir vegna íbúðarkaupa.

Stundum heyrist raunar að fólk eigi ekki að leggja það ofurkapp sem margir hafa gert á að eignast íbúð, heppilegra sé að búa í og byggja svokallaðar félagslegar íbúðir. Félagslegar íbúðir eru góðar út af fyrir sig og jafnvel bráðnauðsynlegar að vissu marki. En það er mikið talað um skort á íbúðarhúsnæði um þessar mundir. Farsælasta og jafnframt fljótvirkasta leiðin til úrbóta í því efni er að nýta það afl og þann vilja sem í einstaklingunum býr til að eignast eigin íbúð kvaðalaust. Allir þekkja mörg dæmi um það, að fólk og alveg sérstaklega ungt fólk hefur lagt á sig mikla vinnu til tekjuöflunar í þeim tilgangi að eignast eigin íbúð og jafnvel neitað sér um flest það sem telst til svokallaðra lífsgæða til að ná settu marki. Þessu fólki hefur tekjuskatturinn oft verið fjötur um fót. Það kemur engum vörnum við. Því meira sem menn afla, því harðara sem menn leggja að sér, því gífurlegri verður skattheimtan vegna þessa háa og stighækkandi tekjuskatts.

Nú eru nýir kjarasamningar launafólks á næsta leiti. Eins og oft áður er mikið talað um nauðsyn þess að bæta kjör þeirra lægst launuðu. Æðimörgum sýnist þó ekki svigrum til mikilla kjarabóta. Helst staðnæmast menn við einn þátt öðrum fremur, þ. e. lækkun skatta. Þær eru orðnar æðimargar samþykktirnar sem búið er að gera, þar sem farið er fram á að tilteknar tekjur verði undanþegnar tekjuskatti, og fylgir þá með að í því felist verulegar kjarabætur launaþegum til handa. Eitt nýjasta dæmið í þessa átt mun vera samþykkt um að undanþiggja tekjuskatti yfirvinnu við fiskvinnslu.

Enginn vafi er á því, að stighækkandi tekjuskattur dregur úr framtaki manna og vinnuvilja. Þegar svo er komið að meira en önnur hver króna, sem aflað er, fer í opinber gjöld fara margir að hugsa sig um hvort það borgi sig að vera að vinna. Þessa hugsunarháttar verður víða vart. Þjóðfélagsgerð, sem beinlínis leiðir til hugleiðinga um það, hvort borgi sig að vinna, er ekki viðunandi, hvorki vegna þeirra einstaklinga, sem þannig hugsa, og ekki síður vegna þess að svona hugsunarháttur er skaðlegur fyrir þjóðfélagið í heild, ekki síst vegna þess að oftast er það dugmesta fólkið sem á í hlut. Af mörgum ókostum við háan og stighækkandi tekjuskatt — og hér hefur nokkurra verið getið — er þó sá ótalinn sem er verstur. Það er sá möguleiki sem allt of margir hafa til að koma sér undan þessum skattgreiðslum og raunar ákveða skatta sína sjálfir án tillits til raunverulegra tekna.

Það er alkunna að margir eru haldnir þeirri áráttu að koma sér undan því að greiða gjöld í sameiginlega sjóði. Aðstaða manna til raunverulegra framkvæmda í þessu efni er ákaflega misjöfn. Þetta þekkja allir og því ætti ekki að vera þörf á að fara þar um mörgum orðum. Því er ekki að neita, að vegna þessa aðstöðumunar m. a. hefur tekjuskatturinn oft verið nefndur launamannaskattur. Ekki er við hæfi að ganga fram hjá því, að af hálfu stjórnvalda hefur ýmislegt verið gert til að reyna að draga úr undanskotum frá tekjuskatti. En árangurinn af öllu því starfi og þeim kostnaði, sem því fylgir, hefur orðið sorglega lítill. Ég held að allar ríkisstjórnir á síðustu tveimur áratugum a. m. k. hafi haft á sinni stefnuskrá að auka aðhald með skattgreiðslum, herða skatteftirlit og þyngja refsingar fyrir brot. Þrátt fyrir öll fögur fyrirheit í þessu efni hefur litið miðað í réttlætisátt. Ég tel því að rétt væri af þessari ástæðu einni að reyna að breyta um stefnu og koma efni þessarar till. til framkvæmda og fækka skattgreiðendum þar með verulega.

Skattheimta er aldrei vinsæl athöfn og flestir eru þeirrar skoðunar, að skattar þeirra séu allt of háir. Óvinsælastur af öllum sköttum mun tekjuskatturinn þó vera. Ástæðan er vafalaust það misrétti sem menn telja að viðgangist og eru æðioft fundvísir á dæmi um slíkt. Af þessari ástæðu er eðlilegt að draga úr þessari skattheimtu.

Undanfarin tvö ár hafa farið fram miklar umr. um 59. gr. tekjuskattslaganna. Sýnist sitt hverjum um hversu réttmæt ákvæði hennar séu og þá ekki síður um framkvæmd hennar. Ef efni þessarar till. nær fram að ganga er skoðun mín á því sú, að ákvæði 59. gr. séu að mestu óvirk og ágreiningurinn um ákvæði hennar og framkvæmd ætti þar með að vera úr sögunni, a. m. k. að mestu leyti.

Þótt tekjuskatturinn hafi ekki þungt vægi miðað við heildartekjur ríkissjóðs er flm. ljóst að nái efni hennar fram að ganga er líklegt að einhverjir telji að það tekjutap, sem ríkissjóður verði fyrir með framkvæmd hennar, verði hann að fá bætt með öðrum hætti. Þessi till. gerir einmitt ráð fyrir þeim möguleika, þar sem áhrif af samþykki hennar koma ekki til framkvæmda fyrr en á árinu 1983.

Herra forseti. Ég leyfi mér að leggja til að þessari till. verði vísað til hv. allshn.