12.11.1981
Sameinað þing: 18. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 707 í B-deild Alþingistíðinda. (509)

76. mál, afnám tekjuskatts af almennum launatekjum

Flm. (Jón Þorgilsson):

Herra forseti. Ég vil þakka þeim hv. þm. sem hafa tekið undir efni þeirrar till. sem ég flutti. Þetta er ekkert frumlegt mál eins og hér kemur fram. Það er rétt, að það er margbúið að ræða þetta. Ástæðan fyrir því, að mörgum er illa við tekjuskattinn í núverandi mynd, er kannske fyrst og fremst sú, eins og ég gat um áðan, að hann hefur verið talinn fyrst og fremst launamannaskattur. Það hefur verið reynt að mæta væntanlega því meinta misrétti, sem menn hafa talið að þessi skattlagning ylli, með ákvæðum 59. gr. sem ég ætla ekki að fara að þylja hér hvernig eru. Sú lagagrein hefur verið mjög til umr. á hv. Alþingi undanfarin ár og er mjög óvinsæl af mörgum, sérstaklega framkvæmd hennar.

Ástæðan fyrir því, að ég flutti þessa till., er sú, að ég vildi nota það tækifæri sem mér gafst hér að koma þessu áhugamáli mínu á framfæri. Ég tel að við getum komið skattamálum okkar fyrir með betri hætti en að vera að leggja á tekjuskatt sem flestir eru sammála um að sé ranglátur og erfiður í framkvæmd. Ég vil gjarnan láta það koma fram, að skoðun mín á þessu máli byggist kannske ekki síst á því, að ég vann við það í fjöldamörg ár að leggja á þennan skatt og hef því kannske séð miklu fleiri dæmi um það en mér þykir gott, hvað hann er ranglátur og hefur komið misjafnt niður.

Ég ætla ekki að lengja þessar umr. Eins og fram hefur komið vænti ég þess, að það sé hér í hv. Alþingi meiri hl. fyrir að breyta þessum rangláta skatti.