12.11.1981
Sameinað þing: 18. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 708 í B-deild Alþingistíðinda. (511)

Umræður utan dagskrár

Árni Gunnarsson:

Herra forseti. Ég vil byrja á að taka undir það með öðrum þeim, sem hafa talað hér í dag, að sú umr., sem nú fer hér fram, er góðra gjalda verð. Hún er gagnleg fyrir margra hluta sakir. Hún hefur upplýsingagildi. Hún er skoðanaskipti á milli manna sem hafa ólíkar skoðanir á friði, friðarsókn, afvopnun og fleira er snertir utanríkismál þessarar þjóðar.

Ég skrifaði fyrir nokkrum dögum stutta grein í eitt af dagblöðunum hér í Reykjavík og sagði þar m. a., með leyfi forseta:

„Alþb. hefur frá upphafi barist gegn dvöl bandaríska varnarliðsins hér á landi og krafist úrsagnar úr Atlantshafsbandalaginu. Í samstarfsyfirlýsingu núverandi ríkisstj. segir m. a. svo á síðustu bls.: „Þar eð ríkisstjórnarflokkarnir hafa ekki samið um stefnuna í utanríkismálum, verður í þeim efnum fylgt áfram óbreyttri grundvallarstefnu og verður þar á eigi gerð breyting nema samþykki allra ríkisstjórnarflokkanna komi til. Það skal þó tekið fram, að Alþb. er andvígt aðild Íslands að Atlantshafsbandalaginu og dvöl hersins í landinu. Ekki verða heimilaðar nýjar meiri háttar framkvæmdir á yfirráðasvæði varnarliðsins.“

Enginn einn þáttur í starfi Alþb. á undanförnum árum hefur þjappað liðsmönnum þess eins rækilega saman og stefna flokksins í utanríkis- og varnarmálum. Það er þó ljóst, að í núverandi stjórnarsamstarfi hefur þessi stefna flokksins beðið skipbrot og andstæðingar varnarliðsins og NATO í flokknum eru mjög ósáttir við framkvæmd samstarfsyfirlýsingarinnar. Ástæðurnar eru margar en þessar helstar: (Utanrrh.: Hvaða stjórnarsáttmáli er þetta?) Þetta var stjórnarsáttmáli síðustu ríkisstj. (Utanrrh.: Núverandi.) Núverandi hæstv. ríkisstj. (Utanrrh.: Það var og.)

„1. Alþb. tók þátt í myndun ríkisstj. sem hefur óbreytta stefnu í utanríkismálum, þ. e. viðurkennir varnarsamning Íslands og Bandaríkjanna án nokkurra áforma um breytingar og telur öryggi Íslands best tryggt með aðild að Atlantshafsbandalaginu.

2. Yfirlýsingin um að heimila ekki nýjar meiri háttar framkvæmdir á yfirráðasvæði varnarliðsins hefur reynst marklaust pappírsgagn. Frá því að stjórnin tók við hefur verið unnið að meiri háttar framkvæmdum á varnarsvæðinu fyrir milljónir króna, og enn meiri framkvæmdir eru fyrirhugaðar.

3. Alþb. er komið í hreina úlfakreppu vegna afstöðunnar til smíðar nýrrar flugstöðvar á Keflavíkurflugvelli svo að unnt reynist að aðgreina umsvif varnarliðsins og almennt farþegaflug. Það er erfitt fyrir „hernámsandstæðinga“ í Alþb. að verja þessa afstöðu, enda öllum heilvita mönnum mikill ami að óbreyttu ástandi.

Þeir eru því margir Alþb.-mennirnir sem telja að flokkurinn hafi svikið ein veigamestu grundvallarstefnumið flokksins. Flokksforustan með Svavar Gestsson og Ólaf Ragnar Grímsson í broddi fylkingar gerir sér þessar staðreyndir ljósar. Til að hylma yfir þær og beina athyglinni í aðra átt hefur flokkurinn tekið upp baráttu fyrir kjarnorkuvopnalausum Norðurlöndum og starfi friðarhreyfingarinnar. Sú barátta getur þó ekki leynt þeirri staðreynd, að Alþb. hefur kokgleypt fyrri yfirlýsingar í varnarmálum, eins og Ólafur Jóhannesson utanrrh. var búinn að spá.“

Vegna þessa og þessara staðreynda hélt hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson tveggja klukkustunda ræðu hér á þingi í dag. Vegna þeirra staðreynda, að Sovétmenn hafa gerst sekir um að vera í landhelgi hlutlauss lands, Svíþjóðar, með kjarnorkukafbát til njósna, hélt hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson u. þ. b. tveggja klukkustunda ræðu í dag um friðarhreyfinguna og um skýrslu, sem hann veifaði hér, eða skýrslur, sem hann taldi að væru hin mestu leyndarmál og gögn sem mundu koma illa við þá menn sem hefðu komið þeim skýrslum á framfæri. Þessa ræðu flytur hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson á sama tíma og blaðið Fréttir frá Sovétríkjunum birtir eftirfarandi yfirlýsingu, með leyfi forseta:

„Þjóðir Evrópulanda! Berjist gegn staðsetningu nýrra bandarískra kjarnorkueldflauga á landsvæði Vestur-Evrópu. Friðarsinnar! Margfaldið krafta ykkar í helgri baráttu fyrir hinum æðsta rétti — réttinum til lífsins. Verið þar af leiðandi fylgjandi því, að nifteindavopn og önnur gereyðingarvopn verði bönnuð! Kjarnorkustyrjöld — nei!“

Ég held, að við hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson höfum tekist á um þessi mál kannske meira en góðu hófi gegnir, m. a. vegna þess að í hjarta okkar erum við sammála. Við erum sammála eins og menn geta orðið sammála um nokkurn hlut. Við viljum frið og við viljum afvopnun. En okkur greinir á um gífurlega veigamikinn þátt og það eru þær leiðir sem fara skal til afvopnunar.

Hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson kom heim af friðarþingi á Álandseyjum fyrr á þessu ári og var þá mikið niðri fyrir. Hann lýsti því yfir, að íslenska ríkisstj. ætti tafarlaust að taka undir þær kröfur sem komið hefðu fram í hinum norrænu löndum um kjarnorkuvopnalaus Norðurlönd. Hann gaf því engan gaum né gætur, sem utanrrh. Svíþjóðar var að uppgötva í dag, að Norðurlönd eru umkringd kjarnorkuvopnum. Hann talaði ekki orð um það, að á Kólaskaga er eitt mesta kjarnorkuvopnabúr veraldar — ekki bara Evrópu, heldur veraldar. Hann sagði þá ekki orð um að Sovétmenn hafa kjarnorkuvopn meðfram öllum landamærum Finnlands og Sovétríkjanna og þeir eru sannarlega með kjarnorkuvopn á Eystrasalti. Þar hafa þeir svokallaða venjulega kafbáta, 60 stykki 365 daga á ári. Þar að auki er vitað um a. m. k. 3–4 kjarnorkukafbáta sem þar eru, en kannske eru kjarnorkukafbátarnir 63–64.

Hv. þm. Ólafur Ragnar minntist ekki heldur á að einn mesti úthafsfloti veraldar, floti Sovétmanna, sem búinn er kjarnorkuvopnum, siglir nær daglega frá Kólaskaga niður með Noregsströndum og út á Atlantshaf. Hann minntist ekki heldur á að kjarnorkuknúnir kafbátar Sovétmanna eru á ferðinni milli Íslands og Grænlands nær hvern einasta dag. Ekkert af þessu nefndi hann. Hann talaði um kjarnorkuvopnalaus Norðurlönd.

Nú hafa Svíar rekið sig á að yfirlýsing um hlutleysi er tiltölulega lítils virði. Ég minnist þess, að ég sat einu sinni ráðstefnu úti í Kaupmannahöfn þar sem voru tveir sænskir herforingjar sem lýstu varnareldflaugakerfi Svía. Þeir voru spurðir að því, úr því að Svíar væru hlutlaus þjóð, í hvaða átt varnareldflaugarnar stefndu. Þessu vildu þeir ekki svara. Þá sagði einn úr hópi spyrjenda: Úr því að þið eruð hlutlausir hljóta ykkar eldflaugar að beinast beint upp í loft. Þessu varð hershöfðinginn að neita og viðurkenna að eldflaugarnar, „varnareldflaugarnar“, beindust í austur.

Ég hef stundum sagt við ágæta flokksbræður mína í Svíþjóð að mér þætti gæta nokkurs „dobbelmórals“ í utanríkisstefnu þeirra. Svíar berjast manna harðast fyrir afvopnun, en þeir eru einhverjir mestu vopnasalar veraldar. Þeir hafa m. a. bannað sölu á leikfangavopnum, en um leið selja þeir manndrápsvopn út um allar trissur. Hlutleysi Svía byggist m. a. á því, að þeir eru í samstarfi Norðurlandaþjóða þar sem þrjár þjóðir eru aðilar að varnarbandalagi.

Herra forseti. Nú skyldi enginn taka orð mín svo að ég hafi á nokkurn hátt nokkuð á móti hinni svokölluðu friðarhreyfingu. Ég tel eingöngu að hún berjist ekki með réttum vopnum. Ég tel að hún hafi ekki lagt nægilega mikla áherslu á gagnkvæma afvopnun, á tvíhliða afvopnun og á þátt Sovétríkjanna í þessu máli. Það er nefnilega ekki hægt að fara friðargöngur inn á Rauðatorg, og þær hafa ekki verið friðsamlegar, göngurnar sem þar hafa farið fram að undanförnu.

Ég yrði manna síðastur til að mæla gegn friðarumleitunum, mæla gegn afvopnun. Ég er líklega einn af fáum mönnum á hinu háa Alþingi sem hef orðið vitni að og upplifað stríð heilan mánuð, í Víetnam 1967. Ég hef séð hörmungar stríðs og ég hef séð hvað stríð er ægilegt. Þess vegna skyldi ekki nokkur maður leyfa sér að fullyrða við mig að ég hafi ekki áhuga á friði. En ég vil að sú friðarumræða, sem á sér stað, fari fram á jafnréttisgrundvelli.

Í blaðagrein fyrir nokkrum dögum skrifaði prestur nokkur ágæta samlíkingu um hvernig þessi tvö ríki, stórveldin með kjarnorkuvopnin, höguðu sér. Hann segir, með leyfi forseta:

„Tökum dæmi til þess að lýsa þessu nánar. Tveir svarnir óvinir hittast skyndilega í herbergi með tvær hlaðnar byssur. Vegna þess að aðstæðurnar eru jafnhættulegar fyrir báða aðila samþykkja þeir að telja upp að þremur og henda síðan byssunum út um gluggann. Byrjað er að telja, en þegar talið hefur verið upp að þremur standa báðir með byssurnar í höndunum vegna þess að þeir treysta því ekki, að andstæðingurinn hendi byssunni frá sér, þrátt fyrir samkomulagið. Þeir óttast þannig að andstæðingurinn standi upp að lokum uppi með yfirburðaaðstöðu.“

Hér erum við kannske komnir að mikilvægum kjarna þess máls sem við erum að tala um. Mennirnir tveir með skammbyssurnar í herberginu eru stórveldin með kjarnorkusprengjurnar, vígvétarnar, eldflaugarnar, sem treysta ekki hvort öðru. Hvorugur þorir að kasta byssunni út um gluggann. Það, sem ég hef óttast, sagt og skrifað um, er einfaldlega að það er of mikil tilætlunarsemi að krefjast þess, að annar aðilinn, í þessu tilviki Vestur-Evrópa, kasti byssunni út um gluggann.

Ég vil minna menn á að það hefur verið friður í Evrópu frá heimsstyrjöldinni síðari með þremur undantekningum. Hverjar eru þessar undantekningar? Þær eru Austur-Þýskaland, Ungverjaland og Tékkóslóvakía. Þessar undantekningar eru í Austur-Evrópu, en ekki Vestur-Evrópu. Svo koma menn og segja að við eigum að treysta Sovétríkjunum skilyrðislaust til þess að þau muni sjálfkrafa leggja niður vopn, fjarlægja eldflaugar sínar og kjarnorkusprengjur bara ef þeir í vestrinu geri það. Ég segi: Þetta er rangt. Það, sem friðarhreyfingin þarf að gera, er að knýja stórveldin tvö til þess að setjast niður og byrja að semja. Önnur aðferð er ekki fær. Það er ekki á valdi nokkurrar þjóðar einnar utan þessara tveggja stórvelda að finna einhverja „patentlausn“ á afvopnunarvandanum.

Ég hef margminnt á það í skrifum og ræðum að einhliða afvopnun Norðurlanda, einhliða yfirlýsing um kjarnorkuvopnalaus svæði, er auðvitað fjarstæðukennd. Fullyrðingar um, að þetta komi að gagni, eru út í hött. Þegar sósíaldemókratar á Norðurlöndum hafa talað um kjarnorkuvopnalaus svæði á Norðurlöndum hafa þeir gert það og um leið sagt að það væri byrjun á miklu stærra verkefni, það væri byrjun á því verkefni að afvopna Evrópu, þá ekki Vestur-Evrópu eingöngu, heldur Austur- og Vestur-Evrópu. Eftir að umræður um kjarnorkuvopnalaus Norðurlönd fóru verulega af stað gerðu menn ráð fyrir að Sovétríkin mundu koma til móts við Norðurlandaþjóðirnar og lýsa yfir m. a. að þau væru tilbúin að flytja á brott eitthvað af SS-20 eldflaugum sínum, en það gerðist ekki. Novosti-fréttastofan lýsti því þvert á móti yfir eftir Brésnev að Kólaskagi gæti aldrei fallið undir kjarnorkuvopnalaus Norðurlönd.

Herra forseti. Ég verð að bæta því við, að það er ekkert undarlegt þó að Evrópubúar séu uggandi þessa dagana eftir að hafa heyrt fréttir af orðum Bandaríkjaforseta. Hann hefur flutt svo fádæma klaufalegar yfirlýsingar og ótrúlega vanhugsaðar um, að kjarnorkustríð hljóti að verða háð í Evrópu, að engu tali tekur. Þessi orð lýsa þvílíku skilningsleysi á afstöðu Evrópumanna til styrjalda að það er rétt eins og maðurinn kynni að hafa verið ríkisstjóri í Kaliforníu og aldrei komið til Evrópu.

En ég vil þá víkja, herra forseti, að sérkennilegum viðbrögðum þeirra forustumanna Alþb., sem ég nefndi hér áðan, við kafbátsstrandinu í Svíþjóð. Í helgarblaði Þjóðviljans 7. og 8. nóv. svara spurningum hæstv. félmrh. Svavar Gestsson, hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson og hæstv. fjmrh. Ragnar Arnalds svo og hv. þm. Guðrún Helgadóttir og Pétur Reimarsson. Það, sem kemur mér sérstaklega á óvart við svör þessara manna, er hvað þau eru samstillt. Það er rétt eins og þeir hafi hringt sig saman áður en þeir voru spurðir spurninganna til að geta svarað í svipuðum dúr.

Mig langar, með leyfi forseta, að fá að lesa hluta af svari hæstv. heilbrmrh. Svavars Gestssonar. Þar segir hann:

„Sú staða, sem nú virðist liggja fyrir, að Sovétmenn búi gamla kafbáta kjarnorkuvopnum, er staðfesting á því í fyrsta lagi, að smáþjóðirnar þurfa að gæta sín ef þær eiga að halda lífi í þessum darraðardansi, og í öðru lagi, að yfirlýsingum stórveldanna um friðarvilja er jafnan vart að treysta.

Að undanförnu höfum við lagt megináherslu á nauðsyn þess að efla skilning á þeim hættum, sem stríðsógninni fylgja. Þessi hætta er í nábýli við okkur þar sem er bandaríska herstöðin, og menn hafa í vaxandi mæli gert sér ljóst hver hætta getur verið samfara henni.“

Þarna er hæstv. ráðh. þegar kominn að herstöðinni á Keflavíkurflugvelli, en hann fordæmir ekki gagngert Sovétríkin fyrir framferðið.

En þar kemur að einn af forustumönnum Alþb. talar hreint út, og ég held að sá maður meini það sem hann segir. Hvers vegna? Vegna þess að hann var við nám nokkuð lengi í Austur-Þýskalandi og hann þekkir herramennina þarna fyrir austan. Ég held að þessi hæstv. ráðh. sé raunverulega að átta sig á því, að þar eru ekki á ferðinni þeir menn sem hann hafði reiknað með í æsku sinni. Þessi hæstv. ráðh. segir, með leyfi forseta, — þetta er Hjörleifur Guttormsson:

„Þetta mál hefur að sjálfsögðu yfirskyggt allt annað hér erlendis síðustu tvær vikur“ — hann er þá staddur í Svíþjóð — „og hlýtur að hafa víðtæk áhrif á viðhorf manna og festa í sessi tortryggni í garð Sovétríkjanna. Lakari auglýsingu en njósnir og grófustu íhlutun gegn hinni hlutlausu Svíþjóð gátu Rússar ekki fengið og er það vissulega maklegt sjálfskaparvíti. Njósnakafbátur með kjarnorkuvopn á flæðiskeri í landhelgi Svíþjóðar á sama tíma og ellihrumt öldungaveldi í forustu Sovétríkjanna raðar sér upp á grafhýsið á Rauða torginu 7. nóv., þar sem skriðdrekar skrölta fram hjá, er táknrænt fyrir niðurlægingu og eymd stórveldisins í austri sem eitt sinn kveikti vonir í hugum róttækra manna um betri tíð. Sú sýn hefur fyrir löngu snúist í andhverfu sína með grímulausu einræði, og sú efnahagskreppa, sem nú ríður húsum einnig austantjalds, bætir þar ekki úr skák,“ sagði Hjörleifur að lokum.

Herra forseti. Ég held að það þurfi raunverulega ekki að fara fleiri orðum um það traust sem menn bera til Sovétríkjanna í þeim umræðum sem nú fara fram um kjarnorkuvopnalausa Evrópu.

Ég hefði gjarnan viljað fara nokkrum fleiri orðum um makalausa ræðu hv. þm. Ólafs Ragnars Grímssonar. Honum er eitt sérstaklega tamt og hann er mjög hæfur að því leytinu, að hann getur sett upp með litlum fyrirvara ótrúlegar sýningar, alveg makalausar sýningar, sem fáum þm. hefur tekist. Þetta skal ég virða við, hv. þm. Hann talaði langt mál hér í dag. Hann talaði í tvær klukkustundir til að koma boðskap sínum á framfæri. Hver var kjarninn og hvert var aðalatriðið í ræðu hans? Það var að koma okkur í skilning um að stórveldin beittu ýmsum miður heppilegum ráðum til að hafa áhrif á óbreytta þm., blaðamenn, embættismenn, háskólakennara og fleiri. Þeir útbyggju sem sagt gögn og áætlanir um hvernig þeir skyldu eyða peningum til að draga þessa ágætu menn um borð í flugmóðurskip einhvers staðar í nágrenni Ítalíu, sem mundi hafa geysileg áhrif á þá, líklega þá í þá veru að þeir yrðu hlynntari Bandaríkjunum eftir en áður. En kjarninn í öllu hans máli var sá, að hann hefði komist yfir tvær geysilega mikilvægar skýrslur sem skiptu sköpum í þessu máli öllu saman og sýndu fram á og sönnuðu hvers konar bolabrögðum Bandaríkjamenn beittu í því skyni að hafa áhrif á hugarfar lítilsigldra Íslendinga. Hann gat þess ekki að vísu, að það væri flestum mönnum hér inni kunnugt að stórveldin beita slíkum aðferðum í ríkum mæli og væri ekkert öðru betra í þeim efnum.

Ég hefði haft gaman af því, ef hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson hefði séð sér fært að vera hér í sæti sínu í kvöld, að benda honum á að Íslendingar beittu ekkert ósvipuðum aðferðum þegar þeir voru að færa út landhelgi sína í 200 mílur. Þá var sett upp „slagplan“, þá var sett upp áætlun og fjármagn til að fá hingað til lands blaðamenn og koma upplýsingum á framfæri erlendis um íslenskan málstað vegna þess að við vildum fá erlenda menn á okkar band. Kemur það mönnum á óvart yfir höfuð að ríki, stórveldi, noti þessar aðferðir? Eru menn hissa á því?

En hv. þm. Ólafur Ragnar hafði komist að hinum mikla leyndardómi. Það voru skýrslurnar. Hann veifaði þeim hér og það var mjög leikrænt hvernig hann veifaði gulri skýrslu, Country Plan for Iceland 1978–1979. Það er ekki eins „dramatískt“ þegar ég nú veifa þessari skýrslu. Þetta er Country Plan for Iceland 1981. Það er ekki meiri leynd yfir þessum plöggum en svo, að þau er hægt að fá með lítilli fyrirhöfn. Country Plan for Iceland 1981 er ég hér með í höndunum. Ég las þessa skýrslu heima í kvöldmatarhléi. Þetta er tiltölulega greinargóð og raunsæ skýrsla um ástand mála hér á Íslandi, sérstaklega um afstöðu Íslendinga gagnvart varnarliðinu. Ég verð að segja eins og er: Ég er steinhissa á hvað þeir menn, sem skrifa þessa skýrslu, eru raunsæir. En hér eru líka tölur um það og upplýsingar um hvað gera þurfi til að koma á framfæri skoðunum Bandaríkjanna. Það er ekkert í þessari skýrslu sem kemur mér á óvart.

Stóra bomban sprakk, ég veit ekki hvort hún sprakk einu sinni með hvelli, en hún sprakk engu að síður, og sá, sem sprengdi hana, hefur ekki fyrir því að vera hér í kvöld og þykir mér það sýnu lakara. (Gripið fram í: Hann hefur kannske meitt sig.) Það gæti verið að hann hefði brennt á sér fingurna.

Ég ætla ekki, herra forseti, að hafa þetta mjög langt mál, en áður en ég lýk því verð ég líklega að undirgangast það, að mér hefur orðið á í messunni, að hafa tekið upp úr öðrum stjórnarsáttmála, sem Alþb.-menn hafa skrifáð upp á, en ekki núv. ríkisstjórnar. Bið ég forláts á því. En sá fyrirvari, sem er í núverandi stjórnarsáttmála, er mjög litið breyttur og í eðli sínu sá hinn sami. Það er viðurkennd sérstaða Alþb. til NATO og varnarliðsins og talað um að ekki verði heimilaðar neinar meiri háttar framkvæmdir, ef ég man það rétt. En hæstv. utanrrh. getur auðvitað leiðrétt það á eftir ef hann vill. Þá væri og gaman að heyra frá hæstv. utanrrh., ef hann vildi nú upplýsa okkur um það, hvernig staðið hefur verið við þetta ákvæði, að ekki hafi orðið neinar meiri háttar framkvæmdir á varnarsvæðinu frá því að núv. ríkisstj. tók við. Það væri gaman að heyra um flugskýli, um breytingar á flugbrautum og fleira af því tagi.

Ég hefði viljað spjalla lengi við hv. þm. Ólaf Ragnar Grímsson um tilraunir stórveldanna til að hafa áhrif á einstaklinga hér. Ég vil benda honum á að t. d. Vestur-Þjóðverjar bjóða þm., embættismönnum og blaðamönnum gjarnan á Kielarvikur. Þeir hafa við okkur mikið menningarsamstarf og eyða í það umtalsverðum fjárhæðum. Austur-Þjóðverjar bjóða alls konar fólki á Eystrasaltsvikur og hafa við okkur menningarsamskipti og eyða í það umtalsverðum fjárhæðum. Kínverskir sendimenn leika knattspyrnu við stráka úti á Melum. Hver áhrif hefur það að mati hv. þm. Ólafs Ragnars Grímssonar veit ég ekki, en það kann að hafa ill áhrif. Ég hefði líka viljað venda mínu kvæði í kross varðandi þennan hv. þm. og spyrja hann hvaða tilgangi þjónaði ýmis fræðsla hans í félagsfræðideild Háskóla Íslands og ýmislegt sem stendur í kennslubókum sem þar eru notaðar, — en þarna kemur hann og ekki vonum fyrr.

Ég var, hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson, fyrir nokkrum mínútum að geta skýrslunnar sem hv. þm. veifaði á leikrænan hátt í dag. Þessi er að vísu frá 1981. (Gripið fram í.) Skýrsla hv. þm. var frá 1978–1979. Ég var að benda á að m. a. Vestur-Þjóðverjar bjóða mönnum á Kielarvikur, þingmönnum, embættismönnum og blaðamönnum, og hafa mikil menningarsamskipti við okkur og búa ábyggilega til svona skýrslur. Sama gera Austur-Þjóðverjar. Það heita Eystrasaltsvikur og þar eru menningarsamskipti talsverð. Ég benti líka á að Kínverjar léku fótbolta við stráka á Melunum. Hvort það hefur svipuð áhrif og það sem hv. þm. Ólafur Ragnar nefndi hér í dag veit ég ekki. (ÓRG: Varla svipuð og nótt um borð í flugvélamóðurskipi.) Ég er ekki almennilega með á nótunum, hvort meira hefur staðið í skýrslunni um þessar nætur, á hvaða hátt þær höfðu svona mikil áhrif á þá menn sem höfðu farið um borð í þessi skip. Ég hef ekki farið þangað og get því ekki borið vitni um það, en kannske geta það einhverjir hér inni.

Ólafur Ragnar talaði mikið um lýðræðið. Hann sagði að það væri lýðræðislegur réttur manna í Evrópu að fara út á götur og mótmæla, fara í friðargöngur. Undir þetta tek ég með honum. Þennan rétt erum við að vernda, hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson. Þennan rétt verndum við m. a. með því að koma í veg fyrir, að Sovétríkin og þjóðir Austur-Evrópu fái meiri völd í hernaðarlegum tilgangi eða í hernaðarlegu skyni en þau hafa. Það er m. a. þessi helgi réttur sem ég vil að þjóðir Vestur-Evrópu verji og tryggi um ókomna tíð. Ég er ekki viss um að hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson fengi að tala í rúmlega tvær klukkustundir ef Sovétmenn næðu þeim völdum sem þeir gjarnan vildu ná í Vestur-Evrópu.

Hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson bar saman Suður-Ameríku og þann samning sem þar hefur verið gerður um kjarnorkuvopnalaus svæði. Það er gjörsamlega fráleitt að bera saman þann samning, sem gerður hefur verið á milli Suður-Ameríkuríkja, og þær yfirlýsingar, sem nú er krafist að Evrópuþjóðir gefi, að það tekur engu tali. Suður-Ameríkuríki eru eins og sakir standa af landfræðilegum ástæðum ekki hernaðarlega mikilvæg. Það er m. a. þess vegna að slíkan samning um kjarnorkuvopnalaus lönd Suður-Ameríku er hægt að gera og undirrita. Þessi samanburður er því algjörlega út í hött.

Hv. þm. sagði hér í dag og hefur raunar sagt það áður, að margir áhrifamenn á Norðurlöndum vildu ekki hafa Ísland með þegar talað væri um kjarnorkuvopnalaus Norðurlönd. Hv. þm. veit auðvitað að í öllum herbókum er Ísland talið hafa allt aðra stöðu en þjóðirnar á meginlandinu. Til þess liggja svo augljósar ástæður að ekki þarf einu sinni að benda á þær.

Ég hef leyft mér að tala og skrifa nokkuð um afskipti kirkjunnar af friðarhreyfingunni og tel að hún hafi að mörgu leyti unnið þar gott starf, en þó er ég þeirrar skoðunar, að margar stofnanir kirkjunnar, m. a. þær sem hafa verið stofnaðar austan tjalds og hafa beinlínis verið stofnaðar sem andsvar við rómversk-kaþólskum áhrifum í þessum löndum, hafi nákvæmlega ekkert gert. Það er m. a. vegna þess að það eru austur-evrópsk stjórnvöld sem stjórna þessum kirkjuhreyfingum sem m. a. hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson hefur vitnað til.

En að endingu þetta, herra forseti: Þessar umr. eru gagnlegar og af hinu góða. Menn skiptast á skoðunum og átta sig á afstöðu hvors annars til málanna. Það er allt gott og gagnlegt. Okkur greinir ekkert á um það, mig og hv. þm. Ólaf Ragnar Grímsson, að það þurfi að berjast fyrir friði í heiminum og það þurfi að berjast fyrir afvopnun. Í þeim efnum er ekki nokkur minnsti ágreiningur okkar á milli, en það eru aðferðirnar sem okkur greinir á um, hv. þm. Ólafur Ragnar.

Ég geri mér fulla grein fyrir að Sovétríkin mundu ekki hika eitt augnablik, ef þau teldu að varnarmáttur Vestur-Evrópu hefði rýrnað svo að þau ættu alls kostar við Vestur-Evrópu, — þá mundu þau ekki hika við að reka áfram útþenslustefnu sína. Þau hafa farið inn í Austur-Þýskaland, Ungverjaland og Tékkóslóvakíu þegar þau héldu að þau væru að missa þessi lönd út úr kommúnistablokkinni. Ég vil spyrja hv. þm.: Hvað hefur breyst á síðustu árum sem færir honum heim sanninn um að Sovétríkin muni sjálfvirkt draga úr kjarnorkuafla sínum, draga úr kjarnorkuvopnum sínum, flytja eldflaugar á brott frá landamærum Austur- og Vestur-Evrópu, ef friðarhreyfingin næði þeim árangri að fá stöku þjóðir innan Evrópu og flytja á brott eða eyðileggja kjarnorkuvopn sín? Hvað er það í stjórnmálalegri sögu Sovétríkjanna nú hin síðari ár sem hefur breyst svo að hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson trúir því í raun og veru að Sovétríkin muni hika eitt augnablik við að ráðast inn í Vestur-Evrópu ef hún er ekki á varðbergi gagnvart þessum hluta heims?

Ég vil endurtaka það sem ég sagði hér áðan, að það, sem friðarhreyfingin þarf að gera, er að setja á oddinn og láta heyrast í sér um að hún krefjist þess umfram allt að stórveldin setjist niður og semji um afvopnun, en að það verði ekki gert með einhliða yfirlýsingum þjóða Vestur-Evrópu.