12.11.1981
Sameinað þing: 18. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 725 í B-deild Alþingistíðinda. (514)

Umræður utan dagskrár

Vilmundur Gylfason:

Herra forseti. Í framhaldi af skýrslu þeirri, sem hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson sýndi hér í þingsölum í dag er það auðvitað rétt, að þegar um er að ræða samskipti við erlend ríki, að ekki sé talað um erlend stórveldi, ber mönnum auðvitað að vera á verði, ekki síst þeim sem hafa skyldur, t. d. kjörnar skyldur við land sitt. En hitt er líka staðreynd, að sjónarmið eins og þau, sem hv. þm. kynnti hér í dag, geta orðið að hreinum búra- og einangrunarsjónarmiðum.

Vitaskuld vita allir að öll lönd: Bandaríki Norður-Ameríku, einræðisríkin fyrir austan járntjald, — öll lönd kynna sín mál með ýmsum hætti. Skýrsla af þessu tagi hefði getað verið skýrsla frá íslenska utanríkisráðuneytinu um það, hvernig íslensk sendiráð hegða sér erlendis.

Nú er það einu sinni svo, að við erum auðvitað sérstaklega á verði gagnvart stórum ríkjum. Þau og þeirra sjónarmið eru í sókn. Sjónarmið smærri ríkja, smáríkja eins og við erum, eru í vörn. Ekki er það þó algilt. Hér hafa verið nefnd landhelgismál sem dæmi um hið gagnstæða. Og í öðru máli af þessu tagi vorum við í sókn, sóttum rétt okkar á hendur annars ríkis. Það var í handritamálinu á sínum tíma. Ég hygg að í íslenskri stjórnmálasögu þyki það hafa verið snjöll embættisveiting þegar Bjarni Benediktsson, þáv. utanrrh., skipaði Sigurð Nordal prófessor sendiherra í Kaupmannahöfn. Ég hygg að það hafi verið árið 1952. Og til hvers varð það gert? Væntanlega til þess að kynna íslenskan málstað í Danmörku. Og væntanlega hefur prófessor Sigurður fengið einhverja risnu, þegar hann rak sitt danska sendiráð í Kaupmannahöfn, til þess að laða til sín stjórnmálamenn danska, peningamenn og aðra slíka. Var það óþjóðholt af hinum dönsku mönnum að þiggja slíkt boð? Það hygg ég varla. Það, sem hér er verið að gera, er auðvitað ekki annað en að lýsa því sem allir vita að er tíðkanlegt í samskiptum allra ríkja.

Það má til gamans geta þess, að ég hef raunar sótt slíka þjónustustarfsemi, t. d. í menningarmiðstöð þeirra Ameríkumanna sem þeir reka vestur á Melum, m. a. kvikmyndasýningu af sjónvarpseinvíginu í forsetakosningunum 1976, verandi þá sögukennari við Menntaskólann í Reykjavík. Og ég man ekki betur en nálægt mér hafi setið prófessor í þjóðfélagsfræði við Háskóla Íslands, nefnilega hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson. Tel ég að hvorugum okkar hafi verið það til hins minnsta vansa.

Þetta hefur svo sem verið rakið hér og þarf ekki að hafa um það mörg orð. Það hefur komið í ljós, að skýrslur fyrir árið í ár liggja frammi um þetta. Þetta er lýsing á samvinnu milli tveggja frjálsra ríkja. Hitt er svo annað mál, að auðvitað vekur þetta ýmsar spurningar, móralskar og pólitískar. Það er auðvitað staðreynd, að í slíkum samskiptum erum við Íslendingar allt of miklir þiggjendur og allt of litlir veitendur, bæði í sambandi við námsmenn, sem erlendis eru, og annað slíkt.

En kjarni þess, sem ég vildi sagt hafa í þessari umræðu, er hins vegar sá, að það hvarflar ekki að mér að þeir talsmenn Alþb. gangi lengur erinda heimskommúnismans eins og þeir gerðu hér á árum áður. Það, sem er rangt í þeirra málflutningi, er að þeir leggja stöðugt hin tvö stórveldi að jöfnu. Það er í grundvallaratriðum og hvernig sem á er litið rangt. Munurinn er fólginn í því, að Bandaríki Norður-Ameríku eru opið þjóðfélag, hafa alla kosti hins opna þjóðfélags. Þar er lýðræði, þar eru fjölmiðlar, þar er þing sem er kosið með reglulegu millibili. Og þegar allt kemur til alls, þá er grundvallaratriðið í öllum slíkum efnum að hið opna þjóðskipulag er öryggisnet í sjálfu sér. Ég dreg enga dul á það, að ég hef sjálfur miklu meiri samúð með því þjóðskipulagi, sem þar er, heldur en því sem ríkir í einræðisríkjunum fyrir austan tjald, sem hafa ekkert af þessu, sem segja ósatt um vígbúnað sinn, sem hafa aðeins eins opinbera skoðun sem þar brýst fram í fjölmiðlum, ekkert almenningsálit, ekkert þing, ekkert leyfi til þess að mótmæla, hversu andvígur sem þú kynnir að vera ef þú hefðir tækifæri til þess.

Meginfölsunin í öllum málflutningi fulltrúa Alþb. í þessum efnum er að gera ekki þennan greinarmun. Vopn eru vissulega alltaf hættuleg. Vopn og hinn mikli vígbúnaður er andstyggilegur. En vopn eru miklu hættulegri í höndum ríkja þar sem er einræði, þar sem ekki er almenningsálit, þar sem ekki eru fjölmiðlar, heldur en þau eru í höndum hinna ríkjanna þar sem þessar aðstæður eru fyrir hendi.

Í sambandi við þær umræður, sem fram hafa farið um friðarhreyfingar í Evrópu, er það mergurinn málsins að þær eru auðvitað góðra gjalda verðar og það hefur enginn leyfi til að gera þátttakendum í þeim upp hvatir af einu eða neinu tagi. En sú hætta er fyrir hendi, að það séu þessar áherslur sem eru rangar, m. ö. o. að málflutningur þeirra getur haft áhrif fyrir vestan tjald í hinum lýðfrjálsu ríkjum, og um það þekkjum við dæmi, — áhrif sem ógerlegt er að hafa í ríkjunum fyrir austan. Bandaríkjamenn háðu vissulega viðurstyggilega styrjöld í Víetnam, en það var líka bandarískt almenningsálit, bandarískir fjölmiðlar og bandarískir stúdentar kannske ekki síst sem knúðu stjórnvöld til að hætta þeim styrjaldarrekstri. Hins vegar er útilokað að sömu forsendur verði til í Afganistan.

Það hefur enginn leyfi lengur til þess að halda því fram, að talsmenn Alþb. gangi augljóslega eða með einhverjum hætti erinda Sovétríkjanna.

Hitt er engu að síður staðreynd, að þeir gerðu það fyrir 20 árum og þaðan af lengri tíma. En kjarni málsins er sá, að sú utanríkisstefna, sem þeir fylgja, fellur að utanríkisstefnu Sovétríkjanna, þó svo það sé ekki eiginlegur vilji þeirra.

Fyrir vestan tjald er opið þjóðskipulag. Það þjóðskipulag felur í sér vörn, meira að segja mikla vörn þegar allt kemur til alls, m. a. það, að í skýrslur eins og þær, sem hér voru lesnar í dag, er hægt að ná. Þjóðfélög fyrir austan tjald fela hins vegar ekki í sér þetta innbyggða öryggisnet sem opið þjóðfélag, almenningsálit, fjölmiðlar, þjóðþing, göngur á götum eru þrátt fyrir allt. Í allri þessari umr. verðum við að taka afstöðu til þess, að annað þjóðskipulagið er okkur þóknanlegt og hitt ekki. Svo einfalt er það. Á bak við járntjaldið, í hinu grímulausa einræði sem þar ríkir, eru framdir pólitískir glæpir af margháttuðu tagi sem væntanlega eru okkur ekki þóknanlegir.

En í sambandi við allar friðarhreyfingarnar, sem nú hafa orðið til umr. vegna þess að ekki er hægt að lita fram hjá því, hversu fjölmennar þær eru í Vestur-Evrópu, er kjarni málsins sá, að stefnumið þeirra verður að vera það, að kröfur um afvopnun beinist ekki síður í austur, frekar í austur en í vestur, vegna þess að þó að vopn séu alltaf hættuleg, þá eru þau miklum mun hættulegri í ríkjum sem ekki búa við almenningsálit, ekki við fjölmiðla, ekki við leyfi til að hafa pólitískar skoðanir, sem búa við það kerfi að andstæðingar ríkjandi stjórnvalda eru fangelsaðir. Og þó svo að ekki sé með nokkrum rétti hægt að halda því fram, að talsmenn Alþb., a. m. k. ekki formaður þingflokksins, séu talsmenn Sovétríkjanna, þá gera þeir sig enn og aftur seka um það að leggja þetta tvenns konar þjóðskipulag að jöfnu og neita að átta sig á þeirri staðreynd, að þrátt fyrir alla þá galla, sem þjóðskipulag á Vesturlöndum vissulega hefur, eru þar virt þessi grundvallarmannréttindi, og þau eru í sjálfu sér hin mesta trygging fyrir friði, fyrir skynsamlegri notkun þeirra vígvéla, sem til eru, og fyrir því, að með skynsamlegum hætti sé úr vígbúnaði dregið. Frjálsir menn hafa möguleika til að hegða sér skynsamlega, en ófrjálsir menn ekki. Og þeir menn sem taka þátt í þessum umr. án þess að leggja þessar staðreyndir til grundvallar, eru á rangri braut. Þeir gefa sér rangar forsendur.

Öll afstaða talsmanna Alþb. í þessum efnum byggist á þessum veikleika, þennan veikleika er að finna í allri þeirra röksemdafærslu, að það er rangt í grundvallaratriðum að leggja Sovétríkin og Bandaríkin að jöfnu. Í grundvallaratriðum búa Bandaríki Norður-Ameríku þrátt fyrir allt við það stjórnaskipulag, við þá afstöðu til mannréttinda sem við teljum einnig vera hluta af okkar arfi. Þetta skipulag felur í sér tryggingu fyrir skynsamlegri hegðan, tryggingu fyrir friði. Ég segi það einnig, að ég hika hvergi við að taka afstöðu með þessu skipulagi, í grófum dráttum talað, og á móti hinu. Allur vandi þeirra Alþb.-manna er fólgin í því að neita enn að gera þessa siðferðilegu spurningu upp við sig, að annað skipulagið er rétt að því er þessa grundvallarþætti varðar, hitt er í grundvallaratriðum rangt. Á millistríðsárunum áttist líka við tvenns konar skipulag. Annað var lokað einræðisskipulag. Hitt var opið lýðræðisskipulag. Hið opna lýðræðisskipulag tók rangar ákvarðanir, svaf á verðinum, treysti um of upplýsingum sem haldið var leyndum, sem lágu ekki á lausu. Sú saga má aldrei endurtaka sig. Þarna verðum við að taka afstöðu, því að annað er rétt og hitt er rangt.