12.11.1981
Sameinað þing: 18. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 728 í B-deild Alþingistíðinda. (515)

Umræður utan dagskrár

Lárus Jónsson:

Herra forseti. Þetta eru orðnar langar umr. og nokkuð liðið á kvöld. Ég mun því ekki lengja þessar umr. úr hófi fram. Þó þykir mér rétt að segja hér örfá orð og sérstaklega að þakka fyrir að þessar umr. hafa farið fram og hv. þm. Ragnhildi Helgadóttur fyrir að hefja þær.

Hér hafa ýmis tíðindi gerst við þessar umr. sem spunnust út af ákveðnum atburðum sem gerðust við Svíþjóð og í Danmörku, eins og kunnugt er. Eitt af því, sem komið hefur hér fram, er að formaður Alþb. afneitaði hér í bak og fyrir gjörvallri sögu þess flokks, uppruna og tengslum við alheimskommúnismann og Sovétríkin.

Ég get tekið undir það með hv. þm. Eiði Guðnasyni, að að sjálfsögðu er hér um yfirklór að ræða. Hv. þm. Alþb. og forustumenn þess flokks eru í úlfakreppu í þessum málum og taka það til bragðs að gefast hreinlega upp og reyna að klóra yfir öll tengsl sín við alheimskommúnismann. En það sýnir best að hér fylgir ekki hugur máli, að eftir sem áður fylgir Alþb. stefnu Sovétmanna í varnar- og öryggismálum Íslands. Stefna Sovétmanna í varnar- og öryggismálum Íslands er afar einföld. Hún er varnarlaust Ísland. Og stefna Alþb. er sú hin sama: varnarlaust Ísland. Með öllum ráðum og öllum mögulegum áróðursbrögðum vinnur Alþb. að þessari sömu stefnu sem Sovétmenn hafa á Íslandi. (StJ: Er það nú ekki fullmikið sagt?) Það er ekki fullmikið sagt, hv. þm. Stefán Jónsson. Þetta eru ykkar ær og kýr og allir sauðir í okkar varnar- og öryggismálum. Þeir eru nákvæmlega þeir sömu og herranna í Kreml.

En það, sem mér fannst enn þá athyglisverðara en þetta við yfirlýsingar formanns Alþb., var að hann játaði afdráttarlaust að ekki væri lýðræði fyrir austan tjald. Hann talaði ekki um alþýðulýðveldi í þeim prestlega tón sem hann er vanur að gera. Hann neitaði því að þar væri lýðræði. Og hæstv. ráðh. Hjörleifur Guttormsson komst svo skemmtilega að orði, vil ég segja, að hann talaði um öldungaveldi og grímulaust einræði þar í blaðagrein nýlega. Það er þess vegna mjög mikið alvörumál að þessir hv. þm. sem nú loksins játa þessa trú, skuli enn fylgja í meginatriðum utanríkisstefnu þessara manna að því er varðar varnar- og öryggismál Íslands, síns eigin lands.

Það er nefnilega kjarni málsins, sem menn hafa kannske aðeins leitt hjá sér hér, að við stöndum frammi fyrir því, að við eigum í höggi við mannflesta og öflugasta einræðisherveldi veraldarsögunnar. Lýðræðisþjóðirnar á Vesturlöndum eiga í höggi við þetta ógnarafl sem getur eytt mannkyninu margsinnis, eins og hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson benti hér réttilega á. En þetta er einræðisherveldi sem ekki hlustar á nein lýðræðisleg rök. Hvað hefur gerst á undanförnum árum? (StJ: Segðu okkur það.) Hefur þetta stórkostlega herveldi hlustað á okkur hér á Vesturlöndum þegar við höfum mótmælt því, að þeir fóru inn í Ungverjaland? Hafa þeir hlustað á okkur þegar við mótmæltum því, að þeir færu inn í Tékkóslóvakíu? Hafa þeir hlustað á okkur þegar við mótmæltum því, að þeir færu inn í Afganistan? Og hvað hefur gerst núna, á þeim tíma sem svokölluð slökunarstefna hefur ráðið í alþjóðlegum málum? Hvað hefur gerst? Hafa þessir öldungar, þeir menn sem ráða þessu grímulausa einræðisríki, hafa þeir slakað á?

Þeir hafa aukið herafla sinn um 2/3 og eru með meiri mannafla undir vopnum en Bandaríkjamenn, tvöfalt meiri mannafla. Þeir hafa aukið hernaðarútgjöld sín um 50% á þessum tíma og þeir verja núna 12.5% af þjóðarframleiðslu sinni til hernaðarútgjalda. Til samanburðar má geta þess, að þeir verja 0.03% til aðstoðar bágstöddum þjóðum. Þeir hafa stóraukið hernaðarumsvif sín á öllum sviðum: í skriðdrekum, í flota, í SS-eldflaugum, þar sem þeir beina 750 kjarnaoddum að Evrópu. Þetta gerðist allt á slökunarskeiði í alþjóðamálum þegar átti að semja um gagnkvæma afvopnun. Og nú sýna þeir hlutlausri þjóð þá kurteisi að sigla eldgömlum kafbáti með kjarnorkusprengjur á land upp. Þannig er framkoma þessa einræðisríkis gagnvart lýðræðisríkjunum. Og þá er spurningin: Hver eru vopn okkar, hver er vörn okkar í þessari ógnvekjandi stöðu, að einræðisríki, þar sem nokkrir öldungar ráða, hefur yfir slíkum ægiherafla að ráða og svífst einskis, það sýnir sagan, í viðskiptum sínum við aðrar þjóðir, svífst einskis í sinni valdníðslu og því að koma sínu fram með herafla? Hver er okkar vörn? Getur það verið okkar helsta vopn, þegar slík staða er uppi, að svo ógnarlega hefur hallað á valdajafnvægi í heiminum og svo ógnarlega hafa þessir öldungar í Sovétríkjunum, í þessu einræðisríki, komið sé: upp miklum yfirburðum á vissum sviðum í hernaðartækni og hernaðarvígvélum — getur verið að það sé helsta vopn okkar að ganga suður og norður Evrópu með kröfuspjöld og krefjast þess, að ekki verði búnar til fleiri kjarnorkusprengjur? Hver mundi helst hlusta á það? Ætli þeir austur frá hlusti frekar á okkur í þeim efnum heldur en þegar við kröfðumst þess, að þeir færu ekki inn í Tékkóslóvakíu eða Ungverjaland? Það er hægt að hafa áhrif á vestrænar þjóðir með slíkum lýðræðislegum vinnubrögðum. En vandi okkar og kjarni málsins er sá, að við eigum í höggi við menn sem ekkert hlusta á slíkt. Þeir pípa á það. Þeir pípa á slíkar lýðræðislegar kröfur frá almenningi, enda fá engir að komast upp með slíkan moðreyk í þeirra löndum.

Það hefur komið hér oft fram í þessari umr., að í 30 ára sögu Atlantshafsbandalagsins hafi ekki orðið styrjöld í Vestur-Evrópu. En hafa menn leitt hugann að því, hve oft hefur komið til styrjaldarátaka á öðrum svæðum í heiminum á þessum tíma? Það er hvorki meira né minna en á 150 stöðum. Á 150 stöðum hefur komið til styrjaldar- og hernaðarátaka á þeim tíma sem liðinn er síðan Atlantshafsbandalagið var sett á stofn. En í Vestur-Evrópu hefur verið friður.

Ég held, herra forseti, að kjarni málsins í þessum umr. sé sá, að því miður getum við ekki vænst þess að okkur verði ágengt, ef við höfum ekki styrk og hernaðarmátt til þess að ræða við þá öldunga sem ráða einræðisríkjunum í austri. Við þurfum að knýja þá að samningaborðinu, við þurfum að ná samningum um afvopnun, en við verðum að gera það með styrk, — við komumst því miður ekkert áleiðis með kröfuspjöldum. Í besta falli yrði það þannig, að einhverjir kynnu að hlusta á slíkar raddir á Vesturlöndum og það yrði til þess að draga úr möguleikum okkar til að ná samningum við þessa menn. Reynslan sýnir að þeir skilja það eitt þegar þeim er mætt með fullri einurð og hörku. Það er það sem við þurfum að gera.

En, herra forseti, og það skulu vera mín lokaorð í þessu máli þar sem ég ætlaði ekki að tala langt mál, að það þykir mér hin mesta furða, að Alþb. skuli loksins vera komið að þeirri niðurstöðu, að austan við járntjald ríki grímulaust einræði öldunga, en Alþb.-menn hvika í engu frá því að fylgja þessu grímulausa einræði í stefnu þess í varnar- og öryggismálum eigin þjóðar.