12.11.1981
Sameinað þing: 18. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 730 í B-deild Alþingistíðinda. (517)

Umræður utan dagskrár

Ólafur Þ. Þórðarson:

Herra forseti. Hér hafa staðið yfir umr. lengi dags og margt verið sagt um þær fréttir sem okkur hafa borist utan úr heimi, frá Svíþjóð og Danmörku. Hins vegar hafa menn ekki velt því fyrir sér hvort þær fréttir væru sannar eða ekki. Okkur hefur verið sagt að í sænska skerjagarðinum hafi strandað rússneskur kafbátur og það hafi verið trillueigandi sem varð þess var, að skipið var komið inn á yfirráðasvæði sænska hersins, bannsvæði. Eru þetta trúlegar staðhæfingar? Fær það staðist að hin tæknivædda Svíþjóð eigi það undir athugulum fiskimönnum á smábátum hvort kafbátar komist óséðir inn á bannsvæði hersins? Ég segi nei. Ef þetta er rétt, ef fréttin er rétt, þá er ekki mikið gefandi fyrir landvarnir Svía. Spurning hlýtur þess vegna að vakna: Hvers vegna þögðu sænsk stjórnvöld, hernaðaryfirvöld, yfir veru kafbátsins á þessu svæði? Hafa þau e. t. v. á undanförnum árum að staðaldri þagað yfir því, að rússneskir kafbátar væru í sænska skerjagarðinum. Er einhver skynsamleg skýring til á því, að Svíar velji þann kostinn að þegja. Þeir eru í nábýli við Rússa. Jú, ef við skoðum málið ögn betur, þá sjáum við að þeir hafa vissulega ástæðu til að þegja. Hver er ástæðan? Það var ekki bara það, að sovéskur kafbátur strandaði á hernaðarsvæði Svía. Heimsmynd Svía um réttmæti hlutleysisins hrundi. Hún hrundi og það var ekkert skrýtið að þeir vildu gera eitthvað til þess að koma í veg fyrir að auglýsa það í augum alheimsins.

Það liggur nefnilega alveg ljóst fyrir, að fyrst Rússar virða ekki hlutleysi Svía á friðartímum, þá þarf enginn að láta sér detta í hug að þeir muni virða hlutleysi Svía á hernaðartímum. Það er svo augljóst að það þarf ekki að rökræða það. Þess vegna blasir það við að Svíar, sem hafa boðað hlutleysisstefnu sem öryggisstefnu fyrir sig, geta ekki státað af því lengur að hlutleysi þeirra sé virt. Samskipti þeirra við Rússa, eftir að þeir eru búnir að viðurkenna að kafbáturinn sé þarna, eru einnig mjög athyglisverð. Þeim dettur ekki í hug að haga þeim samskiptum eins og þeir séu að eiga við jafningja því að þá hefði verið eðlilegast að sjálfsögðu að taka kafbátinn, fara með mennina í land og yfirheyra kapteininn í sænsku fangelsi. Það hefðu verið eðlileg viðbrögð fullvalda ríkis gagnvart slíkum yfirgangi. Það þora þeir ekki að gera.

Rússar meta stöðuna. Þeir geta tapað meiru en þeir hafa þegar tapað áróðurslega eftir að kafbáturinn hefur strandað. Engu að síður þrjóskast þeir við í lengstu lög að gefa eftir. Og skýringin er komin í ljós. Það reyndust vera kjarnorkusprengjur um borð í kafbátnum. Menn geta mótmælt, gott og vel. En það er ekki það sem skiptir máli. Það eina, sem skiptir máli, er hvaða ályktanir menn draga af þessum atburðum. Það er það eina sem raunverulega skiptir máli. Ég held að það hljóti fyrst og fremst að liggja ljóst fyrir, að í hlutleysi felst engin vörn. Það blasir við. Hvort Svíar eru það stoltir, að þeir neiti að viðurkenna þá staðreynd eða ekki, ætla ég ekki að gera hér að umræðuefni. Það breytir yfir höfuð engu. Þeir vorum hlutlausir í heimsstyrjöldinni síðari. En sagnfræðingar eiga eftir að svara þeirri spurningu hvort það var hlutleysið sem bjargaði þeim frá því að taka þátt í heimsstyrjöldinni eða lega landsins sem gerði það ónauðsynlegt þá að þeir yrðu teknir. Mér sýnist að það liggi beint við, að það var lega landsins. Það þarf ekki lengi að horfa á landabréfið til að átta sig á því, að þó að Þjóðverjar þyrftu að taka Noreg og Danmörku, þá var þeim ekki nauðsyn að taka Svíþjóð. Hins vegar virðist þessi heimsókn inn á bannsvæði hersins sanna það, að Rússar telja fulla þörf á því, komi til ófriðar við Vesturlönd, að taka Svíþjóð.

Ef menn vilja halda því fram, að það, sem ég hef hér sagt, sé eintóm vitleysa og Svíar hafi alls ekkert vitað um kafbátinn inni í landhelginni, inni á bannsvæðinu, fyrr en eigandi smábáts gerði þeim viðvart, þá vil ég varpa þeirri spurningu fram, hversu mikinn herafla og hversu mikinn auð þurfi þá ekki til þess að fylgjast með skipaferðum í öllu Atlantshafinu norðanverðu, eigi að gera það að hlutlausu svæði þar sem engin kjarnorkuvopn eiga að vera. Hlýtur ekki að vera þversögn í því?

Ég held að niðurstaðan hljóti að vera hverjum þeim manni ljós sem yfir höfuð vill horfa opnum augum á það sem er að gerast í þessum efnum. Það er aðeins gagnkvæm afvopnun sem er raunhæfur möguleiki eigi að draga úr kjarnorkuhættunni. Hitt finnst mér furðulegt, ef menn komast að þeirri niðurstöðu á sama tíma og það er ljóst að Svíum er ekki gagn að hlutleysinu, að það geti bjargað Íslendingum.