12.11.1981
Sameinað þing: 18. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 736 í B-deild Alþingistíðinda. (519)

Umræður utan dagskrár

Salome Þorkelsdóttir:

Herra forseti. Það er ánægjulegt að heyra hversu landsfundur Sjálfstfl. er hugleikinn hv. 11. þm. Reykv., og það er ánægjulegt að hann skuli sjá ástæðu til að nota málgagn Sjálfstfl., Morgunblaðið, til að leita eftir sínum lokaorðum í þessum umr. hér í dag. Ég vona samt að hann fari ekki að sækja um inngöngu í flokkinn að lokum.

Það er á mörkum að venjulegur þm. vogi sér í ræðustól á eftir hv. 11. þm. Reykv., sem greinilega telur sig á hærra plani í þessum umr. en aðrir og gerist dómari um þekkingu annarra hv. þm. á þeim málum sem hér eru til umr., enda hafði ég ekki gert ráð fyrir að taka til máls í þessum utandagskrárumr. um utanríkismálin. En ég get ekki orða bundist, svo athyglisverðar hafa þessar umr. verið.

Það þarf engan að undra þótt umr. um þessi mál hafi komið upp hér á hv. Alþingi eftir þá atburði sem gerst hafa í Svíþjóð og Danmörku fyrir skömmu. Hv. 1. þm. Reykv., Ragnhildur Helgadóttir, getur vel við unað, því að hv. þm. Alþb., sem hafa tekið til máls, hafa beint skeytum sínum að henni með þeim hætti að augljóst er að umræðu var vissulega þörf og kannske eðlilegt að Alþb. mönnum hafi orðið órótt.

Ég reyndi að þrauka hér í dag undir tveggja tíma ræðu hv. 11. þm. Reykv., þeim dæmalausa málflutningi. Hann er einn af þeim sem telja sáluhjálparatriði fyrir íslensku þjóðina að hún segi sig úr Atlantshafsbandalaginu. Það á að vera vottur þess, að menn séu á móti kjarnorkuvopnum og séu friðarsinnar.

Ég hefði viljað heyra af munni svonefndra herstöðvaandstæðinga hvernig þeir ætli að tryggja öryggi Íslands fyrir ágangi stórvelda ef við stæðum hér uppi varnarlaus. Það væri fróðlegt að fá svör við því. Þau hafa ekki komið hér fram. Það er stórt gat í málflutningi þessara hv. þm. og stendur ófyllt þó að þeir hafi notað hér lengri tíma í umr. en nokkrir aðrir, eins og hv. 11. þm. Reykv. gerði í dag. Trúa þessir hv. þm. því í raun og veru að Íslendingar fengju að vera í friði án afskipta eða yfirgangs annarra, að t. d. sovésk herskip eða kalbátar tækju stóran sveig frá Íslandi til að forðast okkur ef varnarliðið væri farið og við segðum okkur úr Atlantshafsbandalaginu?

Það hefur komið fram í ræðum þeirra, sem raunsætt lita á þessi mál, að það er til lítils að tala um afvopnun, kjarnorkulaus Norðurlönd o. s. frv. þegar það liggur á borðinu að þessar kröfur ná ekki inn fyrir járntjaldið. Það er komið að múr þar. Friðarhreyfingin er ekki austan við múrinn. Hann hefur ekki verið brotinn niður. Það dettur vonandi engum í hug að trúa því, að nokkur Íslendingur óski eftir því að hafa hér varnarlið rétt til gamans, til að skemmta sér við. Auðvitað erum við öll friðarsinnar og erum á móti vígbúnaði og kjarnorkuvopnum, en á meðan það ástand ríkir í heiminum sem raun ber vitni, tortryggni og vígbúnaðarkapphlaup sem afleiðing hennar, höfum við Íslendingar kosið að vera í gagnkvæmu bandalagi við aðrar vestrænar þjóðir til að tryggja öryggi okkar. Við höfum skipað okkur í flokk frjálsrá þjóða hins vestræna heims til að tryggja að við fáum að lifa án afskipta eða yfirgangs annarra.

Það hefur sannast með siglingu sovéska kafbátsins upp í landsteina í Karlskrona að það dugar ekki þjóð að lýsa yfir hlutleysi sínu. Svíþjóð hefur eigið varnarkerfi. Sovéska herveldið hefur lítilsvirt hlutleysi sænsku þjóðarinnar. Strand kafbátsins var tímabær aðvörun til þeirra sem hafa ekki áttað sig á að friðarhreyfingin, sem væri sannarlega tímabær, er því miður ekki byggð á réttum forsendum. Hún fer ekki fram á jafnréttisgrundvelli, eins og hv. 6. þm. Norðurl. e., Árni Gunnarsson, komst réttilega að orði í sinni ágætu ræðu í kvöld. Meðan það gerist ekki verðum við að vera á varðbergi og tryggja sem best öryggi íslensku þjóðarinnar.