16.11.1981
Efri deild: 12. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 751 í B-deild Alþingistíðinda. (528)

90. mál, Hæstiréttur Íslands

Jón Sveinsson:

Herra forseti. Svo sem fram kemur í grg. þess frv., sem hér er til umr.. er skjót afgreiðsla dómsmála höfuðnauðsyn í hverju réttarríki, en jafnframt verðúr þó að gæta fyllsta réttaröryggis þannig að tryggð sé vönduð málsmeðferð, óyggjandi dómar og lyktir mála. Er því mikils um vert að búið sé að Hæstarétti eins vel og frekast er unnt svo að dómurinn geti með hröðum og öruggum hætti leyst úr þeim mikla og oft og tíðum erfiða málafjölda sem þangað berst. Þekkja allir og þó sérstaklega þeir, sem við dómsmál fást að staðaldri, hve álagið á Hæstarétt er gífurlegt og langt umfram það sem venjulegt og réttlætanlegt getur talist. Að sögn hæstaréttarritara er meðalbiðtími einkamála fyrir Hæstarétti, frá því mál er tilbúið til flutnings og þar til að flutningi kemur, talinn vera um það bil 15 mánuðir eða eitt ár og þrír mánuðir, en 27.3 mánuðir frá því að máli er áfrýjað og þar til dómur gengur. Er ekki ólíklegt að einkamál hafi þá tekið 1–2 ár í undirrétti. Þannig mun ekki óalgengt að aðilar máls þurfi að bíða eftir endanlegri dómsniðurstöðu í allt að 4–5 ár, en slíkt er að mínu mati alger óhæfa í landi sem teljast vill réttarríki.

Um það, hvernig markmiðinu hraðari málsmeðferð verður best náð, hafa verið nokkuð skiptar skoðanir, einkum meðal lögfræðinga. Bundu allmargir verulegar vonir við frv. til lögréttulaga sem nokkrum sinnum hefur verið lagt hér fram í þinginu en ekki fengið afgreiðslu. Með frv. til lögréttulaga, sem samið var af réttarfarsnefnd, er aðallega stefnt að tvennu, eins og fram kom í máli hæstv. dómsmrh. á undan: annars vegar að hraðari meðferð dómsmála og hins vegar að meiri aðskilnaði dómsvalds og framkvæmdavalds sem einnig er verulegt réttaröryggismál. Í grg. með frv. til lögréttulaga segir m. a. um þessi markmið, með leyfi forseta:

„Hitt er vissulega mjög vafasamt og jafnframt umdeilanlegt, hvernig best sé að ná þessum markmiðum. Til greina kemur fjölgun starfsliðs, bætt húsnæðisaðstaða og tækjabúnaður. Réttarfarsnefnd telur að allt mundi þetta stuðla að auknum hraða í meðferð dómsmála, en það er ekki í verkahring nefndarinnar að fjalla nánar um þessi atriði. Ábendingar hafa komið fram um að óheppilegt væri hve lítill hluti af stórfum ýmissa dómara dómsstörfin væru. Ef tillögur réttarfarsnefndar ná lögfestingu mundi fyrir þetta girt varðandi viðameiri mál.“

Þá segir einnig í sömu grg.: „Loks er þess að geta, að bað skiptir nokkru að málafjöldi fyrir Hæstarétti er nú svo mikill að veruleg töf verður oft á því, að mál séu flutt og dæmd. Þetta mundi vafalaust breytast ef lögrétta yrði sett á stofn.“

Af þessu tilefni vil ég beina þeirri fsp. til hæstv. dómsmrh., hvort skilja megi orð hans svo að hann hafi ekki í hyggju að leggja fram á þessu þingi frv. til lögréttulaga á ný, breytt eða óbreytt, og stuðla þannig að frekari réttarbótum í landinu. Sýnist mér að með því frv., sem hér er til umr., sé að því stefnt að hverfa frá þeirri stefnu, sem frv. til lögréttulaga gerði ráð fyrir, og halda í þess stað óbreyttu ástandi en fjölga þó nokkuð dómurum til að leysa þann tímabundna vanda sem nú blasir við. Vonandi er þetta mat mitt rangt. Hlýt ég því að harma að hér skuli ekki vera lagt fram samhliða til umfjöllunar, afgreiðslu og lögfestingar frv. til lögréttulaga.

Frv. það, sem hér er til umfjöllunar, gerir ráð fyrir allnokkrum breytingum. Er þar stærst fjölgun dómara, fastra og tímabundinna, eins og síðar verður að vikið. Aðrar breytingar, t. d. skipun þriggja dómara í dóm, ef refsing fer ekki fram úr sex ára fangelsi, samkv. 2. gr. frv., ráðning sérfróðra aðstoðarmanna samkv. 4. gr. og ákvörðun þriggja dómara um áfrýjun máls samkv. 6. gr., horfa allar til bóta og hraðari málsmeðferðar. Er því ekkert nema gott um þær breytingar að segja svo og aðrar breytingar sem að fjárhæðum lúta. Þá er og jákvæð breyting í 8. gr. frv., sem fram kemur í niðurlagi, að fela megi öðrum hæfum manni en hæstaréttardómara að annast útgáfu dómasafns ásamt efnisskrá. Ætti með því að vera unnt að koma í veg fyrir að útgáfa hreinlega falli niður eða dragist úr hófi fram, eins og átt hefur sér stað einkum varðandi efnisskrá hæstaréttardóma, t. d. efnisskrá frá 1971 sem enn er ekki komin út 10 árum síðar.

Varðandi fjölgun hæstaréttardómara er að mínu mati mjög óvíst að fjölgun hæstaréttardómara úr sjö í átta ein sér sé nægileg þegar til lengdar lætur, jafnvel þó að bráðabirgðaheimild sé til tímabundinnar ráðningar eða setningar 2–3 dómara til viðbótar, ef annað á ekki að fylgja með. Á ég þar við meiri háttar breytingar á dómsmálaskipaninni eins og lögréttufrv. gerir ráð fyrir. Tel ég að fjölgun fastra dómara verði að vera í 10 í stað 8, þannig að dóminum gefist kostur á að starfa í tveimur fimm manna deildum eins og minnst er á í frv. Er ljóst að slíki hefur ekki mjög mikinn kostnaðarauka í för með sér sé út frá því gengið að settir yrðu hvort eð er 2–3 bráðabirgðadómarar næstu tvö árin auk þeirra átta föstu dómara sem frv. gerir ráð fyrir. Er enda ólíklegt, að tveimur árum liðnum, er Hæstiréttur hefur vanist því að starfa í tveimur fimm manna deildum, að rétturinn sætti sig við fráhvarf frá þeirri skipan.

Þá vil ég einnig í þessu sambandi minna á að með lögum nr. 75 frá 1973 var dómurum Hæstaréttar fjölgað úr fimm í sex og á ný með lögum nr. 24 frá 1979 úr sex í sjö. Miðuðu þessar breytingar báðar að hinu sama: að létta álaginu af Hæstarétti og hraða málsmeðferð. Urðu breytingarnar vissulega til bóta en sýna þó eigi að síður að þrátt fyrir þessa fjölgun erum við langt frá því marki sem fullnægjandi getur talist.

Í framhaldi af þessu er einnig athyglisverð sú umr. sem átt hefur sér stað nú síðustu daga í sambandi við það bráðabirgðaákvæði, sem fram kemur í frv., um setningu 2–3 dómara til viðbótar reglulegum dómurum réttarins árin 1982 og 1983. Er í Dagblaðinu 11. nóv. s. l. haft eftir ekki ógleggri manni en borgardómaranum Steingrími Gauti Kristjánssyni að slíkt ákvæði sem þetta um dómara til skamms tíma sé ekki í samræmi við grundvallarsjónarmið stjórnarskrárinnár um sjálfstæði dómstóla, sbr. 61. gr. stjórnarskrárinnar. Vitnaði hann máli sínu til stuðnings í Stjórnskipun Íslands, Ólafs Jóhannessonar, hæstv. utanrrh., en í þeirri bók segir m. a. orðrétt á bls. 280 um þetta efni, með leyfi forseta:

„Auðsætt er af 61. gr. stjórnarskrárinnar að ætlast er til þess, að umboðsstarfalausir embættisdómendur séu skipaðir í embætti sín til óákveðins tíma, þangað til þeir brjóta af sér eða fullnægja ekki lengur hæfnisskilyrðum, t. d. um aldur. Þess vegna væri óheimilt að mæla svo fyrir í almennum lögum, að umboðsstarfalausir dómendur skyldu skipaðir til tiltekins tíma, t. d. 5 ára. Aftur á móti gætu lög ákveðið að dómendur skyldu kjörnir t. d. almennri kosningu eða á Alþingi.“

Sömu eða svipaðrar skoðunar voru Eiríkur Tómasson lögmaður og kennari í stjórnskipunarrétti við Háskóla Íslands og Baldur Guðlaugsson lögmaður og nefndarmaður í laganefnd Lögmannafélags Íslands, er Dagblaðið ræddi við þá fimmtudaginn 12. nóv. s. l. Andstæð skoðun kemur hins vegar fram í máli Björns Sveinbjörnssonar forseta Hæstaréttar, í viðtali við Dagblaðið föstudaginn 13. nóv. s. l., þó að forsetinn telji þessa ráðstöfun neyðarúrræði og vissulega mjög óæskilega. Væri í þessu sambandi mjög fróðlegt að fá umsögn og viðhorf hæstv. dómsmrh. til þessa atriðis.

Fyrir þá sök eina, að skiptar skoðanir eru meðal löglærðra manna um ákvæði þetta og túlkun 61. gr. stjórnarskrárinnar, hlýtur ákvæðið að rýrna í augum alþm. og ýta undir það sem hér að framan var sagt um að eðlilegra sé að fjölga föstum dómurum Hæstaréttar hreinlega í 10 í stað 8, ef það er vilji Alþingis að fara þá leið sem hér er til umræðu, þ. e. fjölgun dómara í stað meiri háttar breytingar eins og lögleiðingar á frv. um lögréttu.

Að endingu er umhugsunarvert í þessu sambandi að aths. frv. gefa til kynna að dómarar Hæstaréttar í heild hafi samið frv. Skiptar skoðanir eru hins vegar um réttmæti niðurlagsákvæða frv. eins og áður er rakið. Sérstök og vafalaust einstök staða gæti því komið upp við lögleiðingu slíks ákvæðis. Vilji einhver láta á það reyna, hvort ákvæði standist samkv. stjórnarskrá, þá er það Hæstiréttur Íslands sjálfur sem hefur lokaorðið um gildi ákvæðisins, — ákvæðis sem dómurinn sjálfur hefur samið og því nánast fyrir fram úrskurðað að brjóti ekki í bága við stjórnarskrá. Styður þetta þá skoðun, sem stundum hefur verið haldið fram, að óeðlilegt sé að hæstaréttardómarar starfi jafnframt að samningu lagafrv., a. m. k. sem ein heild, enda margyfirlýst og upplýst að þeir hafa alls ekki nægan tíma til að sinna sínum aðalstörfum, dómsstörfunum.