16.11.1981
Efri deild: 12. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 754 í B-deild Alþingistíðinda. (529)

90. mál, Hæstiréttur Íslands

Ólafur Ragnar Grímsson:

Herra forseti. Þegar frv. til l. um fjölgun dómara í Hæstarétti kom til umræðu á Alþingi 1978–1979 gagnrýndi ég það frv. allverulega og lýsti að lokum andstöðu minni við efni þess. Ég held að ég hafi verið eini þm. á Alþingi þá sem tók slíka afstöðu. Rétt er að taka fram í upphafi að sú afstaða er ekki flokksleg afstaða með neinum hætti.

Þegar þetta frv. er hér lagt fram er ég enn sömu skoðunar. Og það sem meira er, ég tel að allar þær röksemdir, sem ég flutti þá gegn frv., hafi sannast með flutningi þessa frv. og þeim röksemdum sem fluttar eru fyrir þessu frv. Það hefur komið í ljós, eins og ég spáði við meðferð fyrra frv. hér á Alþingi fyrir rúmum tveimur árum, að það mundi leiða til verulegrar lausungar í starfi Hæstaréttar og mundi á engan hátt leysa þau vandamál sem því var ætlað að leysa. Ég sagði þá m. a. í ræðu, með leyfi hæstv. forseta:

„Mér þykir einsýnt að fjölgun dómara nú í sjö muni ekki frekar bera afgerandi árangur heldur en fjölgun dómara í sex fyrir fjórum árum. Ef menn fara ekki inn á aðrar brautir í þessum efnum, þá munu ekki líða mörg ár þangað til kemur fram frv. um enn eina fjölgunina í Hæstarétti.“

Þessi spásögn hefur nú komið á daginn. Og það sem meira er: í því frv., sem nú er lagt fyrir Alþingi, er haldið svo langt inn á þessar hæpnu brautir breytinga á dómstólaskipuninni í landinu, að kominn er upp ágreiningur meðal lærðustu lögfræðinga landsins um það, hvort sjálfir dómarar Hæstaréttar hafi lagt drög að broti á stjórnarskránni með því að flytja þetta frv. Dellurnar um starfshætti Hæstaréttar eru nú þegar, líki og ég spáði fyrir tveimur árum, orðnar að grundvallarágreiningi um stöðu þessa æðsta dómstóls í stjórnskipun landsins.

Þegar fyrra frv. kom hér til umr. benti ég hv. þingheimi á að hagræðingarkrafan, sem var frumforsenda fyrra frv. fyrir tveimur árum og einnig þessa frv., gæti gengið svo þvert á ýmsar aðrar grundvallarforsendur dómstólaskipunarinnar í landinu, að væri hagræðingarkröfunni fylgt til hlítar hlyti að koma að því fyrr eða síðar að ýmsar aðrar grundvallarreglur — og að mínum dómi æðri reglur í dómstóla- og réttarfarsskipun landsins — yrðu brotnar. Jafnhliða væri verið að breyta eðli Hæstaréttar með því að búa til margbrotna stofnun sem væri svo laus í reipunum að hún gæti ýmist starfað sem þriggja manna, fimm manna eða sjö manna dómstóll og skipst í ýmsar deildir með þeim hætti, að auknar líkur væru á að mismunandi túlkunarskólar laganna kæmu upp í dómstólnum sjálfum. Það mundu ekki liða mörg ár þangað til þær túlkanir væru orðnar svo margar og mismunandi að alger óvissa væri orðin í réttarkerfi landsins um það, hver væri skoðun Hæstaréttar og þar með hver væri hinn rétti skilningur laganna. Þar með mundi óvissan um rétta túlkun laganna aukast. Þar með mundi fjölgun mála verða meiri vegna þessarar óvissu og niðurstaðan væri sú að menn væru engu bættari.

Ég ætla ekki, herra forseti, að eyða löngu máli hér í að rifja upp mín fyrri orð fyrir tveimur árum sem flutt voru sem gagnrýni á það frv. og eru í dag miklu brýnni en þau voru þá. Ég ætla nú að fara í gegnum það frv., sem hér liggur fyrir, og rökstyðja hvers vegna ég tel enn nauðsynlegra að vera á móti þessu frv. en ég taldi vera að vera á móti þeirri fjölgun sem lögð var til hér á Alþingi fyrir tveimur árum. Ég bið hv. Alþingi og hæstv. dómsmrh. að íhuga betur en hv. Alþingi var reiðubúið að gera fyrir tveimur árum hvaða braut er hér verið að fara inn á. Eins og hv. síðasti ræðumaður kom að er í röðum ýmissa færustu lögfræðinga landsins þegar komin upp deila um það, hvort þetta frv. brjóti stjórnarskrána, — frv. sem hæstaréttardómendurnir sömdu sjálfir um þá stofnun sem þeir sitja í. Þá held ég að sé tími til kominn fyrir hv. Alþingi að gefa sér góðan tíma til að íhuga inn á hvaða brautir er verið að fara með þriðja hornsteininn í okkar lýðræðisskipulagi. Við erum nefnilega hér, hv. alþm., að fjalla um þriðja hornsteininn, í okkar lýðræðisskipulagi, og við eigum ekki að flýta okkur um of þegar við efnum til breytinga á þeirri stofnun. Við eigum að íhuga vel hvaða röksemdir liggja að baki slíkum breytingum og hvort ekki er hægt að fara aðrar leiðir til þess að leysa þann vanda sem sumir telja að sé þarna fyrir hendi. Ef við sköpum slíka óvissu um þennan þriðja hornstein í lýðræðisskipulagi landsins sem þetta frv. greinilega stefnir að, þá verður niðurstaðan sú að styrkleiki íslensks lýðræðis minnkar.

Menn mega túlka þessi sjónarmið mín sem íhaldssöm sjónarmið, það er velkomið. Það eru íhaldssöm sjónarmið gagnvart þeim grundvallarlýðræðisreglum sem ég tel að okkar þjóðskipulag byggist á.

Vikið er að því í grg. þessa frv., að fjölgað hafi allverulega þeim málum sem hafi verið skotið til Hæstaréttar. Það er meginröksemdin fyrir því, að frv. er flutt, nákvæmlega sama röksemdin og flutt var fyrir tveimur árum, hagræðingarröksemdin. Ég vakti hins vegar athygli á því þá og geri það aftur hér, að þær tölur, sem settar eru fram í grg., sýna hvorki verulega fjölgun mála né sýna þær aukin afköst dómstólsins þrátt fyrir að fjölgað hefur verið um tvo dómendur á undanförnum árum. Sú fjölgun, fyrst um einn fyrir allnokkrum árum og síðan annan fyrir tveimur árum, hefur því samkv. þeim tölum, sem hér liggja fyrir í grg., engin áhrif haft á að hraða meðferð mála við dómstólinn. Ég spyr: Eru einhverjar meiri líkur á því nú, að fjölgun um einn dómara enn leiði til þess, að málum verði hraðað, þegar hin fyrri skipti tvö sýna að það hefur ekki orsakað neina breytingu? Ég held að það ætti að vera mönnum tilefni til þess að staldra við og íhuga hvort ekki liggja einhverjar aðrar orsakir að baki þess, sem menn telja seinagang í dómsmálakerfinu, heldur en skortur á dómurum við Hæstarétt, sérstaklega þegar menn ætla nú, eins og ég mun koma að síðar, að fara leið breyttra starfshátta við dómstólinn sem stóreykur þá lausung sem einkennir störf Hæstaréttar. Hæstiréttur, sem býr við lausung í starfsháttum, er ekki sá hæstiréttur sem ég vil sjá í okkar þjóðfélagi.

Árið 1974 var skotið til Hæstaréttar 223 málum, árið 1978 224, 1979 221, 1975 185. Í þremur af þeim sex tilvikum, sem liðin eru frá 1974, er annaðhvort um nokkurn veginn nákvæmlega sama málafjölda að ræða og 1974 eða mun minni. Það eru aðeins þrjú ár af þessum sex þar sem um fleiri mál er að ræða og er þá fjölgunin ekki mjög mikil: 244 1976, 240 1977 og 250 1980. Ef tekið er gróft meðaltal af árunum frá 1974 til ársins í ár sjáum við að það er engin afgerandi fjölgun þeirra mála sem skotið hefur verið til Hæstaréttar. Röksemdin um mikla fjölgun mála er einfaldlega ekki rétt.

Síðan komum við að dæmdum málum alls á árunum frá 1974 og til 1980. Þá blasir sú staðreynd við okkur, að á árinu 1978, sem er síðasta árið áður en síðasta fjölgun varð í Hæstarétti, voru dæmd mál alls 171, en á þeim tveimur árum, sem liðin eru síðan síðast var fjölgað í Hæstarétti, eru dæmd mál alls færri en 1978, eða 167 og 168. Nú er mér auðvitað ljóst að mál eru misjafnlega viðamikil þannig að tölur einar út af fyrir sig um málafjölda segja ekki alla söguna. Ég vík hins vegar að þessu hér vegna þess að þetta er meginröksemdin sem núv. hæstv. dómsmrh. sem og fyrirrennari hans, hæstv. þáv. dómsmrh. Steingrímur Hermannsson, fluttu að beiðni hæstaréttardómaranna sjálfra fyrir því að fjölga í dómstólnum. Þetta eru þess vegna ekki fyrst og fremst röksemdir dómsmrh. beggja, heldur röksemdir dómaranna við dómstólinn. Tölurnar sýna einfaldlega að það er ekki hægt að mínum dómi að sækja röksemdir fyrir þessari fjölgun í málafjöldann né heldur sýna fram á að fjölgun dómara á undanförnum árum hafi á nokkurn hátt leyst þennan vanda. Það er nokkuð athyglisvert, að eftir fjölgun dómara fyrir tveimur árum fækkaði þeim málum sem voru dæmd alls af réttinum. Það varð fækkun dæmdra mála þrátt fyrir fjölgun dómara. Þetta var fyrsta atriðið sem ég vildi vekja athygli hv. deildar á, að sú hagræðingarröksemd, sem dómararnir í Hæstarétti beita sem meginröksemd sinni fyrir að þetta frv. sé flutt, stenst að mínum dómi alls ekki ef horft er á þær einföldu talnarunur sem er að finna í grg. frv. sjálfs.

Annað atriðið, sem ég vil víkja að, er að hér er enn frekar farið inn á þá braut að skipta Hæstarétti í undirdeildir. Hæstiréttur er ekki lengur heilsteypt stofnun líkt og hann hefur, verið mestallan sinn tíma, heldur er hann orðinn margbreytileg deildaskipt stofnun svo að nánast er útilokað að átta sig á því fyrir fram, hvers konar Hæstiréttur starfar í hverju máli um sig.

Þegar haldið er inn á braut slíks kerfis vakna strax spurningar um það, eftir hvaða reglum Hæstarétti skuli þá skipt í deildir, þriggja dómara, fimm dómara o. s. frv. Það kemur fram í þessari grg. og kom einnig fram í umr. hér fyrir tveimur árum, að slíkar reglur eru ekki til. Það er lauslegt samkomulag hæstaréttardómaranna sjálfra hverju sinni sem ræður því, hvernig málum er skipt á deildaskiptan réttinn og hverjir sitja þá dóminn í viðkomandi deild hverju sinni. Rannsóknir, sem farið hafa fram á slíku deildaskiptu dómstólakerfi annars staðar, sýna okkur að niðurstöður dómsins geta farið mjög eftir því, hvaða einstaklingar úr heildarhópi dómara skipa viðkomandi undirdeild réttarins í það og það sinn. Það vita allir, að innan lögfræðinnar og innan dómstólakerfisins eru uppi ýmiss konar túlkunarskólar á hinum ýmsu lagagreinum. Þegar Hæstiréttur er orðinn deildaskiptur með þessum hætti aukast allverulega líkurnar á að það kunni að vera jafnvel tilviljunarkennt hvers konar túlkunarskóli verði ráðandi í hverju máli um sig og kannske mismunandi túlkunarskólar í hliðstæðum málum eftir því hvernig valist hefur í undirdeildir réttarins.

Mér er tjáð, ég hef að vísu ekki þær tölur hér við höndina, en mér er tjáð að sératkvæðum í Hæstarétti hafi fjölgað mjög á síðustu árum, eftir að tekið var upp þetta deildaskipta kerfi sem hér er gerð tillaga um að verði aukið enn frekar. Sé það rétt að sératkvæðum í Hæstarétti hafi fjölgað á þessu tímabili, þá finnst mér það staðfesta þau varnaðarorð sem ég flutti hér fyrir tveimur árum og endurtek aftur nú, að líkurnar á því, að sjónarmið einstakra dómara, en ekki réttarins í heild sem stofnunar, fari að verða ráðandi eftir nokkuð tilviljanakenndri reglu aukist allverulega. (Gripið fram í.) Það kann vel að vera, hæstv. viðskrh. Stundum eru sératkvæði best. En það er ekki kjarni málsins. Kjarni málsins er ekki það, hvort dómur er réttur eða rangur. Kjarni málsins er það, að þegar litið er yfir lengri tíma koma fram margir mismunandi dómar, mismunandi túlkanir á sömu lögunum frá sömu stofnuninni eftir því hvaða einstaklingar hafa setið í undirdeildum stofnunarinnar í það og það sinn. Þar með eykst allverulega óvissan um það, hvað sé hið rétta ríkjandi túlkun Hæstaréttar á viðkomandi lögum.

Þar að auki er sú hætta fyrir hendi, að þegar dómstóllinn er orðinn skipaður slíkum fjölda dómara fari einstakir dómarar að sækjast eftir því að sitja undir dóminn í málum sem þeim eru sérstaklega hugstæð. Það er a. m. k. hægt að leiða vissar líkur að því, að slík mál séu einmitt þau mál þar sem viðkomandi dómarar hafi kannske meiri sérskoðanir heldur en dómstóllinn í heild. Engar reglur eru til um það, hvernig eigi að velja dómarana í þessa undirdómstóla; hvort þeir eiga að ganga í þá eftir röð eða hvort þeir eiga að sem ja um það í hvert sinn. Það er algerlega óljóst í þessum lagatexta. Ef þeir eiga að semja um það í hvert sinn skapast vissulega sú hætta, sem er skiljanleg frá mannlegu sjónarmiði, að menn sækist fyrst og fremst eftir því að fara í undirdeildir dómstólsins um þau mál sem þeir hafa sérstakan áhuga á. Þess vegna eru meiri líkur á að þeir hafi afdráttarlausari eða sérstæðari skoðanir á þeim heldur en rétturinn mundi hafa almennt sem stofnun.

Mörg fleiri rök má leiða að því, að með þessu kerfi sé verið að auka allverulega óvissu um hver sé hin rétta merking í ríkjandi lagatúlkun hverju sinni.

Í þriðja lagi vil ég vekja athygli á því, að með þessum lögum er Hæstarétti heimilað að ráða sérfróða aðstoðarmenn. Nú lýsti ég þeirri skoðun fyrir tveimur árum, að það gæti vissulega komið til greina að ráða slíka aðstoðarmenn til dómstólsins. Ég er enn þeirrar skoðunar, að slík skipan mála geti átt rétt á sér. En að innleiða hana með þeim hætti sem hér er gert, án nokkurra ákvæða um það, með hvaða hætti eigi að ráða slíka aðstoðarmenn, til hve langs tíma þeir eigi að vera ráðnir, hvaða skilyrði þeir eigi að uppfylla o. s. frv., tel ég algerlega ófært. T. d. í Bandaríkjunum, þar sem Hæstiréttur starfar með slíku aðstoðarmannakerfi, er reyndin sú, að það eru aðstoðarmennirnir sem semja dómana, það eru aðstoðarmennirnir með sínum ritgerðum og rannsóknum sem leggja í reynd drög að því, hver dómurinn er í hverju máli um sig. Það hefur verið skrifuð skemmtileg bók, sem vakti gífurlega athygli í Bandaríkjunum, fyrir rúmu ári af blaðamönnum þar í landi. Bókin var úttekt á störfum Hæstaréttar í Bandaríkjunum. Þar kom margt fróðlegt í ljós og ég legg eindregið til að hv. þm. kynni sér það verk áður en lengra er haldið í slíkum breytingum hér. (EG: Það kom í 1jós að það var ekki allt sannleikur sem þar var farið með.) Það er út af fyrir sig rétt, að það var ekki allt sannleikur. Ég held þó að enginn hafi dregið í efa þá meginniðurstöðu sem kom fram í verkinu, að hlutur aðstoðarmannanna í dómnum við að semja sjálfa dómana og leggja drög að þeim forsendum, sem þeir voru reistir á, er miklu meiri en menn höfðu gert sér grein fyrir. Þeir voru í fjölmörgum tilvikum þeir aðilar sem mótuðu skoðanir réttarins. Dómararnir sjálfir voru þá eins konar ritstjórar að þeim túlkunartextum sem aðstoðarmennirnir sömdu. Það liggur í hlutarins eðli að verkefni aðstoðarmanna er með þessum hætti. Það liggur í hlutarins eðli. Það er m. a. tilgangurinn með því að ráða þá. Þess vegna er nauðsynlegt að það komi alveg skýrt fram, þegar Alþingi Íslendinga fer í fyrsta sinn inn á þá braut að heimila ráðningu slíkra starfsmanna við Hæstarétt Íslands, hver eigi að vera menntunar- og starfsskilyrði þessara manna, hver eigi að vera ráðningartími þeirra og hver eigi að ráða þá. Er eðlilegt t. d. að dómararnir ráði þá sjálfir? Er það eðlilegt? Ég spyr. Ég er ekki alveg viss. Skapar það ekki vissar líkur á því, að þeir velji t. d. úr hópi efnilegra ungra lögfræðinga ýmsa þá sem þeir þekkja persónulega eða telja sjálfir vera efnilega eða hafa unnið fyrir þá einhver önnur verk o. s. frv.? Hér er ekkert um það, að menn eigi að geta sótt um þessi störf á jafnréttisgrundvelli. Það er ekkert um það, að þessi störf eigi að auglýsa eða til þeirra eigi að ráða með einhverjum formlegum hætti. Það er fyllilega opinn möguleiki, a. m. k. eins og ég les frv., til þess að þetta verði persónulegt mat dómaranna hverju sinni. Ekkert er um hve langur ráðningartíminn eigi að vera eða hvaða starfsskilyrði í lögfræði eða dómstólastörfum þessir menn þurfa að uppfylla. Ég spyr t. d.: Væri ekki eðlilegt að slíkir aðstoðarmenn hefðu starfað sem dómarar við einhverja af undirdómstólunum? Eða eru menn reiðubúnir t. d. að ráða lögfræðinga nýkomna frá prófborði í þessi störf? Ég varpa eingöngu slíkum spurningum fram vegna þess, að þessir menn, aðstoðarmennirnir, eiga eftir að verða ráðandi afl í skoðanamyndun innan réttarins ef störf þeirra verða með sama hætti og verið hefur annars staðar.

Í fjórða lagi vil ég vekja athygli á því, eins og hér hefur verið gert áður í þessum umr., að ýmsir af lærðustu lögfræðingum landsins halda því fram, að ákvæði til bráðabirgða um sérstaka fjölgun í dómnum á árunum 1982 og 1983 brjóti í bága við stjórnarskrána. Ég ætla ekki að kveða upp úr með það. Ég hef enga stöðu til þess að kveða upp úr með það, hvort dómendur Hæstaréttar hafi sameinast um að brjóta stjórnarskrána. En ég vek hins vegar athygli á því, að þarna er grundvallarágreiningur af því tagi að það er í raun og veru ekki hægt að fá dæmi um stærri grundvallarágreining í dómstólakerfi landsins, en um það, hvort Hæstiréttur hafi brotið stjórnarskrána með því að semja slíkt frv. um Hæstarétt. Meiri grundvallarágreining get ég nú ekki séð að hægt sé að mynda við dómstólakerfi landsins. Mér finnst a. m. k. rétt fyrir hv. Alþingi, áður en það samþykkir slíkt, áður en það gerist meðsekt Hæstarétti í að brjóta stjórnarskrána, ef sú túlkun er rétt, að menn átti sig rækilega á því, hverjar eru röksemdir með og hverjar á móti. Ég ætla ekki að rekja það hér, en vísa eingöngu til frásagnar sem kom í Dagblaðinu 11. nóv., á forsíðu, þar sem mjög rækilega eru flutt rök Steingríms Gauts Kristjánssonar fyrir þeirri skoðun, að þetta ákvæði frv. um Hæstarétt, sem Hæstiréttúr samdi, sé brot á stjórnarskrá lýðveldisins. Þar er birtur í heild sá texti úr stjórnarskipunarrétti Ólafs Jóhannessonar sem Steingrímur Gautur Kristjánsson notar til rökstuðnings. Ég held að allir þeir, sem til þekkja, viti að Steingrímur Gautur Kristjánsson er meðal virtustu og lærðustu yngri lögfræðinga í þessu landi. Álit hans er ekki léttvægur dómur sem hægt er að ýta frá sér.

Ég verð satt að segja að láta í ljós þá skoðun, að svör forseta Hæstaréttar, sem birtust í Dagblaðinu föstudaginn 13. nóv., voru þunnur þrettándi. Satt að segja er að mínum dómi fyrir neðan virðingu forseta réttarins að svara í raun og veru eingöngu þannig: Af því að hæstaréttardómararnir sömdu frv. getur það ekki verið stjórnarskrárbrot. — Það er varla hægt að orða kenninguna: „Ég er lögin“ — á skemmtilegri hátt. Það er satt að segja undarleg skoðun, sem þar kemur fram hjá forseta réttarins, á engan hátt málefnaleg svör við þeirri gagnrýni sem Steingrímur Gautur Kristjánsson og aðrir hafa flutt á þetta ákvæði frv.

Ég er þeirrar skoðunar, herra forseti, að þetta frv. muni ekki frekar en önnur fjölgun í Hæstarétti áður leysa þann vanda sem sumir telja að sé í dómstólakerfi landsins. Ég vil ítreka þau sjónarmið sem ég setti hér fram fyrir tveimur árum, að ef krafan um hagræðingu í dómstólakerfinu verður gerð að grundvallarreglu nr. eitt í dómstólakerfi landsins, þá eru miklar hættur á því, að aðrar grundvallarreglur verði brotnar, m. a. grundvallarreglurnar um réttaröryggi og grundvallarreglurnar um hæfni þeirra manna sem skipa réttinn hverju sinni. Traust almennings minnkar á því, að sú niðurstaða, sem fæst úr æðsta dómstól landsins, sé byggð á vel grunduðu áliti þeirra sem rétt hafa verið kjörnir, en sé ekki tilviljunarkennd niðurstaða vegna þess að einmitt þrír tilteknir einstaklingar hafi skipað þessa undirdeild Hæstaréttár í það sinn og ef einhverjir aðrir-þrír einstaklingar úr þessum stóra hópi hæstaréttardómara hefðu skipað undirdeildina hefði niðurstaðan kannske orðið á annan veg. (KJ: Má ekki skjóta því milli deilda?) Jú, það er einmitt kjarninn, sem menn eru að tala um hér, að Hæstiréttur sé margdeildaskipt fyrirbæri, sem einmitt gæti — eins og hv. þm. Kjartan Jóhannsson sá í hendi sér — skapað möguleika á því, að menn færu að reyna að spila á það, hvaða deild þeirra mál lenti í, og kannske fara að höfða mál á nýjan leik á einhverjum öðrum forsendum til að lenda í hagstæðari deildum og skjóta málinu þannig milli deilda eins og hv. þm. benti á.

Í því frv., sem hér er flutt, eru nánast vafaatriði í hverri einustu grein. Líkt og ég vék að áðan sé ég engin efnisrök fyrir því, að það að bæta þriðja dómaranum við í Hæstarétti og þessum aukadómurum — og læt það liggja á milli hluta, hvort skipan þeirra yrði brot á stjórnarskránni eða ekki — muni leysa þann vanda sem menn eru að tala um. Ég held þvert á móti að rætur þessa vanda liggi annars staðar. Ég endurtek í því sambandi það sem ég sagði fyrir tveimur árum.

Við þurfum að fá hér nýtt dómstig, lögréttudómstig, eins og talað hefur verið um, sem tekur vissan þunga frá Hæstarétti. Það er veruleg uppgjöf, hættuleg uppgjöf, að hætta við þá stefnu, eins og mér finnst, líkt og síðasta ræðumanni, að þetta frv. gefi til kynna að ákveðið hafi verið.

Hin ástæðan er sú, að mikill fjöldi hæstaréttardómara er á kafi í ýmsum öðrum verkum en að dæma í Hæstarétti. Við skulum bara ræða það hreinskilnislega, hv. þm. Það eru ýmsir dómarar í Hæstarétti sem eru á kafi í öðrum verkum. Þeir sitja t. d. í öðrum dómstólum. Einn þeirra situr í Mannréttindadómstól Evrópu. Ekki skal ég draga úr því, að það er dómstóll sem verðskuldar alla virðingu, verðskuldar að Íslendingar sendi þangað sína hæfustu menn. En ef Hæstiréttur er svo önnum kafinn að hann getur ekki annað þeim málum sem menn telja að hann þurfi að anna, er þá eðlilegt að einn dómari í dómstólnum sé stóran hluta úr ári upptekinn við störf í einum af virðulegustu dómstólum Evrópu? Annar dómari situr í Kjaradómi, ef ég man rétt, og starfar þar. Hér hefur einnig komið fram að dómarar eru iðulega að semja lög. Ég er alveg sammála því, að það sé óeðlilegt að dómarar Hæstaréttar séu að semja lagafrv. sem þeir eiga síðan sjálfir að fjalla um sem dómarar. Dómarar Hæstaréttar eru þar að auki uppteknir við ýmis önnur störf. Þeir sitja í stjórnum, nefndum og ráðum hingað og þangað úti um þjóðfélagið og á alþjóðavettvangi. Það tekur verulegan hluta af þeirra tíma. Dómarar í Hæstarétti taka sér þriggja mánaða sumarfrí á ári. Okkur er sagt að það sé til þess að endurmennta sig og fylgjast með, lesa sum af þessum frumvörpum sem þeir voru sjálfir búnir að semja fyrir þingið og samþykkt voru um vorið. Ég skal ekki deila um það. En ég nefni hér bara fjölmargar staðreyndir sem liggja á borðinu. Þær sýna okkur að verulegur hluti hæstaréttardómara sinnir alls ekki störfum sínum í Hæstarétti sem fullu starfi, heldur eru þeir bundnir í ýmsum öðrum störfum í þjóðfélaginu og á alþjóðavettvangi sem draga verulega úr starfstíma þeirra og starfskröftum í Hæstarétti.

Ég hefði talið heppilegra, ef þetta er eins mikið vandamál og menn vilja vera láta með störf réttarins, að a. m. k. á því bráðabirgðatímabili, sem fer í hönd, verði sett sú regla, að dómarar Hæstaréttar helgi sig Hæstarétti, hætti að semja frv., hætti að sitja í öðrum dómstólum hér og þar á alþjóðavettvangi, hætti að sitja í ýmsum nefndum og ráðum, hætti að taka að sér ýmiss konar aukabitlinga fyrir hina og þessa opinbera aðila. Ég er ekki viss um að það sé dómstólnum til góðs að hæstaréttardómarar séu flæktir inn í ýmiss konar önnur störf. Þvert á móti, ég tel að það sé æskilegast að hæstaréttardómarar helgi sig sínum störfum.

Ég vil benda á það í þessu sambandi, að engir opinberir starfsmenn hafa eins góð launakjör og hæstaréttardómarar. Hæstaréttardómarar eru einu opinberu starfsmennirnir sem — auk þess að vera í æðstu launaflokkum opinberra starfsmanna — fá full laun þegar þeir fara á eftirlaun, eftir því sem ég veit best. Þeir fá ekki bara ákveðinn hundraðshluta af sínum fyrri launum líkt og aðrir opinberir starfsmenn eða þingmenn eða ráðherrar eða einhverjir aðrir. Þeir eru eini hópurinn í landinu sem fær sín fullu laun áfram þegar þeir fara á eftirlaun, 100%. Kjör þeirra ættu þess vegna að vera svo vel tryggð að það ætti ekki að vera nein þörf á því fyrir þessa ágætu menn að leita út á annan vettvang í því skyni.

Ég vil óska eftir því við hæstv. dómsmrh., að dreift verði til þm. ítarlegri og nákvæmri skrá yfir störf hæstaréttardómara á s. l. fimm árum, það verði lögð fram ítarleg og nákvæm skrá yfir öll þau frv. sem hæstaréttardómarar hafi samið og hvað þeir hafi unnið lengi við samningu frv., það verði lögð fram skrá yfir önnur störf þeirra í öðrum dómstólum eða á öðrum vettvangi, það verði lögð fram skrá yfir þær stjórnir, nefndir og ráð sem þeir sitja í, svo að menn geti fengið að átta sig á því hér á Alþingi, hvort ein af meginástæðunum fyrir seinagangi mála í Hæstarétti kynni ekki að vera sú, að þar hefur lítill hluti réttarins verið í fullu starfi. Mér finnst a. m. k. nauðsynlegt að kanna það áður en lengra er haldið.

Ég vil jafnframt taka undir með síðasta ræðumanni, að það er náttúrlega mjög sérkennilegt að hér skuli koma frv. um Hæstarétt samið af Hæstarétti sjálfum, einkum og sér í lagi þegar það er haft í huga, eins og ég hef reynt að sýna hér fram á, að þetta frv. er jafnhæpið og raun ber vitni og röksemdafærslan að baki þess jafnmikið byggð á sandi og mér finnst hún vera. A. m. k. eykur það ekki traust manna á dómgreind þeirra ágætu heiðursmanna sem í þessum dómstól sitja, að það skuli vera verkefni okkar hér á Alþingi að stiga á bremsuna gagnvart því að tilraunir hæstaréttardómaranna sjálfra til þess að skapa hættulega lausung um réttinn nái fram að ganga. Það er a. m. k. staða sem ég átti ekki von á að ég ætti eftir að lenda í hér á hv. Alþingi. Ég hélt satt að segja að Hæstarétt skipuðu þeir menn sem umfram allt annað hefðu augastað á því grundvallarréttaröryggi og þeim meginreglum í stjórnskipun landsins sem Hæstarétti er ætlað að tryggja.

Herra forseti. Það væri hægt að fjalla í mun ítarlegra máli um þetta frv. Ég ætla ekki að gera það að þessu sinni. Ég ætla að vona að sú nefnd, sem fær þetta frv. til umfjöllunar, gefi sér góðan tíma til að fara ofan í öll þau gagnrýnisatriði sem hér hafa nú þegar komið fram í umr., bæði frá mér og hv. síðasta ræðumanni, og kynni sér enn fremur rækilega þær skoðanir sem komið hafa fram utan þings um það, að þetta frv. sé stjórnarskrárbrot, og hugleiði til viðbótar hvort ekki sé réttara að fara aðrar leiðir til að leysa þann vanda, sem margir telja að þarna sé uppi, heldur en þær sem óhjákvæmilega hljóta að leiða til verulegra deilna um Hæstarétt Íslands.