16.11.1981
Neðri deild: 12. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 784 í B-deild Alþingistíðinda. (553)

17. mál, almannatryggingar

Pétur Sigurðsson:

Herra forseti. Ég vil nota tækifærið til að lýsa í örfáum orðum ánægju minni með að þetta frv. skuli vera komið hér fram og því skuli vera vel tekið af hæstv. heilbrmrh. En ég vil þó sérstaklega fagna því, að hann skuli hafa lýst því hér yfir eða skýrt frá því, að mál, sem ég hef nokkrum sinnum á liðnum árum borið fram við aðila, m. a. einu sinni í sambandi við lausn kjaradeilu, um skattafslátt vegna tannviðgerða, skuli nú vera komið á þann rekspöl að það sé í alvarlegri athugun hjá heilbrmrn. hvort hægt sé að fara þessa leið. Ég er nefnilega þeirrar skoðunar — hef reyndar í samræmi við þá skoðun mína flutt þáltill. í Sþ. að skattafsláttarleið sé fær og geti orðið til bóta og til úrlausnar á ýmsum vandamálum sé hún farin. Í sambandi við tannviðgerðir mundi þetta að sjálfsögðu hafa tvöfalda þýðingu: annars vegar að lækka kostnað þeirra sem í hlut eiga, og mætti þá gjarnan miða þennan afslátt við eitthvert ákveðið tekjumark, hins vegar væri þetta trygging fyrir opinbera aðila að rétt væri talið fram, sem ég er í sjálfu sér ekki að tortryggja, heldur mundi það veita þeim visst öryggi sem hafa verið bornir sökum um að ástæða væri til slíkrar tortryggni.

Ég fagna þessari yfirlýsingu hæstv. ráðh. og um leið frv., eins og ég tók fram. Um hugleiðingar hæstv. ráðh. um að gera alla okkar sérfræðinga að fastlaunamönnum eða um læknasamningana almennt og þá jafnframt þá samninga, sem viðkomandi hæstv. ráðh. gerði ekki alls fyrir löngu við íslenska læknastétt. ætla ég ekki að ræða að þessu sinni.