16.11.1981
Neðri deild: 12. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 788 í B-deild Alþingistíðinda. (556)

17. mál, almannatryggingar

Magnús H. Magnússon:

Herra forseti. Hv. 8. landsk. þm. sagði að frv. eða efni þess væri óraunhæft kostnaðarlega séð, eins og það var orðað. Það hefur ávallt verið sagt þegar á döfinni hafa verið nýjungar á sviði almannatrygginga, að vísu ekki alltaf af Alþb.-mönnum, en af ýmsum.

Hæstv. heilbr.- og trmrh. sagði réttilega að þetta kostaði mikið. Ég er sammála því. Það kostar mikið. Almannatryggingamálin kosta yfirleitt mikið og heilbrigðismálin. Það er ekki hægt að komast hjá því. Hann ræddi um fast launakerfi, að koma tannlæknum á fastlaunakerfi. Ég er sammála honum í því, ef það er hægt. HItt er annað mál, að ég geri ráð fyrir, að það verði mjög erfitt, og tek undir með hv. 1. landsk. þm. um það.

Hæstv. ráðh. talaði um skattaafslátt sem lið í að koma á virku eftirliti með þessum málum, réttum framtólum og öðru því um líku. Það er bara sá galli við skattaafsláttinn, að vegna 10% reglunnar nær hann ekki til allra. Í mörgum tilfellum mundi 10% reglan skera þetta af þannig að í reynd væri kannske lítill og í sumum tilfellum alls enginn afsláttur, jafnvel þó í lögum væri kveðið á um skattaafslátt. (Gripið fram í.) Auk þess sérstakur afsláttur? Já, það er kannske hugsanlegt, en þá fara málin að flækjast. Auk þess er allur slíkur afsláttur og fleiri frádráttarliðir erfiðir í sambandi við staðgreiðslukerfið þegar það kemst á.

Það má segja að tilgangur þessa frv. sé einkum þrenns konar: Í fyrsta lagi á að taka nokkurn þátt í þeim mikla kostnaði sem fjölmargir verða fyrir sem á tannlækningum þurfa að halda og sem slíki hugsað sem fyrsta skrefið í því að koma tannlækningunum undir almannatryggingakerfið undir sjúkratryggingakerfið. Í öðru lagi á að afla upplýsinga sem byggja mætti á skipulega tannvernd og þátttöku hins opinbera í henni. En auðvitað eru fyrirbyggjandi aðgerðir, eins og kom fram hjá hv. 1. þm. Vesturl., það sem koma skal. Þær eru og verða ódýrustu lækningarnar og í þessu tilviki óþægindaminnstar. Í þriðja lagi á að koma á virku eftirliti með gjaldtöku tannlækna. Þykir mörgum að ekki muni af veita og kom það greinilega fram hjá hv. 1. þm. Vesturl. Eins og kunnugt er eru gjaldskrár tannlækna í reynd undanþegnar eftirliti verðlagsyfirvalda. Það er að vísu ófullkomið eftirlit með tannlækningum fyrir gamalmenni og börn, sem Tryggingastofnun greiðir hluta af — mjög ófullkomið, en fyrir almenning er eftirlitið ekkert, hvergi. Það við bætist svo að gjaldskrár tannlækna eru lágmarksgjaldskrár og er það auðvitað með öllu fráleitt frá sjónarmiði neytenda.