16.11.1981
Neðri deild: 12. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 798 í B-deild Alþingistíðinda. (566)

27. mál, samstarfsnefnd Alþingis og þjóðkirkjunnar

Flm. (Benedikt Gröndal):

Herra forseti. Á þskj. 27 flyt ég ásamt flokksbræðrum mínum Sighvati Björgvinssyni, Árna Gunnarssyni og Karvel Pálmasyni frv. til l. um samstarfsnefnd Alþingis og þjóðkirkjunnar. Frv. er ekki stórt í sniðum. Það gerir ráð fyrir að starfa skuli samstarfsnefnd á milli Alþingis og þjóðkirkjunnar, tilgangur hennar skuli vera að vinna að auknum skilningi í löggjafarstarfi á vandamálum og verkefnum kirkjunnar svo og eflingu kristni og auknum trúar- og menningaráhrifum þjóðkirkjunnar.

Ég vil taka það fram, að gerðar hafa verið tilraunir með óformlegar nefndir af svipuðu tagi, en hér er gert ráð fyrir að stíga skrefið lengra og lögfesta tilveru slíkrar nefndar. Er á því reginmunur. Gert er ráð fyrir að samstarfsnefnd þessa skuli skipa af hálfu Alþingis forseti Sþ. og einn fulltrúi tilnefndur af hverjum þingflokki, en af hálfu þjóðkirkjunnar kirkjuráð. Kirkjuráð er eins konar stjórn, sem byggist á kirkjuþingi og er því lýðræðislega tilkomið ráð. Gert er ráð fyrir að samstarfsnefndin geti annars vegar sent ályktanir og tillögur til Alþingis eða einstakra nefnda þess og hins vegar til kirkjuþings.

Starf þjóðkirkjunnar er með nokkrum blóma um þessar mundir. Framboð af ungu fólki til guðfræðináms og prestsstarfa er nægilegt, þar sem fyrir nokkrum árum var alvarlegur skortur. Kirkjur og félagsheimili rísa víða um land og er álit kunnugra að þjóðin leiti nú meir til kirkju og kristni í hamingjuleit og lífsstríði en lengi hefur verið.

Oft hafa kirkjunnar menn kvartað undan því, að Alþingi væri áhugalaust um málefni þjóðkirkjunnar og veitti litið fé til starfsemi hennar. Þetta frv. er flutt til að koma til móts við þá gagnrýni og reyna að bæta sambúð þings og þjóðkirkju.

Ég vil geta þess, herra forseti, að frv. þetta hefur þegar veríð tekið til umræðu á héraðsfundi Reykjavíkurprófastsdæmis, sem nýlega var haldinn, og þar var samþykkt einróma tillaga um stuðning við frv. um samstarfsnefndina. Ein af athugasemdunum, sem fram komu, beindist að því, hvort eðlilegt væri að binda fulltrúa þjóðkirkjunnar við kirkjuráð. Mér sýnist að viðkomandi nefnd geti athugað það mál, og hygg ég að flm. muni ekki fyrtast þó að einhver breyting yrði á því gerð. Að lokum segir að héraðsfundurinn styðji framangreint frv. og vænti þess, að það verði tekið til umræðu og afgreiðslu hið fyrsta.

Herra forseti. Ég legg til að frv. verði að lokinni umr. vísað til menntmn.