16.11.1981
Neðri deild: 12. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 802 í B-deild Alþingistíðinda. (574)

64. mál, lögskráning sjómanna

Félmrh. (Svavar Gestsson):

Herra forseti. Ég tel að hér sé hreyft þörfu máli og góð aðstaða fyrir þingið til að líta á það vandlega, því að það er út af fyrir sig rétt, sem fram kemur hjá hv. þm. Pétri Sigurðssyni, að það er nauðsynlegt að víkka svið lögskráningarinnar nokkuð frá því sem nú er í lögum. En aðalatriðið held ég að sé þó að framkvæma lögskráningu í landinu. Ég held satt að segja að þau mál séu ekki í nærri nógu góðu lagi hjá okkur og menn hafi iðulega misst af lögboðnum réttindum, vegna þess að lögskráningin hefur ekki verið í lagi, eða það hefur dregist von úr viti að menn fengju þau réttindi, sem lög og reglugerðir mæla fyrir um, vegna þess að lögskráningunni var ekki hagað svo sem gera verður kröfu um.

Ég hef, eftir að ég kom í trmrn., rekið mig á nokkur dæmi í þessum efnum sem renna manni satt best að segja til rifja, vegna þess að þarna er ekki að málum staðið eins og best verður á kosið og okkur er í rauninni sæmandi. Það var með tilliti til þess, að við veltum því fyrir okkur hvort væri hugsanlegt að eftirlit með lögskráningunni yrði í höndum sjómannasamtakanna sjálfra, þannig að þau bæru þarna vissa ábyrgð og fengju til þess stuðning frá almannavaldinu eða úr ríkissjóði. Ýmsir töldu þetta óeðlilegt fyrirkomulag, það væri ekki eðlilegt að hagsmunasamtök hefðu eftirlit með því, hvernig framkvæmdavaldið framkvæmdi þau lög sem sett eru á hverjum tíma. Það er mikið til í því. Hitt er aftur ljóst, að það eru sjómenn sem mestra hagsmuna eiga að gæta í þessum efnum, og það eru þeir sem verða harðast úti ef mistök eiga sér stað í sambandi við lögskráninguna og hún er ekki framkvæmd eins og vera ber og vera þyrfti. Vegna þess að þessi hugmynd — svo og ýmsar aðrar sem hafa verið nefndar í sambandi við lögskráningu sjómanna — hefur ekki fengið nægilega góðar undirtektir, þá ákvað ég að gera tilraun til að laða til samstarfs þá aðila sem hér eiga helst um að véla, þ. e. félmrn., samgrn., dómsmrn., Farmanna- og fiskimannasamband Íslands og Sjómannasamband Íslands. Fyrir nokkrum dögum varð til lítill starfshópur með fulltrúum þessara aðila þar sem ætlunin er að reyna að fara ofan í lögskráningarmálin með það fyrir augum, að tryggt verði það meginatriði að lögskráningin verði framkvæmd undanbragðalaust eða a. m. k. undanbragðalítið í landinu.

Þetta vildi ég nefna hér, herra forseti, um leið og þetta frv. er hér flutt af hv. þm. Pétri Sigurðssyni og hans samflokksmönnum fleirum.