16.11.1981
Neðri deild: 12. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 803 í B-deild Alþingistíðinda. (576)

64. mál, lögskráning sjómanna

Stefán Valgeirsson:

Herra forseti. Hér er hreyft þörfu máli. Varðandi það atriði, sem hefur verið rætt núna um, þ. e. trygginguna sjálfa, þá mun vera misbrestur á því, að frá henni sé gengið, og jafnvel að lögskráningaraðila sé ljóst að það þurfi að tryggja og að það liggi fyrir þegar skráð er. Þrátt fyrir það lagafyrirmæli, sem hv. þm. Pétur Sigurðsson vitnaði áðan til, hefur komið í ljós viss tregða hjá ríkisvaldinu og þeim lögfræðingum, sem um þetta fjalla, að ríkið eigi að borga þetta, fyrr en sé þá búið að ganga að útgerðarfyrirtækinu eða útgerðaraðilanum, og jafnvel ef hann getur ekki borgað eða borgar ekki einhvern hluta a. m. k. af þessu, þá verði að koma til gjaldþrotaskipta áður en ríkið borgar þetta til fullnustu.

Ég held að svona staða hafi komið upp á fleiri en einum og fleiri en tveimur stöðum á landinu og það nýverið. Mér hefur dottið í hug hvort ekki sé nauðsynlegt eða hvort ekki sé hægt að koma því þannig fyrir þegar lögskráð er, að tryggingin felist í lögskráningunni — þetta er skyldutrygging — og að ekki þurfi að vera búið að fara í neitt tryggingarfyrirtæki, það sé einhvern veginn þannig frá því gengið, að það sé bundið skráningunni sjálfri. En þessi mál þarf að athuga í sambandi við þetta frv., hvort ekki sé hægt með einhverjum hætti að koma í veg fyrir svona mistök.