16.11.1981
Neðri deild: 12. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 804 í B-deild Alþingistíðinda. (579)

70. mál, framleiðsluráð landbúnaðarins

Stefán Valgeirsson:

Herra forseti. Það þarf ekki mörg orð um þetta frv. Það eru tvö meginatriði í þessu frv. Það er að taka, eins og hv. flm. sagði, einkaleyfi af Grænmetisversluninni, og í öðru lagi að fella niður heimildina til að jafna flutningskostnað á þessari vöru um landið. Svona frv. hafa oft verið flutt, og segja má að það sé liður í stefnumótun Alþfl. í þessum málum að reyna að rýra áhrif bændastéttarinnar á málefni landbúnaðarins. Tryggingin með því að hafa þetta á einni hendi er að einn aðili, ekki síst þegar þessi aðili er tengdur Framleiðsluráði og Stéttarsambandinu, fylgist með þörfinni meira en aðrir og síður verða mistök í innflutningi heldur en ef þetta væri á margra höndum. Ég held að það þurfi að athuga þessi mál frá fleiri hliðum. Jafnvel þó að í frv. sé það ákvæði, að viðskrn. eigi að veita leyfi hverju sinni, þá tryggir það ekki nægilega, þegar margir aðilar eru, að ekki verði stór mistök, jafnvel flutt inn allt of mikið, en stundum vanti einhverja tegund grænmetis þegar illa gengur með að framleiða. Það er aðalatriðið að sá, sem hefur innflutninginn með höndum,. fylgist bæði með markaðinum og framleiðslunni og það sé á einni hendi.