15.10.1981
Sameinað þing: 4. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 73 í B-deild Alþingistíðinda. (58)

Umræður utan dagskrár

Fjmrh. (Ragnar Arnalds):

Herra forseti. Ég hef litlu við það að bæta sem ég sagði áðan. Ég lét það koma þá fram, að öll þau ummæli, sem vitnað var til í upphafsræðu hv. þm. Alberts Guðmundssonar, verða að sjálfsögðu tekin til nánari athugunar. Meira að segja liggur ljóst fyrir að krafist verður opinberrar rannsóknar vegna einna af þessum ummælum, þ. e. þeirra sem geta flokkast undir refsiverðar athafnir eða refsiverð svigurmæli eftir atvikum á hvorn veg sem rannsókn endar. Ég vil hins vegar leggja áherslu á það hér, að það er meginregla íslensks réttarfars að hver maður sé ábyrgur orða sinna. (Gripið fram í: Líka Ólafur Ragnar?) Hér hafa komið fram kröfur um það, að embættismenn íslenska ríkisins megi ekkert segja, ekkert láta frá sér fara nema þeir hafi uppáskrift ráðh. til þess og formlegt leyfi frá honum, og ef þeim skyldi verða á að segja eitthvað það sem kannske flokkast undir persónulegar skoðanir þeirra, en er ekki í fullu samræmi við skoðanir ráðh., þá eigi hann að knýja viðkomandi embættismann til þess að taka ummæli sín aftur opinberlega. Ég er hræddur um að mörgum mundi finnast þröngt fyrir dyrum í lýðveldi okkar ef slík vinnubrögð væru upp tekin, og þess vegna frábið ég mér þær ábendingar sem komu áðan fram frá hv. þm. Reykv. Friðrik Sophussyni. Ég held að það sé alveg ljóst, að viðkomandi embættismenn og raunar allir þeir, sem hér eiga hlut að máli, verði að sjálfsögðu að standa ábyrgir fyrir orðum sínum sjálfir. En að svo miklu leyti sem ástæða er til fyrir fjmrn. að kanna nánar efni þessara ummæla verður það að sjálfsögðu gert.