16.11.1981
Neðri deild: 12. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 813 í B-deild Alþingistíðinda. (590)

81. mál, tekjustofnar sveitarfélaga

Flm. (Pétur Sigurðsson):

Herra forseti. Ég hef með þessu frv., sem ég mæli fyrir og flyt ásamt þrem öðrum hv. þm. Reykv., þeim Guðmundi J. Guðmundssyni, Vilmundi Gylfasyni og Guðmundi G. Þórarinssyni, viljað reyna að ná að nokkru vopnum hundraða ef ekki þúsunda íbúa á þéttbýlissvæðum, sérstaklega þó hér á Stór-Reykjavíkursvæðinu svokallaða.

Það hefur færst mjög í vöxt og á það hefur verið bent, bæði af mér og öðrum hv. þm. í umr. hér á Alþingi, að borgarbúar og íbúar á öðrum þéttbýlissvæðum leituðu út til sveitanna til að reyna að njóta í nokkru þess sem friðsæld þar og íslensk náttúra hefur að bjóða og stórborgarlífið leyfir okkur ekki að njóta sem þar búum. Þetta hefur m. a. komið fram í sambandi við umræðu sem hefur orðið um misskiptingu gæða eftir búsetu hér á landi. Það fer hér iðulega fram mikil umr. um jöfnun á milli þegnanna á einu eða öðru sviði, en sjaldan hefur komið upp umræða, alla vega ekki jákvæð umræða á þann veg að okkur, sem búum á þéttbýlissvæðunum, væri fært nokkuð af því sem aðrir landsmenn búa við og verður æ eftirsóknarverðara nú á tímum, en það er umhverfi íslenskrar náttúru, sú friðsæld sem ekki finnst í stórborgarumhverfi sem við búum við t. d. hér í Reykjavík.

Segja má að það hafi skipt sköpum á síðustu tveim áratugum, þegar stór verkalýðsfélög og samtök launþega réðust í að koma upp orlofshúsum fyrir félagsmenn sína, þegar þau jafnframt gáfu hundruðum félagsmanna sinna tækifæri til þess að leigja lóðir undir eigin sumarhús á því jarðnæði sem þau komust yfir og oftast nær var með beinum kaupum eyðijarða eða jarðarhluta sem ekki voru notaðir af þeim sem búa á þessum jörðum. Þetta hefur verið eftirsótt, svo eftirsótt að ekki hefur verið unnt að fullnægja óskum um slíkar lóðir.

Þetta frv. er m. a. flutt vegna þess að mikill fjöldi forustumanna úr launþegasamtókum, ekki aðeins hér í Reykjavík, heldur víðar um land, hafa skorað á þingflokka hér á Alþingi að flytja frv. þessa efnis, að lækka það gjald sem þessum sumarhúsaeigendum er gert að greiða af sínum sumarbústað til viðkomandi sveitarfélags. En eins og þetta er í gildandi lögum er þeim gert að greiða 1/2% af fasteignamati sumarbústaðalóða og mannvirkja eða sama gjald og greitt er af húsnæði sem er í notkun allt árið.

Í grg. er komist svo að orði, að það þyki eðlilegt að fasteignagjöld af þessum eignum séu aðeins 114 af fasteignagjöldum af fasteignum í kaupstöðum. Ég tel rétt að leiðrétta þetta nú við 1. umr. málsins og segja að auðvitað er það ekki réttmætt að borga af slíku húsnæði, sem er aðeins í notkun um þriggja mánaða skeið á hverju ári, sömu fasteignagjöld og borguð eru af húsnæði sem er í notkun allt árið. Það er að sjálfsögðu ekki réttlátt. Vegna þessa er þetta frv. flutt og til þess að koma jafnframt til móts við þá vaxandi þörf sem er hjá öllum almenningi til útivistar, almenningi sem býr í þéttbýli, verða við óskum þessa fólks, stuðla að því, að ekki verði lagður hemill á óskir fólksins í þessu efni.

Ég sé ekki ástæðu til að orðlengja þetta öllu meira, herra forseti. Það hefur legið frammi hjá öllum þingflokkunum áskorunarbréf frá þeim aðilum sem sendu þinginu þetta erindi. Ég vil leyfa mér að lengja til að frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til hv. félmn. og 2. umr.