16.11.1981
Neðri deild: 12. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 815 í B-deild Alþingistíðinda. (597)

82. mál, tekjustofnar sveitarfélaga

Jóhann Einvarðsson:

Herra forseti. Ég vil taka undir með þeim tveimur ræðumönnum, sem hafa rætt um þetta frv., og lýsa yfir þeirri skoðun minni, að ég styð það heils hugar. Það er eins þar sem ég þekki best til, á Suðurnesjum, ég held í flestum ef ekki öllum sveitarfélögunum þar, að þar upphófst þetta með því að auglýst var eftir umsóknum. Reynslan varð sú, að það voru allt of margir sem ekki sóttu um, urðu annaðhvort ekki varir við auglýsinguna eða fannst erfitt að standa í bréfaskriftum við sveitarfélagið, töldu jafnvel að þá væri verið að biðja um sveitarstyrk að einhverju leyti. Frá þeirri aðferð var því horfið og framtalsnefnd settar ákveðnar reglur af bæjarstjórn um það, hvernig svona mál skyldi framkvæmt, þ. e. annaðhvort var fasteignaskattur felldur niður eða lækkaður með tilliti til síðasta skattframtals og/eða nýrra upplýsinga um heilsufar eða annars sem nauðsynlegt var að hafa í huga. Ég held hins vegar að það sé ljóst, að velflest sveitarfélög hafa notað sér þessa heimild, þannig að þetta er nú, held ég, í allgóðu lagi. Ég tel samt rétt að þetta sé sett í lög sem skylduákvæði, það sé aukin árétting til fólks um að það eigi að fá þetta sé það orðið gamalt og lasburða eða af öðrum ástæðum.

Ég legg hins vegar áherslu á það sem hefur verið hjá okkur á Suðurnesjum, að það hefur verið sett ákvæði um að þetta gildi einungis af einni íbúð, þ. e. þeirri íbúð sem viðkomandi aðili býr í, en ekki af fleirum, ef svo hefur verið að viðkomandi aðili, þó tekjulítill sé, hafi einhverra hluta vegna átt Fleiri en eina íbúð.

Herra forseti. Ég skal ekki lengja þessa umr. mikið, enda orðið framorðið. Ég mæli með samþykkt frv.