17.11.1981
Sameinað þing: 20. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 820 í B-deild Alþingistíðinda. (603)

322. mál, starfsskilyrði myndlistarmanna

Menntmrh. (Ingvar Gíslason):

Herra forseti. Hér liggur fyrir fsp. þar sem svo stendur:

„Hvers vegna hefur nefnd til að kanna starfsskilyrði myndlistarmanna ekki verið skipuð, svo sem Alþingi fól ríkisstj. með ályktun 21. maí s. l.?“

Þessi fsp. kom snemma á þessu þingi, fyrsta daginn hygg ég eða svo til.

Herra forseti. Mig langar að vísa til þál. eins og hún er orðuð, þál. sem var samþykki á Alþingi 21. maí 1981 um skipun nefndar til að kanna starfsskilyrði myndlistarmanna. Þessi þál. hljóðar þannig:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstj. að skipa sex manna nefnd, er kanni starfsskilyrði myndlistarmanna hér á landi og geri tillögur um, hversu hið opinbera geti best örvað sjálfstæða listsköpun með því að myndlistarmönnum sé skapaður viðunandi starfsgrundvöllur. Nefndin skal hafa samráð við félög myndlistarmanna og þær stofnanir, sem starfa að myndlistarmálum.

Menntmrh. skal skipa nefndina samkv. tilnefningu þingflokka og Sambands ísl. sveitarfélaga er tilnefni sinn nm. hvert. Formaður nefndarinnar skal skipaður án tilnefningar.

Kostnaður við störf nefndarinnar skal greiddur úr ríkissjóði.“

Ég bendi á að í þessari þáltill. er fyrst og fremst sú skylda lögð á hendur menntmrh. að skipa sex manna nefnd, en honum eru ekki sett nein ákveðin tímamörk. Auk þess er nefndin þannig hugsuð, að þar er fyrst og fremst byggt upp á tilnefningum.

Það dróst nokkuð að tilnefningar bærust í heild sinni. Það dróst m. a. fram yfir þingsetningardag og þess vegna var ekki unnt að ganga endanlega frá því. En nú hefur það orðið, að allir þeir, sem ætlast var til að tilnefndu menn í þessa nefnd, hafa tilnefnt fulltrúa sína. Nefndin er þegar skipuð þannig:

Einar Hákonarson, sem er skólastjóri Myndlista- og handíðaskólans í Reykjavík, er skipaður samkv. tilnefningu þingflokks Alþfl., Edda Óskarsdóttir er skipuð samkv. tilnefningu þingflokks Alþb., Davíð Aðalsteinsson er skipaður samkv. tilnefningu þingflokks Framsfl., Halldór Blöndal skipaður samkv. tilnefningu þingflokks Sjálfstfl. og Björn Friðfinnsson skipaður samkv. tilnefningu Sambands ísl. sveitarfélaga. Formaður nefndarinnar er Knútur Hallsson skrifstofustjóri í menntmrn.