17.11.1981
Sameinað þing: 20. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 822 í B-deild Alþingistíðinda. (606)

326. mál, stytting á forystugreinum dagblaða í Ríkisútvarpi

Menntmrh. (Ingvar Gíslason):

Herra forseti. Ég get fallist á það með hv. fyrirspyrjanda, að þetta er í sjálfu sér málefni sem vert er að ræða. Hins vegar mun ég nú svara fsp. eins og henni er beint til mín. Ég bið þingheim að athuga strax í upphafi að hér er um dagskrármálefni Ríkisútvarpsins að ræða, — dagskrármálefni sem ég tel að ráðherrar eigi ekki að hafa bein afskipti af. Eigi að síður liggur hér fyrir fsp. sem er að mínum dómi tiltölulega auðsvarað fyrir ráðh., og ég mun svara henni.

Ég hef leitað upplýsinga hjá Ríkisútvarpinu um það, hversu mikið kostar á mánuði hverjum að tilreiða forustugreinar þannig að þær verði lesnar í útvarp. Þá legg ég engan dóm á hvernig slík tilreiðsla er af hendi leyst, en tölurnar hef ég hér. Þar segir að kostnaðurinn á mánuði við forustugreinarnar sé þannig: Þegar um er að ræða forustugreinar dagblaða er kostnaðurinn 8422 kr. á mánuði, en þegar um er að ræða forustugreinar landsmálablaða er kostnaðurinn 4486 kr. Þetta mun vera miðað við verðlag í októbermánuði þessa árs. Segir svo í bréfi útvarpsstjóra: „Kostnaður við styttingu forustugreina nemur 12 908 kr. samtals á verðlagi í okt. 1981, og þetta er hliðstætt því sem greitt hefur verið s. l. tvö ár,“ segir útvarpsstjóri í þeirri grg. sem ég bað hann um að gefa mér varðandi þessa fsp.

Hins vegar þykir mér rétt í sambandi við þetta að lesa hér meginmál bréfs, sem liggur fyrir frá Ríkisútvarpinu, dags. í Reykjavík 28. okt. 1981, og varðar þetta mál. Þetta bréf er stílað til mín og í samhengi við þessa fsp. Ég les orðrétt upp úr þessu bréfi:

„Útvarpsráð hefur nokkuð oft á undanförnum árum rætt lestur úr forustugreinum dagblaðanna. Hefur mörgum þótt að stytting forustugreinanna kostaði of marga yfirvinnutíma fréttamanna. Enn í haust kom þetta mál til umræðu í útvarpsráði og síðan í framkvæmdastjórn Ríkisútvarpsins. Í bókun frá fundi útvarpsráðs 22. sept. s. l. segir:

„Formaður kvaðst vilja leggja þetta til í framhaldi af umræðum sem orðið hafa í útvarpsráði og í framkvæmdastjórn um leiðaralestur: Ritstjórum blaðanna verði gefinn kostur á að þeir stytti sjálfir leiðara blaða sinna í u. þ. b. einnar og hálfrar mínútu lestrarlengd. Jafnframt yrði mælst til þess, að þeir tækju nokkur mið af fyrirmælum í lögum og reglum Ríkisútvarpsins í skrifum sínum. Sama skyldi gilda um landsmálablöðin. Markús Á. Einarsson skýrði frá því, að Þórarinn Þórarinsson“— sem er ritstjóri Tímans — „væri tilbúinn að stytta sína leiðara sjálfur. Ekki voru allir útvarpsmenn trúaðir á að aðrir ritstjórar væru þessa jafnfúsir“ — en þeir virðast hafa vitað eitthvað um það. — „Ólafur R. Einarsson taldi réttast að formaður ræddi þetta mál við ritstjóra dagblaðanna, kynnti þeim hugmyndir, sem fram hefðu komið í þessu máli, og heyrði viðbrögð þeirra. Tók formaður þessu vel og mun ræða við ritstjórana.“

Í bókun frá fundi útvarpsráðs 29. sept. s. l. segir: „Formaður gerði grein fyrir viðtölum sínum við ritstjóra dagblaðanna. Kvað hann einn þeirra, Þórarin Þórarinsson, fúsan að stytta eigin leiðara, en aðrir hefðu talið öll tormerki á því. Engin andmæli voru þó við því að stytta leiðarana í einnar og hálfrar mínútu lestrarlengd. Eftir alldrjúga umræðu varð niðurstaðan þessi: Forustugreinar dagblaðanna skulu berast fyrir kl. 17 og skal útdráttur úr þeim ekki vera lengri en ca. ein og hálf mínúta í lestri. Þeir ritstjórar, sem sjálfir stytta forustugreinar sínar, þurfa ekki að skila þeim fyrr en fyrir kl. 20. Forustugreinar landsmálablaða skal stytta á sama hátt og þær lesnar á mánudögum kl. 11, en forustugreinar dagblaðanna á sama tíma og verið hefur. Þessi samþykkt gildir til áramóta.“

Þessi ákvörðun útvarpsráðs var tilkynnt ritstjórum allra dagblaðanna í bréfi, dags. 1. þ. m.

Styrmir Gunnarsson, ritstjóri Morgunblaðsins, svarar þessari tilkynningu með bréfi, dags. 7. þ. m., þar sem segir:

„Lestur leiðara í útvarp var ekki hafinn að ósk Morgunblaðsins, heldur samkv. ákvörðun útvarpsráðs á sínum tíma. Leiðarar Morgunblaðsins eru skrifaðir til birtingar í blaðinu fyrir lesendur blaðsins, en ekki til upplestrar í útvarpi. Morgunblaðið getur ekki miðað skrif leiðara sinna við þann tíma sem hentar Ríkisútvarpinu. Ef lestri leiðara er haldið áfram vill Morgunblaðið því benda Ríkisútvarpinu á að lesa leiðara blaðsins daginn eftir, enda komi það skýrt fram að svo sé, og komi þetta fyrirkomulag til framkvæmda nú þegar.“

Aðeins einu sinni eða tvisvar mun stytt forustugrein hafa borist í hendur þeim sem sjá um að búa þær undir þularlestur. Áréttað skal að framkvæmdastjórn Ríkisútvarpsins hefur ítrekað ályktað um þetta mál. Af kostnaðarástæðum hefur verið talið nauðsynlegt að annaðhvort yrði rifstjórum gert að skila forustugreinum styttum til flutnings eða lestur þeirra felldur niður með öllu.“

Ég les þá ekki meira úr þessu bréfi útvarpsstjóra, vegna þess að það, sem á eftir fer, er það, sem ég er áður búinn að segja um kostnaðinn af þessum styttingum.

Nú ég vil segja það eitt um þetta, eins og sagði í upphafi, að það er náttúrlega algjörlega innanríkismál útvarpsins hvort þeir í útvarpinu nota leiðarana sem dagskrárefni. Það hefur vafalaust sína kosti að svo sé gert, en það hefur líka þann stóra annmarka, að þetta er ákaflega kostnaðarsamt dagskrárefni. Það er alveg augljóst, af því að það kostar um 12–13 þús. kr. á mánuði að vinna þetta verk. Það er eins og einn maður væri við þetta bundinn. Ég held að aftur á móti komi það til að þetta sé tiltölulega vinsælt útvarpsefni sem margir útvarpshlustendur mundu sakna ef það hyrfi úr dagskránni. En ég get fallist á það, sem reyndar er skoðun margra hjá Ríkisútvarpinu og ekki síst þeirra sem fara með fjármál þess, að það væri eðlileg krafa til blaðanna að leiðarahöfundar ynnu þetta verk sjálfir og kæmu því í því formi til útvarpsins til lestrar. — Ég ætla þá ekki að hafa um það fleiri orð að sinni.