17.11.1981
Sameinað þing: 20. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 824 í B-deild Alþingistíðinda. (609)

326. mál, stytting á forystugreinum dagblaða í Ríkisútvarpi

Sighvatur Björgvinsson:

Herra forseti. Ég vil vekja athygli á því, að það er síður en svo að leiðararnir séu eina efni blaðanna sem Ríkisútvarpið tekur upp og gerir skil í frásögnum sínum, jafnvel í sérstökum dagskrárþáttum. Þannig er einnig farið með ýmist annað efni blaðanna, fréttaefni o, fl., t. d. í þættinum sem er á morgnana, Morgunpóstinum eða hvað hann nú heitir.

Ekki er óalgengt í fjölmiðlaheiminum að það sé vinsælt dagskrárefni hjá einum fjölmiðli, sérstaklega stórum fjölmiðli, sem nær til allrar þjóðarinnar, að taka upp og segja frá bæði fréttafrásögnum og skoðanaskiptum sem koma fram í öðrum fjölmiðlum.

Ég vil einnig bæta því við, að mér er mætavel kunnugt um að það eru talsvert margir sem hlusta á útdrætti úr forustugreinum í Ríkisútvarpinu. Þó svo mönnum kynni að hafa sýnst í upphafi, þegar þessi dagskrárliður var tekinn upp, að það væri meiri þjónusta við blöðin en hlutendur útvarpsins, þá held ég að reyndin hafi orðið önnur, menn hafi smátt og smátt viðurkennt að það er talsverður áhugi á að hlusta á þá útdrætti sem þarna eru gerðir.

Sé um að ræða ákvörðun útvarpsráðs um að taka upp þátt úr blöðunum, hvort sem hann heitir leiðarar eða annað, getur útvarpsráð að sjálfsögðu ekki ætlast til þess, að þeir fjölmiðlar, sem notaðir eru þarna og teknar upp frásagnir frá, vinni þær í hendurnar á Ríkisútvarpinu. Þá mætti alveg eins hugsa sér t. d. að Ríkisútvarpið gerði fjölmiðlum, dagblöðum og öðrum, að skyldu að senda inn útdrátt úr fréttaflutningi sínum daglega til að nota í aðra þætti hjá Ríkisútvarpinu þar sem greint er frá því sem í blöðunum stendur.

Ég vil láta koma fram, vegna þess að ég var einu sinni í þeirri stöðu að skrifa leiðara daglega og gerði það í 6 ár og þessir leiðarar voru lesnir í morgunleiðaralestri Ríkisútvarpsins, að ég taldi aldrei allan þennan tíma ástæðu til að gera aths. við hvernig leiðarar voru styttir. Ég lít svo á, að það sé alfarið hlutverk Ríkisútvarpsins að sjá um það og það sé leiðarhöfundunum sjálfum að kenna ef þeir koma ekki meiningu sinni svo ljóst á framfæri að sá sem styttir viti hvað leiðarhöfundur meinar.