17.11.1981
Sameinað þing: 20. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 826 í B-deild Alþingistíðinda. (613)

326. mál, stytting á forystugreinum dagblaða í Ríkisútvarpi

Sighvatur Björgvinsson:

Herra forseti. Hér er um tvö algerlega óskyld mál að ræða: Annars vegar hvort ætla megi að tiltekinn dagskrárliður Ríkisútvarpsins sé of dýr, of kostnaðarsamur, miðað við það vinnuframlag sem til hans er lagt, hins vegar hvernig eigi að fara með þann dagskrárlið og hvernig eigi að reka hann. Ég lít á útvarpsráð sem nokkurs konar ritstjórn útvarpsins. Ég tel að það efni, sem útvarpið flytur, eigi að vera á ábyrgð þeirrar ritstjórnar og hún eigi að hafa alla forsjá þess með höndum. Ég væri andvígur því, eins og mér virðist niðurstaðan vera, ef Ríkisútvarpið úthlutaði pólitísku dagblöðunum fjórum einhverjum ákveðnum tíma í dagskrá sinni sem Ríkisútvarpið og útvarpsráð afsalaði sér ritstjórnarvaldi yfir, en fæli pólitískum ritstjórum dagblaðanna að ráðskast með þann hluta úr efni Ríkisútvarpsins eins og þeim byði við að horfa. Ég er eindreginn stuðningsmaður þess, að Ríkisútvarpið greini frá fréttaflutningi annarra fjölmiðla og skoðunum sem fram koma í öðrum fjölmiðlum. þ. á m. í leiðurum, ekki bara dagblaðanna heldur landsmálablaðanna einnig. Ég tel þetta gott útvarpsefni út af fyrir sig, en ég tel að það eigi alfarið að vera undir ritstjórn útvarpsins sjálfs, hvernig með þetta efni er farið, hvernig það er stytt og hvernig frá því er skýrt, en eigi alls ekki að láta það í hendurnar á umboðsmönnum pólitískra flokka á dagblöðunum.