17.11.1981
Sameinað þing: 20. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 827 í B-deild Alþingistíðinda. (614)

326. mál, stytting á forystugreinum dagblaða í Ríkisútvarpi

Menntmrh. (Ingvar Gíslason):

Herra forseti. Það er út af þessum kostnaði. Ég greindi frá hver hann er. Hann er fast að 13 þús. á mánuði. Þetta er óneitanlega mikill kostnaður og virðist vera eins og þarna þyrfti að vera einn maður í fullu starfi. En mig langar þrátt fyrir allt til að benda á það, sem kom fram í viðtölum mínum við þá í útvarpinu, að reynst hefur óhjákvæmilegt að vinna þessa þætti í eftirvinnu í útvarpinu. Ástæðan fyrir því, að þetta verður svona dýrt, er að eftirvinnukaupið er að sjálfsögðu miklu hærra en dagvinnukaup og þess vegna kemur þessi háa tala út fremur en ella væri. Mig langar til að fram komi af minni hálfu að ég hef vissulega fengið skýringu hjá útvarpinu um þetta atriði. Þetta verk er unnið í eftirvinnu, jafnvel næturvinnu má segja, og það hlýtur að leiða af sér að kostnaður verður meiri en ella.