17.11.1981
Sameinað þing: 20. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 827 í B-deild Alþingistíðinda. (615)

326. mál, stytting á forystugreinum dagblaða í Ríkisútvarpi

Pétur Sigurðsson:

Herra forseti. Það er aðeins vegna síðustu orða hæstv. ráðh. að ég blanda mér í þessa umr., sem er að vísu allkátleg á köflum. Ég hélt þó að tvær síðustu ræður hv. þm. hefðu eiginlega leyst málið að fullu og öllu, nema máske við hefði mátt bæta að það ætti ekki aðeins að lesa úr Alþýðublaðinu kvölds og morgna, heldur einnig með veðurfregnum.

Hæstv. ráðh. skýrir frá því, að það sé nauðsynlegt að vinna þessa vinnu á kvöldin og um nætur á 100% hærri taxta en ella. Ég fæ ekki skilið hvaða þörf er á því. Ritstjóri langstærsta og víðlesnasta blaðs landsmanna segir að það sé í lagi að ritstjórnargreinar Morgunblaðsins séu lesnar daginn eftir. Hví má ekki hafa sömu reglu á öllum blöðum og fá góðan íslenskumann, mann sem getur jafnvel fundið einhvern tilgang í skrifum sumra ritstjóra, til að vinna þetta í dagvinnu og borga þá þokkaleg laun fyrir það í dagvinnu, í stað þess að láta þetta verða sem bitlingagrein einhverra ákveðinna manna til að vinna í kvöld- og næturvinnu?