15.10.1981
Sameinað þing: 4. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 76 í B-deild Alþingistíðinda. (62)

Umræður utan dagskrár

Árni Gunnarsson:

Herra forseti. Ég ætla ekki að ræða um einstakar persónur í þessu máli, en hins vegar er hér komið inn á svið sem ég tel að sé mjög mikils virði að Alþingi fari að fjalla um af mikilli alvöru. Það er hið svokallaða embættismannavald og hvernig almenningi í þessu landi gengur að reka erindi sín gagnvart því valdi sem við köllum embættismannavaldið stundum og köllum á öðrum tímum kerfið.

Ég hef lengi verið þeirrar skoðunar, og eftir því sem hinar opinberu stofnanir hafa stækkað hér á landi og völd þeirra jafnframt aukist, því erfiðara hefur það verið fyrir einstaklinginn í þjóðfélaginu að reka erindi sín í þessum stofnunum og við þessar stofnanir. Ég er jafnframt staðfastlega sannfærður um það, að Alþingi hefur að mörgu leyti brugðist eftirlitshlutverki sínu gagnvart þeim stofnunum sem það hefur vald yfir óumdeilanlega. Þetta eftirlitshlutverk á auðvitað að rækja miklu betur en Alþingi hefur gert, bæði gagnvart þeim mönnum, sem fara með forustu hjá opinberum stofnunum, og hvernig þeir nýta það fjármagn sem Alþingi ákveður þeim á hverjum tíma. Hér held ég að sé á ferðinni geysilega stórt og viðamikið mál sem þingið þurfi nauðsynlega að fara að taka á. Auk þess held ég að þessi umr. hljóti að vekja þær hugsanir hjá alþm., að það sé orðið fyllilega tímabært og meira en komið að því, að stofnað verði embætti umboðsmanns Alþingis.

Það vill svo til að ég þekki dálítið til þess máls sem hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson nefndi áðan. Og ég er sannfærður um að hver einasti þm. þekkir til mála af svipuðu tagi, þar sem einstaklingar reyna að leita réttar síns gagnvart kerfinu, en það gengur ekki, einfaldlega vegna þess að það eru ekki til menn til þess að fjalla um mál þessara einstaklinga og til þess að ryðja þeim braut inn í kerfið í gegnum embættismannavaldið. Það vill svo til að ýmsir forustumenn opinberra stofnana reka þær eins og einkafyrirtæki. Það gengur auðvitað ekki, því að eins og kom fram áðan eru embættismenn starfsmenn ríkisins og þjónar fólksins í landinu. Þeir eru ekki yfirmenn þessa fólks. Og ég er sannfærður um að það er orðið bæði tímabært og nauðsynlegt að Alþingi Íslendinga fjalli af mikilli alvöru um það, hvers konar „apparat“ hið opinbera kerfi er orðið og hvernig það þjónar einstaklingnum í þjóðfélaginu, hvernig það sinnir hans þörfum og hans málum yfirleitt. Þetta held ég að væri verðugt verkefni. Og ég vil að því leyti taka undir orð hv. þm. Ólafs Ragnars Grímssonar, að sá valdahroki, sem oft kemur fram hjá opinberum embættismönnum, er óþolandi. Ég er líka sannfærður um að langflestir þm. geta tekið undir það með mér, að þeir sjálfir eiga oft á tíðum sem fulltrúar löggjafavaldsins í erfiðleikum með að fá kerfisskrímslið til þess að taka við sér. Þetta gengur auðvitað ekki. Skilningurinn á hlutverki embættismanna í samfélaginu verður að breytast, ekki hjá almenningi, heldur hjá þeim sjálfum.