17.11.1981
Sameinað þing: 20. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 836 í B-deild Alþingistíðinda. (622)

331. mál, gróði bankakerfisins

Viðskrh. (Tómas Árnason):

Herra forseti. Almennar umr. um þessi mál eru nú yfirgripsmeira efni en hægt sé að gera því í raun og veru nokkur tæmandi skil í örstuttu máli. Ég vildi aðeins að gefnu tilefni vík ja hér að tveimur atriðum, sem komu aðallega fram í ræðu hv. þm. Finns Torfa Stefánssonar og raunar hv. þm. Kjartans Jóhannssonar einnig, og það er varðandi fjárfestingarmálin og peningamálin.

Það er ástæða til að vekja athygli á því, að á tiltölulega stuttum tíma minnkuðu innlán í íslenska bankakerfinu miðað við þjóðarframleiðslu úr 40% niður í rúmlega 20% og voru 20.5% árið 1978. Með setningu Ólafslaga svonefndra 1979, þar sem inn- og útlán voru verðtryggð, varð breyting á þessu. Á árinu 1980 hækkaði þetta hlutfall úr 20.5% upp í 23.8%, og á þessu ári er talið að þetta sama hlutfall muni hækka úr 23.8 á síðasta ári upp í 26.5%. Áætlað er að á næsta ári muni þetta hlutfall hækka upp í 29%. Hér er því um að ræða bata á þessu sviði. Þessi mál haldast náttúrlega gífurlega í hendur við þörf þjóðarinnar á erlendum lántökum til framkvæmda og rekstrar. Það hafa margir áhyggjur af því, að Íslendingar skulda mikið og þurfa mikil erlend lán til uppbyggingar og framfara. Ein af ástæðunum fyrir því, hvað þeir þurfa að taka mikið að láni erlendis, er að þeir hafa misst verulega niður sparnaðinn í bankakerfinu á undanförnum árum. Þessi þróun, sem ég var að lýsa, er auðvitað í þá átt að gera mönnum kleift að nýta meira af innlendu fé til uppbyggingar og framfara en nú er gert, og þess vegna er hún af því góðá og ástæða til að undirstrika það.

Varðandi fjárfestingarmálin er ástæða til að benda á að fjárfestingarhlutfall Íslendinga af þjóðarframleiðslu hefur verið á bilinu 26 til rúmlega 30% á undanförnum árum. Þetta hlutfall hefur verið að lækka, er á þessu ári í kringum 26% og mun að líkindum lækka niður í 24% eða tæplega það á næsta ári. Hér er því um að ræða hlutfallslega lækkun fjárfestingar frá því sem verið hefur og stefnir í þá átt að draga frekar úr þenslu í efnahagskerfinu en áður hefur verið.

Ég vildi nú vek ja athygli á þessum tveimur atriðum að gefnu tilefni.

Í þriðja lagi vil ég undirstrika það, sem margir aðrir hafa gert, að það má ekki rugla saman gjaldeyrisvarasjóðnum í Seðlabankanum og hagnaði eða eigin fé að öðru leyti. Það eru tveir óskyldir þættir. Ég hef stundum sagt það í gamni, að þegar ég kom í fjmrn. sem fjmrh. spurði ég að því þar, hverjar væru skuldir ríkisins, og fékk greiðlega úr því leyst. Og svo spurði ég, hverjar væru eignir ríkisins. Þó að fjmrn. sé mjög vel mannað rn. stóð þetta í mönnum. Ég hygg að það sé hvergi uppfært á einum stað hverjar séu eignir íslenska ríkisins. Þær skipta áreiðanlega hundruðum milljarða gkr. Það er kannske ráð að búa til endurmatsreikning hjá ríkinu. Við skulum segja að ríkiseignin væri kannske 200 milljarðar. Ég nefni það algerlega út í bláinn. Ég hef ekki nokkra aðstöðu til að meta það. Við skulum segja að endurmatsreikningurinn væri miðaður við 40% verðbólgu á þessu ári. Hann yrði þá 80 milljarðar. Ef menn álíta að hægt sé að taka af þessum endurmatsreikningi og greiða í rekstur, t. d. af þjóðfélaginu, þá er náttúrlega alveg sýnilegt að það stenst ekki. Menn geta ekki tekið Stýrimannaskólann og borgað með honum til að bæta rekstur sjávarútvegsins, svo að dæmi sé tekið. (Gripið fram í: Hefur það komið til tals í ríkisstj.?) Nei, þetta hefur ekki komið til tals. En ég nefni þetta vegna þess að það er hættulegt ef menn gera ekki greinarmun á gjaldeyrisvarasjóðnum og hagnaði Seðlabankans að öðru leyti. Gjaldeyrisvarasjóðurinn hækkar náttúrlega í íslenskum krónum eftir því sem íslenska krónan lækkar gagnvart erlendum krónum, og það þarf auðvitað að hafa í huga, þegar menn eru að ræða þessi mál, að gjaldeyrisvarasjóðurinn er í erlendum gjaldeyri, en ekki í íslenskum krónum. Hann er nákvæmlega jafnverðmætur þótt hann hækki sem nemur falli íslensku krónunnar t. d. á einu ári.

Að lokum vil ég svo taka fram og ítreka það sem kom fram í mínu svari áðan, að þrátt fyrir að viðskiptabankakerfið hafi verið að styrkjast núna undanfarin ár, eins og ég nefndi, er þó hagnaður viðskiptabankanna ekki kominn á það stig að hann sé það sem hann þarf að vera. Ég nefndi áðan að hlutfall af eigin fé viðskiptabankanna og niðurstöðutölu efnahagsreiknings væri 4% en t. d. í Bretlandi þarf þetta að vera 3% til þess að bankar fái leyfi til að starfa, og strangari kröfur eru gerðar á Norðurlöndum. Ég held því að það sé ekki um að ræða að menn geti tekið fé, því miður, út úr viðskiptabönkunum til að rétta af rekstrargrundvöll atvinnuveganna. Þannig held ég að málum sé ekki háttað. En eins og ég sagði áður og komið hefur fram hjá fleiri ræðumönnum eru þessi mál náttúrlega miklu meiri mál en það, að hægt sé að tala um þau til neinnar hlítar í örstuttri umr. eins og er í fsp.- tíma hér á hv. Alþingi.