17.11.1981
Sameinað þing: 20. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 838 í B-deild Alþingistíðinda. (625)

331. mál, gróði bankakerfisins

Ólafur Ragnar Grímsson:

Herra forseti. Ég veit að hæstv. viðskrh. fær mörg skjöl frá Seðlabankanum. Mér fannst þetta svar hans og fyrri ræða bera með sér að e. t. v. væri þessi lestur á skjölum Seðlabankans farinn að verða eins konar utanbókarlærdómur. Þær röksemdir, sem hann flutti hér í sinni fyrri ræðu og komu fram óbeint í svari hans áðan, gáfu til kynna að hæstv. viðskrh. væri sammála þeim röksemdum sem Seðlabankinn hefur flutt í þessu máli, en hæstv. sjútvrh. hefur afneitað hér á Alþingi hvað eftir annað. Það vill svo til að ég hef í þessu máli verið sammála hæstv. sjútvrh. Alþb. hefur stutt hæstv. sjútvrh. í þessu máli og aðrir stjórnarliðar vona ég einnig. Þess vegna kemur mér á óvart að heyra hér í ræðustól á Alþingi fluttar af ráðh. ríkisstj. nánast eins og páfagaukslærdóm þær villuröksemdir sem Seðlabankinn hefur flutt í þessu máli og hæstv. sjútvrh. og við stuðningsmenn ríkisstj. höfum neitað að séu réttar.